Stefanía Guðmundsdóttir var í senn fremsta leikkona Íslands um sína daga og einn helsti burðarás Leikfélags Reykjavíkur. Í vitund samtíðarinnar var hún skærasta leikstjarna sviðsins í Iðnó, en hún var ekki aðeins stærsta "primadonnan" - svo notað sé orð sem oft hefur neikvæðan blæ - heldur mesti fagmaður leikhússins. Hún varð í reynd fremsti brauðryðjandi faglegra vinnubragða meðal sinnar kynslóðar og það er auðvelt að sýna fram á að þar komst enginn félaga hennar með tærnar þar sem hún hafði hælana. En hún vísaði einnig veginn í ýmsum öðrum efnum, t.d. reyndi hún að efla hér vísi að listdansi, stóð fyrir fyrstu barnasýningunni, fór í miklar leikferðir bæði innanlands og til Vesturheims, og veitti ungum leikurum tilsögn.
Að sönnu lauk Stefanía ekki formlegu leikaraprófi frá viðurkenndri stofnun og vitaskuld gat hún ekki haft lifibrauð af listinni frekar en félagar hennar í Leikfélagi Reykjavíkur; að því leyti var hún ekki atvinnumaður í þeim skilningi sem við leggjum í orðið. Miðað við allar aðstæður steig hún þó eins langt skref í þá átt og frekast var unnt. Það er vandséð hvernig hægt hefði verið að nýta betur en hún gerði þá möguleika til listræns þroska og framfara sem henni og kynslóð hennar stóðu til boða.
Stefanía var fædd í Reykjavík en fluttist ung með foreldrum sínum til Seyðisfjarðar þar sem hún ólst upp fyrstu árin. Hún missti móður sína sex ára og fáeinum árum síðar hélt faðir hennar til Vesturheims ásamt eina bróður hennar. Sjálf varð Stefanía eftir á Íslandi og ólst upp hjá náfrænku sinni og fóstru, Sólveigu Guðlaugsdóttur. Þær fluttu til Reykjavíkur árið 1890, þar sem Sólveig hóf rekstur matsölu á heimili sínu. Stefanía giftist Borgþóri Jósefssyni árið 1896. Hann var þá verslunarmaður, en síðar bæjargjaldkeri Reykjavíkur. Þau eignuðust sjö börn og komust sex til fullorðinsára. Heimili þeirra stóð lengst á Laufásvegi 5, í stóru, virðulegu steinhúsi sem enn stendur.
Borgþóri, sem var áhugasamur leikhúsmaður og starfaði lengi sem sviðsstjóri í Iðnó, var mjög annt um að kona hans hefði sem bestar aðstæður til að sinna list sinni. Hann var stoltur af henni og taldi ekki eftir sér að færa ýmsar fórnir, ef því var að skipta. Veturinn 1904-05 dvaldist Stefanía í Kaupmannahöfn til að fylgjast með leiklistarnámi í skóla Kgl. leikhússins og kynna sér leikhús í borginni. Það hefði hún aldrei getað, hefði maður hennar og fjölskylda ekki staðið við bak hennar. Enginn vafi er á því að sú dvöl varð Stefaníu mjög til góðs og víkkaði sjóndeildarhring hennar, herti á kröfum hennar og viðmiðunum. Hún tjáði sig ekki oft um list sína, allra síst opinberlega, en í bréfunum, sem hún ritaði heim þennan vetur, kemur glöggt fram að hún var bæði hrifnæm og dómhörð, og lá hvergi á skoðunum sínum. Hún var hrein og bein, en líka nærgætin og varfærin og kunni að beita lagni og jafnvel slægvisku til að hafa sitt fram.
Stefanía var aðeins seytján ára gömul þegar hún kom í fyrsta skipti fram á sviðinu í Gúttó. Það var 30. janúar 1893. Þá lék Friðfinnur Guðjónsson reyndar einnig í fyrsta skipti á reykvísku sviði, en hann átti eftir að standa með Stefaníu á sviðinu langa ævi og varð á efri árum ein helsta gamanleikstjarna Reykjavíkur. En á þessum árum stóð ljóminn af Stefaníu. Leikur hennar vakti þegar mikla athygli og ritstjóra Ísafoldar fannst meinlegt, ef tilsagnarleysið yrði til að drepa niður slíka hæfileika. Skyndilega er eins og menn vakni til vitundar um að eitthvað sé í vændum á leiksviðinu; eitthvað sem vísi veginn fram á við og mönnum beri að hlúa að og rækta.
