Jan 15, 2020

Gúttó í Reykjavík


Góðtemplarahúsið í Reykjavík, sem eins og önnur slík hús var jafnan nefnt Gúttó manna á meðal, var einlyft, bárujárnsklædd timburbygging. Það stóð á horni Templarasunds og Vonarstrætis, þar sem alþingismenn leggja nú bílum sínum. Húsið sneri frá austri til vesturs með sviðið í austurendanum. Árið 1895 var tvílyft viðbygging reist vestan við það og var inngangur á því sunnanverðu.

Gúttó var byggt árið 1887 á uppfyllingu út í Tjörnina sem gekk þá mun lengra til norðurs en hún gerir nú. Góðtemplarareglan hafði þá nýlega fest rætur á Íslandi og var í miklum vexti víða um land. Aðalmarkmið hennar var að halda fólki frá áfengisneyslu, en templurum var ljóst að besta ráðið til þess væri að finna almenningi hollar tómstundaiðkanir. Reglan, sem starfaði í staðbundnum félögum, svokölluðum stúkum, var öllum opin án stéttar, menntunar eða kynferðis.

Templarar reistu samkomuhús yfir starfsemi sína á helstu þéttbýlisstöðum, s.s. Akureyri, Ísafirði, Hafnarfirði, Seyðisfirði, Eskifirði, Vestmannaeyjum og miklu víðar. Þessi hús voru jafnan nýtt undir aðra starfsemi, s.s. dansleiki, fyrirlestra og almenn fundahöld af öllu tagi; voru fjölnota hús, eins og það er stundum kallað, og víðast hvar fyrstu almennu samkomuhúsin á hverjum stað. Með þessu framtaki öllu stóðu templarar fyrir einni mestu byltingu sem hefur orðið í félagslífi þjóðarinnar. Reglan varð í raun almennur skóli í félagastarfsemi og upp úr henni spruttu t.d. bæði leikfélögin og fyrstu verkalýðsfélögin.

Einhvers konar leikpallur virðist hafa verið í Gúttó Reykvíkinga frá upphafi, en það svið, sem síðar var þar, mun ekki hafa komið fyrr en um 1890. Það var fremur hátt, enda búningsherbergi leikenda undir því, og allt innan sviðsramma, án forsviðs, með líkum hætti og í Iðnó og Gúttó í Hafnarfirði. Svið af þessu tagi eru oft kölluð "kassasvið" (á dönsku "kukkasseteater", þýsku "Guckkastentheater") og sviðinu þá líkt við kassa sem horft er inn í, eftir að fjórða hliðin hefur verið fjarlægð. Áhorfendasalurinn gat rúmað allt að 300 áhorfendum.

Í Gúttó fór fram öflug leikstarfsemi fram eftir tíunda áratugnum, þangað til Iðnó og Leikfélag Reykjavíkur komu til sögunnar. Veturinn 1891-92 setti Indriði Einarsson t.d. á svið Víkingana á Hálogalandi eftir Ibsen, Ævintýri á gönguför Hostrups og fleiri leika, en eftir tilkomu Fjalakattarins flutti hann starf sitt þangað. Í janúarlok 1893 kom fram á sviðinu í Gúttó sú kona sem átti eftir að verða skærasta stjarna íslensks leikhúss næstu þrjátíu ár, Stefanía Guðmundsdóttir. Hún var þá aðeins seytján ára gömul og heillaði áhorfendur frá fyrstu stund. Á næstu árum lék hún mikið á sviðinu í Gúttó, síðustu árin fyrir stofnun L.R. með leikflokki sem myndaðist í kringum hana.

Eftir að reglubundin leikstarfsemi hófst í Iðnó dró mjög úr sjónleikahaldi í Gúttó, þó að eitthvað smálegt hafi verið löngum leikið þar. Húsið þjónaði að sjálfsögðu starfi Góðtemplarareglunnar áfram og var jafnframt leigt út í ýmsu skyni; þar voru haldnir dansleikir, barnaböll, söngskemmtanir, fyrirlestrar og samkomur af öllu tagi. Þá voru lengi haldnir bæjarstjórnarfundir í Gúttó og er sá síðasti þeirra frægastur; hann var haldinn 9. nóvember 1932 og lauk með Gúttóslagnum.

Gúttó í Reykjavík stóð til 1968 og var þá rifið. Þá var stutt í að hér hæfist hreyfing til verndunar gamalla timburhúsa með menningar- eða bygginarsögulegt gildi, en Gúttó naut ekki góðs af henni. Þetta var ekki ein af fegurstu byggingum gömlu Reykjavíkur, en í ljósi sögulegs hlutverks hússins var niðurrif þess menningarsögulegt slys.

Heim.: Hjörleifur Stefánsson (ritstj.), Í Kvosinni (Reykjavík 1987), Páll Líndal, Reykjavík - Sögustaður við Sund, 3. bindi (Reykjavík 1988), Sveinn Einarsson, Íslensk leiklist II (Reykjavík 1996)

lhgtorvk.jpg
Til baka