May 8, 2020

Leiklist í Hafnarfirði


Sýning í Gúttó - opnuð 6. júní 2010

hfhringu
Kvenfélagið Hringurinn sýndi Apaköttinn 1936. Sitjandi f.v. Ágústa Guðmundsdóttir og Eiríkur Jóhannesson. Standandi f.v. Sigurður Gíslason, Elín Guðjónsdóttir og Daníel Bergmann

Í Hafnarfirði hefur verið leikið í meira en 130 ár. Þar hafa bæði starfað áhugaleikfélög og atvinnuleikhús, auk þess sem ýmsir þjóðkunnir leikarar eru hafnfirskir að uppruna eða hafa einhvern tímann tyllt niður fæti á hafnfirskum leiksviðum. Á nítjándu öld urðu Hafnarfirðingar flestum, ef ekki öllum, fyrri til að koma sér upp leikhúsi og síðar fékk Leikfélag Hafnarfjarðar ágæta aðstöðu í Bæjarbíói. Þá hefur löngum verið mikið leikið í skólum bæjarins, bæði barnaskólanum og Flensborgarskóla. Leiksaga Hafnfirðinga er því, þegar á allt er litið, bæði löng og fjölbreytt og á köflum metnaðarmikil. Ekki er vitað með vissu hvenær leiksýningar hefjast í Hafnarfirði, en þó er nokkuð ljóst að það var áður en Gúttó kom til sögunnar, um 1880. Sýnt var í Linnetspakkhúsi svonefndu og var Skugga-Sveinn Matthíasar Jochumssonar leikinn. Frá þessu segir í endurminningum Knuds Ziemsens borgarstjóra í Reykjavík. Með tilkomu Gúttó breyttist leikaðstaða auðvitað til mikilla muna, þó að framan af muni Hafnfirðingar ekki hafa hugsað svo hátt að stofna sérstakt leikfélag. Þó er getið um leikfélag í blaðinu Kvási sem var gefið út í bænum á árunum 1908 - 09, en litlar heimildir eru að öðru leyti um starf þess.

Góðtemplarahúsið (Gúttó)

Gúttó í Hafnarfirði er eitt af allra fyrstu góðtemplarahúsum landsins. Það var byggt árið 1886 og vígt 17. desember sama ár. Húsið var í fyrstu aðeins sá hluti sem nú er samkomusalur. Árið 1907 var byggð þverálma sunnan við það með leiksviði og húsvarðaríbúð og árið 1929 var lokið við að byggja aðra þverálmu norðan við það í þeirri mynd sem nú er.

hfgutto

Gúttó var fyrsta eiginlega samkomuhús Hafnfirðinga og aðalmenningarmiðstöð bæjarins í áratugi. Þar var leikið frá upphafi. Leikfélag Hafnarfjarðar var stofnað árið 1936 og starfaði fyrstu árin í Gúttó, en veturinn 1944-45 flutti það starfsemi sína í hið nýja bíóhús bæjarins.

Góðtemplarahús risu upp um allt land í kringum aldamótin 1900 og voru í reynd fyrstu fjölnota samkomuhúsin. Því miður eru flest þessara húsa horfin sjónum og ekki álitamál að þar hefur mikilvægur hluti af íslenskum menningararfi farið forgörðum. En Gúttó í Hafnarfirði stendur enn og er trúlega besta dæmið, sem við eigum, um íslenskt landsbyggðarleikhús frá fyrri hluta síðustu aldar.

Þorsteinn Egilsson

hftorsteHafnfirðingar eignuðust snemma eigið leikskáld. Það var Þorsteinn Egilsson, kaupmaður (1842 - 1911). Þorsteinn var sonur Sveinbjarnar Egilssonar, skálds og rektors Lærða skólans í Reykjavík, og bróðir Benedikts Gröndal, skálds. Hann varð stúdent úr Lærða skólanum í Reykjavík árið 1860 og gerðist síðar umsvifamikill kaupmaður og útgerðarmaður í Hafnarfirði. Eftir að Þorsteinn fluttist til Hafnarfjarðar gerðist hann einn helsti frumkvöðull leiksýninga í bænum. Íslenska þjóðin átti á þessum tíma ekki mikið af leikritum og urðu Skugga-Sveinn Matthíasar Jochumssonar og Nýársnótt Indriða Einarssonar snemma flestum öðrum vinsælli. Þó voru leikir Sigurðar Péturssonar sýslumanns (1759 - 1827), Hrólfur og Narfi, einnig mikið leiknir. Öll voru þessi leikrit sýnd í Hafnarfirði fyrir aldamótin 1900. Þess má til gamans geta að Eyjólfur Illugason járnsmiður þótti sýna mikil tilþrif í túlkun Skugga-Sveins, svo að orð fór af um allt land. Eyjólfur var einnig í fremstu röð hafnfirskra góðtemplara um langt skeið.

