Feb 24, 2020

1948


Fyrsta leikför Íslendinga til útlanda

Árið 1948 hélt Leikfélag Reykjavíkur í ferð til Helsinki með sýningu sína á Gullna hliðinu eftir Davíð Stefánsson. Það var að vísu ekki í fyrsta skipti sem íslenskir leikarar léku fyrir útlenda áhorfendur utan heimalandsins. Stefanía Guðmundsdóttir hafði t.d. sýnt list sína á vegum Íslendingafélagsins í Kaupmannahöfn í ferð sinni þangað árið 1904 og síðar fóru bæði hún og Guðrún Indriðadóttir í frægar leikferðir til Vesturheims (Guðrún 1912, Stefanía 1920-21). Þá má nefna útskriftar-sýningu Haralds Björnssonar og Önnu Borg á sviði Kgl. leikhússins í Kaupmannahöfn árið 1927. En Helsinki-förin var fyrsta ferð íslensks leikflokks með eigin listsköpun til útlanda.

Tildrög þessarar ferðar munu hafa verið þau að sænsk sendiherrafrú, sem dvaldist hér á landi á stríðsárunum, hafði kynnst leikurum L.R. og starfi þeirra. Eftir stríð varð maður hennar sendiherra í Finnlandi og beitti hún sér þá fyrir því að félaginu var boðið þangað. Sýnt var í höfuðleikhúsi sænska minnihlutans, Svenska teatern, í Helsinki og voru viðtökur vinsamlegar.

Ferðir af þessu tagi voru fátíðar næstu áratugi. Íslenskt leikhús átti enn nokkuð í land með að geta boðið upp á list sem stæðist samjöfnuð við list nágrannaþjóðanna. Fyrstu tuttugu árin fór Þjóðleikhúsið þannig aðeins tvisvar í leikferðir til útlanda: í fyrra skiptið árið 1957 með Gullna hliðið til Kaupmannahafnar og Osló, í síðara skiptið árið 1968 með Galdra-Loft til Stokkhólms og Helsinki. En það var ekki fyrr en með Inúk á áttunda áratugnum að íslensk leiksýning vakti umtalsverða athygli meðal annarra þjóða.

48leifor.jpg
Til baka