Skýrsla stjórnar Leikminjasafns Íslands

starfsárið 2017 fram að aðalfundi 2018

 

Stjórn Leikminjasafns Íslands var þannig skipuð starfsárið 2017 – 2018: Kolbrún Halldórsdóttir formaður,  Lárus Vilhjálmsson gjaldkeri, Ásdís Þórhallsdóttir ritari, Árni Kristjánsson, Helga Maureen Gylfadóttir, Benóný Ægisson og Ólafur Engilbertsson meðstjórnendur. Varamenn voru Sesselja G. Magnúsdóttir og Katrín Ingvadóttir, en skv. samþykkt stjórnar eru varamenn boðaðir á alla stjórnarfundi og fá öll gögn vegna stjórnarfunda. Stjórnin kom saman fimm sinnum á starfsárinu, þ.e. frá aðalfundi 2017 til aðalfundar 2018. Fundirnir voru 19. júní, 12. júlí, 16. október og 13. desember 2017 og 10. apríl 2018. Einn fulltrúaráðsfundur var haldinn á starfsárinu þ. 30. nóvember 2017 og fundargerð hans er viðhengi við þessa ársskýrslu. Fundir stjórnar eru færðir til  bókar og eru fundargerðir stjórnarfunda aðgengilegar fulltrúum á aðalafundi.

Verkefni starfsársins

Strax að loknum aðalfundi safnsins 29. maí 2017 hófst stjórn handa við verkefni þau sem aðalfundurinn kom sér saman um að væru forgangsverkefni: 

 1. að losa um plássið í geymslum safnsins svo hægt verði að komast að gripum og munum sem þar eru, með það að markmiði að koma þeim í varanlega varðveislu m.a. hjá Þjóðminjasafni Íslands,
 2. að greina stöðuna í verkefninu sem Landsbókasafnið tók að sér fyrir Leikminjasafnið, í samræmi ákvæði samkomulagsins frá 5. okt. 2015, með það að markmiði að undirbúa næstu skref í því verkefni t.a.m. varðandi frágang einkasafna, skjala og handrita,
 3. að halda áfram undirbúningi samkomulags við Þjóðminjasafn Íslands, með það að markmiði að gripum og munum úr safneign Leikminjasafnsins verði komið í varanlega varðveislu í Þjóðminjasafni þar sem skapaðir verði möguleikar til rannsókna og miðlunar leikminjaarfsins,
 4. að fylgja eftir vinnunni við gagnagrunn um leiksýningar á Íslandi, sjá til þess að vinnan við uppfærslu hans haldi áfram, með það að markmiði að fyllt verði upp í gloppur og færðar verði inn upplýsingar um leiksýningar síðustu leikára og í framhaldinu verði tryggt að skráningar í grunninn haldist í hendur við framleiðslu leiksýninga í landinu.

Samstarfið við Landsbókasafn Íslands

Greining verkefnisins á haustdögum leiddi í ljós að mest hafði  verið unnið með prentaðar  bækur, leikhandrit, plaköt og teikningar og eitt einkaskjalasafn. Bækur sem ekki voru til í safneign Landsbókasafns, jafnt innlendar sem erlendar, voru teknar inn í safnið og merktar sérstaklega með bókamerki Leikminjasafns Íslands. Gerðir voru listar yfir þær bækur sem ekki voru teknar inn í safnið og greint á milli bóka sem ráðstafað var til bókasafns Listaháskóla Íslands annars vegar og svo hinna sem til voru bæði í Lbs og safni LHÍ. Þá var stjórn Leikminjasafns kynntur listi með fjölda þeirra bóka sem ráðstafað hafði verið annað hvort inn í safneign Lbs eða til LHÍ, ásamt lista yfir þær bækur sem til voru á báðum stöðum.

Varðandi leikhandritin þá voru þau skráð í Gegni og svo inn í Íslandssafn, sem er handritasafn Landsbókasafns. Þau handrit sem voru þegar til í Íslandssafni fóru til LHÍ, en leikhandrit með athugasemdum leikara eða leikstjóra voru látin fylgja skjalasöfnum hvers og eins.

