May 18, 2020

Vestfirsk leiklist


Sýning í Safnahúsi Ísafjarðar - opnuð 2. febrúar 2013

vlasgeir
Ásgeirsverslun. Leikið var í Ásgeirspakkhúsi og stendur það enn og er nú íbúðarhús (Aðalstræti 13). Einnig var leikið í húsi Torfa Thorgrímsen (Mjallargata 5)

Svipmyndir úr langri sögu

Áhugaleiklistin hefur á aðra öld verið merkur þáttur í menningarlífi Íslendinga. Þegar þjóðin tók hægt og bítandi að flytjast úr sveit í þéttbýli á seinni hluta nítjándu aldar varð til þörf fyrir nýjar tegundir andlegrar upplyftingar og dægrastyttingar. Baðstofumenning sveitanna hlaut að hverfa, en hvað átti að koma í staðinn? Þetta var fyrir daga nútíma fjölmiðlunar, bóka- og blaðaútgáfu, svo að þarna myndaðist tóm sem varð að fylla með einhverjum ráðum.

vlskugga
Leikhópur frá Hesteyri í Jökulfjörðum í leikferð með Skugga-Svein

Þó að Reykvíkingar tækju snemma forystu í þeim efnum, leið ekki á löngu áður en aðrir landsmenn fetuðu í fótspor þeirra. Vestfirðingar reyndust hér í engu eftirbátar annarra og má því til staðfestingar nefna að fyrst er leikið á Ísafirði, svo vitað sé, veturinn 1856-57, nokkru fyrr en fyrst er leikið á Akureyri. Þá voru aðeins tvö ár liðin frá því að fyrst var selt inn á leiksýningu í Reykjavík. Á Ísafirði var starfrækt leikfélag á tíunda áratug nítjándu aldar og skömmu síðar var stofnað leikfélag á Flateyri. Um líkt leyti er einnig tekið að leika á Patreksfirði og Bíldudal, og fast á eftir fylgja staðir eins og Bolungarvík, Þingeyri og Suðureyri. Í sveitunum er einnig vitað um leiksýningar: við Patreksfjörð sunnanverðan, í Ketildölum, Dýrafirði, Ingjaldssandi og við Djúpið.

vljonthoÍ Selárdal var sett á svið árið 1913 frumsamin leikgerð eftir Manni og konu Jóns Thoroddsens. Saga Jóns er sprottin upp úr vestfirskum jarðvegi að miklu leyti og ýmsar persónur hennar taldar byggðar á raunverulegum fyrirmyndum við Breiðafjörð og Arnarfjörð. Leikritið nefndist Mátulega komið og var það frumsýnt í stofunni í Selárdal á þrettándanum 

vlkamban

 

 

 

 

 

 

 

 

  
Guðmundur Kamban var alinn upp á Bakka í Bakkadal, sem er einn Ketildala. Þar var fyrsta leikrit hans, sem vitað er um, leikið í fiskihúsi Jóns, föður hans, sem var mikill athafnamaður á staðnum. Leikritið hét Svikamyllan og fjallaði á lítt dulbúinn hátt um viðkvæm ástamál á Fífustaðaheimilinu, einu helsta heimili sveitarinnar. Mun Fífustaðafólki hafa verið lítt skemmt við þetta uppátæki hins unga skáldmennis  

 vlskhansvljacobs
Til vinstri: Magnús Ólafsson sem Skrifta-Hans í Ævintýri á gönguför. Til hægri: Halldór Ólafsson sem Jacobsen ölgerðarmaður í Gjaldþrotinu 1928. Magnús og Halldór og fjölskyldur þeirra voru burðarásar í ísfirsku leikhúslífi á fyrri hluta 20. aldarinnar

Fyrstu leikfélögin urðu ekki mjög langlíf og brátt fór svo að félagasamtök á borð við stúkur, ungmennafélög, íþrótta- og kvenfélög, tóku sjónleikahald að mestu að sér. Þau félög þurftu tekjur til starfsemi sinnar og mörg lögðu þau ýmsum þjóðþrifamálum í bæ og byggð gott lið. Leiksýningar reyndust snemma eftirsótt skemmtun meðal almennings og því skiljanlegt að félögin vildu ekki sleppa af þeim hendi. Smám saman jókst þó skilningur á nauðsyn sjálfstæðra leikfélaga, félaga sem settu vöxt og viðvang listarinnar ofar öðru og leituðust við að nýta sér þá faglegu kunnáttu og reynslu sem til var orðin í landinu. Eðlilega tóku Ísfirðingar þar fljótt forystu og hefur verið að heita má samfelld leikstarfsemi á Ísafirði allt frá 1920 og jafnvel lengur. Á síðari árum hefur leiklistin víða átt erfitt uppdráttar sakir fólksflótta og erfiðra aðstæðna og sums staðar hefur leikstarf að mestu legið niðri um alllanga hríð. Nokkur teikn eru þó á lofti um að þetta sé nú að breytast og er þess óskandi að framhald verði á því.

