Stofnskrá Leikminjasafns Íslands

Skipulagsskrá fyrir sjálfseignarstofnunina Leikminjasafn Íslands

1. gr. Stofnendur
Leikminjasafn Íslands, sem stofnað er að frumkvæði Samtaka um leikminjasafn, kt. 570501-2320, er sjálfseignarstofnun með sérstaka stjórn og starfar á grundvelli laga nr. 19/1988 um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá. Um starfsemi stofnunarinnar gilda jafnframt safnalög nr. 106/2001. Heimili og varnarþing stofnunarinnar er í Reykjavík. Stofnunin ein ber ábyrgð á skuldbindingum sínum. Stofnunin er ekki háð neinum lögaðilum og mun ekki hafa með höndum atvinnurekstur í skilningi laga nr. 33/1999. Safnkost stofnunarinnar má eigi skerða.

Stofnendur Leikminjasafns Íslands eru þessir:
Assitej á Íslandi, Bandalag íslenskra leikfélaga, Bandalag sjálfstæðra leikhúsa, Félag íslenskra hljómlistarmanna, Félag íslenskra leikara, Félag íslenskra listdansara, Félag íslenskra tónlistarmanna, Félag kvikmyndagerðarmanna, Félag leiklistarfræðinga, Félag leikmynda- og búningahöfunda, Félag leikstjóra á Íslandi, Framleiðendafélagið SÍK, Íslenska óperan, Íslenska útvarpsfélagið, Íslenski dansflokkurinn, Leikfélag Reykjavíkur, Leikfélag Akureyrar, Leikskáldafélag Íslands, Listaháskóli Íslands, Rithöfundasamband Íslands, Ríkisútvarpið, Samband íslenskra myndlistarmanna, Tónskáldafélag Íslands, Unima á Íslandi, Þjóðleikhúsið.

Æðsta stjórn stofnunarinnar er í höndum fulltrúaráðs Leikminjasafns Íslands. Hver framangreindra stofnenda tilnefnir einn fulltrúa í fulltrúaráðið og annan til vara. Jafnframt hafa félagar með einstaklingsaðild að Samtökum um leikminjasafn heimild til að tilnefna einn fulltrúa úr sínum hópi og annan til vara. Tilnefningum skal skilað þremur vikum fyrir aðalfund og tekur gildi frá þeim tíma. Tilnefning gildir þar til stofnandi ákveður annað eða hættir starfsemi.

2. gr. Tilgangur
Tilgangur Leikminjasafns Íslands er að skrá leikminjar, setja upp sýningar á leikminjum og leiklistarsögulegu efni. Safnið mun í því skyni safna, varðveita, skrá, rannsaka og sýna leiklistarsögulegar minjar og hvers konar gögn um leikhefðir og starf leikhúsa, leikhópa og leikfélaga, atvinnumanna jafnt og áhugamanna. Leikminjasafn Íslands sinnir ennfremur rannsóknum á leiklist og leiklistarsögu, útgáfu og fræðslustarfi fyrir almenning, skólanemendur og menntastofnanir.

Til leikminja teljast m.a. handrit, teikningar, ljósmyndir, prentuð gögn, líkön, leikbúningar og leikmunir, tæknibúnaður, leikmyndir, ljósmyndir, hljóð- og myndupptökur, jafnt úr leikhúsum, útvarpi, sjónvarpi og kvikmyndum, er tengjast leiklistarstarfsemi. Til leiklistarstarfsemi teljast m.a. leikrit, óperur, óperettur, söngleikir, ballett, brúðuleikir, revíur og skemmtiefni, svo og allar listgreinar sem tengjast flutningi leikins efnis.

3. gr. Stofnframlag
Stofnendur leggja fram stofnframlög til Leikminjasafns Íslands skv. sérstökum samningum, þar sem það á við. Stefnt skal að því að stofnfé Leikminjasafns Íslands sé kr. 1.000.000.- Af stofnfé varðveitist á núgildandi verðlagi kr. 581.000.- sem skal vera óskerðanlegur höfuðstóll og ávaxtað með tryggilegum hætti. Fjárhagslegar skuldbindingar stofnunarinnar umfram stofnframlag eru stofnendum óviðkomandi.

4. gr. Aðalfundur, fulltrúaráð og stjórn
Fulltrúaráð kemur saman til aðalfundar og kýs í stjórn Leikminjasafns Íslands sjö stjórnarmenn og tvo til vara, alls níu. Hver stjórnarmaður situr í þrjú ár og mest í sex ár samfleytt. Til að tryggja endurnýjun í stjórn skal hafa þennan háttinn á: Við gildistöku þessarar málsgreinar skal kjósa um þrjá stjórnarmenn sem þá koma nýir inn í stjórn. Næsta ár skal kjósa um aðra þrjá og ári síðar enn um þrjá. Þá hafa stjórnarmenn setið í þrjú ár, verið endurnýjaðir og hringurinn byrjar upp á nýtt. Minnst fimm stjórnarmenn skuli vera úr hópi fulltrúa.

Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum og kýs úr sínum hópi formann, varaformann, ritara, gjaldkera og meðstjórnendur. Fimm stjórnarmenn sameiginlega hafa umboð til að skuldbinda stofnunina. Enga mikilvæga ákvörðun má taka nema stjórn sé fullskipuð.

Stjórnarfundur er lögmætur ef fjórir stjórnarmenn sækja fund. Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundi. Halda skal fundargerðir um stjórnarfundi.

Aðalfund skal halda eigi síðar en 30. maí ár hvert. Aðalfund skal boða bréflega með 14 daga fyrirvara. Aðalfundur er löglegur ef löglega er til hans boðað. Á aðalfundi skal stjórnin gera fulltrúaráði grein fyrir starfsemi stofnunarinnar og leggja fram endurskoðaða ársreikninga.

