Jan 27, 2020

1897


Leikfélag Reykjavíkur stofnað

Stofnun Leikfélags Reykjavíkur 11. janúar 1897 er einn mesti tímamótaviðburður íslenskrar leiklistarsögu. Fyrir tíma þess hafði leikstarfsemi höfuðstaðarins verið mjög óskipuleg og að mestu bundin við síðari hluta vetrar. Með tilkomu L.R. öðlaðist framsækin leikstarfsemi Reykjavíkur þá festu sem var forsenda allra framfara. Almennt má segja að árangur L.R. hafi einkum verið þríþættur: 1) því tókst að halda uppi reglubundnum leiksýningum sem stóðu að jafnaði frá haustbyrjun fram undir vor, 2) það náði að beina verkefnavalinu inn á metnaðarfyllri brautir en nokkru sinni fyrr, bæði hvað varðar fjölbreytni og listræn gæði, og 3) því tókst að halda saman föstum leikflokki, mynda harðan kjarna sem varð fyrsti vísir að nútímalegri fagmennsku í íslenskri leiklist. Frá upphafi var það markviss stefna félagsins að greiða laun fyrir alla vinnu í þess þágu. Það átti jafnt við um leikara sem alla aðra, starfsmenn við sviðið, smiði, sminkara, saumakonur, sendla. Þau laun voru að vísu lág, enginn gat lifað af þeim einum, en það gat munað um þau í samfélagi stopullar vinnu. Skilaboðin voru skýr: L.R. átti að verða annað og meira en venjulegt áhugamannafélag.

L.R. var stofnað af 19 einstaklingum og voru þeir eftirtaldir: Árni Eiríksson, Andrés Bjarnason, Borgþór Jósefsson, Brynjólfur Þorláksson, Einar J. Pálsson, Friðfinnur Guðjónsson, Gunnþórunn Halldórsdóttir, Hjálmar Sigurðsson, Jónas Jónsson, Kristján Ó. Þorgrímsson, Magnús Benjamínsson, Matthías Matthíasson, Ólafur Ólafsson, Sigríður Jónsdóttir, Sigurður Magnússon, Stefanía Guðmundsdóttir, Steinunn Runólfsdóttir, Þóra Sigurðardóttir og Þorvarður Þorvarðsson. Hluti þessa hóps voru fulltrúar Iðnaðarmannafélagsins í Reykjavík sem hafði reist Iðnó, þeir Andrés Bjarnason, Einar J. Pálsson (sem byggði húsið), Magnús Benjamínsson (formaður Iðnaðarmannafélagsins), Matthías Matthíasson, Ólafur Ólafsson og Þorvarður Þorvarðsson. Hitt voru leikarar eða fólk sem tengdist leikhúsinu.

Þorvarður Þorvarðsson taldist þó til beggja hópanna. Þó að hann yrði aldrei neinn burðarleikari hafði hann tekið þátt í leiksýningum í Gúttó, jafnframt því sem hann var einn af liðsoddum iðnaðarmanna. Það var hann sem gekkst fyrir því að safna leikendum Reykjavíkurbæjar saman og mynda sjálfstætt leikfélag sem hefði fasta aðstöðu í Iðnó. Aðdragandinn að stofnun félagsins var sá að Iðnaðarmannafélagið vildi komast yfir eignir Kúlissusjóðsins, eins og rakið er í kaflanum um hann hér að framan (sjá 1866). En fleira bar til: reynsla undanfarinna ára hafði kennt leikendum að það var orðið nauðsynlegt að finna starfinu fastari skipan, ekki síst til að koma í veg fyrir ágreining um fjárreiður. Það gekk einfaldlega ekki lengur upp að menn tækju sameiginlega ábyrgð á fjárhag einstakra sýninga; með því móti var sýnt að áfram yrði hjakkað í sama farinu um ófyrirsjáanlega framtíð. Iðnaðarmannafélagið hafði einnig þann hag af stofnun L.R. að með því fékk það fastan leigjanda, en þurfti ekki að standa í því að leigja tilfallandi hópum eða einstaklingum á hverjum vetri. Allir græddu því eitthvað á stofnun félagsins, en það var Þorvarður Þorvarðsson sem af krafti sínum, lipurð og framsýni átti öllum meiri þátt í því að að koma því á laggirnar.

