Feb 24, 2020

1923


Lög um byggingu þjóðleikhúss samþykkt á Alþingi

Sigurður Guðmundsson málari mun hafa orðið fyrstur manna til að kveða upp úr um nauðsyn þess að Íslendingur eignuðust "nationala scenu", þjóðleikhús. En það kom í hlut lærisveins hans og vinar, Indriða Einarssonar, að bera drauminn fram til sigurs. Á fyrstu árum aldarinnar vakti Indriði nokkrum sinnum máls á hugmyndinni, m.a. í vönduðum greinum í Skírni 1907 og Óðni 1915, þar sem hann leitaðist við að styðja málflutning sinn ítarlegum útreikningum, m.a. með áætlunum um vaxandi íbúafjölda í Reykjavík. Engu að síður hlaut hann litlar sem engar undirtektir fyrr en upp úr 1920.

jonashriÞá gerðist það að hinn ungi leiðtogi Framsóknarflokksins, Jónas Jónsson frá Hriflu, fékk áhuga á málinu í gegnum kynni sín af Páli Steingrímssyni, síðar ritstjóra Vísis, tengdasyni Indriða Einarssonar. Jónasi tókst af pólitísku hyggjuviti sínu að mynda þverpólitískt bandlag á Alþingis og voru lög um byggingu Þjóðleikhúss samþykkt 5. maí 1923. Lög um skemmtanaskatt höfðu verið sett nokkru áður og veittu þau bæjaryfirvöldum heimild til að innheimta sérstakan skatt af kvikmyndasýningum og öðrum samkomum. Nú var ákveðið að þessar tekjur skyldu renna í sérstakan sjóð til byggingar Þjóðleikhúss í Reykjavík og var hugmyndin sú að með því myndu hinar lægri skemmtanir styðja hinar æðri og þroskavænlegri, eins og Jónas Jónsson orðar það í merku riti sínu um þjóðleikhúsmálið.

Staða L.R. var um þetta leyti erfið og hafði svo verið undanfarin ár. Verðlag hækkaði mjög í heimsstríðinu 1914-1918 sem gerði leikhúsreksturinn allan þyngri, auk þess sem félagið missti á þessu árabili nokkra helstu leikendur sína til margra ára. Annmarkarnir á Iðnó urðu æ betur ljósir, eftir því sem lengra leið, og ekki batnaði ástandið þegar Iðnaðarmannafélagið seldi húsið árið 1918. Hinn nýi eigandi þess, Franz Haakonsen, taldi sig ekki sérstaklega vandabundinn L.R. og leigði húsið út til annarra leiksýninga, einkum Reykjavíkurannáls fyrir revíurnar. Þjóðleikhúsbaráttan var, á þessu stigi a.m.k., fyrst og fremst barátta fyrir bættu húsnæði undir starf L.R.

Lagafrumvarp það um þjóðleikhús, sem var borið fram af þeim Jakobi Möller og Þorsteini M. Jónssyni í skjóli Jónasar frá Hriflu, mætti verulegri andspyrnu á Alþingi. Þó að frumvarpið fengist samþykkt var málið í rauninni alls ekki í höfn, eins og Jónas lýsir í fyrrnefndu riti, og var áfram bitist um þjóðleikhússjóðinn, sem var sumum þingmanna mikill þyrnir í augum og þeim fannst betur varið í aðrar þarfir. Sem betur fer tókst þó að koma í veg fyrir allar slíkar tilraunir. Fyrsta byggingarnefnd leikhússins var skipuð og sátu í henni þeir Indriði Einarsson, Einar H. Kvaran og Jakob Möller. Framkvæmdir við bygginguna munu hafa hafist árið 1929, hornsteinn var lagður árið 1930 og setti Indriði Einarsson í hann handskrifað eintak af Nýársnóttinni. Húsið reis síðan af grunni og var orðið fokhelt árið 1932. Þá var framkvæmdum frestað, þjóðleikhússjóðurinn tekinn til almennra ríkisþarfa með sérstakri lagasetningu og erfiðum fjárhag ríkissjóðs á krepputímum borið við. "Þjóðleikhúsið þolir bið/þarna á bak við Safnhúsið" var ort í revíutexta og þegar breski herinn kom hingað árið 1940 fannst yfirmönnum hans ástæðulaust að láta slíka byggingu standa ónotaða og gerði hana að birgðageymslu. Það var ekki fyrr en árið 1944 að framkvæmdir hófust loks aftur og sex árum síðar var húsið opnað með mikilli viðhöfn.

Þjóðleikhúslögin frá 1923 eru fyrsta lagasetning á Íslandi um leikhúsmál. Árið 1949 voru sett lög um rekstur Þjóðleikhúss og árið 1965 lög um starfsemi áhugaleikfélaga. Árið 1977 voru sett lög um alla leiklistarstarfsemi aðra en Þjóðleikhúsið og árið 1978 voru Þjóðleikhúslög endurskoðuð. Árið 1998 voru sett leiklistarlög sem taka yfir allan leikhúsrekstur, einnig rekstur Þjóðleikhússins.

Mynd: Jónas frá Hriflu

fsjonash.jpg
Til baka