Mar 9, 2021

Leikminjasafn Íslands og framtíð íslenska sviðslistaarfsins


Sviðlistasaga Íslands er einstök. Í venjulegu árferði mæta ríflega 350.000 áhorfendur á sviðslistaviðburði landsins ár hvert og flest eigum við kærar minningar frá leikhúsunum. Súperstar í Austurbæjarbíó, nýtt íslenskt leikrit sem hitti beint í hjartastað, ræningjarnir úr Kardemommubæ, gæsahúðin sem myndast þegar tjaldið rís og svo mætti lengi telja. Sviðslistasagan snýst fyrst og fremst um fólk; listafólkið sem kemur að sýningunum, þau sem fjalla um sviðslistir á opinberum vettvangi og rannsaka, en síðast en alls ekki síst fólkið sem situr úti í sal. Verkefni Leikminjasafns Íslands er að fanga, varðveita og miðla þessari listrænu arfleið þjóðarinnar til fólksins, rifja upp gamlar minningar og búa til nýja þekkingu.

Stofnun Leikminjasafns Íslands átti sér töluverðan aðdraganda en árið 2001, að frumkvæði Félags leikmynda- og búningahöfunda, var kannaður grundvöllur fyrir stofnun samtaka um leikminjasafn og þann 21. apríl sama ár voru þau formlega stofnuð, með aðkomu 27 félaga og stofnana af menningarsviðinu. Á 170. afmælisdegi Sigurðar Guðmundssonar málara þann 9. mars árið 2003 var Leikminjasafn Íslands síðan formlega stofnað. Á sama tíma var Jón Viðar Jónsson ráðinn forstöðumaður Leikminjasafns Íslands og gegndi hann því hlutverki í áratug. Sýningar safnsins voru um tuttugu talsins en hluti þeirra er varðveittur stafrænt og verður miðlað á heimasíðu Leikminjasafnsins (http://www.leikminjasafn.is).

Tæplega tuttugu árum seinna hefur ýmislegt breyst. Í ársbyrjun 2019 gerði Leikminjasafn Íslands formlegt samkomulag við Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn og Þjóðminjasafn Íslands um að taka við þeim ómetanlega menningararfi sem stofnunin hafði varðveitt. Leikminjasafn Íslands í sinni gömlu mynd var formlega lagt niður þann 23. maí 2019 og Vinafélag um sviðslistaarfinn stofnað í kjölfarið. En Leikminjasafn Íslands lifir áfram í nýrri mynd innan veggja Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og byggir á sterkum grunni þeirra frumkvöðla sem unnu hörðum höndum að tryggja varðveislu á þessum sögulegu gersemum.

Leikminjasafn Íslands er lifandi safn í stöðugri þróun líkt og sviðslistin. Innan þess skarast fortíð, nútíð og framtíð sviðslista í landinu. Við sem þjóð eigum að flagga okkar merku sviðslistasögu, deila og rannsaka. Sviðslistina er kannski erfitt að fanga enda list augnabliksins, staðbundin og leiftrandi, en þetta er verkefnið sem bíður. Sviðslistasögu Íslands ber að virða og varðveita. Ekki má gleyma að henni verður líka að miðla. Gögn gera lítið gagn geymd óaðgengileg í kössum, möppum og á gömlum upptökum. Allt kapp verður lagt á að gera þessa dýrmætu arfleið landsins aðgengilega, miðla til samtímans, varðveita til framtíðar og opna til rannsókna.

Safnkosturinn er fjölbreyttur og stefnan er sett á að hann vaxi stöðugt. Gagnagrunnur um sýningar íslenskra leikhúsa og leikfélagi frá upphafi 20. aldar sem nú þegar er kominn í notkun (http://www.leikminjasafn.is/gagnagrunnur) og verður m.a. notaður til að miðla efninu til notenda. Framtíðarmarkmið er að setja saman skilmerkilega og yfirgripsmikla skrá yfir þær leiksýningar sem hafa verið á leiksviðum landsins. Þar verði hægt að finna skrá yfir allt efni tengt einstaka sýningum s.s. hverjir komu að sýningunni, leikhandrit og leikskrá á einum stað, sem gæti einnig vísað til annarra stofnana og gagna.

Framundan eru spennandi tímar og hinn stafræni heimur býður upp á ótal möguleika. Vonandi veitir Leikminjasafn Íslands rannsakendum og nemendum á sviði íslenskrar menningar innblástur en ekki síður sviðslistafólki af öllu tagi sem og almenningi. Sviðlistasaga Íslands er okkar allra.

Hátíðarkveðja,

Sigríður Jónsdóttir

Sérfræðingur – Leikminjasafn Íslands

Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn

LMS.png
Til baka