Nov 11, 2019

1796


Hrólfur eftir Sigurð Pétursson frumsýndur í Hólavallarskóla

Skólinn var kenndur við Hólavöll og stóð á lóðinni þar sem nú er Suðurgata 20, spottakorn norðan við þann stað sem varð síðar í áratugi aðalgrafreitur Reykvíkinga (Kirkjugarðurinn við Suðurgötu, Gamli kirkjugarðurinn).

Þetta var upphafið, en það átti sér aðdraganda. Í Skálholti höfðu piltar lengi haft í frammi hefðbundinn skrípaleik eða "gleðihátíð", eins og ein heimild nefnir það. Það var hin svonefnda Herranótt og fór hún fram við byrjun skólaársins. Hún fólst í því að sá piltanna, sem lenti í efsta sæti við röðun í efri bekk, var krýndur konungur, en aðrir léku ýmsa embættismenn, þ. á m. biskup. Einn þáttur Herranæturleiksins var svokölluð Skraparotspredikun, sem "biskupinn" hélt og var skopstæling á stólræðum presta. Til eru um tuttugu mismunandi afskriftir af henni, svo að eftir því að dæma hefur hún orðið vinsælt lestrarefni meðal almennings. Enginn veit hins vegar hver sá Skraparot var, sem ræðan er kennd við né heldur hvaðan Herranætur-heitið er komið; það gæti verið skopstæling á Herradeginum danska, stéttarþingi danskra aðalsmanna. Skraparot kann að hafa verið einhvers konar leikbrúða sem piltar báru í skrúðgöngu um staðinn og "biskupinn" ákallaði í athöfninni. Texti dagsins, sem lagt var út af, gefur hugmynd um tóninn: "Hver sem misbrúkar mínar dætur á jólunum, hann mun ei sjá mína dýrð á páskunum, en hver sem ei misbrúkar mínar dætur á jólunum, hann skal sjá mína dýrð á páskunum." Í textanum kemur fram hverjar þessar "dætur" eru: tóbaksstubbur og kertisskar, sem voru piltum mikil nauðsynjavara um löng vetrardægur í dimmum og köldum vistarverum.

1796skaHúsaskipan í Skálholti í lok 18. aldar eftir uppdrætti Brynjólfs Gíslasonar

Helstu heimildamenn okkar um Herranæturhald kynntust því eftir að skólinn var fluttur til Reykjavíkur. Í raun er sáralítiðvitað um það á meðan hann var í Skálholti. Á uppdrætti af húsaskipan þar frá síðari hluta 18. aldar er þó á einum stað merkt fyrir því sem er nefnt "theatrum" eða "sjón plats". Það er á milli svonefndrar reflaskemmu og stórabúrs (sjá myndina). Engar skýringar þekkjast á þessu "sjónarplássi" og er naumast önnur nærtækari en sú að þar hafi verið einhvers konar svið eða leikpallur þar sem krýningarathöfnin gæti hafa farið fram og/eða biskupinn haldið Skraparotspredikun. Kannski hófst athöfnin þar og endaði að lokinni prósessíu um staðinn. Miðað við stærðarhlutföll hefur þetta "theatrum" ekki verið mikið um sig, líkt og skotið inn á milli skemmu og búrs, og vart rúmað mjög fjölmennar uppákomur. Staðurinn er utarlega í húsaþyrpingunni, í suðausturátt frá dómkirkjunni, og stórt autt svæði fyrir framan hann þar sem rúmt hefði verið um áhorfendur. Sé þessi tilgáta rétt hefur Herranóttin verið orðin nokkurs konar "stofnun" í lífinu í Skálholtsstað, úr því hún átti sér þar svo fastan sess að hans er getið á þessum uppdrætti.

Um uppruna eða sögu Herranæturhalds er að öðru leyti mjög lítið vitað. Fræðimenn þóttust snemma greina ákveðin líkindi með vissum þáttum Herranæturinnar og vinsælum leik- eða leikjaformum sem tíðkuðust í Evrópu á miðöldum, s.s. "hátíð fíflanna" (l. festa stultorum) eða "drengjabiskupnum" (e. the boy bishop). Skopfærðar stólræður, grínpredikanir (fr. Sermons joyeux) eru einnig alþekkt fyrirbæri á miðöldum. Hvernig á því stendur að slík leikform, ættuð úr kaþólskum sið, skjóta upp kollinum á Íslandi um miðja átjándu öld, hefur hins vegar engum tekist að skýra á fullnægjandi hátt. Vitaskuld er hugsanlegt að þau hafi lifað hér á landi um aldir, án þess að vera getið í ritheimildum, en elstu handrit Skraparotspredikunar hafa ekki verið tímasett fyrr en um 1740-50. Hvergi kemur fram að helgileikir hafi átt sér stað í hinum kaþólsku dómkirkjum hér á landi, líkt og tíðkaðist úti í Evrópu, sem er raunar mjög eðlilegt; í Evrópu voru það einkum iðnaðar- og handverksmenn sem héldu uppi leiksýningunum í borgum álfunnar, en hér náðu þeir aldrei að mynda sjálfstæðar stéttir.

