Jan 16, 2020

Samkomuhúsið á Akureyri


Samkomuhúsið á Akureyri reis af grunni árið 1906. Það voru góðtemplarar sem stóðu að byggingu þess, en yfirsmiðir voru þeir Guðbjörn Björnsson og Guðmundur Ólafsson. Þetta er tveggja hæða timburhús með lágu risi á háum steinkjallara. Byggingarstíllinn er nýklassískur og er húsið ríkulega skreytt með timburskurði, auk þess sem lítill turn á miðri forhliðinni setur svip á það. Húsið stendur hátt utan í Brekkunni svonefndu og blasir við langt að, eitt virðulegasta leikhússtæði á Íslandi.

Húsið var líkt og Iðnó byggt sem fjölnota samkomhús. Það kostaði fullsmíðað með húsgögnum 28.500 kr. og áttu stúkurnar þá 11.000 kr. upp í það. Bæjarstjórn Akureyrar ábyrgðist lán upp á 7000 kr. og tók jafnframt á leigu neðstu hæðina fyrir bæjarstjórnarfundi, lestrarsal og bóksafn. Árið 1916 keypti bæjarstjórn svo húsið og hefur það verið í eigu bæjarins síðan.

Stór og rúmgóður áhorfendasalur er í húsinu. Sviðið er að mestu innan ramma, svo sem algengast var á þessum tíma, t.d. í Iðnó og Góðtemplarahúsunum, en það er þó ekki hreint "kassasvið" því að fremsti hluti þess gengur fram í salinn út fyrir rammann til beggja hliða og myndar þannig lítið forsvið. Er þessi tilhögun augljóslega betur fallin til að skapa nánd á milli sviðs og salar en ef allt sviðið er innan rammans. Þá voru lengi í salnum áhorfendasvalir á þrjá vegu og munu hafa verið frá upphafi.

Fyrsta frumsýning í húsinu var á Ævintýri á gönguför og fór hún fram 20. janúar 1907. Skömmu síðar var Leikfélag Akureyrar (eldra) stofnað, en það lognaðist út af eftir fáein ár. Það Leikfélag Akureyrar, sem enn starfar og hefur starfað í húsinu allt til þessa dags, var stofnað árið 1917.

Ýmsar breytingar hafa verið gerðar á húsinu í tímans rás. Um 1920 var byggð viðbót á einni hæð norðan við það, anddyri og stigi og árið 1945 var skúrbygging reist vestan við það fyrir búningsherbergi og fleira. Um 1950 tóku templarar húsið á leigu og ráku þar um tíma kvikmyndahús. Þá var sett hallandi gólf í salinn, hliðarsvalirnar rifnar og skrautlegt tréverk ýmist fjarlægt eða hulið sléttum plötum. Á árunum 1996- 97 voru aftur gerðar breytingar, sviðið m.a. lækkað og skipt um stóla í salnum. Við það fækkaði sætum úr 240 í 190, fjármálastjórn L.A. til lítillar gleði. Þá voru settar upp eftirlíkingar af gömlu hliðarsvölunum, nema hvað þar er nú ekkert rými fyrir áhorfendasæti. Á meðan á þessu stóð var húsinu lokað og sýndi L.A. þann tíma aðallega á Renniverkstæðinu svonefnda á Oddeyri. Þar var leikið á sléttu gólfi frammi fyrir upphækkuðum áhorfendasætum. Á árunum 2003-04 voru enn gerðar breytingar á húsinu. Sviðið var aftur hækkað og steinsteypt viðbygging á tveimur hæðum reist vestan við húsið upp að Brekkunni. Hún leysti af hólmi skúrinn frá 1945 sem þá var orðin býsna hrörlegur. Í nýju viðbyggingunni eru búningsklefar leikenda og snyrtiaðstaða. Jafnframt voru gerðir steinsteyptir stallar upp í Brekkuna til að taka af sig, sem hafði skapað veruleg vandamál. Í salnum eru nú sæti fyrir 210 manns, 154 í sal og 56 á svölum.

Heim.: Haraldur Sigurðsson, Saga leiklistar á Akureyri 1860-1992 (Akureyri 1992), Hjörleifur Stefánsson, Akureyri - Fjaran og Innbærinn (Akureyri 1986), ópr. samantekt frá Þorsteini Gunnarssyni, munnlegar upplýsingar frá Rögnu Sigurðardóttur og Þráni Karlssyni

lhsamkom.jpg
Til baka