Jan 15, 2020

Indriði Einarsson


Indriði Einarsson (1851-1939)

Staða Indriða Einarssonar í íslenskri leiklistarsögu er um margt mjög sérstök. Hann var óvenju alhliða leikhúsmaður, skrifaði leikrit og setti á svið bæði eigin verk og annarra, og má því með talsverðum rétti kallast fyrsti leikstjórinn. Á hinn bóginn hafði hann - ólíkt t.d. Sigurði málara - enga skólun í faginu. Hann var áhugamaður, amatör, í besta skilningi þess orðs. Orðið "amatör" er sem kunnugt er dregið af latnesku sögninni "amo" sem merkir að elska; amatör er því sá sem gerir eitthvað af áhuga, ást, ástríðu. Leikhúsástríða Indriða Einarssonar var heit og brennandi og loginn slokknaði aldrei á meðan kraftar entust.

Indriði var Skagfirðingur að uppruna, eins og Sigurður málari. Hann fór ungur til náms við Lærða skólann í Reykjavík og samdi fyrsta leikrit sitt, Nýársnóttina, á námsárum sínum þar. Það var samið undir sterkum áhrifum frá Sigurði málara og Útilegumönnum Matthíasar, þó að Indriði færi sínar eigin leiði í efnisvali; tæki fyrir álfasögurnar, en ekki útilegmannasagnirnar, eins og Matthías. Hann þekkti líka sinn Shakespeare. Að loknu stúdentsprófi hélt hann til Kaupmannahafnar og lauk þar prófi í hagfræði árið 1878. Eftir heimkomuna fékk hann stöðu sem endurskoðandi landsreikninganna og gegndi því embætti alla tíð; í daglegu tali Reykvíkinga var hann gjarnan kenndur við embættið upp á danskan máta og kallaður "revisor". Hann sat á þingi eitt ár, 1890 og tók mikinn þátt í starfi Góðtemplarareglunnar, var m.a. yfirmaður hennar, stórtemplar, frá 1897 til 1901. Indriði var mjög handgenginn Birni Jónssyni, ritstjóra Ísafoldar, og mun raunar hafa goldið þeirra tengsla þegar Hannes Hafstein kom til valda árið 1904 og skipan stjórnarráðsins var breytt. Þá fékk Indriði ekki það embætti sem fyrri störf hans og reynsla hefðu átt að tryggja honum. En Björn kippti því máli í liðinn eftir að hann var orðinn húsbóndi í stjórnarráðinu árið 1909 og gerði Indriða að skrifstofustjóra þar.

Indriði Einarsson var fjórtán ára gamall sveitapiltur þegar hann sá í fyrsta skipti leiksýningu, Útilegumenn Matthíasar Jochumssonar á sviðinu í Nýja klúbbi. Það hafði slík áhrif á hann að hann varð aldrei samur maður. Hann kynntist brátt Sigurði málara sem hvatti hann mjög til leikskáldskapar og glæddi skilning hans á hlutverki leiklistarinnar í íslenskri menningu. Á jólum 1870 var Nýársnótt hans frumsýnd á Langalofti Lærða skólans og vakti mikla athygli. Eftir að hann settist að í Reykjavík að loknu námi varð hann einn af helstu burðarásum sjónleikja í bænum og stóð fyrir stórum sýningum bæði í Góðtemplarahúsinu, Gúttó, og Breiðfjörðs-leikhúsi (Fjalakettinum) eftir að þau komu til sögu. Í Gúttó setti hann m.a. á svið fyrsta Ibsen-leikinn á íslensku sviði, Víkingana á Hálogalandi (1892) og í Fjalakettinum Hellismenn sína. Mörgum fannst hann sýna með því virðingarverða viðleitni, en þó ekki Benedikt Gröndal sem skrifaði afskaplega háðslegan dóm um sýninguna og fann henni allt til foráttu.