Hugað að stofnun leikfélags

Leikfélag Reykjavíkur var stofnað árið 1897 og var starf þess mjög öflugt frá upphafi. Fordæmi þess sýndi hversu miklu skipti að stofna sérstakt félag um leikstarfið og víða um land spruttu upp leikfélög á næstu árum og áratugum. Forsvarsmenn annarra félaga og samtaka, svo sem kvenfélaga, bindindisfélaga og ungmennafélaga, voru þó ekki alltaf hrifnir af slíkri ráðabreytni, því að þau óttuðust að með því myndu félög þeirra missa tekjur. Þá var ekki óalgengt að menn settu á svið leiki til að afla fjár til sérstakra framkvæmda eða líknarmála. Leikáhugamenn bentu hins vegar á nauðsyn þess að nýta tekjurnar af sýningunum til að koma upp betri sviðsbúnaði og vinnuaðstöðu. Um þetta var stundum tekist á undir yfirborðinu. Ekki fer miklum sögum af slíkum átökum í Hafnarfirði, en staðreyndin er þó sú að sjálfstætt leikfélag nær þar fótfestu tiltölulega seint, eða á fjórða áratug síðustu aldar. Fram að því höfðu ýmis félög staðið fyrir sýningum, ekki síst Kvenfélagið Hringurinn, sem var stofnað árið 1912. Voru þess jafnvel dæmi að félagskonur væru sjálfar í öllum hlutverkum.

Steinn Sigurðsson

hfsteinnLeikstarf á landsbyggðinni hefur alltaf átt mikið undir einstökum áhugamönnum sem náð hafa að kveikja áhuga og metnað starfsfélaga sinna. Hafnfirðingar hafa átt nokkra slíka eldhuga sem markað hafa spor í leiksögu bæjarins. Á árunum í kringum 1920 átti Steinn Sigurðsson kennari (1872 - 1940) drýgstan þátt í leikstarfi bæjarins og setti þá á svið að minnsta kosti fjóra af sjónleikjum sínum. Steinn lék reyndar ekki sjálfur, en stóð fyrir sýningunum, stýrði æfingum og annaðist gerð leiktjalda. Gísli Jónsson listmálari fékkst einnig við leiktjaldamálun á þessum árum. Jón Bergsteinn Pétursson mun oftast hafa farið með aðalhlutverkin í leikritum Steins, en hann var viðriðinn leikstarf í bænum um þrjátíu ára skeið.

Síðasti leikur Steins sem hann setti á svið var Stormar árið 1924. Það var leikið af Leikfélagi Reykjavíkur tveimur árum síðar. Í leikritinu er fjallað um stéttaátök þau, sem tekin voru að setja aukinn svip á þjóðlíf þessara ára, og er þetta eitt fyrsta dæmi þess að þau séu tekin til meðferðar á íslensku sviði.

Leikfélag Hafnarfjarðar

Leikfélag Hafnarfjarðar hóf göngu sína árið 1936. Var fyrsta viðfangsefni þess leikrit Steins Sigurðssonar, Almannarómur. Eftir kraftmikla byrjun dofnaði yfir félaginu, en árið 1943 hljóp í það nýr kraftur og starfaði félagið eftir það samfleytt í rúma tvo áratugi. Fyrstu árin lék það í Gúttó, en fluttist í Bæjarbíó þegar það var opnað árið 1945.

hfsvefnlLeikarar og leikstjóri Svefnlausa brúðgumans 1956: Frá vinstri: Eyjalín Gísladóttir, Sigurður Kristinsson, Þóra Borg, Friðleifur Guðmundsson, Klemenz Jónsson, Margrét Magnúsdóttir, Eiríkur Jóhannesson, Sína Arndal, Jóhannes Guðmundsson og fremst liggur Sverrir Guðmundsson

Verkefnaval Leikfélagsins sór sig í ætt við það sem löngum tíðkaðist hjá leikfélögum landsbyggðarinnar. Gamanleikir, flestir af erlendum uppruna, voru algengir og urðu sumir afar vinsælir, fáir ef nokkrir þó sem Ráðskona Bakkabræðra sem félagið sýndi tvívegis við gríðarlega aðsókn. Ekki er að efa að félagið naut þá nábýlisins við höfuðborgina og að Reykvíkingar hafa ekki talið eftir sér að skreppa til Hafnarfjarðar til þess að hlæja rækilega.

Hafnarfjarðarleikhúsið Hermóður og Háðvör

Árið 1995 tók leikhópurinn Hermóður og Háðvör til starfa. Fyrirliði hópsins var Hilmar Jónsson leikstjóri, en aðrir burðarásar voru Gunnar Helgason, Björk Jakobsdóttir, Erling Jóhannesson, Þórhallur Gunnarsson og Finnur Arnar Arnarsson sem gerði langflestar leikmyndanna. Fyrsta sýning hópsins var nýtt leikrit eftir Árna Ibsen, Himnaríki, sem fékk afbragðs viðtökur bæði áhorfenda og gagnrýnenda. Leikritið var sett upp í hinu gamla frystihúsi Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar á Norðurbakkanum. Hópurinn náði því að gera sameiginlegan starfssamning við Hafnarfjarðarbæ og ríkið sem skóp honum traustan starfsgrundvöll.

