Jan 15, 2020

Jón Guðmundsson


Jón Guðmundsson (1807-1875)

Í dag munum við Jón Guðmundsson helst sem einn dyggasta liðsmann Jóns Sigurðssonar forseta, þó að ekki bæru þeir nafnar ávallt gæfu til samþykkis. Hann var ritstjóri Þjóðólfs, áhrifamesta og á köflum eina þjóðmálablaðs Íslendinga, frá 1852 til 1874, og sat einnig löngum á Alþingi. Heimili hans og konu hans, Hólmfríðar Guðmundsdóttur, var eitt helsta menningarheimili Reykjavíkur. Hann studdi t.d. mjög við bakið á Sigurði málara og fór iðulega fögrum orðum um verk hans í blaði sínu. Indriði Einarsson heldur því beinlínis fram að Sigurður hefði aldrei getað þrifist í Reykjavík, embættislaus og allslaus, ef ekki hefði verið fyrir "hús Jóns Guðmundssonar".

Jón Guðmundsson var mikill leiklistarunnandi. Hann kynntist dönsku leikhúsi á ferðum sínum þangað og hafði stóra mynd af frú Heiberg, dáðustu leikkonu Dana, á stofuveggnum. Ef frá er talinn stuðningur hans við Sigurð málara, sem aldrei má vanmeta, hlýtur merkasta framlag hans til íslenskrar leiksögu að teljast sýning hans á danska gamanleiknum Pak (Skríl) eftir Thomas Overskou. Hún fór fram í hinu nýja veitinga- og danshúsi Reykvíkinga, Gildaskálanum eða Nýja klúbb við Aðalstræti. Listrænt var hún naumast tímamótaviðburður, en minnisverð sakir þess að allur almenningur gat þá í fyrsta skipti keypt sig inn. Fyrri sýningar, sem höfðu flestar verið á vegum skólapilta eða í húsum betri borgara bæjarins, höfðu sem sé jafnan verið fyrir boðsgesti. En Jón sá að í Reykjavíkurbæ var að verða til opinber markaður fyrir sjónleiki líkt og í öðrum borgarsamfélögum, og sýndi það í verki. Hann reyndi einnig að halda saman leiktjöldum, búningum og ýmsum munum sem höfðu orðið til fyrir sýninguna á Skríl og varð þar til fyrsti vísirinn að hinum svonefnda Kúlissusjóði sem átti eftir að gegna merku hlutverki í þróunarsögu leiklistarinnar.

Heim.: Einar Laxness, Jón Guðmundsson (Reykjavík 1961), Sveinn Einarsson, Íslensk leiklist I (Reykjavík 1991)

lmjongum.jpg
Til baka