Næstu ár lék Stefanía á hverjum vetri. Líf og fjör, glettni og glaðværð, einkenndu leik hennar á þessu tímabili og það svo að lengi efuðust margir um að hún gæti ráðið við alvarlegri hlutverk. Það var nóg af góðum rullum "ærsladrósanna" handa henni í þeim dönsku einþáttungum og söngvaleikjum sem voru uppáhald reykvískra áhorfenda undir lok nítjándu aldar. Sjálf hafði hún efasemdir um getu sína til þess að leggja undir sig ný svið í listinni; sjálfsgagnrýni skorti hana aldrei og hún var sem fyrr segir gætin að eðlisfari. En þegar tækifærið bauðst sýndi hún og sannaði að öll vantrú var ástæðulaus. Hún var einn af stofnendum L.R. og á sviðinu í Iðnó skóp hún eftirminnilegar persónur í helstu stórverkunum: fyrst var það Magda í Heimilinu eftir þýska skáldið Hermann Sudermann (1901), síðan kom Nóra í Brúðuheimili Ibsens (1905), Kamelíufrúin í samnefndum leik Dumas (1906), Gervaise í Gildru Zola (1906), Úlrikka í Kinnarhvolssystrum danska skáldsins Hauch (1910), Steinunn í Galdra-Lofti Jóhanns Sigurjónssonar (1914) og Hekla í Konungsglímu Guðmundar Kambans (1918), svo að þær helstu séu nefndar. Síðasti leiksigur hennar var titilhlutverkið í frönsku melódrama Frú X eftir Alexandre Bisson árið 1922. En hún hélt einnig áfram að leika "ærsladrósirnar" eins og þær sem unnu fyrst hugi og hjörtu, Reykvíkinga á litla sviðinu í Gúttó, ugglaust miklu lengur en góðu hófi gegndi.
Í hverju voru töfrar Stefaníu og yfirburðir sem leikkonu þá fólgnir? Í ræðu sem einn af aðdáendum hennar, Klemenz Jónsson landritari, hélt á 25 ára leikafmæli hennar árið 1918 taldi hann hana einkum bera af fyrir þrennt: hún kynni alltaf hlutverkin sín, framsögnin og textameðferðin ævinlega alltaf mjög skýr og svo gæti hún leikið bæði alvarleg hlutverk og gamansöm. Þetta kunna að virðast sjálfsagðir hlutir í okkar augum, en þeir voru það ekki þá. Var hún þá e.t.v. aðeins listamaður á staðbundinn (lókal) mælikvarða eða tímabundinn? Einhver kynni að benda á hlutverkin sem hún lék og náði hæst í að dómi samtíðarinnar; þau voru flest í melódramatískum verkum sem nú eru löngu gleymd. Persónur hennar hlutu að vera fremur einfaldar í sniðum og flestar voru þær þakklátar, eins og stundum er sagt; áttu samúð áhorfenda vísa. Hún lék ekki grimmlyndar, hjartakaldar konur og það var ekki í leikritum Ibsens, Strindbergs og Tsjekhovs, hvað þá Shakespeares eða Grikkjanna, sem hún vann sigrana.
Af því má þó ekki draga of víðtækar ályktanir. Í fyrsta lagi verðum við að muna að flestir mótleikendur hennar voru áhugamenn, margir algerir viðvaningar og aðeins að þessu til að skemmta sér í góðum félagsskap; sumir gengust kannski fyrir þessum fáu krónum sem þeir fengu fyrir. Það voru tæpast aðrir en þeir Jens B. Waage og Árni Eiríksson, sem eitthvað gátu til jafns við hana, og í kvennahópnum var Guðrún Indriðadóttir sú eina. Leikendaflokkur L.R. var um hennar daga og raunar lengi síðan mjög óstöðugur, eins og oftast er í áhugamannaleikhúsum. Það var vonlaust að ætla sér að sýna verk eftir höfuðskáldin með slíkum kröftum.
Í öðru lagi má ekki líta framhjá því að sú persónusköpun Stefaníu, sem flestum varð minnisstæðust, Úlrikka í Kinnarhvolssystrum, var engin hjálparvana kvenhetja, líkt og t.d. Magda og Kamelíufrúin. Þær eru sýndar sem fórnarlömb harðsvíraðs feðraveldis og karlrembu, en Úlrikka er nánast ágirndin holdi klædd. Það sýnir að Stefanía gat vel lýst persónum með neikvæðum skapgerðareinkennum, persónum sem hún samsamaði sig ekki, heldur hélt í skýrri fjarlægð. Úlrikku lék hún fyrst árið 1910 og síðan hvað eftir annað, á Akureyri og í Vesturheimi, og síðast veturinn 1921-22 í Iðnó. Þó að okkur skorti beinar sannanir eða heimildagögn fyrir því verður að teljast sennilegt að meðferð hennar á hlutverkinu hafi batnað á þeim tíma, myndin orðið skýrari, áhrifameiri og jafnvel dýpri.
