Árið 1850 var reist stór timburbygging, tvílyft, á lóðinni við suðurenda Aðalstrætis, þar sem Herkastalinn stendur nú. Á neðri hæðinni var rúmgóður salur til veitingasölu og samkomuhalds, auk biljarðstofu, en á efri hæðinni voru gistiherbergi. Þetta hús leysti af hólmi eldra klúbbhús sem var byggt um 1800 og stóð aðeins sunnar við nýja húsið. Gamla húsið var ekki rifið, þegar nýtt hús tók við hlutverki þess, heldur byggt saman við það. Húsið gekk undir ýmsum nöfnum (Nýi klúbbur, Gildaskálinn, Skandinavia) og varð aðalveitinga- og samkomuhús bæjarins næstu áratugi.
Þó að ekki væri fast svið í húsinu var það svo rúmgott að þar mátti koma upp leiksýningum. Varð Jón Guðmundsson ritstjóri fyrstur til þess árið 1854 og var þá í fyrsta sinn selt inn á leiksýningu í Reykjavík. Frægastar í sögu hússins eru þó sýningar þær sem Sigurður málari gerði leiktjöld við og "tableaux" hans á fyrri hluta sjöunda áratugarins. Að þeim stóðu einkum nemendur Prestaskólans sem var þá tekinn til starfa í Reykjavík og var lengi helsti vísir að háskóla í höfuðstaðnum. Þó að nútímamönnum hefði tæpast þótt mikið til þessar sýninga koma, lyftu þær íslenskri leiklistarviðleitni á hærra stig og veittu henni í nýjan farveg.
Árið 1866 var efri hæðin tekin undir sjúkrahússtarfsemi og varð eftir það óhægra um vik að leika á neðri hæðinni. Engu að síður hélt veitingasala áfram, veislur og dansleikir, þó að sjúklingar væru á hæðinni fyrir ofan. Á áttunda áratugnum var oftast leikið í Glasgow, en á fyrstu árum níunda áratugarins bar enn við að leikið væri í gamla Gildaskálanum; m.a. var Nýársnótt Indriða Einarssonar sýnd þar veturinn 1879-1880. Í auglýsingu Þjóðólfs var tekið fram að leiksýningarnar færu fram "á spítalanum", talandi dæmi um þröngbýlið í Reykjavík þeirra tíma.
Húsið stóð til 1916 og var síðustu tvo áratugina í eigu Hjálpræðishersins.
Heim.: Hjörleifur Stefánsson (ritstj.), Í Kvosinni (Reykjavík 1987), Páll Líndal, Reykjavík - Sögustaður við Sund, 2. bindi (Reykjavík 1987), Sveinn Einarsson, Íslensk leiklist I (Reykjavík 1991)