Þann 1. desember 2017 var ráðinn nýr starfsmaður í stað Eddu Bryndísar Ármannsdóttur, sem hafði lokið sínum 6 mánaða ráðningarsamingi. Sú sem ráðin var heitir Margrét Gunnarsdóttir og hefur hún áður unnið á Lbs og hefur gagnlega reynslu í farteskinu. Þau verkefni sem biðu hennar voru að annast vinnu við skráningu, flokkun og frágang á þeim gögnum sem þá biðu skráningar. Þau gögn voru flest vistuð á brettum í geymslum Lbs í Mjódd og voru kassarnir þá u.þ.b. 180 talsins á 9 brettum. Í þessum kössum er m.a. að finna eftirfarandi söfn; safn Alþýðuleikhússinns og safn Grímu, og söfn leikhúslistamannanna: Auróru Halldórsdóttur, Brynjólfs Jóhannessonar, Gísla Halldórssonar, Gretars Reynissonar, Guðbjargar Þorbjarnardóttur, Gunnars R. Bjarnasonar, Helga Skúlasonar, Helgu Bachmann, Klemenzar Jónssonar, Lárusar Ingólfssonar, Lothars Grund, Soffíu Guðlaugsdóttur og Steinþórs Sigurðssonar. Af þessum söfnum hefur verið ákveðið að byrja á skráningu safns Alfreðs Andréssonar, Auróru Halldórsdóttur, Brynjólfs Jóhannessonar, Klemenzar Jónssonar, Helga Skúlasonar og Helgu Bachmann. Einnig er unnið að skráningu safns Haraldar Björnssonar, Róberts Arnfinnssonar og Sveins Einarssonar, sem geymd hafa verið í húsnæði Þjóðarbókhlöðunnar.

Á haustdögum var einnig búið að skrá og ganga frá til varanlegrar varðveislu 40 plaggötum, 25 leikmynda- og búningateikningum auk þess sem vinna við skráningu tímarita og leikskráa hafði verið undirbúin.

Nýjustu fréttir af framvindu verkefnisins eru svo þessar að um mánaðamótin mars/apríl hafði verið gengið frá stærstum hluta safns Róberts Arnfinnsonar, sem þá taldi samtals 80 öskjur. Safn Haraldar Björnssonar taldi þá 110 öskjur. Úr safni Brynjólfs Jóhannessonar hafði verið gengið frá 21 öskju og úr safni Auróru Halldórsdóttur hafði verið gengið frá 20 – 30 öskjum. Auk þessa hafði verið unnið að flokkun gagna úr safni Sveins Einarssonar og talið að það safn myndi ekki telja minna en 150 öskjur þegar upp væri staðið.

Það er mat stjórnar Leikminjasafns Íslands að samstarfið við Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn, sé til fyrirmyndar, það sé faglegt og unnið af miklum metnaði. Þá hefur velvilji starfsmanna safnsins verið augljós og sambandið verið persónulegt og vingjarnlegt.

Þegar undirbúningur að þátttöku Leikminjasafns í Safnanótt hófst undir lok árs 2017, kom upp gömul hugmynd um bókamarkað í fjáröflunarskyni fyrir Leikminjasafnið og hvort kanna mætti hversu mikið af bókum stæði útaf í skráningu Landsbókasafnsins, þ.e. væru til á báðum söfnunum Lbs og LHÍ, með bókamarkað í hgua. Í ljós kom að sá listi var lengri en stjórn hafði grunað, taldi hundruð bóka og margar þeirra verulega fágætar gersemar. Við nánari umræðu var ákveðið að fresta öllum ákvörðunum af þessu tagi og eru bækurnar í geymslu í kjallara Þjóðarbókhlöðunnar og bíða þess að tekin verði ákvörðun um örlög þeirra. Sú umræða tengist framtíð safnsins og þeim möguleika að Leikminjasafn Íslands verði áfram til sem sjálfstæð eining með svipaða stöðu og Tónlistarsafn Íslands. Vikið verður frekar að þeim þætti málsins síðar í skýrslu þessari.

Samkomulag við Þjóðminjasafn Íslands

Meðal þess sem stjórn hafði verið falið af aðalfundi Leikminjasafnsins í lok maí 2017 var að móta tillögur um með hvaða hætti efnt yrði til samstarfs við Þjóðminjasafns Íslands um varanlega varðveislu gripa og muna sem nú væru eign Leikminjasafns Íslands. Þau drög að yfirlýsingu, sem kynnt höfðu verið fulltrúaráðinu fyrir aðalfundinn, höfðu m.a. vakið upp spurningar um eignarhald gripa, stöðu grisjunjar og framtíðarsöfnun leikminja, en ekki síst stöðu Leikminjasafns Íslands þegar allri safneigninni hefði verið komið fyrir í höfuðsöfnunum tveimur Þjóðminjasafni og Landsbókasafni.

