Jan 27, 2020

1907


"Íslenska tímabilið" í sögu L.R. hefst

L.R. frumsýndi Nýársnótt Indriða Einarssonar í mjög endurskoðaðri gerð höfundar á jólum 1907. Sýningin varð geysivinsæl, enda hafði mikið verið í hana lagt af hálfu leikhússins, og hún var endursýnd hvað eftir annað næstu ár. Indriði Einarsson var bæði glaður og stoltur þegar hann sagði kunningja sínum frá þessu öllu í bréfi:

Nýársnóttin hefur verið sigur fyrir mig og íslenskt þjóðerni í Reykjavík. Aldrei hefur leikrit gengið eins vel, og aldrei hafa meðaltalstekjur af neinu leikriti eða neinum 18 kvöldum verið eins miklar (ca. 295 kr. á kvöldi). Fólk hefur verið fjarska ánægt margt. Einn var búinn að fara 6 sinnum og var farið að langa í 7. sinnið. Öll dramatíska fjölskyldan /þ.e. fjölskylda Indriða/ var í eldinum frá því löngu fyrir jól. Systurnar hérna keyptu í fötin á álfkonurnar, og lögðu það allt niður, en Lára keypti inn í Kaupmannahöfn. Jón Fjeldsted gjörði búningana á álfana eftir fyrirsögn Jens Waage, Carl Lund /danskt leiktjaldaverkstæði sem L.R. leitaði oft til á þessum árum/ málaði tjöldin, eftir modelli frá Ásgrími /Jónssyni/ útiscenuna, og eftir Korrespondence við mig gyllta súlnasalinn. Guðrún dóttir mín kompóneraði dans í 2. Akt, sem var ákaflega fínn, Bertelsen bjó til hina, og löguðu svo annan þeirra, til þess að hann passaði við músík Sigfúss Einarssonar. Ég stúderaði fabúluna með leikfólkinu og fékk maskíneríið til að verða precist og fljótt, svo - voliá tout!

Sögulega séð markaði frumsýning Nýársnæturinnar 1907 upphaf þess sem hefur verið nefnt "íslenska tímabilið" í sögu L.R., því að næstu 13 ár, mátti heita að frumsýning á nýju íslensku verki væri nánast árviss. Frægustu viðburðir þessarar sögu eru frumsýningarnar á Fjalla-Eyvindi Jóhanns Sigurjónssonar (1911) og Galdra-Lofti (1914), en sýningar á verkum Einars H. Kvaran (Lénharður fógeti, 1913, og Syndir annarra 1915) og Guðmundar Kamban (Hadda Padda, 1916, Konungsglíman, 1918, og Vér morðingjar, 1920) vöktu einnig áhuga og hrifningu.

Í bréfinu, sem er vitnað til hér að ofan, talar Indriði Einarsson um sig og sitt fólk sem "dramatísku fjölskylduna". Það var ekkert óeðlilegt: dætur hans fjórar, Guðrún, Emilía, Eufemía, og Marta voru allar um langan aldur meðal helstu leikkvenna félagsins og tengdasonur hans, Jens B. Waage, maður Eufemíu, var einn glæsilegasti leikari félagsins. En í L.R. var önnur "dramatísk" fjölskylda: Stefanía Guðmundsdóttir, maður hennar, Borgþór Jósefsson, sem var um árabil gjaldkeri félagsins og sýningarstjóri, og börn þeirra flest, þegar þau uxu úr grasi á þriðja og fjórða áratugnum. Þessi tvö stórveldi héldu uppi starfi L.R. og voru ekki alltaf miklir kærleikar á milli þeirra, einkum eftir að börnin tóku að láta að sér kveða í starfinu. Þó verður að taka skýrt fram að eldri kynslóðin lét persónulega óvild eða missætti ekki bitna á starfinu. Það var alveg skýrt hverjar "stjörnurnar" voru og á milli þeirra var ákveðið valdajafnvægi sem tryggði leikstarfinu nauðsynlegan stöðugleika.

nyarsno.jpg
Til baka