Starfshættir L.R. voru í fyrstu mjög lýðræðislegir, enda leikendur vanir því að hafa hönd í bagga með leikhúsrekstrinum. Það hefði aldrei gengið að koma strax á fót nánast einvaldri stjórn, líkt og þó varð fljótlega raunin, en þá hafði reynslan líka sýnt mönnum að hjá því yrði ekki komist, ætti slíkt leikhús á annað borð að ganga. Stjórn félagsins, sem var kosin á aðalfundi árlega, hafði því í upphafi mikið samráð við almenna félaga, bæði um verkefnaval og annað sem laut að daglegum rekstri. Þegar til lengdar lét sáu þó allir að ekki var raunhæft að þurfa að bera leikritaval í leikhúsi, sem sýndi a.m.k. 3-4 ný leikrit á ári, undir stóran hóp félaga. Þá reyndist ekki heldur gerlegt að greiða leikendum sömu sýningarlaun án tillits til stærðar hlutverka; stjórnin stóð brátt frammi fyrir því að sumir leikendur vildu fá betur greitt en aðrir - og það leikendur sem síst mátti missa. Hlutverkaskipan var einnig viðkvæmt mál; upphaflega hugsuðu menn sér að hún yrði í höndum sérstaks embættismanns utan félagsins, svokallaðs "rulluskipara", en sú tilhögun reyndist ekki heldur hentug, einkum eftir að sérstakur leikstjóri - eða "leiðbeinandi" eins og hann nefndist þá - var kominn að leikhúsinu. Allt varð þetta til að ýta undir stjórnina og formann hennar, sem varð í verki leikhússtjóri, að taka völdin í sínar hendur. Stjórnin var kjörin af aðalfundi og bar ábyrgð gagnvart honum; hann gat að sjálfsögðu breytt skipan hennar, sýndist honum svo, en á milli aðalfunda var eðlilegt að stjórnin réði og stæði þá og félli með ákvörðunum sínum.

Fyrstu ár L.R. voru mjög átakasamur tími og líf félagsins hékk á stundum á bláþræði. Einkum var siglingin erfið fyrstu tvö árin á meðan félagið fékk enga opinbera styrki. Alþingi samþykkti þó árið 1899 að veita því 300 króna styrk gegn því að Reykjavíkurbær greiddi því hálfa þá upphæð á móti; alþingismönnum þótti alls ekki réttlátt að landssjóður stæði einn undir leikhúsi sem Reykvíkingar nytu öðrum fremur góðs af. Tæpast var við því heldur að búast að bændahöfðingjarnir á Alþingi skildu að hér var verið að leggja grunn að öðru og meira en einkaleikhúsi Reykvíkinga. Styrkirnir urðu ekki háir; fyrstu áratugina námu þeir aldrei hærri upphæð en sem svaraði 20% útgjalda. En þeir höfðu sálfræðilega þýðingu, ekki síst gagnvart úrtölumönnum sem nóg var af innan félagsins. Styrkirnir staðfestu að starfið hefði menningarlegt gildi, einnig í augum landsfeðranna; að samfélagið liti svo á að hér væri unnið þarft verk sem ástæða væri til að styðja við bakið á.

lhidno2

Verkefnaval L.R. alla fyrstu árin var mjög af léttara taginu, útlendir gamanleikir eða vinsæl melódrömu, stundum þó með ádeilubroddi í anda raunsæisstefnunnar. Þegar kom fram yfir aldamót taka menn að setja markið hærra og verk eftir höfunda á borð við Björnstjerne Björnson, Ibsen og Emil Zola skjóta upp kollinum. Þó að leikdómarar blaðanna færu viðurkenningarorðum um þessa viðleitni dylst ekki að sálfræðileg verk á borð við Afturgöngur eða Þjóðníðing Ibsens voru hinum ungu leikurum mjög ofviða. Hópurinn réði betur við melódrömu á borð við leikrit Hermanns Sudermann (Heimkoman 1900, Heimilið 1902) eða Kamelíufrú Alexandre Dumas, enda voru þar góð stjörnuhlutverk fyrir helstu leikendur.