Strax í júní hóf stjórn formlegt samtal við þjóðminjavörð Margréti Hallgrímsdóttur, sem skilaði sér í drögum að samstarfssamningi, sem fól í sér afhendingu safngripa Leikminjasafns til Þjóðminjasafns til varanlegrar ábyrgðar og varðveislu í samræmi við ákvæði laga um Þjóðminjasafn nr. 140/2011.  Í samningnum er ekki getið um eignarhald gripa en tekið fram að stjórn Leikminjasafns verði gert viðvart taki Þjóðminjasafn ákvörðun um grisjun þegar frá líður og þá verði Leikminjasafninu gefinn kostur á að taka gripi til baka í sína vörslu. Varðandi ákvörðun um það hvað af gripum og munum úr safneign Leikminjasafns Íslands verði afhentir Þjóðminjasafni þá er eftirfarandi upptalningu að finna í samningstextanum; leikmunir úr sögulega mikilvægum leiksýningum, munir úr eigu þekkts sviðslistafólks, silfurlampar og aðrir verðlaunagripir og viðurkenningar, samstæð söfn ljósmynda frá einkaaðilum og leikhópum, brúðusafn Jóns E. Guðmundssonar og aðrar leikbrúður í eigu safnsins. Ljóst er að eitthvað af munum sem þegar eru í geymslum Leikminjasafns munu ekki verða taldir til gripa sem hafa menningarsögulegt gildi í skilningi laga um Þjóðminjasafn og mun því koma til kasta fulltrúaráðs að ákveða hvað gert verði við þá muni sem ekki fara til varðveislu í Þjóðminjasafni.

Annað sem stjórn Leikminjasafnsins hefur skilgreint sem „ákvörðun sem bíður betri tíma“ er ákvörðunin um það hvar varðveita skuli arf leikmynda- og búningahöfunda, skissur, vinnuteikningar og líkön leikmynda ásamt stafrænum gögnum hönnuða. Er þessi sameiginlegi skilningur aðila áréttaður í texta samkomulagsins við Þjóðminjasafn.

Stjórn Leikminjasafnsins fjallaði um innihald samstarfssamnings við Þjóðminjasafnið á fundum sínum í júlí og október og þann 14. nóvember 2017 var samningurinn undirritaður af formanni stjórnar Leikminjasafns og þjóðminjaverði, með fyrirvara um samþykkt fulltrúaráðs Leikminjasafns í samræmi við ákvörðun aðalfundar 2017. Fulltrúaráð safnsins var svo kallað saman til fundar 30. nóvember og mættu 17 fulltrúar til fundarins. Samstarfssamningurinn var kynntur og einstök atriði hans rædd. Loks var samningurinn staðfestur með öllum greiddum atkvæðum, þar af bárust 9 atkvæði með tölvupósti, en fulltrúum hafði verið sendur samningurinn fyrir fundinn og gefinn kostur á að tjá afstöðu sína til hans. Fundurinn fól stjórn að hefja vinnu við að uppfylla samninginn og samþykkti fyrir sitt leyti flutning brúðusafns Jóns E. Guðmundssonar til Þjóðminjasafns, en sú yfirfærsla hafði átt sér stað í byrjun nóvember, enda hafði stjórn áður aflað samþykkis erfingja Jóns fyrir þeim flutningi.

Álitamálin um varðveislu arfs leikmynda- og búningahöfunda

Í sumar sem leið ákvað stjórn að hefja formlegt samtal við helstu sérfræðinga höfuðsafnanna tveggja Þjóðminjasafns og Landsbókasafns varðandi álitamálin um varðveislu og vistun arfs leikmynda- og búningahöfunda, en bæði söfnin hafa lagaskyldu að gegna varðandi varðveislu menningarminja á pappír og hafa bæði á sínum vegum forverði sem eru sérhæfðir í varðveislu þjóðargersema á pappír. Stjórn óskaði eftir ráðleggingum helstu sérfræðinga beggja safnanna, þeirra Ingu Láru Baldvinsdóttur forstöðumanns Ljósmyndasafns Íslands í Þjóðminjasafni og Arnar Hrafnkelssonar sviðsstjóra varðveislu og stafrænnar endurgerðar hjá Landsbókasafni.

