Jan 15, 2020

Sigurður Guðmundsson


Sigurður Guðmundsson (1833-1874)

Sigurður Guðmundsson er einn af mestu tímamótamönnum íslenskrar leiklistarsögu. Hann var fæddur og uppalinn í Skagafirði, hélt ungur til Kaupmannahafnar að nema myndlist og stundaði þar nám við Konunglegu listaakademíuna. Eftir að hann sneri aftur til Íslands árið 1858 settist hann að í Reykjavík og bjó þar til dauðadags.

Fagmennska Sigurðar á sviði leiktjaldagerðar og öllu sem laut að búningum, leikgervum og sviðsbúnaði kom strax í góðar þarfir hjá leikáhugamönnum Reykjavíkur. Fyrstu árin eftir að hann kom til bæjarins var mikið verið að leika og var þá sýnt í hinum svonefnda Nýja klúbbi við Aðalstræti. Sigurður hafði kynnst danskri leikmenningu á Kaupmannahafnarárunum og bjó að þeim kynnum; það er t.d. hugsanlegt að hann hafi leiðbeint leikendum eða sagt þeim til, þó að hann hafi auðvitað ekki leikstýrt þeim á nútímavísu.

Sérstaka athygli vöktu þó "tableaux" hans eða "lifandi myndir". Þetta voru eins konar þrívíð málverk með lifandi leikurum sem klæddust í búninga og gervi og stilltu sér síðan upp í tiltekin atriði úr fornsögum og Eddukvæðum. Þannig stóðu þeir frá því tjaldið fór frá og þangað til það féll fyrir; hugsanlega var viðeigandi kafli lesinn upp á meðan, jafnvel með tónlist eða áhrifahljóðum. Listforminu hefur Sigurður kynnst erlendis þar sem það var mjög vinsælt meðal betri borgara en þá oftast sem eftirlíking af frægum sögulegum málverkum. Sigurður bjó hins vegar til eigin "tableaux" í anda þeirrar sögulegu málverkagerðar sem hann hafði hrifist af og sjálfsagt viljað stunda, hefðu aðstæðurnar leyft það. Samtíð Sigurðar fannst þessar sýningar sérkennilegar og heillandi, en fyrir okkur leiða þær hugann að "performönsum" eða "innsetningum" nútímans. Áratugum síðar urðu svokallaðar "skrautsýningar" mjög vinsælar víða um land og hafa menn stundum viljað leita að uppruna þeirra í þessum sýningum Sigurðar.

Sigurði var mjög í mun að efla íslenska þjóðernistilfinningu. Hann var í nánu sambandi við forystumenn sjálfstæðisbaráttunnar, Jón Sigurðsson og Jón Guðmundsson, sem voru auðvitað eldri en hann og hafa ugglaust litið á hann sem mikinn framtíðarmann. Þó blöskraði Jóni Sigurðsyni stundum hvað hann gat talað illa um Dani og allt sem danskt var. Sigurður skildi að þjóðernisástin yrði að nærast á sýnilegum táknum. Hann vildi t.d. að fálkinn yrði í skjaldarmerki þjóðarinnar í stað þorsksins áður og lagði fram róttækar hugmyndir um endurskoðaðan þjóðbúning kvenna og karla. Urðu kvenbúningar hans snemma afar vinsælir, en karlbúningar hans síður. Þá var hann einn af stofnendum og burðarásum leynilegs málfunda- og framfarafélags, Kveldfélagsins, sem starfaði fram á áttunda áratuginn, þar sem bæði voru rædd margvísleg þjóðþrifamál og heimspekileg álitaefni. Sigurði varð þar tíðrætt um leikhúsmálin og hefur sennilega kastað þar í fyrsta sinn fram á fundi hugmyndinni um íslenskt þjóðleikhús.

Sigurður lagði nokkra stund á mannamyndagerð eftir að heim kom, en fékk brátt nóg af því og sneri sér að því að byggja upp Þjóðminjasafnið, eftir að það var stofnað árið 1863, mest fyrir hans forgöngu. Það var til húsa á dómkirkjuloftinu við heldur frumstæðar aðstæður. Fyrir þetta starf fékk Sigurður lítil sem engin laun og litla opinbera viðurkenningu, en safnið óx og dafnaði í hans tíð og vakti athygli bæði innlendra og erlendra gesta. Sigurður var þó ekki bara í fornfræðunum, því að hann gerði sér fyrstur manna grein fyrir nauðsyn þess að skipuleggja hinn nýja höfuðstað landsins, fegra hann og prýða. Vísuðu ýmsar hugmyndir hans t.d. um útivistarsvæði í Laugardal, vatnsveitu o.fl. mjög fram á við, þó að þær yrðu ekki að veruleika fyrr en löngu eftir að hann var allur. Þó má nefna Skólavörðuna, sem Skólavörðuholtið var kennt við, eina sérstæðustu byggingu bæjarins, sem hann mun hafa teiknað og var reist um 1870.

Sigurður var mikill áhugamaður um eflingu íslenskrar leikritunar og hvatti bæði Matthías Jochumsson, Steingrím Thorsteinsson og Indriða Einarsson til að skrifa leikrit í þjóðlegum og rómantískum anda. Hann var einnig náinn vinur Jóns Árnasonar þjóðsagnasafnara og fylgdist vel með undirbúningi þjóðsagnasafns hans sem kom fyrst út á árunum 1862-64. Áttaði hann sig fyrstur manna á þeim dramatísku yrkisefnum sem fólust í þjóðsögunum og má þannig að vissu leyti teljast faðir þjóðsagnaleikritanna, sem lengi voru einn aðalstraumur íslenskrar leikritunar. Sjálfur samdi hann aðeins eitt leikrit, Smalastúlkuna og útilegumennina, sem lá óbirt í handriti í hátt í 120 ár. Það var fyrst sýnt í Þjóðleikhúsinu árið 1980 í gerð Þorgeirs Þorgeirsonar rithöfundar sem rannsakaði feril Sigurðar og verk vandlega. Það var fyrst og fremst í gegnum lærisveina sína, Matthías og Indriða, sem Sigurður hafði áhrif.

Síðasta veturinn sem Sigurður lifði vann hann að leiksýningum í Glasgow. Þar varð hann innkulsa við að mála tjöld fyrir sýningu Hellismanna Indriða Einarssonar og komst aldrei til fullrar heilsu eftir það. Um sumarið vann hann að því að prýða þjóðhátíðarsvæðið á Þingvöllum, en þegar Danakonungur spurði hvort ekki ætti að heiðra hann eitthvað fyrir það, á stiftamtmaðurinn að hafa svarað því til að hann ætti ekkert skilið. Nokkrum vikum síðar var hann allur. Þorgeir Þorgeirson gat sér þess til að banamein hans hefði verið bráðaberklar.

Sýningin Frumherji og fjöllistamaður

Heim.: Sjá sýningarskrá Leikminjasafns Íslands, Frumherji og fjöllistamaður, þar sem er meðal annars efnis ítarleg heimildaskrá um líf og starf Sigurðar málara. Sjá einnig Sýningar á þessari vefsíðu.

lmsiggum.jpg
Til baka