Málþing og ráðstefnur

Málþing um íslenska leikmyndagerð og framlag Steinþórs Sigurðsonar

Laugardaginn 10. mars 2011 var haldið í Iðnó málþing um stöðu íslenskrar leikmyndagerðar í samtímanum og framlag Steinþórs Sigurðssonar til hennar. Steinþór er einn af okkar merkustu leikmynda- og búningahöfundum og braut á sínum tíma blað í sögu leikmyndagerðar með verkum sínum í Iðnó. Hann var aðalleikmynda- og búningahöfundur Leikfélags Reykjavíkur frá 1960 til 2000 og vakti snemma mikla athygli og aðdáun fyrir snjallar lausnir á sviðinu í Iðnó. Fyrir þetta framlag sitt veitti Félag íslenskra leikdómara honum Silfurlampann árið 1972 og var það í fyrsta skipti sem sú viðurkenning féll í skaut leikhúslistamanni sem var ekki leikari.

Leikminjasafn Íslands opnaði sýningu í Iðnó í 2011 sem helguð var verkum Steinþórs. Málþingið var haldið í tilefni af henni og var tvískipt. Fyrst ræddi Ilmur Stefánsdóttir, myndlistarmaður og leikmynda- og búningahöfundur við Steinþór. Að því loknu voru framsöguerindi og pallborðsumræður. Framsögumenn voru Snorri Freyr Hilmarsson, Þórunn Sigríður Þorgrímsdóttir, Rebekka Ingimundardóttir og Jón Páll Eyjólfsson. Pallborðsumræður voru undir stjórn Kolbrúnar Halldórsdóttur, leikstjóra og stjórnarformanns Leikminjasafns Íslands.

Málþing um framlag Ríkisútvarpsins til íslenskrar leiklistar

Laugardaginn 13. nóv. 2010 gekkst Leikminjasafnið fyrir málþingi um framlag Ríkisútvarpsins til íslenskrar leiklistar í áttatíu ár. Þingið var haldið í tilefni þess að áttatíu ár voru liðin frá því að stofnunin tók til starfa og fór fram í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins.

 2malti3

Ríkisútvarpið hóf að flytja leikrit fljótlega eftir að það tók til starfa haustið 1930. Framan af var þessi leikflutningur fremur stopull, en hann reyndist afar vinsæll meðal hlustenda. Hann óx því jafnt og þétt og um 1950 voru laugardagsleikritin orðinn fastur liður í dagskránni. Nokkru síðar bættust framhaldsleikritin við og urðu ekki síður vinsæl. Ríkisútvarpið varð mikilvægur starfsvettvangur leikarastéttarinnar sem um þessar mundir var að stíga skrefið yfir í atvinnumennskuna.

Þegar Sjónvarpið hóf göngu sína árið 1966 varð nýtt leikið efni einnig áberandi í dagskrá þess. Sjónvarpið tók iðulega upp íslensk leikrit og jafnvel erlend af fjölum leikhúsanna, auk þess sem það framleiddi sjálft verk, þar á meðal verk eftir sum af fremstu leikskáldum þjóðarinnar, Guðmund Kamban og Jóhann Sigurjónsson. Þá voru íslenskir höfundar hvattir til að skrifa fyrir miðilinn, þó að útkoman þætti misjöfn. Á síðari árum hefur hins vegar dregið úr gerð leikins efnis í sjónvarpi og útvarpi allra landsmanna, þó að vöxtur innlendrar kvikmyndagerðar utan stofnunarinnar hafi að nokkru bætt það upp. Margir sakna þess þó mjög að stofnun með menningarlegar skyldur Ríkisútvarpsins skuli ekki sinna þessum þætti betur.