Helstu rök sem Inga Lára gefur fyrir því að skynsamlegt sé að vista þessa arfleifð í Þjóðminjasafni eru eftirfarandi:

 • Þjóðminjasafn Íslands er helsti vörsluaðili sjónræns menningararfs á Íslandi. Sá arfur spannar allar aldir Íslandsbyggðar.
 • Söfnun málaðra mynda helst í hendur við stofnun Þjóðminjasafnsins árið 1863. Þær eru af öllum gerðum bæði á tré og striga en fyrst og fremst á pappír.
 • Safnið er helsti þjónustuaðili á sínu sviði við notendur myndefnis hvort heldur er einstaklinga, útgefenda eða hönnuða.
 • Safnið varðveitir nú þegar leikmyndir Gunnar R. Hansen, bæði teikningar og líkön sviðsmynda hans.
 • Stafræn varðveisla á myndefni er hafin fyrir meira en áratug síðan og þegar er farið að berast til varðveislu myndrænt efni á stafrænu formi.
 • Safnið hefur gert efni sitt aðgengilegt í Sarpi og ef litið er til einstakra safna og aðfanga er stærsti hluti þess efnis sem er að finna í Sarpi myndefni eða 893.792 færslur (sept 2017).
 • Með tilkomu nýs geymsluhúss á Tjarnarvöllum 11 í Hafnarfirði rýmkar mjög um myndasafnið í geymsluhúsinu í Vesturvör 20. Þær geymslur eru með argonite slökkvikerfi.
 • Eðlismunur er á söfnunarstefnu Þjóðminjasafns Íslands og Landsbókasafns-Háskólabókasafns. Þjóðminjasafn mótar sína eigin söfnunarstefnu og hefur möguleika á að taka á móti aðföngum eða hafna þeim. Aðeins er tekið á móti efni sem talið er hafa varðveislugildi. Landsbókasafn hlýtur hins vegar lögum sem kveða á um varðveislu á skilaskyldu útgefnu efni. Jafnframt hefur á handritadeild verið safnað handritum og bréfasögnum.
 • Brýnt er fyrir alla aðila að halda sig á sínu söfnunarsviði. Það eykur á skilvirkni og gerir öllum almenningi auðveldara að greina hvar ákveðnir efnisflokkar eru varðveittir

Rökin sem Örn Hrafnkelsson í Landsbókasafni færir fyrir því að skynsamlegra sé að varðveita arf leikmynda- og búningahöfunda þar eru eftirfarandi:

 • Landsbókasafn hefur þegar tekið við stórum hluta safneignar Leikminjasafns Íslands og það er augljós kostur fyrir fræðimenn og rannsakendur menningararfleifðar sviðslistafólks að geta nálgast sem mest af efniviði viðfangsefna sinna á einu og sama safninu.
 • Sé safni skipt upp, hluti þess geymdur í einu safni og annar í öðru, er nauðsynlegt að vinna ítarlega skjalaskrá sem leitast við að tengja aftur þá hluti sem teknir hafa verið úr samhengi með aðgreiningunni.
 • Ljóst er að þrívíð módel af leikmyndum, ásamt brúðum eða gínum, sem notaðar eru við búningagerð og annað starf leikmynda-, búninga- eða gerfahönnuða, eru best varðveitt í Þjóðminjasafni, enda er þar sérþekking á varðveislu gripa og muna hvers konar.
 • Varðandi það sem er tvívítt, þ.e. pappír, myndir og teikningar, þá ætti að huga vel að samhenginu; ef slíkt kemur til varðveislu sem hluti af safni listamanns, með bókum, handritum, dagbókum og skjölum, þá væri skynsamlegast að vista allt safnið á einum stað.
 • Varðandi ljósmyndir, þá gildir hið sama og að framan segir, þ.e. ef ljósmyndir eru lítill hluti af safni einstaks listamanns þá er óæskilegt að skilja þær frá öðru pappírskyns sem í safninu er. En ef um stór samstæð ljósmyndasöfn er að ræða, þá ættu þau að vera varðveitt í Ljósmyndasafni Íslands í Þjóðminjasafni, sbr. ljósmyndasafn Þjóðlekhússins.
 • Almennt telst því skynsamlegt að varðveita einkaskjalasöfn í heild sinni í Landsbókasafni.