hfhimnarÞórhallur Gunnarsson og Guðlaug E. Ólafsdóttir í Himnaríki eftir Árna Ibsen. Ljósmynd: Bára Kristinsdóttir

Framan af starfaði hópurinn í frystihúsinu gamla sem síðar vék fyrir íbúðarblokkum. Rýmið var allóvenjulegt: Salurinn langur og breiður, en ekki hár til lofts sem setti sýningum ákveðin takmörk. En það gaf einnig möguleika sem oft voru nýttir á afar hugmyndaríkan hátt og var skipan sviðs og áhorfendarýmis breytileg eftir verkefnum. Í verkefnavali hefur hópurinn jafnan lagt áherslu á ný íslensk verk eða frumsamdar leikgerðir eftir þekktum skáldverkum. Frá haustinu 2005 hefur hópurinn starfað í hinu gamla húsnæði Vélsmiðju Hafnarfjarðar, Smiðjunni.

Árni Ibsen

hfarniibÁrni Ibsen, leikskáld og leikritaþýðandi, var lengst af búsettur í Hafnarfirði og markaði ýmis spor í leiksögu bæjarins. Eftir Árna liggur fjöldi leikrita sem hafa verið þýdd á tíu tungumál og sviðsett í Danmörku, Svíþjóð, Noregi, Finnlandi, Færeyjum, Þýskalandi, Ungverjalandi, Eistlandi, Írlandi, Englandi og Bandaríkjunum. Hér heima hafa öll helstu atvinnuleikhúsin sýnt verk hans.

Árið 1996 var Árni tilnefndur til Norrænu leikskáldaverðlaunanna fyrir leikritið Himnaríki - geðklofinn gamanleik, sem hefur verið sýnt víða um Evrópu. Á meðal annarra leikrita hans eru Skjaldbakan kemst þangað líka, Fiskar á þurru landi, Elín Helena, Ef væri ég gullfiskur! og Að eilífu.

Leikfélag Hafnarfjarðar eftir endurreisn

Leikfélag Hafnarfjarðar var endurvakið árið 1983. Sú endurvakning átti sér nokkurn aðdraganda. Skömmu eftir að Árni Ibsen hóf störf sem kennari við Flensborgarskóla árið 1976 sneru nemendur sér til hans og leituðu aðstoðar hans við að koma upp stórri leiksýningu. Varð að ráði að setja á svið breska söngleikinn Ó, þetta er indælt stríð. Þetta varð upphafið á kröftugu leikstarfi sem staðið hefur í skólanum fram á þennan dag. Meðal þeirra verka sem nemendur sýndu á næstu árum má nefna Indíána eftir Arthur Kopit, Eftirlitsmann Gogols, Jakob eða agaspursmálið eftir Eugene Ionesco, Á rúmsjó eftir Slawomir Mrozek, Undantekninguna og regluna eftir Bertolt Brecht og Woyzeck eftir Georg Büchner.

Í kringum þessar sýningar myndaðist vaskur hópur áhugasamra ungmenna sem beitti sér fyrir endurvakningu Leikfélags Hafnarfjarðar. Það hefur haldið uppi óslitinni starfsemi til þessa dags. Var fyrsta verkefni þess Bubbi kóngur eftir Alfred Jarry undir leikstjórn Árna Ibsens. Félagið hefur oft sýnt metnað og djörfung í vali verkefna. Meðal verka, sem það hefur tekist á við, má nefna Galdra-Loft Jóhanns Sigurjónssonar, Stalín er ekki hér eftir Véstein Lúðvíksson, Hamskiptin eftir Franz Kafka, Koss kóngulóarkonunnar eftir Manuel Puig, Dýragarðssögu eftir Edward Albee, Beisk tár Petru von Kant eftir Rainer Werner Fassbinder og Að sjá til þín maður eftir Franz Xaver Kroetz.

hfgulldrGulldrengirnir eftir Peter Terson, 1980. Leikstjórn: Inga Bjarnason. Ljósmynd: Ívar Brynjólfsson

Félagið hefur einnig gert sér far um að sinna barnaleikritum og um árabil var rekin sérstök unglingadeild á vegum þess. Þá hefur það tvívegis farið með sýningar á erlendar leiklistarhátíðir: árið 1986 fór það með Rokkhjartað slær á hátíð Alþjóðasamtaka áhugaleikhúsa, IATA, í Mónakó og síðar með gamanleik Shakespeares Allt í misgripum til Chandigarh í Indlandi. Þá má til gamans geta þess að félagið setti á svið gamanleikinn Ráðskonu Bakkabræðra árið 2007 undir leikstjórn Lárusar Vilhjálmssonar sem hefur verið einn helsti burðarás félagsins frá endurreisn þess. Ráðskonan var eitt helsta eftirlæti Hafnfirðinga á fyrri árum og sett upp tvívegis við gríðarlega aðsókn.

Sýningarspjöld         Sýningarskrá         Boðskort

 

hfhringu.jpg
Til baka