Á aðalfund skal boða aðalmenn og varamenn, og hafa þeir síðarnefndu málfrelsi og tillögurétt. Með fundarboði aðalfundar skal senda áritaða reikninga.

Dagskrá aðalfundar skal vera þannig:
1. Skýrsla stjórnar.
2. Afgreiðsla reikninga.
3. Starfsáætlun næsta árs.
4. Kosning stjórnar og endurskoðenda.
5. Önnur mál.

Varaformaður gegnir jafnframt hlutverki formanns fulltrúaráðs. Hann sér um samskipti við fulltrúa og gætir þess að stofnaðilar skipi ævinlega fulltrúa og varamann í fulltrúaráð. Hann kallar saman fulltrúaráðsfund tímanlega fyrir aðalfund. Fulltrúaráð gerir tillögur um endurnýjun stjórnarmanna skv. 4. gr. hér að ofan.

5. gr. Hlutverk stjórnar og forstöðumanns.
Stjórn Leikminjasafns Íslands hefur með höndum yfirstjórn stofnunarinnar. Stjórninni ber að vinna að markmiðum safnsins og koma fram fyrir þess hönd á opinberum vettvangi og gagnvart þeim sem veita safninu fjárhagslegan stuðning. Stjórnin ber ábyrgð á rekstri, fjárhag og eignum safnsins. Stjórnin ákveður meginþætti í stefnu og starfstilhögun safnsins og setur sér og því starfsreglur. Stjórn er heimilt að skipa sérstakt ráð til fjáröflunar eða til að vera stjórn til ráðgjafar.

Stjórnin ræður löggiltan endurskoðanda til að yfirfara ársreikninga stofnunarinnar og veitir viðtöku styrkjum fyrir hennar hönd. Formaður stjórnar skal sjá til þess að ársreikningur berist Ríkisendurskoðun með tilskildum hætti ár hvert.

Stjórnin ræður forstöðumann til að annast daglegan rekstur safnsins. Stjórnin ákveður starfskjör forstöðumanns og setur honum erindisbréf.

Forstöðumaður vinnur að framgangi þeirra verkefna sem getið er um í 2. gr. í samræmi við starfsáætlun sem stjórnin hefur samþykkt. Forstöðumaður fer með daglega stjórn fjármála stofnunarinnar í umboði stjórnar, undirbýr fjárhagsáætlun, vinnur að fjáröflun, annast reikningsskil og ræður annað starfsfólk. Óheimilt er að stofna til útgjalda eða skuldbindinga umfram heimild stjórnar. Forstöðumaður situr stjórnarfundi með málfrelsis- og tillögurétti. Forstöðumaður skal sjá til þess að safnið starfi í samræmi við viðurkenndar starfs- og siðareglur safna.

6. gr. Tekjur
Tekjur Leikminjasafns Íslands, auk vaxta af stofnframlagi, eru frjáls framlög frá ríki og sveitarfélögum, tekjur af þjónustu auk frjálsra framlaga frá einstaklingum, fyrirtækjum og samtökum og annars aflafjár.

Stofnuninni og stjórn hennar er heimilt að afla frekari framlaga frá stofnendum og öðrum styrktaraðilum eftir því sem þurfa þykir til að framfylgja markmiðum stofnunarinnar. Stjórn er heimilt að taka lán til sérstakra verkefna. Fé stofnunarinnar skal einvörðungu varið til að standa straum af þeim kostnaði sem til fellur við að vinna að markmiðum þeim sem skilgreind eru í 2. gr.

Gera skal einstaklingum og öðrum lögaðilum kleift að gerast styrktaraðilar stofnunarinnar. Skulu þeir greiða til hennar árlegt gjald og njóta vissra fríðinda skv. nánari ákvörðun stjórnar um styrktarmannakerfi.

Fé stofnunarinnar skal einvörðungu varið til að standa straum af þeim kostnaði sem til fellur við að vinna að markmiðum þeim sem skilgreind eru í 2. gr.

7. gr. Reikningsár
Reikningsár Leikminjasafns Íslands er almanaksárið. Um reikningshald fer að lögum nr. 19/1988 um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá.

8. gr. Gildistaka og breytingar á skipulagsskrá.
Um leið og skipulagsskrá þessi tekur gildi teljast Samtök um leikminjasafn hafa lokið tilgangi sínum og hætta starfsemi. Eignir samtakanna ganga allar til Leikminjasafns Íslands sem stofnframlag. Stjórnarmenn Samtaka um leikminjasafn undirrita stofnskrá til staðfestingar á framangreindu.

Skipulagsskrá Leikminjasafns Íslands verður aðeins breytt á aðalfundi. Tillögur um breytingar þurfa að berast stjórn fjórum vikum fyrir aðalfund. Senda skal breytingartillögur út með fundarboði aðalfundar. Tillögur skoðast samþykktar ef 2/3 hlutar atkvæðisbærra manna samþykkja. Stofnunin verður einungis lögð niður ef aðalfundur samþykkir það með 2/3 hlutum atkvæða. Verði stofnunin lögð niður skal stjórn ráðstafa eignum hennar í samræmi við markmið hennar.

Leita skal staðfestingar dómsmálaráðherra á skipulagsskrá þessari, og breytingar á henni skulu einnig hljóta staðfestingu sama ráðherra.

Reykjavík, 9. mars 2003

Stjórn Samtaka um leikminjasafn (undirskriftir).

Staðfesting dómsmálaráðherra
Skipulagsskrá þessi staðfestist hér með samkvæmt lögum um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, nr. 19/1988.