Af einhverjum ástæðum tók Indriði ekki formlega þátt í stofnun Leikfélags Reykjavíkur, e.t.v að hluta til vegna þess að yngra fólk var að koma til sögunnar - hann var sjálfur að nálgast fimmtugt - og vildi lofa því að spreyta sig. Þá kann það líka að hafa borið til að ágreiningur mun hafa orðið með honum og leikurum nokkru fyrr vegna kostnaðar við sýningu hans á Hellismönnum; hún hafði orðið nokkuð dýr og því ekki borið sig, og virðist sem leikarar hafi ekki allir verið tilbúnir að deila því tapi. Hvað sem því líður gerði Indriði sér fulla grein fyrir mikilvægi þessarar félagsstofnunar og fylgdist grannt með frá upphafi. Dætur hans og tengdasonur, Jens B. Waage, léku öll mikið með félaginu og á sviði þess voru leikrit hans sjálfs flutt: Skipið sekkur (1903), Nýársnóttin (1907), Stúlkan í Tungu (1909), Dansinn í Hruna (1926) og Síðasti víkingurinn (1936). Nýársnóttin varð langvinsælust þessara verka og raunar einnig leikin víða um land. Eitt metnaðarfyllsta leikrit hans, Sverð og bagall, sem fjallar um skærur Sturlungaaldar, var þó aldrei sviðsett í Iðnó og hefur ekki verið flutt á sviði allt til þessa dags. Þá eru ótaldar þýðingar hans á leikritum Shakespeares sem hann vann að á efri árum eftir að starfsdegi hans í stjórnarráðinu var lokið.

Indriði var sérstæður maður og setti ríkan svip á bæjarlífið um sína daga, léttur í spori og léttur í lund, skartmaður í klæðaburði og að sögn ekki laus við að finna til sín. Hann hafði mikla frásagnargáfu og eru minningar þær, mannlýsingar og frásagnir, sem hann skráði á efri árum, bæði í sjálfsævisögunni Séð og lifað og fjölmörgum greinum og ritgerðum, hreinasti skemmtilestur, að ekki sé minnst á gildi þeirra sem heimilda. Hann var líka ágætlega skáldmæltur ef því var að skipta. Smekkur hans sem leikstjóra var mótaður af rómantíkinni; hann vildi hafa liti og skraut á sviðinu, engan grámyglulegan og flatan realisma; í umsögnum um sýningar hans er því gjarnan við brugðið að hann hafi manna best auga fyrir því sem fer vel á sviði.

Leikrit Indriða hafa ekki náð að lifa, nema helst Nýársnóttin, og eru nú flestum gleymd. Það er ekki einkennilegt; þau skortir öll dramatíska dýpt, þó að sjaldnast leyni sér að höfundurinn kann til verka í leikhúsi; hann veit t.d. að það þurfa að vera ákveðnar burðarsenur, þar sem dramað rís í hæðir, myndræn atriði þar sem átökin kristallast í athöfnum leikenda fyrir sjónum áhorfenda. Þegar á allt er litið verður merkasta framlag Indriða til íslenskrar leiklistar að teljast barátta hans fyrir Þjóðleikhúsinu. Hugmyndina fékk hann frá meistara sínum, Sigurði málara, en framan af hlaut hún lítinn sem engan hljómgrunn. Indriði lét þó ekki deigan síga og skrifaði langar greinar um málið þar sem hann leitaðist við að sýna fram á nauðsyn þess að þjóðin eignaðist slíka stofnun. Til þess beitti hann bæði menningarlegum og listrænum rökum, en studdist einnig við útreikninga og hagnýtar áætlanir; þó að hann væri rómantískur í hugsun stóð hann báðum fótum á jörðinni og naut þar bæði hagfræðilegrar þjálfunar sinnar og reynslu af leiksviðinu. Indriði var eljumaður að hvaða starfi sem hann gekk; t.d. er því við brugðið hversu Góðtemplarareglan efldist á meðan hann var í forystu hennar enda taldi hann ekki eftir sér að fara fótgangandi um landið til að vinna henni fylgi og styðja stúkurnar í starfi þeirra. Í þjóðleikhúsmálinu vann hann fullan sigur þegar Alþingi setti lög um byggingu Þjóðleikhúss árið 1923. Að vísu komu fleiri að því máli en hann, en það var hann sem hélt kyndlinum lengst og hæst á lofti.

Byggingarsaga Þjóðleikhúsisins varð mun lengri en nokkurn gat þá órað fyrir. Þegar tjaldið lyftist þar í fyrsta sinn á sumardaginn fyrsta árið 1950 var Indriði löngu horfinn af leiksviði þessa lífs.

Heim.: Indriði Einarsson, Séð og lifað (Reykjavík 1936), Stefán Einarsson, Indriði Einarsson, Skáldaþing, Sveinn Einarsson, Íslensk leiklist I og II, Safn til sögu íslenskrar leiklistar og leikbókmennta, 1. bd.

lmindein.jpg
Til baka