Mar 9, 2020

Upphaf leikmyndlistar á Íslandi


Segja má að íslensk leikmyndlist og sviðslistirnar almennt hafi sprottið uppúr starfi Sigurðar Guðmundssonar málara um og uppúr 1860, en Kúlissusjóður, sem Sigurður átti þátt í að stofnsetja, var afhentur Iðnaðarmannafélagi Reykjavíkur er það stóð að stofnun Leikfélags Reykjavíkur 1897 og myndaði grundvöll að leikstarfinu og upphaf alvöruleiklistar hér á landi. Leiktjöld Sigurðar að Útilegumönnunum Matthíasar Jochumssonar eru enn til á Þjóðminjasafninu ásamt skissum að búningum o.fl. Björn Th. Björnsson tilgreinir leiktjöld Sigurðar Guðmundssonar við Útilegumenn sem "fyrstu landslagsmálverkin eftir íslenzkan mann." Ljóst má því vera að leikmyndlist hefur í gegnum tíðina verið nátengd "frjálsri" myndlist.Sigurður setti einnig upp leiksýningar og sviðsetti "lifandi myndir", einskonar sögulegar svipmyndir byggðar á fornsögunum. Þær voru á vissan hátt forverar sögusýninga nútímans. Guðmundur Magnússon (Jón Trausti), rithöfundur, kynnti sér leiktjaldamálun í Kaupmannahöfn skömmu fyrir aldamótin 1900. Hann skrifaði um leiklist og leiktjaldamálun og hvatti jafnan gagnrýnendur til að gleyma ekki "tjöldunum". Hann sagði m.a.: "leiktjaldalistin er sjálfstæð list - ein tegund málaralistarinnar." Jón Trausti lagði áherslu á nauðsyn þess að Íslendingar færu í nám í leikmyndagerð, einkum til að myndirnar yrðu "réttar" út frá þjóðernissögulegu sjónarmiði. Um svipað leyti var Ásgrímur Jónsson að mála leiktjöld á Bíldudal og Þórarinn B. Þorláksson var á meðal leiktjaldamálara Leikfélags Reykjavíkur á fyrstu áratugum aldarinnar.

Einar Jónsson frá Fossi í Mýrdal tók við sviðsmyndagerð hjá LR 1911 og stjórnaðI henni til dauðadags árið 1923. Einar hafði lært málun í Kaupmannahöfn fyrir aldamót. Pantanir frá Leiktjaldagerð Carls Lund í Danmörku drógust mikið saman með tilkomu Einars, en hann var fyrstur til að leggja fyrir sig leiktjaldamálun mestan sinn starfsferil. Hann var afar fær málari og var um verk hans sátt og ánægja. Hann lagði sig í líma við að hafa leikmyndirnar "réttar" og fór t.d. sumarið 1913 á sögustaði á Suðurlandi til að gera skissur fyrir Lénharð fógeta. Nefna má einnig að Jóhannes Kjarval teiknaði leikmyndir við eina af fyrstu uppfærslunum á Fjalla-Eyvindi Jóhanns Sigurjónssonar í Stokkhólmi árið 1914.

Freymóður Jóhannsson var fyrsti sérmenntaði leiktjaldamálari LR. Hann útrýmdi hliðartjöldum og lofttjöldum í útisenum á sviðinu og innleiddi nýtískulegt hringtjald. Sumir lofuðu Freymóð fyrir fagrar sviðsmyndir, en aðrir gagnrýndu hann fyrir of áberandi leiktjöld - glansmyndir sem drægju athygli frá leiknum. Brynjólfur Jóhannesson segir hann hafa málað "natúralískt landslag sem féll vel í smekk þeirra sem vildu að leiksviðið væri eins og gluggi út í náttúruna."

fjallaey-280x160Freymóður Jóhannsson, Fjalla-Eyvindur (LR 1930)

Haraldur Björnsson segir frá því að Freymóður hafi gert stórkostleg tjöld fyrir hátíðasýningu á Fjalla-Eyvindi: "Hann náði einmitt þessum sérkennilega hreinleik íslenzkrar náttúru sem jók enn á áhrif þessa mikla leikrits." Leikmyndir Freymóðs fyrir LR ollu stundum deilum og sjálfur lenti hann í deilum við aðra leikmyndahöfunda sem honum þóttu ekki nógu natúralískir. Árið 1933 kom Lárus Ingólfsson heim, lærður í sömu kúnst, með reynslu úr Konunglega leikhúsinu í Kaupmannahöfn í farteskinu. Þar hafði hann teiknað búninga og gert módel af leikmyndum og gert leikmynd fyrir Ønsket eftir Jóhann Sigurjónsson. Hann segir að mestu breytingarnar í leikmyndastíl hafi orðið þegar hann var við nám og störf í Kaupmannahöfn: "Þá tóku ýmsir frábærir leiktjaldasmiðir eins og Piscator hinn þýski og Craig hinn enski að stílfæra leiktjöld og skafa af þeim raunsæismótið, "naturalismann", og þetta fannst okkur mikil bylting." Lárus Ingólfsson vann 1934-35 með danska leikstjóranum og teiknaranum Gunnari R. Hansen, sem kom hingað með nýjar áherslur. Segja má að Lárus og Gunnar hafi komið með módernismann, vonum seinna inn í íslenska leikmyndlist. Gunnar komst ungur í kynni við Guðmund Kamban er hann vann við tökur á Höddu Pöddu árið 1923.