 2malti1

Eitt af helstu verkefnum Leikminjasafns Íslands er að ýta undir rannsóknir og fræðilega og gagnrýna umræðu um íslenskt leikhús. Af því tilefni ákvað safnið að efna til málþings um þetta efni sem er stór þáttur innlendrar leiklistarsögu tímabilsins. Þarna voru flutt fjögur stutt erindi, fræðilegs efnis: Gunnar Stefánsson talaði um upphaf útvarpsleiklistarinnar, Jón Viðar Jónsson um útvarpsleikarann Þorstein Ö. Stephensen, Hallmar Sigurðsson um skráningu leikins efnis í Sjónvarpi og Nanna Guðmundsdóttir um Spaugstofuna í fortíð og nútíð. Þá var gefið fundarhlé og að því loknu ræddu þau Páll Baldvin Baldvinsson og Þorgerður E. Sigurðardóttir stöðu mála nú. Málþinginu lauk með pallborðsumræðum þar sem fyrir svörum sátu auk Páls Baldvins og Þorgerðar Páll Magnússon útvarpsstjóri og Viðar Eggertsson verkefnisstjóri leiklistar hjá RÚV. Kolbrún Halldórsdóttir stjórnarformaður Leikminjasafnsins stýrði málþinginu. Aðsókn var mjög góð, líkt og á fyrra málþingi safnsins.

Málþing um íslenska leiklistarfræði

Laugardaginn 14. nóvember 2009 efndu Leikminjasafn Íslands og Leiklistardeild Listaháskóla Íslands til málþings um íslenska leiklistarfræði. Málþingið var einnig haldið í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands og Hugvísindasvið Háskóla Íslands. Mjög góð aðsókn var að því, þrátt fyrir margs konar viðburði úti um allan bæ, þar á meðal heilan þjóðfund í Laugardagshöllinni. Á málþinginu voru flutt eftirtalin erindi:

Ólafur J. Engilbertsson, sagnfræðingur og leikmyndahöfundur: "Rétt landslag eða róttæk list?" - sögunni miðlað á sviðinu.

Ingibjörg Björnsdóttir, listdanskennari: "Ausdruckstanz" á íslensku leiksviði - Um dansarann Ellen Kid.

Magnús Þór Þorbergsson, lektor við Leiklistardeild Listaháskóla Íslands, "Hvað eigum við að kalla instructör?" - Nokkrar hugleiðingar um stöðu leikstjórans í íslensku leikhúsi á 3. áratugi síðustu aldar.

Jón Viðar Jónsson, forstöðumaður Leikminjasafns Íslands: Að dæma eða ekki að dæma. Hugleiðingar um tilvistarvanda íslenskrar leiklistargagnrýni á fyrri hluta síðustu aldar.

Trausti Ólafsson, leiklistarfræðingur: Nýjársnóttin: Gleðileikur Indriða Einarssonar og íslenskir samtímaviðburðir.

Björn G. Björnsson, leikmyndahöfundur: Hvernig geymist leiklist?

Sveinn Einarsson stjórnarformaður Leikminjasafnsins setti málþingið og Dagný Kristjánsdóttir, prófessor við H.Í. stýrði umræðum.

Málþingið átti sér nokkurn aðdraganda. Á síðari árum hefur orðið töluverður vöxtur í rannsóknum á íslenskri leiklist. Staða fræðigreinarinnar innan fræðasamfélagsins hefur verið að styrkjast, ekki síst eftir að Leikminjasafn Íslands var stofnað fyrir sex árum og fræðakennsla var efld í Leiklistardeild Listaháskóla Íslands. Hugmyndin með málþinginu var fyrst og fremst sú að fylgja þessari þróun eftir, vekja athygli á þessum geira íslenskra menningarrannsókna og skapa um leið vettvang fyrir fræðimenn og aðra sem áhuga hafa að koma saman og skiptast á skoðunum.

Leikminjsafnið væntir þess að þetta framtak verði upphaf á aukinni og fjölbreyttari umfjöllum um íslenskt leikhús, ekki síst fræðilega og sögulega. Slík málþing gætu þá orðið árviss viðburður, hugsanlega í tengslum við útgáfur eða annað sem upp kann að koma. Þær undirtektir, sem þingið fékk, taka af allan vafa um að jarðvegur er hér fyrir því.