Stjórn Leikminjasafnsins hefur meðtekið þessa ráðgjöf sérfræðinganna og óskar nú umræðu meðal fulltrúa í fulltrúaráði safnsins um hana áður en ákveðið verður endanlega hvar þessum eigum verður best fyrir komið.

Raumert-stofa í Þjóðleikhúsinu

Í tengslum við áformin um að rýma til í geymslum Leikminjasafnsins fæddist sú hugmynd að einn af plássfrekustu gripunum í safneigninni, „de kongelige møbler“ eða húsgögn úr fórum danska leikarans Poul Reumert og konu hans Önnu Borg, gætu sómt sér vel á Kristalssal Þjóðleikhússins, þar sem virðulegar eldri mublur eru uppistaðan í húsgögnum þar. Hugmyndin kviknaði ekki síst vegna þess að ljóst var frá upphafi samtalsins við Þjóðminjasafn Íslands að húsgögnin myndu varla teljast til íslenskra menningarverðmæta í skilningi laga um Þjóðminjasafn og myndu því ekki verða tekin til varðveislu þar þegar safneign Lekminjasafns yrði yfirfarin og metin af Þjóðminjasafni.

Eftir samtöl við þjóðleikhússtjóra og erfingja Geirs Borg sem gáfu Leikminjasafni Íslands þessa höfðinglegu gjöf til minningar um þau hjón Paul Reumert og Önnu Borg, varð niðurstaðan sú að samkomulag var gert milli Þjóðleikhússins og Leikminjasafns sem kveður á um varðveislu húsgagna og tveggja málverka úr safneign Leikminjasafnsins í Þjóðleikhúsinu. Þannig tekur Þjóðleikhúsið til varanlegrar varðveislu húsgögnin; einn sófa og sex stóla. Þessum gersemum hefur nú verið valinn valinn staður í salarkynnum Þjóðleikhússins, þar sem þau eru aðgengileg og til afnota fyrir leikhúsgesti. Húsgögnunum fylgja tvö málverk af þeim hjónum Önnu Borg og Poul Reumert, sem Þjóleikhúsið tekur einnig til varðveislu. Málverkið af Önnu Borg er eftir Herman Vedel og verkið af Poul Reumert er eftir Hans Flygenring og eru þau bæði hluti safneignar Leikminjasafns. Raunar er eftirmynd af málvekrinu af Önnu þegar hangandi uppi í Þjóðleikhúsinu, en því verður nú skipt út fyrir  frummyndina.

Settar verða upp látlausar merkingar í námunda við húsgögnin þar sem gerð verður grein fyrir uppruna þeirra, sögulegu gildi og tengslum við íslenska leiklistarsögu, ásamt upplýsingum um málverkin tvö. Þjóðleikhúsið skuldbindur sig til að hafa húsgögnin sýnileg leikhúsgestum og til að annast eðlilegt viðhald sem kemur til af notkun þeirra. Samkomulagið er ótímabundið, en báðum aðilum er heimilt að óska eftir viðræðum um riftun eða breytingu ákvæða þess ef þurfa þykir.

Safnasafnið tekur við verkum eftir Jón E. Guðmundsson

Eins og fram kemur hér að framan þá hefur brúðusafni Jóns E. Guðmundssonar verið komið fyrir á Tjarnarvöllum í nýju og fullkomnu geymsluhúsnæði Þjóðminjasafns Íslands. Þegar þeir flutningar  voru afstaðnir tók stjórn til við að skoða hvort möguleiki væri á að koma þeim gripum Jóns E. Guðmundssonar, tréskúlptúrum, málverkum, dúkristum og teikningum, sem ekki eru viðkomandi leiklistartengdu starfi Jóns, fyrir á viðurkenndu safni með söfnunarstefnu sem næði til slíkra verka. Haft var samband við Safnasafnið í Eyjafirði, sem sérhæfir sig í að safna, rannsaka og miðla verkum alþýðulistamanna og einfara í myndlist. Níels Hafstein annar stofnenda og forstöðumaður Safnasafnsins sýndi því strax mikinn áhuga að fá þessa gripi til varðveislu og í byrjun árs 2018 fór fram vinna við að safna saman og pakka til flutnings 64 verkum úr fórum Jóns. Allir gripirnir voru skráðir og myndaðir, svo til er greinargott yfirlit yfir allt sem afhent var Safnasafninu til varanlegrar varðveislu. Á vordögum áformar stjórnarformaður ferð á Safnasafnið til að undirrita formlegan gjörning þessu til staðfestingar.