Í þriðja lagi - og það hlýtur að vega þyngst - höfum við vitnisburð sumra fremstu leikhúsmanna Dana sem sáu hana leika, að vísu ekki í þeim hlutverkum sem hin íslenska samtíð var hrifnust af. Einn þeirra, Adam Poulsen, efaðist ekki um að hún gæti átt góða framtíð á norrænu leiksviði, kysi hún að leggja út á þá braut og lagði að henni að gera það. En Stefanía lét ekki freistast; hún átti fjölskyldu á Íslandi, mann og börn, en hún skildi einnig að hennar væri þörf í baráttunni fyrir íslensku þjóðleikhúsi - það er a.m.k. sögn Poulsens sjálfs í endurminningum sínum þar sem hann fer um hana fögrum orðum. Stefanía var engin sjálfhverf prímadonna; hún vissi hvers virði hún var, en hún sá líf sitt og starf í stærra, að ekki sé sagt æðra samhengi. Hún var hugsjónamaður líkt og fleiri af hennar kynslóð; sá sem er það veit að hugsjónir eiga til að krefjast fórna.
Eins og drepið var á hér í upphafi gerði Stefanía fleira í þágu íslenskrar leiklistar en að leika á sviðinu í Iðnó. Leikferðir hennar þrjár eru sérstakur kapítuli í sögu hennar. Sumurin 1915 og 1916 hélt hún til Akureyrar ásamt Óskari, syni sínum, sem þótti efnilegur leikari og var móður sinni mikil hjálparhella, og sýndi þar Kinnarhvolssystur og fleira góðmeti. Um þessar mundir var leikstarf á Akureyri í lægð eftir missi ýmissa burðarkrafta, þ. á m. lát Margrétar Valdimarsdóttur, sem nefnd hefur verið svar Norðurlands við Stefaníu Guðmundsdóttur. Heimsóknir Stefaníu orkuðu sem vítamínsprauta á leikáhugamenn bæjarins og áttu sinn þátt í því að Leikfélag Akureyrar, sem enn starfar, var stofnað árið 1917. Haustið 1920 hélt hún svo vestur um haf, ásamt þeim Óskari og dætrunum, Emilíu og Önnu, og var næsta árið að heita mátti linnulaust í leikferðum um Íslendingabyggðirnar í Kanada og Norður-Ameríku. Þar hitti hún aftur föður sinn og bróður sem hún hafði þá ekki séð í hátt í fjörutíu ár. Þessar leiksýningar vöktu mikla athygli og hafa án vafa orðið til að treysta bönd Íslendinga við frændur sína vestra.
Í ferðum sínum til Kaupmannahafnar hreifst Stefanía mjög af þeim ballettsýningum, sem hún sá, auk þess sem hún fylgdist sýnilega vel með því sem var að gerast á sviði dansins almennt. Hún skildi einnig hversu góð dansæfingin er fyrir líkamlega þjálfun leikarans. Haustið 1914 varð hún fyrst til að dansa opinberlega tangó í Reykjavík en tangóinn fór þá sem eldur í sinu um vesturlönd. Hann þótti mjög djarfur og var m.a. bannaður af páfanum sem mælti með því að fólk dansaði frekar gamlan feneyskan dans sem var þá auðvitað uppnefndur "páfadansinn". Stefanía dansaði hann reyndar líka, þegar hún sýndi Reykvíkingum tangó í fyrsta skipti. Þá stundaði hún nokkuð danskennslu, um tíma í samvinnu við Guðrúnu Indriðadóttur, sem var einnig mikil áhugakona um dansmennt.