Verk Gunnars R. Hansen breyttu um margt viðhorfinu hér til leiklistarinnar almennt og lenti hann m.a. í ritdeilum við Freymóð Jóhannsson um nauðsyn "réttra" leikmynda frá raunsæissjónarmiði. Meginþrætueplið var hvort máluð tré á baktjaldi í sýningu LR á Jeppa á Fjalli eftir Holberg gætu snúið í átt gagnstæða þeirri vindátt sem ríkti á sviðinu.

jeppi
Gunnar R. Hansen, Jeppi á Fjalli (LR 1934)

Freymóður nefndi einnig til sögu stíl innréttinga og húsgagna á óðalssetrinu, sem hann segir í "snúnum jólakertisstíl" og sagði "gripnar úr nýjustu þýzkri byggingagerð." Hann gagnrýndi jafnframt litinn á forhenginu, sem hann kallaði "líktjald." Gunnar svaraði því til að þekkt væri að staðvindar úr vestri sveigðu ungar trjáplöntur til austurs og þær gætu síðan ekki rétt sig við þó blési í gagnstæða átt. Einnig sagði hann að hann hefði verið þrjú ár í Frakklandi og kynnt sér sérstaklega tímabilið 1700 til 1730, en Jeppi á Fjalli var frumfluttur 1722. Þá hafi rókókóstíllinn byrjað að ryðja sér til rúms og verið þá mun einfaldari en síðar varð. Hann hafi miðað við tiltekið málverk í Louvre af þessum ástæðum. Varðandi forhengið segir hann að erlendis séu víðast hvar notuð nær eingöngu svört tjöld, því þau eigi að vera hlutlaus: "Áhorfendur eiga að horfa á leikendurna, ekki á tjaldið." Þarna koma fram viðhorf um einföldun framsetningar samhliða tryggð við höfundinn sem má kalla fyrsta vísi að módernisma í hérlendri leikmyndlist. Hérlendis höfðu sýningar í raunsæjum ofhlæðisstíl átt upp á pallborðið og var Freymóður talsmaður þeirra og taldi tryggð við höfundinn fólgna í sem nákvæmastri eftirmynd veruleika sögunnar. Gunnar hafði, líkt og Guðmundur Kamban, verið undir áhrifum frá rússneska leikstjóranum Konstantin Stanislavsky, sem lagði mikla áherslu á innlifun í efnið og að bera virðingu fyrir höfundinum. Gunnar var oft gagnrýndur fyrir að fylgja fyrirmælum höfunda of nákvæmlega. Þeir Freymóður áttu því ýmislegt sameiginlegt í því hvernig þeir nálguðust verkin. Hinsvegar voru leikmyndir Gunnars jafnan stílfærðar, enda taldi hann sjálfsagt að "klæða leik í nýjan búning, svo framarlega sem hann hæfir efni leiksins og áformi höfundarins." Og hann var opinn fyrir táknsæi; "Eg er á því, að nota eigi hinar ýmsu stíltegundir við leiktjaldagerð, einnig symbólisma, svo framarlega sem það fellur að leiknum." Gunnar segir Kamban hafa haft svipaða skoðun á leiktjöldum: "Hann vildi að þau væru eins og undirspil, styddu leikritið, en yfirgnæfðu hvergi." Gunnar var hér aðeins um veturinn 1934-5, en átti eftir að koma til langdvalar síðar.

Upp úr seinna stríði komu svo nýmenntaðir leiktjaldamálarar heim, Finnur Kristinsson og Sigfús Halldórsson. Finnur stundaði nám í alhliða leiksviðstækni, ljósameðferð, leiktjaldasmíði og málum við leiklistardeild Ríkisháskólans í Iowa í tvö ár og lauk þar prófi. Hann dvaldist síðan um tíma í Chicago og New York og kynnti sér leikhúsmál þar. Sigfús fór á leiktjaldaskóla í Oxford, vann við leikhús þar í borg og um tíma við óperu- og balletthús í London og víðar. Þeir voru báðir styrktir til náms af Menntamálaráði. Menntuðum leikmyndateiknurum fór sem sagt fjölgandi um 1950 þó þeir væru teljandi á fingrum annarrar handar. Skilningur á starfi þeirra var ekki mikill og leiklistargagnrýnendur létu sér oft nægja að segja að leiktjöldin hafi verið smekkleg eða við hæfi. En menntun þeirra bjó vissulega til önnur viðmið en hér voru við lýði. Erlendis kynntust þeir hugmyndum um starf sitt sem sumar hverjar áttu ekki greiða leið á leiksviðið.

Sjá nánar BA-ritgerð höfundar í sagnfræði:
Leikmyndlist á Íslandi 1950-2000.

Ólafur J. Engilbertsson leikmyndahöfundur

olafurje

fjallaey-280x160.jpg
Til baka