Nov 30, 2021

Gjöf frá Leiklistarskóla SÁL


Þann 29. nóvember afhendu einstaklingar sem stunduðu nám og kenndu við Leiklistarskóla SÁL skjalasafn stofnunarinnar til Leikminjasafns Íslands.

Leiklistarskóli SÁL var stofnaður af ungu fólki árið 1972 með sem brann fyrir leikhúsi og leikhúsmenntun. Nokkru áður höfðu Leikfélag Reykjavíkur og Þjóðleikhúsið lagt niður sína skóla til að þrýsta á ríkið um að fjármagna formlegt leiklistarnám á háskólastigi. Rekstur og skipulag SÁL var hugsjónastarf, drifinn áfram af sköpunargáfu og löngun til þess að færa leiklistarnám til nútímans.

Nemendur skólans tóku virkan þátt í stjórnsýslu skólans og margar kennslunýjungar af norrænni fyrirmynd litu dagsins ljós þar á meðal að nemendur á lokaári tækju þátt í nemendaleikhúsi. Markmiði hópsins var loksins náð árið 1975 þegar Leiklistarskóli Íslands var stofnaður en flestir nemendur SÁL fengu inngöngu í nýja skólann og margir kennarar úr skólanum hófu einnig störf.

Á myndinni má sjá Helgu Hjörvar, sem leiðir nefndina, og Sigríði Jónsdóttur, sérfræðing við Leikminjasafn Íslands, skrifa undir afhendingarsamning. Gögn hópsins fara nú í formlega skráningu og stefnt er að halda sýningu um þessa merku starfsemi haustið 2022, en þá eru liðin 50 ár frá stofnun skólans.

Leikminjasafn og Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn þakka Leiklistarskóla SÁL innilega fyrir.

leiklist_sal.png
Til baka