Þegar Stefanía kom aftur heim úr Kanadadvöl sinni haustið 1921 var útlitið svart hjá Leikfélagi Reykjavíkur. Það hafði um skeið átt við mikla fjárhagserfiðleika að stríða, en fleira kom til, s.s. mannekla og skortur á ungum leikurum. Helstu karlleikararnir til margra ára, Árni Eiríksson, nánasti vinur Stefaníu í leikhúsinu, Kristján Ó. Þorgrímsson, gamanleikarinn sívinsæli, og Jens B. Waage, sjarmörinn mikli; þeir voru allir horfnir af sviðinu, Árni og Kristján dánir, en Jens að verða bankastjóri og hættur að leika. Sjálf gat Stefanía ekki stigið á svið að læknisráði fyrr en eftir áramót, en þá lét hún hendur standa fram úr ermum. Hún dustaði rykið af Kinnahvolssystrum og síðar Ímyndunarveiki Moliéres, en í henni var eitt af vinsælustu hlutverkum hennar frá fyrri árum, vinnukonan ráðagóða Toinette. Í maí var Frú X frumsýnd. Augljóst er að þessar sýningar höfðu mikla leikhúspólitíska þýðingu. Ef L.R. hefði fellt niður starf sitt í einn vetur og síðan jafnvel lognast út af, eru litlar sem engar líkur fyrir því að Alþingi hefði samþykkt lög um byggingu þjóðleikhúss vorið 1923. Leikhúsfólkið í Iðnó hafði sýnt og sannað menningarlegt gildi leikhússins. Það hafði ekki aðeins sýnt vinsæla gamanleiki, heldur einnig gert hinum nýju leikritum Jóhanns Sigurjónssonar og Guðmundar Kambans góð skil; verkum sem nú báru hróður Íslands um öll Norðurlönd og sum miklu víðar. Allir hlutu að sjá hvers virði slíkt leikhús væri þjóð sem vildi láta taka sig alvarlega í samfélagi þjóðanna. Það vissi Stefanía flestum betur og nú uppskáru hún og félagar hennar laun erfiðis síns.
En fáir njóta eldanna sem kveikja þá fyrstir; það er gömul saga og ný. Sama ár og Þjóðleikhúslögin voru samþykkt stóð Stefanía Guðmundsdóttir í síðasta skipti á sviði. Heilsu hennar fór nú hrakandi og næstu ár stríddi hún við veikindi, þó að hún léti ekki á því bera Haustið 1925 hélt hún til Kaupmannahafnar til lækninga og lagðist inn á Finsens-institutið þar sem hún lá næstu mánuði. Í janúarbyrjun gekkst hún undir erfiða læknisaðgerð sem bar ekki tilætlaðan árangur og 16. janúar 1926 lést hún fjörutíu og níu ára gömul.
Fjölskylda Stefaníu átti eftir að setja mark sitt á leikhúsið næstu áratugi, þó að ekkert barna hennar yrði þar slíkt stórveldi sem hún. Elsti sonur hennar, Óskar, sem var mikill áhugamaður um leiklist og þótti efnilegur leikari, hvarf þó fljótlega af sviði, enda fluttist hann brátt til Ísafjarðar með fjölskyldu sinni. Áður lenti hann í hatrömmum átökum við fjölskyldu Indriða Einarssonar um völdin í Leikfélaginu, átökum sem lyktaði með fullum sigri Indriða-fjölskyldunnar. Óskar tók upp ættarnafnið Borg þegar hann fór út til náms í Danmörku og tóku systkina hans það öll eftir honum.
Þrátt fyrir þessi leiðindi áttu dætur Stefaníu tvær, Emilía og Þóra, eftir að leika mikið með L.R., einkum þó Þóra, sem var m.a. í fyrsta leikarahópi Þjóðleikhússins. Anna hélt hins vegar til náms í Danmörku og komst í fremstu röð danskra leikkvenna. Hún gekk að eiga danska stórleikarann Poul Reumert og sýndu þau hjón bæði íslensku leikhúsi og minningu Stefaníu - eða frú Stefaníu eins og samtíðinni var tamast að nefna hana - einstaka ræktarsemi. Þau komu hingað oft og léku gestaleiki, og í heimsókninni 1938 stofnuðu þau minningarsjóð um Stefaníu með tekjunum af sýningunum. Eftir sviplegt andlát Önnu árið 1963 lét Reumert sölutekjur af endurminningum hennar renna í sjóðinn sem hefur eflst á undanförnum árum og veitt fjölmörgum ungum leikurum styrki til námsferða erlendis.
Heim.: Jón Viðar Jónsson, Geniet och vägvisaren - Om den isländska skådespelerskan Stefanía Guðmundsdóttir (1876-1926) och författaren och regissören Einar H. Kvaran (1859 - 1938) (doktorsritgerð) og sami höf., Leyndarmál frú Stefaníu (Reykjavík 1997), Sveinn Einarsson, Íslensk leiklist II