Jan 20, 2020

1858


Sigurður Guðmundsson málari sest að í Reykjavík

lmsiggum

Árið 1858 settist Skagfirðingurinn Sigurður Guðmundsson að í Reykjavík. Þó ungur væri, aðeins tuttugu og fimm ára gamall, átti hann að baki langt myndlistarnám við Listaháskólann í Kaupmannahöfn.  Sigurður bjó því yfir einstakri þekkingu og færni sem brátt kom reykvískri leikstarfsemi mjög til góða. Hann hafði kynnst danskri leikmenningu og bjó mjög að þeim kynnum; það er t.d. hugsanlegt að hann hafi leiðbeint leikendum og sagt þeim eitthvað til, þó að leikstjóri á nútímavísu væri hann að sjálfsögðu ekki.

Næstu ár eftir að Sigurður kom til Reykjavíkur var mikið leikið í Gildaskálanum. Þegar fyrsta veturinn vöktu leiktjöld hans mikla hrifningu sem endurspeglast í frásögn Þjóðólfs:

"Fullyrða má það, að staðarbúum og öðrum er sáu, hafi geðjast vonum framar að því hvernig leikið var og að frágangi og umbúnaði öllum á leiksvæðinu, enda ætlum vér, að það hafi ekki getað betur tekist yfir höfuð að tala, með þeim föngum sem hér eru til", skrifar blaðið 15. janúar 1859. Ritstjóri Þjóðólfs, Jón Guðmundsson, var mikill velvildarmaður Sigurðar og studdi hann eftir fremsta megni í blaði sínu.

En Sigurði var fleira til lista lagt en mála leiktjöld, hann kunni einnig að farða leikendur og búa þeim gervi. Um það segir Þjóðólfur: "Mikið urðu og leikendrnir sélegri og álitlegri útlits fyrir það, að þeir voru svo snilldarlega og breytilega málaðir að ásjónu, eftir því sem ætlunarverk þeirra útheimti, að þeir væri t.d. gamlir, ófrýnilegir, slarkaralegir, heimskir o.s.frv., en það allt gjörði landi vor Sigurðr Guðmundsson, sem hér er nú staddur og er orðinn svo mæta vel að sér í uppdráttarlistinni." Ári síðar skrifar blaðið (10. mars 1860): "Sigurði málara er það að þakka, að svipir og búningar leikaranna voru eins ágætir eins og þeir voru: Gömlu karlarnir voru svo æruverðir og hrukkóttir; skálkarnir svo bófalegir og svipillir, enda einn þeirra með glóðarauga; kvennsvarrarnir svo frenjulegir; yngismeyjarnar svo blómlegar, að snilld var á að líta ..."

Ekki dró úr hrifningu Þjóðólfs þegar "tableaux" Sigurðar, lifandi myndir hans eða uppstillingar, birtust á sviðinu. Þar gátu Reykvíkingar líkt og horft inn í sjálfa fornöldina, séð deyjandi hetjur og ástmeyjar þeirra stíga fram ljóslifandi, en hreyfingarlausar, á sviði Gildaskálans. "Tableaux vivant", lifandi málverk, voru á þessum tíma alþekkt listform í Evrópu, þrívíðar myndir með lifandi leikurum sem klæddust í búninga og gervi. Hjá Sigurði sýndu þeir tiltekin atriði úr fornsögum og Eddukvæðum. Þannig stóðu þeir frá því tjaldið fór frá og þangað til það féll fyrir; hugsanlega var viðeigandi kafli lesinn upp á meðan, jafnvel með tónlist eða áhrifahljóðum. Úti í Evrópu var formið einkum nýtt til að líkja eftir frægum sögulegum málverkum sem fólk átti að sjálfsögðu ekki jafn auðveldan aðgang að og við gerum á öld prent- og fjölföldunartækninnar. Sigurður skapaði hins vegar eigin "tableaux" í anda þeirrar sögulegu málverkagerðar sem hann hafði hrifist af á námsárum sínum í Kaupmannahöfn og hefði sjálfsagt stundað, hefðu aðstæðurnar leyft það. Samtíð Sigurðar fannst þessar sýningar sérkennilegar og heillandi, en huga okkar leiða þær gjarnan að "performönsum" eða "innsetningum" nútímans. Áratugum síðar urðu svokallaðar "skrautsýningar" mjög vinsælar víða um land og hafa menn stundum viljað sjá uppruna þeirra í þessum sýningum Sigurðar.

