Mar 9, 2020

Opnun vefs Samtaka um leikminjasafn


Ávarp flutt í Kristalssal Þjóðleikhússins

Það fer ekki illa á því að opna nýjan vef Samtaka um leikminjasafn á aldarafmæli Vals Gíslasonar. Ekki það að Valur hafi, mér vitanlega a.m.k., verið sérstakur baráttumaður fyrir leiklistarsögusafni; þar stóðu aðrir samtíðarmenn hans framar í flokki. Listrænn ferill hans er hins vegar svo langur að hann myndar nánast eins og brú yfir ólík skeið leiksögu okkar. Þegar Valur steig fyrst á svið í Iðnó í Þrettándakvöldi Shakespeares, fyrstu Shakespeare-sýningu á Íslandi, árið 1926, voru enn á sviðinu nokkrir af frumherjum fyrstu kynslóðarinnar í Leikfélagi Reykjavíkur, fólk eins og Friðfinnur Guðjónsson, Guðrún Indriðadóttir og systur hennar, Emilía og Marta; þá var Gunnþórunn Halldórsdóttir að koma aftur eftir langa fjarvist. Frá því Valur kom svo síðasta fram hér í Þjóðleikhúsinu eru ekki liðin nema fimmtán ár. Þá var nánast enginn eftir af hans kynslóð nema Þorsteinn Ö. Stephensen og svo sérkennilega vildi til að síðasta sýning þessara beggja máttarstólpa leiklistarinnar var sú sama: Uppreisnin á Ísafirði eftir Ragnar Arnalds.

En fleira kemur til að það er gaman að ná þessum áfanga einmitt nú. Leikminjasafnið er enn hugsjón á sama hátt og atvinnuleikhúsið var fjarlæg hugsjón fyrstu áratugina sem Valur iðkaði list sína. Sú skoðun er ekki ný af nálinni að leiklistin sé svo mikil list andartaksins að hún sé betur gleymd en geymd. Allt sem skiptir máli í leikhúsinu, segja menn þá, er það sem fram fer á þeim andartökum sem leikarinn fremur galdur sinn, síðan er það horfið og verður aldrei endurvakið, nema í hæsta lagi sem fátæklegt endurskin. Þetta er auðvitað í aðalatriðum satt, en þó verður að segjast að í sumum tilvikum vildum við alls ekki hafa misst af því endurskini; ég nefni hér aðeins upptökur Ríkisútvarpsins á Föður Strindbergs og Húsverði Pinters, þar sem Valur skóp tvær snjöllustu mannlýsingar sínar. Báðar þessar upptökur hafa að verðleikum oft verið endurfluttar, enda mögnuð list, og ber þó mynd hans af flækingnum Davies að mínum dómi af, þó að ekki fengi Valur Silfurlampann fyrir hana. En þá hafði hann raunar einn leikara fengið tvisvar þessa eftirsóttu viðurkenningu og kannski þótt vera búinn með kvótann, röðin komin að öðrum.

Til hvers eigum við þá að vera að því að sanka saman fróðleik um gamla leikviðburði? Hvaða máli skiptir það okkur hvort einhver löngu liðinn leikari var verðlaunaður einu sinni eða mörgum sinnum, eða jafnvel aldrei? Kemur nokkrum það við hvernig hann vann úr hæfileikum sínum, hvort hann sólundaði þeim með einhverjum sorglegum hætti eða hvort hann ávaxtaði pund sitt þannig að hann yxi og efldist í list sinni? Eigum við ekki bara að þegja yfir því sem miður fór, láta okkur í hæsta lagi nægja snyrtilegar glansmyndir sem njóta sín vel á veggjum leikhúsanna, en ekki nokkur lifandi manneskja getur haft áhuga á í alvöru?

Þetta eru spurningar sem allir fræðimenn á sviði leiklistarsögu verða að horfast í augu við. Það er ekki alltaf þægilegt, því á stundum getur þurft að segja hluti sem er ekki víst að öllum falli vel í geð, t.d. afkomendum sem vilja að minning áa sinna sé flekklausari í vitund síðari kynslóða en hún var hjá þeim sem kynntust mönnunum sjálfum og lifðu með þeim. Það leikhús, sem Valur Gíslason steig inn í fyrir meira en sjötíu árum, starfaði við skilyrði sem okkur þættu frumstæð nú og varð oft að sætta sig við aðrar listrænar kröfur en þær sem við teljum sjálfsagðar. Leikarahópurinn var bæði lítill og takmarkaður, raunar miklu takmarkaðri en svo að hann gæti staðið undir því metnaðarfulla verkefnavali sem menn vildu sjá í forystuleikhúsi þjóðarinnar. Á sviðinu í Iðnó viðgengust líka ýmsir leiðir ósiðir, enda hafði stór hluti áhorfenda kannski ekki neitt á móti því að aðalleikendurnir kepptust við að stela senunni hver frá öðrum. En bestu og framsýnustu leikhúsmenn okkar misstu ekki sjónar á markinu þrátt fyrir margvíslegt mótlæti og vanþroskaðan leiklistarsmekk almennings. Þegar þjóðin var orðin rík eftir stríðið var loks lag til að hrinda draumnum í framkvæmd og þá skipti að sjálfsögðu sköpum að harðsnúið lið var tilbúið að sækja fram á nýju og stóru sviði.

