Jan 15, 2020

Einar H. Kvaran


Einar H. Kvaran (1859-1938)

Einars Hjörleifssonar, sem síðar tók upp ættarnafnið Kvaran, er nú helst minnst fyrir tvennt: smásögur sínar og áróður fyrir spíritisma. Skáldsögur hans, sem voru mikið lesnar á fyrstu áratugum aldarinnar, mega nú heita gleymdar, en helstu smásögur hans eru með því sem best hefur verið skrifað af því tagi á íslensku.

Einar var mikill áhugamaður um leikhús. Á námsárum sínum í Kaupmannahöfn kynntist hann vel danskri leiklist og eftir að hann fluttist til Vesturheims um miðjan níunda áratuginn beitti hann sér fyrir leiksýningum meðal Vestur-Íslendinga. Hann lauk aldrei háskólaprófi og starfaði framan af ævinni sem ritstjóri og blaðamaður, fyrst vestanhafs og síðar á Íslandi. Síðari áratugi ævinnar dró hann sig út úr blaðamennskunni og helgaði sig ritstörfum og boðun spíritisma.

Einar fluttist heim frá Kanada árið 1896 og gerðist þá aðstoðarritstjóri við Ísafold, blað Björns Jónssonar. Eftir stofnun Leikfélags Reykjavíkur fylgdist hann náið með starfi þess og birti vandaða - og á köflum afar harða - gagnrýni um sýningarnar. Leikfélagsfólki mun hins vegar hafa orðið ljóst að þarna væri leikhúsmaður sem vissi um hvað hann talaði og brást við með því að fá hann til liðs við sig sem leikstjóra, eða leiðbeinanda eins og það var þá kallað. Einar hóf leiðbeinandastörf hjá L.R. haustið 1898 og starfaði með félaginu næstu þrjú ár. Voru gagnrýnendur á einu máli um að hópurinn hefði tekið góðum framförum undir stjórn hans. Sjálfur steig Einar aldrei á svið eftir að hann settist aftur að á Íslandi - lék þó bæði í skóla og einnig eitthvað vestanhafs - en þótti afburða upplesari.

Einar bjó og starfaði sem ritstjóri á Akureyri frá 1901 til 1904 og sneri þá aftur suður. Hann tók ekki jafn reglubundinn þátt í starfi leikhússins eftir það, en var oftast tiltækur ef sérstaklega þurfti á að halda. T.d. var hann leiðbeinandi við sýningu L.R. á Bóndanum á Hrauni, fyrsta leikriti Jóhanns Sigurjónssonar sem var leikið á Íslandi og trúlega einnig við frumsýninguna á Galdra-Lofti; raunar var hann þá aftur aðalleiðbeinandi félagsins í fáein ár. Hann var formaður L.R. frá 1917 til 1922 sem voru mjög erfið í sögu félagsins svo að það var nánast komið í þrot veturinn 1921-22. En það væri ranglátt að kenna Einari um það; L.R. hafði skömmu fyrr misst atkvæðamikla formenn og verðbólga styrjaldaráranna gerði allan leikhúsreksturinn þyngri. Trúlega tók Einar að sér formennskuna af hollustu við sitt gamla félag, af því að öðrum var ekki til að dreifa. Einar skrifaði fjögur leikrit, Lénharð fógeta (1913), Syndir annarra (1915) og Hallstein og Dóru (1931) og Jósafat (1932) sem er raunar saminn upp úr skáldsögu hans Sambýli. Eru síðari verkin tvö mjög lituð af áhuga hans á spíritisma, eins og reyndar allar síðari skáldsögur hans. Langvinsælast varð Lénharður fógeti, sem fjallar um baráttu íslenskrar alþýðu gegn danskri kúgun, og höfðaði til þjóðernisáhuga Íslendinga þessara ára. Það var einnig leikið talsvert úti á landi, auk þess sem L.R. tók það upp á fimmta áratugnum og Þjóðleikhúsið tíu árum síðar. Þá gerði íslenska sjónvarpið umdeilda sjónvarpsmynd eftir leiknum eftir 1970.

Einar H. Kvaran er ekki einn af svipmestu persónum íslenskrar leiklistarsögu. Hann tók virkan þátt í starfi leikhússins tiltölulega skamma hríð og helgaði krafta sína öðrum efnum. Sem leikhúsmaður var hann e.t.v. ekki áræðinn eða atkvæðamikill, en hann var vandaður í vinnubrögðum, vel menntaður bókmenntamaður. Hann var glöggskyggn leikhúsgagnrýnandi og dómar þeir, sem hann ritaði í Ísafold fyrsta vetur L.R., eru hinar merkustu heimildir um stöðu leikhópsins og listrænt starf. Nokkrum árum síðar tók hann aftur til við að skrifa leikdóma, þá í Fjallkonunni, en þá var hann orðinn of tengdur starfi leikhússins og birti aðallega hóflaust lof um leikendur og sýningar. Það hefur ekki alltaf verið auðvelt að vera gagnrýnandi í litlu samfélagi! Þó að sviptingar væru um spíritismann alla tíð var Einar H. Kvaran ótvírætt einn af virtustu menntamönnum þjóðarinnar síðustu áratugi ævinnar. Enginn vafi er á því að leikhúsið naut góðs af þeirri virðingu. Hann var maður sem hlustað var á og brást aldrei málstað leikhússins. Hann var kjörinn til setu í byggingarnefnd Þjóðleikhússins og sat í henni til dauðadags. Eftir að Ríkisútvarpið kom til sögunnar voru smásögur hans einatt fluttar þar í leikbúningi og á síðari árum samdi Ævar R. Kvaran, sonarsonur hans, vinsæl framhaldsleikrit upp úr skáldsögunum.

Heim.: Jón Viðar Jónsson, Geniet och vägvisaren - Om den isländska skådespelerskan Stefanía Guðmundsdóttir (1876-1926) och författaren och regissören Einar H. Kvaran (1859 - 1938) (doktorsritgerð), sami höf., Leyndarmál frú Stefaníu, Stefán Einarsson, Einar H. Kvaran í Skáldaþingi (Reykjavík 1948), Sveinn Einarsson, Íslensk leiklist II

lmeinkva.jpg
Til baka