Leikendahópur L.R. var alltaf mjög óstöðugur sem heild og oft missti það krafta sem góðar vonir voru bundnar við. Það voru í rauninni aðeins sjö einstaklingar sem má segja að hafi myndað burðarásinn í leikhópi L.R. nánast frá upphafi og fram yfir 1920: Stefanía Guðmundsdóttir, Árni Eiríksson, Kristján Ó. Þorgrímsson, Emilía Indriðadóttir, Jens B. Waage, Guðrún Indriðadóttir og Friðfinnur Guðjónsson. Þeir Kristján og Árni létust um miðjan annan áratuginn og Jens B. Waage hvarf af sviðinu 1920. Af öðrum leikendum, sem störfuðu skemur en komust þó í fremstu röð á meðan þeir voru virkir, má nefna Jón Jónsson (Aðils), Gunnþórunni Halldórsdóttur og Andrés Björnsson.

Um leikstjórn í nútímaskilningi var naumast að ræða á þessu tímabili. Leikstjórinn var, eins og áður segir, nefndur "leiðbeinandi" eða "instruktör" upp á danskan móð og gefur íslenska heitið nokkra vísbendingu um til hvers var ætlast af honum. Heitið "leikstjóri" virðist hins vegar hafa verið notað um þann starfsmann sem myndi samsvara sýningarstjóra og leiksviðsstjóra nú á dögum. Fór sjálfsagt mikið af tíma "leiðbeinandans" í að finna leikendur til að fylla í þau skörð sem ævinlega voru í leikarahópnum, auk þess sem hann hlýtur að hafa veitt þeim reynsluminnstu tilsögn í frumatriðum leikrænnar tjáningar, framsögn, sviðsframkomu og hreyfingum, eftir því sem þeir hafa verið móttækilegir fyrir slíku. Burðarleikendur voru vafalaust að miklu leyti sjálfráðir um túlkun hlutverka, þó að vitað sé að Stefanía Guðmundsdóttir hafi a.m.k. stundum lesið hlutverk sín með Einari H. Kvaran. Einar var fastur leiðbeinandi L.R. frá 1898 til 1901 og starfaði síðar oft með félaginu. Voru gagnrýnendur á einu máli um að leikhópurinn hefði tekið ótvíræðum framförum undir hans leiðsögn á fyrsta tímabili hans og síðar kom hann að uppsetningu merkra verka, t.d. leikja Jóhanns Sigurjónssonar, Bóndans á Hrauni og Galdra-Lofts. Árni Eiríksson mun hafa gripið í leiðbeinandastarfið stöku sinnum á meðan hann gegndi formennsku, en frá 1902 til 1910 var Jens B. Waage þó aðalleiðbeinandi félagsins.

Árið 1904 var Þorvarður Þorvarðsson felldur í formannskjöri af Árna Eiríkssyni sem gegndi eftir það formennsku næstu fimm ár og aftur frá 1913-1915; árin 1909-1913 var Jens B. Waage formaður. Hvað olli því að Þorvarður var felldur er ekki ljóst, en afleiðingarnar fóru ekki á milli mála: það voru "stjörnurnar" sem nú tóku völdin í leikhúsinu og gátu eftirleiðis hagað verkefnavali að miklu leyti að eigin vild. Má vitaskuld deila um hversu heillavænleg áhrif þetta hafði á starfið, en í ljósi allra aðstæðna og þeirra afreka sem þarna voru síðar unnin, þrátt fyrir allt, er erfitt að gagnrýna þessar málalyktir harðlega. Það kostaði þetta fólk allt óhemju baráttu að halda L.R. á lífi og er tæpast tilviljun að allir burðarleikendurnir fjórir, Stefanía, Guðrún, Jens og Árni, voru annað hvort látin eða horfin af sviðinu fyrir fimmtugt.

lhidno1.jpg
Til baka