Valur Gíslason var frá upphafi einn hinna fremstu í þeirri fylkingu. Honum var að sönnu ekki alltaf spáð miklum frama í upphafi ferilsins og má til gamans tilfæra orð úr leikdómi frá 1932 þar sem segir: 'Oft má segja að dúfa komi úr hrafnseggi, því að þegar Valur byrjaði að leika var ekki mikið mót á því, að hann myndi nokkurn tíma geta nokkuð í þeirri grein, en nú er hann orðinn einn af traustustu leikurunum, sem hér er völ á.' Þegar þessi orð voru prentuð átti Valur reyndar enn langt í land með að öðlast fulla viðurkenningu, það er varla fyrr en í stríðinu að hann sannar sig fyrir alvöru. Þó var mönnum löngu fyrr orðin ljós vandvirkni hans og smekkvísi; vilji hans til að gera vel; á ljósmyndum blasir t.d. við hversu mikla rækt hann lagði snemma við andlitsgervi sín sem er auðvitað eitt aðalsmerki góðs skapgerðarleikara. Hann var hins vegar ekki gæddur því töfravaldi sem sumir leikarar fá ókeypis hjá gjafmildri náttúru eða forsjón, ekkert náttúrutalent, heldur varð hann að vinna sig áfram upp í þá stærð sem hann náði að lokum. Spurður að því á efri árum hvers vegna hann hefði aldrei gengið á leiklistarskóla svaraði hann því til að hann hefði einfaldlega ekki haft efni á því, það hefði ekki stafað af skorti á áhuga eða skilningsleysi á gildi menntunarinnar. Hann kvaðst hins vegar alltaf hafa reynt að afla sér bestu leiklistarrita frá útlöndum, þar á meðal rita Stanislavskys sem hann hefði lesið sér til mikils gagns. Það sýnir best hug Vals að allt safn leikhúsbóka sinna ánafnaði hann og Laufey Árnadóttir, kona hans, Þjóðleikhúsinu eftir sinn dag. Hann vildi sem sé að næstu kynslóðir leikhúsfólks ættu aðgang að því sem hafði orðið honum til góðs á leiðinni til þroska.

Og það er einmitt þetta sem gerir að verkum að okkur ber heilög skylda til að varðveita minningu listamanns eins og Vals Gíslasonar og halda henni á lofti. Í list sinni stóð Valur fyrir gildi sem eru sístæð og við megum aldrei glata sambandi við, hvað sem líður allri róttækri framúrstefnu, allri aðdáun á því sem er nýtt og ungt og virðist í bili eitthvað ferskara en það er fyrir. Valur var enginn svartur senuþjófur, reyndi ekki í skophlutverkum að vekja hlátur með ómerkilegum leikbrellum, var ekki haldinn neinum stjörnukomplexum, heldur þvert á móti örlátur og gjöfull við mótleikara sína, ekki síst þá yngri. Vandvirkni hans var jafnan söm við sig, hann meitlaði smáu hlutverkin engu síður en þau stóru. Þetta kunna að virðast sjálfsagðir hlutir, en þeir eru það ekki; það er eitt af því sem saga leiklistarinnar kennir okkur.

Mig langar til að enda þetta spjall með því að segja ykkur sögu sem ein af fremstu leikkonum okkar í marga áratugi sagði mér nýlega um fyrstu kynni sín af Vali á leiksviði. Hún var þá ung og reynslulítil, nýkomin heim frá námi erlendis. Í einu atriði sýningarinnar átti persónan, sem hún lék, að ganga til allra hinna sem inni voru og bjóða þeim góða nótt. Leikkonan sagðist varla muna eftir nokkrum leikara þarna nema einum, Vali Gíslasyni. Honum hefði nefnilega tekist, í hvert sinn sem hún gekk til hans og kvaddi hann, að miðla sér svo miklu um þá manneskju sem hún var sjálf að leika. Það hefði hann gert með viðmóti sínu einu saman, hljóðum viðbrögðum sem voru á einhvern hátt svo hárrétt hjá þessu fólki við þessar aðstæður. Þetta sagði hún að hefði orðið sér ógleymanleg kennslustund í því hversu miklu það skiptir í allri leiklist að fá góðan mótleik.

Ég held að þessi litla saga segi okkur kannski meira en flest almenn orð geta gert um það, hvers virði Valur Gíslason var samleikendum sínum og íslensku leikhúsi öllu.

Jón Viðar Jónsson forstöðumaður Leikminjasafns Íslands

jonvidar

sigseni-600x0.gif
Til baka