Þess hefur einnig verið getið til, og er ekki ótrúlegt, að í Herranæturhaldinu og ekki síst "dansinum" í kringum Skaparot komi fram áhrif frá leikdönsum og vikivökum þeim sem hér voru iðkaðir öldum saman. Í þeim bjuggust menn í ýmis fáránleg gervi og höfðu í frammi leikræna tilburði. Vel má vera að Skraparot hafi átt einhverja frændur í þeim geira skemmtanalífsins, þó að engum hafi tekist að ættfæra hann þangað með fullri vissu. Eftirtektarvert er að einmitt á síðari hluta 18. aldar taka andleg stjórnvöld að beita sér hart gegn hinum gömlu leikdönsum; þekktur klerkur skrifaði t.d. gegn þeim sérstakt rit, Leikafælu. Ljóst er að ýmiss konar ósiðsemi þreifst í skjóli þessa ærslafulla samkvæmishalds, sem enn var iðkað á sumum stærri bæja, og að lokum höfðu hreintrúarsinnar, píetistar, sitt fram og upprættu það með öllu. Voru piltar e.t.v. að andæfa, þó ekki væri nema með óbeinum hætti, þessum ofsóknum stjórnvalda gegn því sem þeir töldu gamalgróið, þjóðlegt skemmtanahald með því að hefja Skraparot á loft? Auðvitað er það aðeins getgáta; rætur Herranætur hverfa djúpt inn í myrkur forsögunnar - rétt eins og rætur leiklistarinnar sjálfrar sem við getum rakið aftur til heiðinna trúarathafna, frumstæðra trúðleika, frásagna- og sönghefða langt aftur fyrir allar ritaldir.

Hvað sem upprunanum líður er eitt víst: sömu örlög biðu að lokum Herranæturinnar og vikivakanna. Hún fluttist með skólanum til Reykjavíkur og með henni það sem má kalla fyrstu leikmuni eða leikminjar Íslandssögunnar: kóróna kóngsins, veldisspíra og ríkisepli; Leikminjasafnið myndi gefa töluvert fyrir að komast yfir þær, ef þær skytu óvænt upp kolli. Munu fyrstu leikritin eða leikþættirnir hafa verið flutt á Herranótt í Hólavallarskóla og þá komið í stað Skraparotspredikunar sem lagðist niður eftir að skólinn kom til Reykjavíkur. Þó er rétt að nefna að þau tvö leikrit, sem við vitum með vissu hvenær voru sýnd í skólanum, voru bæði leikin nærri jólum og hafa samkvæmt því tæpast verið hluti af venjubundnu Herranæturhaldi. En hversu sem því vék við, þá gerist það árið 1799 að biskup bannar piltunum að halda Herranótt. Skömmu áður höfðu þau ótíðindi gerst, að "konungur" lagði niður völd með yfirlýsingu um að hann vildi ekki vera meiri en aðrir þegnar sínir og töldu sumir íslenskir valdsmenn að þar gætti áhrifa frá hinni ógurlegu byltingu í Frakklandi sem skekið hafði Vestur-Evrópu allt frá árinu 1789. Skólinn mátti að sjálfsögðu ekki verða gróðarstía slíkrar villimennsku; þetta voru nú einu sinni embættismenn framtíðarinnar og eins gott að ala þá upp í hollustu við sinn einvalda kóng.

