May 8, 2020

Sviðsmyndir og sjónhverfingar


Leikmyndir Steinþórs Sigurðssonar í Iðnó 2011

Fáir leikmyndateiknarar hafa markað jafn djúp spor í sögu Leikfélags Reykjavíkur og Steinþór Sigurðsson. Steinþór varð aðalleikmyndateiknari - eða leiktjaldamálari eins og það hét þá - félagsins á sjöunda áratugnum. Leikmyndir hans vöktu snemma athygli og aðdáun, ekki síst fyrir fjölbreytni, vald hans á ólíkum stíltegundum og snilldarlega nýtingu á sviðinu í Iðnó. Steinþór stundaði listnám við Konstfackskolan í Stokkhólmi á árunum 1950-1955 með leikmyndagerð sem hliðargrein, dvaldi við nám á Spáni um hríð og sótti námskeið hjá tékkanum Josef Svoboda í Noregi. Eftir heimkomuna sneri hann sér að kennslu og myndlist.

ssliktilLeikmynd úr sýningunni Lík til sölu eftir Dario Fo (1965). Leikstjóri var Christian Lund

Árið 1959 hóf Steinþór að gera leikmyndir og búninga hjá Leikfélagi Reykjavíkur. Aðstaða til leikmyndagerðar var þá mjög ófullkomin hjá félaginu, leikmyndir voru að miklu leyti smíðaðar á sviðinu og geymdar í skúr á Tjarnarbakkanum eða breitt yfir þær í portinu. Síðar batnaði aðstaðan þó nokkuð, vinnurými fékkst utan hússins og var leikmyndin við Sumarið ´37 eftir Jökul Jakobsson sú fyrsta sem þar var unnin. Þó hlaut ávallt að reyna mjög á hugkvæmni og útsjónarsemi leikmyndahöfundarins og í því átti Steinþór fáa, ef nokkurn sinn líka. Hann starfaði samfellt með LR í rúm fjörutíu ár, síðast í Borgarleikhúsinu, auk þess sem hann hefur gert leikmyndir fyrir Þjóðleikhúsið, Leikfélag Akureyrar, Nemendaleikhúsið, Íslensku óperuna, ýmsa sjálfstæða hópa, áhugahópa á landsbyggðinni og leikhús erlendis.

ssjorundLeikmynd úr sýningunni Þið munið hann Jörund eftir Jónas Árnason (1970). Leikstjóri var Jón Sigurbjörnsson

Jafnframt leikhússtarfinu hefur Steinþór stundað myndlist. Hans viðhorf er þó annað gagnvart hlutverki leikmyndateiknarans sem hann telur að eigi að vera sveigjanlegur í stíl og hlusta á sjónarmið leikstjóra og höfundar. Í verkum hans fyrir leikhús má greina öll möguleg stílbrigði. Steinþór leggur mikla áherslu á notagildi leikmyndarinnar og að hið sjónræna sé í reynd aukaatriði í samanburði við það hvernig leikmyndin nýtist leiknum. Má segja að þetta sjónarmið sé í góðu samræmi við þá strauma sem voru uppi á árunum 1950 - 1970, svo sem hið "fátæka leikhús" Grotowskis og hið "auða rými" Peters Brook.

ssotemjanLeikmynd úr sýningunni Ótemjan eftir William Shakespeare (1981). Leikstjórn var Þórhildur Þorleifsdóttir

Árið 1972 hlaut Steinþór Silfurlampann, viðurkenningu Félags íslenskra leikdómara, og nokkrum árum síðar styrk úr Minningarsjóði frú Stefaníu Guðmundsdóttur. Var það í fyrsta skipti sem þessar viðurkenningar voru veittar leiklistarmanni sem var ekki leikari. Silfurlampann fékk Steinþór fyrir leikmyndir sínar í sýningum Leikfélags Reykjavíkur á Dómínó Jökuls Jakobssonar, Plóg og stjörnum eftir Sean O´Casey og Útilegumönnum Matthíasar Jochumssonar.

ssalmansBúningar úr sýningunni Almansor konungsson eftir Ólöfu Árnadóttur (1965). Leikstjóri var Helgi Skúlason

ssvolponBúningur úr sýningunni Volpone eftir Ben Jonson (1973). Leikstjóri var Steindór Hjörleifsson en leikgerðin var eftir Stefan Zweig

Sýningarskrá

 

ssteinto.jpg
Til baka