Jan 20, 2020

1871


Nýársnótt Indriða Einarssonar frumsýnd í Lærða skólanum í Reykjavík

Frumsýning Nýársnæturinnar eftir Indriða Einarsson er frægasti viðburður í leiksögu Lærða skólans á 19. öld. Þegar hér var komið sögu var aftur hlaupin gróska í leikstarf skólapilta eftir mikla deyfð í kjölfar pereatsins svonefnda 1850. Næstu ár á undan höfðu skáldmennin ekki legið á liði sínu: Valdimar Briem, síðar sálmaskáld og vígslubiskup, samdi leikinn Í jólaleyfinu árið 1866, Kristján Jónsson Fjallaskáld Misskilninginn og fleiri leiki, og Jón Ólafsson, síðar blaðamaður og ritstjóri, Lærifeður og kenningarsveina og Fé og ást. Jón Ólafsson var alltaf mikill leikhúsunnandi og skrifaði gjarnan fjöruga leikdóma í blöð sín.

Frumsýning Nýársnæturinnar er hátindur þessa gróskuskeiðs, enda er hún eini skólaleikurinn sem hefur náð nokkurri fótfestu á íslensku sviði, að vísu í endurskoðaðri mynd. Efnið sækir höfundur í íslenskar þjóðsögur, líkt og Matthías Jochumsson í Útilegumönnunum, nema hér eru það álfasögurnar sem eru uppistaðan og er efnismeðferðin jafn frjálsleg og hjá Matthíasi. Sigurður málari Guðmundsson aðstoðaði við sýninguna og segir Indriði svo frá í endurminningum sínum:

"Æfingarnar þokuðust áfram, og Sigurður málari var kominn þangað, því hann átti að annast útbúninginn, að svo miklu leyti sem hann gat orðið nokkur. Það fór að kvisast um bæinn, ég held helst eftir Sigurði málara, að þetta leikrit mitt mundi vera einhvers virði." Hann lýsir síðan frumsýningunni á mjög lifandi hátt, áhyggjum sínum og kvíða (hann var ekki aðeins höfundur heldur lék einnig í sýningunni) og segir síðan: "Tjaldið féll í síðasta sinni um kvöldið, og við stóðum uppi á leiksviðinu og hlustuðum á klappið. Það var glatt, fjörugt og hjartanlegt. Sigurður málari stóð hjá mér og sagði: "Iðrastu nú eftir, að þú hættir ekki við að leika?" Ég svaraði: "Ég hélt áfram af því, að ég hef aldrei heyrt þig segja í þetta sinn: "Það er svoddan andsk. að fást við það." Hvenær sem talað var við Sigurð málara um, að nú þyrfti að koma gleðileikjum af stað, þá svaraði hann æfinlega: "Það er svoddan andsk. að fást við það."

Leikurinn vakti mikla hrifningu og þótti sýna að höfundur væri til alls vís sem leikskáld. Þjóðólfur fylgist sem fyrr vökulu auga með því sem fram fer og skrifar:

"Nýársnóttin er efnisríkur leikr, leiddur með skáldlegri meðferð og vandvirkni út af þjóðsögnum vorum og þjóðlífi, og víðast hvar furðu vel niður lagðr og lagaður fyrir leiksviðið eins og það er algjört í öðrum löndum, en sem hér er hjá oss í mjög miklu naumasmíði enn, sem vonlegt er, ekki síst þegar ekki er öðruvísi húsrúms ráð heldur en nú var og oftar hefir verið fyrri, að nota varð "langa svefnloftið" í skólanum. Mátti segja, að allir þeir er léku, léki vel, og nokkrir enda afbragðsvel." (6. jan. 1872).

Nokkrir velvildarmenn Indriða gengust fyrir samskotum til höfundar, svo hann gæti siglt og komist í leikhús; það urðu 150 rdl. Þegar leikurinn kom út á bók á Akureyri sumarið eftir tileinkaði Indriði þeim útgáfuna.

Meira um Indriða Einarsson

lhlaerdi.jpg
Til baka