hrolfur

Þegar skólasveinar tóku fyrst að hugsa sér til hreyfings við sjónleikahald, var vandinn sá að engin leikrit höfðu verið skrifuð á íslensku, a.m.k. engin sem hægt var að flytja á því fábrotna sviði sem hrófa mátti upp í skólastofu Hólavallarskóla. Leiktexta þekktu skólasveinar, þó þeir hefðu ekki séð neinar leiksýningar; í náminu kynntust þeir textum klassískra höfunda, þ. á m. rómversku leikskáldanna Plautusar og Terentiusar. Í þessari stöðu lá beinast við að snúa sér til þeirra, sem setið höfðu við brunna heimsmenningarinnar úti í Kaupmannahöfn og biðja þá um að setja saman brúklega texta.  Þar urðu fyrstir fyrir dómkirkjupresturinn í Reykjavík, séra Geir Vídalín, og góðvinur hans frá Hafnarárunum, Sigurður Pétursson, lögreglustjóri í Reykjavík og sýslumaður í Gullbringu- og Kjósarsýslu. Þessir herramenn brugðust vel við og hristu fram úr ermum sínum leikrit fyrir piltana: Geir Vídalín Bjarglaunin (Brand), að öllum líkindum fyrsta frumsamda leikritið sem hér var leikið á sviði, og Sigurður Pétursson, gamanleiki sína tvo, Hrólf eða Slaður og trúgirni (frumflutt 5.desember 1796) og Narfa eða Hinn narraktuga biðil (frumflutt 28. janúar 1799). Þrátt fyrir takmörkuð kynni af leiklist, virðist ekki hafa vafist fyrir piltum að stíga á svið og skapa dramatískar persónur, enda voru lærifeður þeirra sigldir menn og hafa vísast leitt þá fyrstu skrefin.

Í leiklistar- og bókmenntasögunni er venjan að telja leikrit Sigurðar Péturssonar fyrstu íslensku leikritin og nefna Sigurð "föður íslenskrar leikritunar". Það nafn ber hann með rentu, eins þótt Geir Vídalín hafi verið aðeins á undan honum, að ekki sé minnst á fáeina höfunda eldri samtalstexta sem aldrei voru leiknir, svo vitað sé, og ofrausn væri að flokka sem dramatísk verk. Þekktast þessara verka er Sperðill sr. Snorra Björnssonar á Húsafelli sem út kom á bók fyrir nokkrum árum. Sem höfundur er Sigurður einfaldlega miklu fremri Geir og leikrit hans voru mikið leikin á 19. öld og jafnvel öðru hvoru allt fram á okkar daga. Þau hafa að vísu verið sjaldséð á sviði síðari áratugi, en það breytir engu um sögulegt gildi þeirra. Sigurður var svo góður húmoristi að enn er vel hægt að hlæja að persónum hans í flutningi snjallra leikara; það sannaðist enn þegar Ríkisútvarpið flutti Narfa fyrir nokkrum árum. Fyrirmyndir sínar sótti hann umfram allt til danska skáldsins Ludvigs Holberg sem tók sitt munstur svo aftur frá Moliere, commedia dell´arte og klassískum gamanleikjum fornaldar: ein aðalpersóna er sérstaklega höfð að skotspæni fyrir ódyggða sakir eða aulaháttar, en atburðarásin annars fléttuð í kringum raunir ungra elskenda sem meinað er að unnast. Þetta eru klisjubókmenntir sem standa og falla með skopskyni höfundar og auga fyrir mannlegum sérkennum. Af því átti Sigurður nóg og það skipti sköpum.

Hrólfur var fyrst prentaður árið 1818 (hét þá raunar Auðunn lögréttumaður), fyrir atbeina hins mikla velgjörðamanns Íslendinga, Rasmusar Rask, en það var ekki fyrr en árið 1846 að bæði leikrit Sigurðar voru prentuð ásamt ljóðmælum hans. Brandur fékk þá einnig að fljóta með, þó að sumum þætti það kynleg ráðstöfun. Enginn vafi á því að bókin átti mikinn þátt í að ýta undir leiksýningar víða um land. Sú upplýsingarstefna, sem Sigurður Pétursson aðhylltist, vilji hans til að tala um fyrir fólki og bæta þar með heiminn með hjálp leiksviðsins, kemur glöggt fram í íslenskum leikskáldskap langt fram yfir miðja 19. öld og lifnar að nýju undir lok aldarinnar fyrir áhrif frá raunsæisstefnunni sem þá var í mestu gengi. Að því leyti markaði Sigurður Pétursson stefnu, sem lengi lifði þó að aðrir vindar tækju að blása um íslenska leikhússali.

Myndir: Sigurður Pétursson
SE, 123: Húsaskipan í Skálholti í lok 18. aldar eftir uppdrætti Brynjólfs Gíslasonar.
(SE, 218): Leikendaskrá í frumflutningi á Slaðri og trúgirni (Hrólfi) 5. des. 1796. Fyrsti "teaterseðill" eða leikskrá á Íslandi.

lmsigpet.jpg
Til baka