Fyrstu árin eftir heimkomuna gerði Sigurður nokkuð af því að teikna og mála mannamyndir og er margt af því varðveitt í Þjóðminjasafninu. Ekki leið þó á löngu áður en hann sneri sér að öðrum hugðarefnum. Hann var mikill þjóðernissinni og mjög í mun að að efla íslenska þjóðernistilfinningu. Sigurður skildi að þjóðernisástin yrði að nærast á sýnilegum táknum. Hann vildi t.d. að fálkinn yrði í skjaldarmerki þjóðarinnar í stað þorsksins áður og lagði fram róttækar hugmyndir um endurskoðaðan þjóðbúning kvenna og karla. Urðu kvenbúningar hans snemma afar vinsælir, en karlbúningar hans síður. Þá var hann einn af stofnendum og burðarásum leynilegs málfunda- og framfarafélags, Kveldfélagsins, sem starfaði fram á áttunda áratuginn. Þar voru rædd margvísleg þjóðþrifamál, pólitík og heimspekileg álitaefni. Sigurði varð þar tíðrætt um leikhúsmálin og hefur sennilega kastað þar í fyrsta sinn fram á fundi hugmyndinni um íslenskt þjóðleikhús, hugmynd sem Indriði Einarsson, lærisveinn hans, tók síðar upp og bar fram til sigurs.

Aðalstarf Sigurðar mörg síðustu æviár hans var þó uppbygging Þjóðminjasafnsins. Það var stofnað árið 1863, mest fyrir hans forgöngu. Árin þar á undan hafði Sigurður undirbúið stofnun þess í samvinnu við ýmsa aðra áhugamenn. Safnið var fyrst til húsa á dómkirkjuloftinu við heldur frumstæðar aðstæður. Óx safnið og dafnaði í hans tíð og vakti athygli bæði innlendra og erlendra gesta. Fyrir þetta starf fékk Sigurður lítil sem engin laun og litla opinbera viðurkenningu, enda skiptar skoðanir um það meðal Dana hversu æskilegt væri að Íslendingar væru sjálfir að geyma forngripi sína í stað þess að flytja þá í danska þjóðminjasafnið þar sem miklu betur færi um þá. En Sigurður hugsaði um fleira en fornfræðin, því að hann gerði sér fyrstur manna grein fyrir nauðsyn þess að skipuleggja hinn nýja höfuðstað landsins, fegra hann og prýða. Vísuðu ýmsar hugmyndir hans um t.d. útivistarsvæði í Laugardal, vatnsveitu o.fl. mjög fram á við, þó að þær yrðu ekki að veruleika fyrr en löngu eftir að hann var allur. Þó má nefna Skólavörðuna, sem Skólavörðuholtið var kennt við, eina sérstæðustu byggingu bæjarins, sem hann mun hafa teiknað og var reist um 1870. Að sjálfsögðu sá Sigurður fyrir sér að Reykjavík framtíðarinnar yrði prýdd styttum og minnismerkjum, eins og aðrar menningarborgir, og átti fyrstur hugmynd að minnisvarða Ingólfs Arnarsonar sem löngu síðar reis á Arnarhóli. Eru vinnugögn Sigurðar, minnisbækur og skissur, sem geymdar eru í Þjóðminjasafninu, einstök heimild jafnt um þessar hugmyndir hans sem annað listrænt starf hans.

sgleiktj

Sigurður var mikill áhugamaður um eflingu íslenskrar leikritunar og hvatti bæði Matthías Jochumsson, Steingrím Thorsteinsson og Indriða Einarsson til að skrifa leikrit í þjóðlegum og rómantískum anda. Hann var einnig náinn vinur Jóns Árnasonar þjóðsagnasafnara og fylgdist vel með undirbúningi þjóðsagnasafns hans sem kom fyrst út á árunum 1862-64. Hann áttaði sig einna fyrstur á þeim dramatísku yrkisefnum sem fólust í þjóðsögunum og má þannig að vissu leyti teljast faðir þjóðsagnaleikritanna, sem lengi voru einn aðalstraumur íslenskrar leikritunar. Sjálfur samdi hann aðeins eitt leikrit, Smalastúlkuna og útilegumennina, sem lá óbirt í handriti í hátt í 120 ár. Það var fyrst sýnt í Þjóðleikhúsinu árið 1980 í gerð Þorgeirs Þorgeirsonar rithöfundar sem rannsakaði feril Sigurðar og verk vandlega. Það var þó umfram allt í gegnum lærisveina sína, Matthías og Indriða sem áhrif Sigurðar urðu varanleg.

Síðasta veturinn sem Sigurður Guðmundsson lifði vann hann að leiksýningum í Glasgow, stórhýsi sem stóð í norðanverðu Grjótaþorpinu. Þar varð hann innkulsa við að mála tjöld fyrir sýningu Hellismanna Indriða Einarssonar og komst aldrei til fullrar heilsu eftir það. Um sumarið vann hann að því að prýða þjóðhátíðarsvæðið á Þingvöllum, en þegar Danakonungur spurði hvort ekki ætti að heiðra hann eitthvað fyrir það, á stiftamtmaðurinn að hafa svarað því til að hann ætti ekkert skilið. Sigurður hafði sjaldan legið á fyrirlitningu sinni á hinni dönsku yfirstétt og sú fyrirlitning var gagnkvæm. Nokkrum vikum síðar var hann allur. Þorgeir Þorgeirson gat sér þess til að banamein hans hefði verið bráðaberklar.

Sýningin Frumherji og fjöllistamaður

1858sigu.jpg
Til baka