Apr 21, 2021

Við varðveitum sviðslistasögu Íslands saman


Fyrir tuttugu árum síðan, þann 21. apríl 2001, voru Samtök um leikminjasafn stofnuð. Það var að frumkvæði Félags leikmynda- og búningahöfunda sem 27 félög og stofnanir komu saman og skópu breiða samstöðu á menningarsviðinu um þá nauðsyn að varðveita sviðslistasögu landsins. Þessir frumkvöðlar byggðu grunninn að Leikminjasafni Íslands og unnu ómetanlegt starf.

Í dag starfar einn starfsmaður við Leikminjasafn Íslands, sem nú hefur fundið sér framtíðarheimili sem sérsafn innan veggja Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafn. Ég heiti Sigríður Jónsdóttir og hóf störf í janúarlok á þessu ári. Síðastliðna mánuði hef ég farið um víðan völl, rannsakað safnkostinn sem nú þegar er varðveittur innanhúss og fundað með ýmsum aðilum, starfsfólki menningarstofnana sem og einstaklingum sem vilja varðveita sviðslistasögu landsins. Samstaðan og stuðningur er ekki minni en fyrir tuttugu árum, allir sem ég hef talað við hafa sýnt bæði stuðning og verið mér hvatning til góðra verka.

Síðastliðna daga hefur aðaláherslan verið lögð á leikhústónlist og hljóðmyndir úr leiksýningum Þjóðleikhússins frá árunum 1995 til 2005. Í vikunni þar á undan fóru tveir starfsmenn frá Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafn í heimsókn í Borgarleikhúsið. Meðfylgjandi myndir sýna brot af þeim dýrgripum leikhúsin hafa látið okkur í té. Önnur er af geisladiskum úr sýningarsafni Þjóðleikhússins og hin er af úrklippubók sem skrásetti leikferð Leikfélags Reykjavíkur til Finnlands árið 1948.

Nýlega kom aðstandandi Páls Steingrímssonar, ritstjóra og leikskálds, með gögn úr skjalasafni hans. Í þessum skjölum fannst eina þekkta eintakið af leikritinu Þórólfur í Nesi, verk sem var talið týnt. Ég færi aðstandendum Páls og starfsfólki leikhúsanna mínar allra bestu þakkir. Ég vil hvetja alla sem telja sig varðveita íslenskar leikminjar að hafa samband, hvort sem það eru stofnanir, samtök eða einstaklingar. Við varðveitum sviðslistasögu Íslands saman.

Núna skrifa ég þessi síðustu orð á meðan rúmlega tuttugu ára gamlir leikhústónar hljóma í heyrnartólunum. Þannig hverf ég tímabundið til fortíðar og upplifi leiksýningu sem ég sá aldrei. Á morgun er sumardagurinn fyrsti, einstakur frídagur sem á sér engan sinn líka í heiminum. Nýtum daginn til þess að gleðjast saman, verum stolt af menningarsögunni okkar og horfum björtum augum til framtíðarinnar. 

Gleðilegt sumar,

Sigríður Jónsdóttir 

Sérfræðingur – Leikminjasafn Íslands 

Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn 

21.04.2021 - Úrklippubók - Leikfélag Reykjavíkur21.04.2021 - Sýningasafn

 

LMS.png
Til baka