Safneign

Leikminjasafn Íslands á orðið mikið og fjölbreytt safn muna, gagna og heimilda um íslenska leiklistarsögu. Stór hluti þess eru einkasöfn, þ.e. gögn sem einstakir listamenn eða ættingjar þeirra hafa haldið saman um starf sitt og feril. Á þeim fáu árum, sem safnið hefur starfað, hefur það þannig eignast fjölda gagna og gripa frá ýmsum fremstu listamönnum íslensks leikhúss á síðustu öld. Þá á safnið ýmis gögn frá sjálfstæðum leikhópum, s.s. Grímu og Alþýðuleikhúsinu.

Hér verður sagt stuttlega frá nokkrum helstu söfnum sem safnið hefur eignast. Þar sem safnið er enn mjög fáliðað hefur það ekki náð að skrá nákvæmlega nema lítinn hluta gagnanna. Úr því verður þó bætt í framtíðinni eftir því sem safninu vex fiskur um hrygg.

Þegar staða safnsins er metin verður að hafa í huga að engin heildarsöfnun íslenskra leikminja fór fram áður en það var stofnað. Stefnan hefur því verið sú að bjarga sem mestu frá glötun af því sem talið hefur verið í ófullnægjandi varðveislu, en láta ítarlega flokkun og skráningu bíða betri tíma. Sömuleiðis hafa miklir kraftar farið í sýningahald og kynningu á málstað og markmiðum safnsins gagnvart almenningi.

Ljósaborð Þjóðleikhússins

Haustið 2005 barst Leikminjasafni Íslands í hendur stór og mikil gjöf frá Þjóðleikhúsnu: þrjú ljósaborð, ljósdeyfar, stýrikerfi og kastarar.

Safn Haralds Björnssonar

Safnið inniheldur ýmis gögn um feril Haraldar en sonarsonur hans, Stefáni Jónsson, leikari og leikstjóri afhenti það

Safn Gunnars Bjarnasonar

Gunnar var aðalleikmyndateiknari Þjóðleikhússins á sjöunda og áttunda áratugnum og færðu börn hans Leikminjasafninu allt safn hans

Safn Alfreds og Ingu

Leikarahjónin Alfred Andrésson og Inga Þórðardóttir voru áhugasamir safnarar. Gefandi var Laila dóttir þeirra

Safn Brynjólfs Jóhannessonar

Brynjólfur starfaði lengi með LR og lét eftir sig ýmist efni en Þór Tulinius dóttursonur hans sá um afhendingu safnsins

Safn Guðbjargar Þorbjarnardóttur

Guðbjörg lék með LR og í Þjóðleikhúsinu og eftir andlát hennar afhenti Rósa Eggertsdóttir muni úr fórum hennar

Safn Soffíu Guðlaugsdóttur

Efni safnsins eru mest einkaskjöl, handrit, leikskrár og ljósmyndir og kom sonur hennar Guðlaugur Hjörleifsson því til Leikminjasafnsins

Safn Auroru Halldórsdóttur

Eftir andlát Áróru rann safn hennar til LR en það hefur nú verið afhent Leikminjasafninu til varðveislu

Safn Indriða Waage

Börn Indriða þau Hákon og Kristín Waage færðu safninu ýmis gögn sem tengdust ferli hans þegar aldarafmælis Indriða var minnst

Handrit Guðmundar Kambans

Afkomendur Gísla Jónssonar bróður Guðmundar afhentu vorið 2004 frumhandrit af þremur helstu leikverkum Kambans

Eldur í Kaupinhafn

Lárus Ingólfsson var leikmynda og búningateiknari hjá LR og Þjóðleikhúsinu. Teikningin er frá uppfærslu Íslandsklukkunnar

Safn Klemenzar Jónssonar

Leikstjórnarhandrit eru meginuppistaðan í safni sem ekkja Klemenzar, Guðrún Guðmundsdóttir gaf

Teikning úr Útilegumönnunum

Teikningin er eftir Steinþór Sigurðsson sem hefur verið einn helsti leikmyndateiknari okkar um árabil

Safn Reumerts og Önnu Borg

Þetta safn er gjöf frá erfingjum Geirs Borg og var afhent við opnun sérstakrar sýningar í Þjóðminjasafni

Teikning eftir Finne

Myndin er frá uppsetningu Gerd Grieg á Veislunni á Sólhaugum og er eftir Ferdinand Finne, þekktan norskan leikmyndateiknara

Safn Helga og Helgu

Í safni Helga Skúlasonar og Helgu Bachmann eru m.a. ljósmyndir og handrit auk gagna frá Hallgrími föður Helgu

Myndir eftir Lothar Grund

Lothar Grund var þýskur leikmyndateiknari sem starfaði m.a. við Þjóðleikhúsið og eru teikningar hans meðal kjörgripa safnsins

Leikmynd í Marmara

Leikmynd Magnúsar Pálssonar leikmyndahönnuðar og myndlistarmanns úr Marmara eftir Guðmund Kamban

Safn Grímu

Ýmis gögn m.a. ljósmyndir, leikskrár og plaköt frá tilraunaleikhúsinu Grímu sem starfaði í Reykjavík á árunum 1962 til 1970

Sminkkassi Arndísar

Sminkkassi Arndísar Björnsdóttur barst Leikminjasafni sem gjöf frá Herdísi Þorvaldsdóttur leikkonu, en Arndís gaf henni kassann

Safn Alþýðuleikhússins

Alþýðuleikhúsið var stofnað 1975 og hafa Sigrún Valbergsdóttir, Arnar Jónsson og Þórhildur Þorleifsdóttir afhent safninu ýmis gögn þess

Kistill úr sýningu á Galdra-Lofti

Þessi kistill var gerður sérstaklega fyrir sýningu Leiksmiðjunnar á Galdra-Lofti Jóhanns Sigurjónssonar.

Safn Sveins Einarssonar

Í safni Sveins eru m.a. gögn um íslenska leiklistarsögu, handrit, leikskrár og ýmsar leikminjar