Jan 15, 2020

Glasgow


Glasgow var stórt timburhús, tvær hæðir með háu risi, og mikið um sig, "stærsta húsið á landinu" segir Klemenz Jónsson í Sögu Reykjavíkur. Húsið var reist nyrst í Grjótaþorpinu árið 1863 af skosku verslunarfélagi og dró nafn sitt af því. Undir því öllu var hár steinlímdur kjallari og lágu úr honum vagnteinar niður á bryggju sem var gerð um leið og húsið, svo að hægt væri að flytja vörurnar beint úr skipunum inn í geymslurnar.

Húsið var byggt til að hýsa geymslur verslunarfélagsins, skrifstofur og verslunarbúð sem var í miðju húsinu og afarstór. En félagið varð skammlíft og árið 1872 kaupir Egill Egilsson, sonur Sveinbjarnar Egilssonar rektors, húsið og hefur í því verslunarrekstur. Egill hafði tekið þátt í starfi Kveldfélagsins og leið nú ekki á löngu áður en leiksýningar hófust í húsi hans. Virðist svo sem leiksalur hafi verið búinn í miðju húsinu og rúmað allt að 200 manns, "bæði uppi og niðri" segir Þjóðólfur 3. janúar 1873 og bendir það orðalag til þess að áhorfendasvalir hafi verið í salnum. Annars er mjög lítið vitað um aðstæður áhorfenda og leikenda þarna; t.d. er ekki ljóst hvort þarna var fast leiksvið, en hafi svo verið, þá var það fyrsta fasta sviðið í höfuðstaðnum.

Í þessu húsi starfaði Sigurður Guðmundsson málari að síðustu leiksýningum sínum veturna 1872-73 og 1873-74. Varð hann innkulsa við leiktjaldamálun þar síðari veturinn og komst aldrei til fullrar heilsu eftir það. Nokkuð var leikið þarna á næstu árum, en fremur stopult, að því er best er vitað, eftir að Egill seldi húsið 1888. Þá var komið nýtt leikhús í bæinn, Gúttó, og skammt í að fyrsta sérbyggða leikhúsið, leikhús Valgarðs Breiðfjörð, risi af grunni.

Í Glasgow fór fram ýmis menningarstarfsemi önnur. Þar var náttúrugripasafnið um skeið til húsa og árið 1879 var þar haldin fyrsta málverkasýning á Íslandi með eftirprentunum erlendra málverka. Í húsinu sýndi íslenskur málari einnig í fyrsta sinni verk sín árið 1900; það var Þórarinn B. Þorláksson sem greip reyndar einnig í að mála leiktjöld fyrir Leikfélag Reykjavíkur. Síðast var húsinu breytt í íbúðarhús og voru þar um 40 herbergi. Húsið brann árið 1903 og var það stærsti bruni í sögu Reykjavíkur fram að þeim tíma.

Heim.: Klemenz Jónsson, Saga Reykjavíkur (Reykjavík 1929), Páll Líndal, Reykjavík - Sögustaður við Sund, 3. bindi (Reykjavík 1988), Sveinn Einarsson, Íslensk leiklist I (Reykjavík 1991)

lhglasgo.jpg
Til baka