Apr 28, 2020

Frumherji og fjöllistamaður


Sýning í Safnahúsinu á Sauðárkróki 2003

sgfors1

Sigurður Guðmundsson málari

Þann 9. mars 2003 þegar 170 ár voru liðin frá fæðingu Sigurðar Guðmundssonar málara, var Leikminjasafn Íslands formlega stofnað á fundi í Iðnó. Fyrsta sýningin sem Leikminjasafnið setti upp var sýningin Frumherji og fjöllistamaður, Sigurður Guðmundsson 1833-2003, en hún var opnuð í Safnahúsinu á Sauðárkróki 27. apríl 2003. Sýningin var sett upp aftur í Gúttó í Hafnarfirði 15.nóvember 2003 og hluti hennar var settur upp í Höfuðborgarstofu 13. febrúar 2009.

Sigurður Guðmundsson var frumkvöðull leiklistar, myndlistar og minjavörslu. Hann var fæddur 7. mars á Hellulandi í Skagafirði, sonur hjónanna Guðmundar Ólafssonar og Steinunnar Pétursdóttur. Hann fer til málaranáms til Kaupmannahafnar 1849, en hleypur fljótlega úr vistinni en tekst síðar með tilstyrk góðra manna að komast inn á Listaháskólann og 1857 birtir hann hugvekju um íslenska kvenbúninginn í Nýjum félagsritum Jóns Sigurðssonar. Hann sest að í Reykjavík 1858 og býr þar til æviloka. Hann lét mikið til sín taka í leiklistarmálum bæjarins,málaði sviðsmyndir og útbjó gervi leikenda í leiksýningum. Hann setur einnig á svið „lifandi myndir“ um efni úr fornsögum og Eddukvæðum og 1861 stofnar hann með hópi ungra menntamanna Leikfélag andans sem síðar var nefnt Kveldfélagið, leynilegt málfundafélag sem starfarði til 1874.

sgfors2

Leikritið Útilegumennirnir eftir Matthías Jochumsson var frumsýnt 1862 með tjöldum Sigurðar og sama ár birtist í Þjóðólfi hugvekja hans um stofnun forngripasafns sem verður kveikja að stofnun Þjóðminjasafnsins árið eftir.

Kúlissusjóðurinn var stofnaður 1866 en hann er merkilegt fyrirbæri í þróunarsögu íslensks leikhúss á 19. öld og hefur hann verið nefndur "fyrsti vísir að formlegri leikhússtofnun á Íslandi" en hlutverk hans var að halda utan um þann sviðsbúnað, leiktjöld (kúlissur), leikbúninga og leikmuni sem til voru í bænum en leiklistin hafði þá engan samastað því ekkert leikhús var í Reykjavík. Sigurður Guðmundsson stóð fyrir stofnun sjóðsins ásamt Jóni Guðmundssyni en þeir voru helstu frumkvöðlar leikjanna í bænum á sjötta og sjöunda áratugi 19. aldar.

Á árunum 1872-74 vann Sigurður við leiksýningar í Glasgow, nýreistu stórhýsi í norðanverðu Grjótaþorpi. Sagt er að hann hafi ofkælst við vinnu að leiktjöldum við Hellismenn Indriða Einarssonar veturinn 1873 - 1874 og aldrei náð fullri heilsu eftir það. Sigurður vann sumarið 1874 að undirbúningi þjóðhátíðarinnar í tilefni þúsund ára afmælis Íslandsbyggðar ásamt Sigfúsi Eymundssyni og skömmu eftir þjóðhátíðina lést hann í Reykjavík.

siggupla.jpg
Til baka