vlskusveSkugga-Sveinn Bolungarvíkur. Ýmsir staðir á Íslandi státuðu af einum leikara sem þótti öðrum betur fallinn til þess að leika hálftröllið Skugga-Svein í þjóðarleik Matthíasar Jochumssonar. Bolungarvík átti einn slíkan sem var Guðmundur Eyjólfsson sjómaður. Hann lék Skugga fyrst árið 1907 og síðast réttri hálfri öld síðar, þá sjötíu og sjö ára gamall. Þá hafði hann að eigin sögn leikið hlutverkið 60-70 sinnum

vlgudpal

 

 

 

 

 

 
Guðmundur Pálsson beykir í hlutverki sínu sem Bjarni bóndi á Hellum í Lénharði fógeta eftir Eina­r H. Kvaran 1928 í leikstjórn Haraldar Björnssonar. Guðmundur lék bæði Grasa-Guddu og Galdra-Héðin í fyrstu upp­færslu Skugga-Sveins á Ísafirði og var síðan í áratugi einn vinsælasti leikari bæjarins

Á sýningu Leikminjasafns Íslands, sem sett er upp í samvinnu við Héraðsskjalasafn og Byggðasafn Ísafjarðar, er leitast við að gefa ofurlitla mynd af þessum þætti í menningarlífi Vestfirðinga. Um heillega eða tæmandi úttekt getur vitaskuld ekki orðið að ræða, heldur aðeins fáeinar svipmyndir, fyrstu kynningu á efni sem lítt hefur verið rannsakað og aldrei sem heild. Mest hefur að vonum verið fjallað um leikstarf á Ísafirði. Ágætt afmælisrit kom út á þrjátíu ára afmæli Leikfélags Ísafjarðar árið 1952 og er það mikilvæg heimild ekki aðeins um starf félagsins heldur söguna frá upphafi. Í Sögu Ísafjarðar gerir Jón Þ. Þór efninu góð skil og síðar hefur Magnús Aspelund ritað fróðlega ritgerð um það í Ársrit Sögufélags Ísafjarðar. Litli leikklúbburinn hefur gefið út afmælisrit þar sem ýmsan fróðleik er að finna. Hvað varðar leikstarf á hinum smærri stöðum eru heimildir ákaflega misjafnar og víða brotakenndar. Jón Þ. Þór segir frá bolvísku leikstarfi fram eftir öldinni í Sögu Bolungarvíkur og Guðjón Friðriksson rekur upphafið á Patreksfirði í ritgerð í Ársriti Sögufélags Ísafjarðar. Gunnar M. Magnúss greinir frá fyrstu skrefum á Suðureyri í Súgfirðingabók sinni og í riti Kjartans Ólafsson Fólk og firðir fundust einnig gagnlegar upplýsingar. Frá leikstarfi í Ketildölum er lifandi frásögn í endurminningum séra Sigurjóns Einarssonar, Undir hamrastáli. Þá birtir Hafliði Magnússon skemmtileg sýnishorn af umræðum Bílddælinga um leiklist á staðnum í bók sinni, Gömul blöð frá Bíldudal 1903 - 1914. Annars hefur orðið að styðjast við efni úr leikskrám, afmælisritum og þá heimildamenn sem náðst hefur í.

Jón Viðar Jónsson

vlsigmagSigrún Magnúsdóttir og Ingibjörg Steinsdóttir léku báðar mikið með Leikfélagi Ísafjarðar á þriðja áratugnum. Þær urðu síðar þjóðkunnar leikkonur og störfuðu að leiklist alla ævi

vleghefl
Úr sýningu Leikfélags Flateyrar á Ég hef lifað í þúsund ár eftir Brynju Benediktsdóttur

vlallir
Leikfélagið Baldur á Bíldudal flytur Allir í verkfall eftir Duncan Greenwood 1970. F.v. Guðbjörg Kristinsdóttir, Örn Gíslason og Theódór Bjarnason. Fremst situr Hannes Friðriksson

vldimmal
Elfar Logi Hannesson flytur einleik sinn Dimmalimm, byggðan á ævintýri Muggs

vldraumu
Árið 1998 var Leikfélagið Hallvarður Súgandi endurreist á Suðureyri og hefur starfað síðan

vlpatro
Leikfélag Patreksfjarðar sýndi Línu Langsokk eftir Astrid Lindgren 2006

 Sýningarspjöld

Kynning á sýningunni

 

sgeirsverslun.jpg
Til baka