Valgarður Ó. Breiðfjörð má teljast til íslenskra leikhúsmanna fyrir þær sakir að hann lét reisa fyrsta leikhúsið í Reykjavík. Gúttó var að vísu komið upp áður, en það var fjölnota hús og ekki ætlað frekar til sjónleika en almennra skemmtana. Valgarður var fæddur á Reykhólum í Reykhólasveit, en kom til trésmíðanáms í Reykjavík árið 1869. Annars fékkst hann við verslunarrekstur og margs konar framkvæmdir, s.s. búskap og útgerð og gerði m.a. eina fyrstu tilraunina með togaraútgerð. Hann lét einnig að sér kveða í reykvískum bæjarmálum, sat í bæjarstjórn um hríð og hélt í tólf ár úti bæjarmálablaðinu, Reykvíkingi. Það var persónulegt málgagn hans sjálfs þar sem hann viðraði skoðanir sínar á málefnum Reykjavíkur. Sérstakan áhuga hafði Breiðfjörð kaupmaður á brunavörnum, þó að ekki væri alltaf hlustað á tillögur hans um þær.
Breiðfjörð var brennandi leikhúsáhugamaður; það leynir sér ekki, og má hafa til marks um það að hann birti eitt sinn í blaði sínu alllangan greinaflokk um sjónleikasögu Reykjavíkur. Sumarið 1892 komu hingað danskir farandleikarar, hjón að nafni Edvard og Olga Jensen, og sýndu Reykvíkingum list sína. Efnisskráin var að vísu af léttara tagi, en Breiðfjörð sá engu að síður að Reykvíkingar gætu ekki verið þekktir fyrir að bjóða slíkum listamönnum að troða upp í húsi á borð við Gúttó. Hann hafði því snör handtök og reisti leikhús um veturinn; það var ein af mörgum viðbyggingum í hinni miklu húsasamstæðu hans við Aðalstræti 8 og hlaut fljótlega nafnið Fjalakötturinn í almennu tali. Í þessu leikhúsi héldu Edvard og Olga að sjálfsögðu sýningar sínar næstu ár, en þau komu hingað á hverju ári til 1896 og var mikið skrifað um þau í blöðin. Auk þess fóru þau í leikferðir bæði til Ísafjarðar og Akureyrar.
Ýmislegt varð Breiðfjörð mótdrægt í leikhúsrekstrinum. Hann reyndi t.d. að fá Kúlissusjóðinn afhentan upp í byggingarkostnað, en var neitað um það á þeirri forsendu að sjóðnum væri ekki ætlað að renna til einkaaðila. Fáeinum árum síðar fékk Iðnaðarmannafélagið sjóðinn og var þó í sjálfu sér jafn mikill einkaaðili og Breiðfjörð. Veturinn 1895-96 reyndu þeir Indriði Einarsson og Breiðfjörð að stofna leikfélag í Fjalakettinum, en það bar engan árangur og endaði "með stóru tapi", eins og það er orðað í fundargerð. Stefanía Guðmundsdóttir, sem var þegar orðin aðal-stjarnan í reykvísku leikhúsi, fékkst ekki til að fara úr Gúttó. Framtíðin heyrði til Iðnó og Leikfélagi Reykjavíkur. Engu að síður var leikhúsbygging Breðifjörðs merkilegt framtak sem átti sinn þátt í þeirri grósku sem hljóp í reykvískt sjónleikahald á tíunda áratugnum.
Heim.: Guðjón Friðriksson, Fjalakötturinn, Landnám Ingólfs (3), 1986.