Jan 27, 2020

1922


Revíuöld hefst í Reykjavík

Árið 1907 var leikfélag stofnað á Akureyri (Leikfélag Akureyrar eldra). Bærinn hafði þá eignast nýtt og veglegt samkomuhús sem hefur alla tíð verið ein hans mesta höfuðprýði. Félag þetta starfaði af dugnaði í fáein ár og voru helstu forkólfar Vilhelm Knudsen kaupmaður, Guðmundur Guðlaugsson og Margrét Valdimarsdóttir, skærasta leikstjarna Akureyrar á þessum árum. Guðlaugur Guðmundsson, sýslumaður og bæjarfógeti á Akureyri, faðir Guðmundar - og Soffíu sem varð síðar þjóðkunn leikkona í Reykjavík - var mikill leikáhugamaður, lék og leikstýrði. En eftir fáein ár lognaðist þessi félagsskapur út af. Vilhelm Knudsen flutti til Reykjavíkur 1912 og nokkru síðar létust Guðmundur og Margrét ung að árum. Leikstarf Akureyringa var eins og annarra áhugamanna háð elju og ósérhlífni nokkurra burðarása og ef þeirra missti við fór allur kraftur úr starfinu.

Á þriðja áratugnum urðu revíusýningar mjög vinsælar í Reykjavík. Fáeinar tilraunir höfðu verið gerðar áður til að flytja háðleiki úr samtíðinni og er þar helst að nefna leik Einars Benediktssonar, Við höfnina, sem var sýnd í Breiðfjörðs-leikhúsi árið 1895, og Allt í grænum sjó, sem var sýnd í Iðnó árið 1913 og olli miklu fjaðrafoki. En ekkert framhald varð á þessum sýningum; Reykjavík var enn of mikill smábær til að þola svo hispurslausa umfjöllun um þekkta menn og málefni líðandi stundar. Það var helst að menn leyfðu sér að skopast að slíku í gamanvísum sem voru einkar vinsælt skemmtiefni á samkomum. Bæði Stefanía Guðmundsdóttir og Gunnþórunn Halldórsdóttir gerðu t.d. mikið að því að flytja gamanvísur, a.m.k. á tímabili.

Árið 1922 samdi Páll Skúlason, sem nokkrum árum síðar stofnaði gamanblaðið Spegilinn og ritstýrði því í áratugi, revíu fyrir Tennisfélag Reykjavíkur, Boltinn með lausa naflann. Henni var vel tekið og réðst Páll þá í stofnun fyrirtækis, Reykjavíkurannáls, sem náði að setja upp sex revíur áður en áratugurinn var allur. Með Páli starfaði jafnan hópur höfunda og má þar einkum nefna Morten Ottesen, Gústaf Jónasson, Magnús Jochumsson, Reinholt Richter, Eggert Laxdal og Magnús Ásgeirsson. Leikendur voru einnig oftast hinir sömu: Friðfinnur Guðjónsson, Gunnþórunn Halldórsdóttir, Reinholt Richter, Rósa Ívars, Tryggvi Magnússon og Haraldur Á. Sigurðsson. Fyrsta revía Reykjavíkurannáls var Spánskar nætur (1923), "ársreikningur í fjórum liðum án fylgiskjala", sú síðasta Títuprjónar (1930) "safn til sögu Íslands og íslenskra bókmennta".

Revíur Reykjavíkurannáls höfðu venjulega einfaldan og losaralegan söguþráð og persónurnar voru hreinar skopfígúrur, oft sniðnar eftir þekktum borgurum; þegar ein persónan er t.d. nefnd Gorgur Kiljan Grímsness duldist engum hver átti sneiðina. Aðalpersónur voru oftast roskin hjón sem þau Friðfinnur og Gunnþórunn léku. Karlinn er betri borgari, braskari eða gróðamaður sem oftar en ekki hefur óhreint mjöl í pokahorninu. Þau hjón eiga dóttur sem ungur maður á uppleið vill ganga að eiga og er sá gjarnan úr alþýðustétt. Revíurnar endurspegluðu þannig hina nýju stéttaskiptingu samfélagsins, deildu á kunn hneykslismál og veltu sér upp úr bæjarslúðri. Þar var jafnan mikið um söngva og fóru sumir söngtextanna sem eldur í sinu manna á meðal, enda stíll þeirra fjölbreytilegur og oft hnyttilega að orði komist.

Starf Reykjavíkurannáls markar tímamót í íslenskum leikhúsrekstri að því leyti að hann er í raun fyrsti leikhópurinn eða sjálfstæða leikhúsið, svo notað sé nútímalegt orðalag, sem hér kemur upp og heldur velli um árabil án opinberra styrkja. En hinar vinsælu revíur voru að sjálfsögðu ögrun og jafnvel ógn við Leikfélag Reykjavíkur og bætti ekki úr skák að þær fengu inni í því leikhúsi sem L.R. hafði setið nánast eitt að frá upphafi vega. Að sögn Indriða Einarssonar þorði félagið hins vegar ekki að leika revíur af ótta við að missa styrk úr landssjóði; "það gat ekki tekið uppá sig að reita þá, sem mestu réðu, til reiði við sig", skrifar Indriði. En L.R. datt brátt niður á snjallan mótleik sem voru farsar þýsku höfundanna Fritz Arnolds og Ernst Bach. Hinn fyrsti þeirra, Spanskflugan, var sýndur haustið 1926 og þegar næsta vetur kom sá næsti, Stubbur. Viðtökur leikhúsgesta sýndu að þarna var veðjað á réttan hest og árið 1940 voru farsarnir úr smiðju þeirra Arnold & Bach á sviði L.R. orðnir sjö talsins. Leikirnir voru langflestir þýddir og staðfærðir af hinum fjölgáfaða listamanni Emil Thoroddsen og fluttir undir stjórn Indriða Waage, frænda hans. Kröfuhörðum bókmenntamönnum þótti fæstum mikið til koma, en áhorfendur mættu í leikhúsið og borguðu miðana sína; það skipti máli fyrir fjárvana leikhús.

revia.jpg
Til baka