Mar 9, 2020

1973


Íslenski dansflokkurinn stofnaður

Íslenski dansflokkurinn byggði á þeim grunni sem Listdansskóli Þjóðleikhússins hafði lagt, fyrstu árin undir stjórn Eriks Bidsted. Flokkurinn hafði fyrsta starfsár sitt aðstöðu í Félagsheimili Seltjarnarness, en var snemma tekinn undir verndarvæng Þjóðleikhússins. Í honum voru tólf dansarar.  Fyrsti stjórnandi flokksins var Bretinn Alan Carter. Hann var fjölhæfur listamaður og fær dansahöfundur sem líkt og Erik Bidsted náði að marka nokkur spor í þróun listgreinarinnar, þó að hann starfaði aðeins með flokknum í tvö ár. Talsverð gróska var í starfi dansflokksins þessi ár og má sem dæmi nefna að árið 1979 var í fyrsta skipti farin leikför með íslenska ballettsýningu til útlanda. Það var Sæmundur Klemensson með tónlist Þursaflokksins við dansa Ingibjargar Björnsdóttur. Sýnt var í Stokkhólmi, Gautaborg og Osló. Fyrsti íslenski listdansstjórinn var Nanna Ólafsdóttir (1980 -1987) og var þá mikið um innlenda danssköpun, oft við frumsamda tónlist.

Íslenski dansflokkurinn hafði aðstöðu í Þjóðleikhúsinu til ársins 1989 og starfaði þann tíma undir sjálfstæðri stjórn sem laut yfirstjórn þjóðleikhússtjóra. Árið 1989 fluttu bæði dansflokkurinn og Listdansskólinn úr Þjóðleikhúsinu og urðu fljótlega upp úr því sjálfstæðar stofnanir. Þegar þetta er skrifað, haustið 2005, hefur menntamálaráðuneytið ákveðið að leggja Listdansskólann niður við litla hrifningu listdansunnenda sem óttast að með því sé verið að kippa fótunum undan menntun í greininni.

Íslenski dansflokkurinn hefur starfað í Borgarleikhúsinu frá 1996 undir listrænni stjórn Katrínar Hall og helgar sig eingöngu nútímadansi. Flokkurinn sýnir mikið erlendis. Í honum eru nú níu fastráðnir dansarar.

Mynd: Tófuskinnið, Ásdís Magnúsdóttir og Örn Guðmundsson

73dansfl.jpg
Til baka