Það sem eftir stendur í eigu Leikminjasafns úr dánarbúi Jóns E. Guðmundssonar eru skólaminjar ýmisskonar frá kennsluárum hans í Austurbæjarskóla. Stjórn hefur áform um að kanna hvort áhugi væri hjá Borgarsögusafni, skólaminjasafni Austurbæjarskóla eða hjá örðum að varðveita þessa muni, sem eru t.d. hefilbekkur Jóns og trönur.

Safnanótt 2. febrúar 2018

Nú er það að verða árviss viðburður að Leikminjasafnið taki þátt í Safnanótt sem sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu skipuleggja í sameiningu. Að þessu sinni var Safnanótt, sem er hluti Vetrarhátíðar, haldin 2. febrúar og Leikminjasafnið fékk inni í Iðnó með sinn viðburð. Safnið fékk Hlín Agnarsdóttur leiklistarfræðing til liðs við sig og bauð uppá skapandi samtal við hana um  veruleikann handan við leikaraskap leikarans.  Handan við leikaraskapinn er rannsókn sem Hlín gerði skil í ritgerð sem hún skrifaði til meistaraprófs í skapandi skrifum og fjallar hún um sjálfsmynd leikhúsmannsins og þá ímynd sem hann hefur skapað sér í samfélaginu. Hlín skoðar veruleikann sem er handan við leikaraskap leikarans og leitar m.a. svara í  málheimspeki, feminisma og sálgreiningu, en einnig lítur hún til  leiklistarsögunnar, einkum til leikskálda sem hafa gert leikhúsveruleikann að yrkisefni. Viðburðurinn tókst hið besta og mættu 40 manns til að eiga þetta samtal við Hlín og var gerður góður rómur að.

 

Bláa bókin og NTCD

Leikminjasafnið tekur þátt í norrænu samstarfi safna á vettvangi sviðslista, sem kallast Nordisk Center for Teaterdokumentation eða NCTD. Benóný Ægisson var fulltrúi Leikminjasafnsins á ársfundi NCTD sem haldinn var í Stokkhólmi í maí 2017. Samtökin halda slíkan fund annað hvert ár og ráðgert er að Ísland hýsi fundinn 2019. Stjórn hefur ekki ákveðið hvað gera skuli af því tilefni en mögulega væri hægt að halda málþing um stöðu safnamála í sviðslistum, leiklist, dansi, tónlist o.s.frv. með áherslu á þróun mála hér á landi. Þetta er eitt þeirra verkefna sem bíður stjórnar á næstunni.

Eitt þeirra verkefna sem NCTD sinnti á árum áður var að gefa út skrá yfir leikminjasöfn og önnur söfn eða stofnanir á Norðurlöndum sem varðveittu efni leiksögulegs eðlis, minjasöfn, bókasöfn og skjalasöfn og gekk hún undir nafninu Bláa bókin. Nú hefur verið ákveðið að uppfæra skrána og gefa hana út á ný, í þetta sinn á vefnum. Í því skyni að safna sem bestum upplýsingum um slík söfn og stofnanir á Íslandi, sendi stjórn safnsins út beiðni til fulltrúa í fulltrúaráðinu þar sem óskað var eftir þeim sem myndu vilja leggja til upplýsingar í Bláu bókina. Heimtur voru þær að á endanum munu birtast upplýsingar um eftirtalda aðila: Leikminjasafnið, Landsbókasafnið, Þjóðminjasafnið, Þjóðleikhúsið, Bandalag íslenskra leikfélaga, Listaháskóla Íslands, Ríkisútvarpið og Borgarskjalasafnið.

Samskiptin við stjórnvöld

Stjórnmálaástandið undanfarið hefur ekki styrkt stöðu Leikminjasafnsins gagnvart stjórnvöldum, þar sem tíð ríkisstjórnarskipti hafa þær afleiðingar að erfitt reynist að ná tali af ráðherrum um málefni safns á borð við okkar, sem ekki hefur hlotið viðurkenningu í skilningi safnalaga. Á vordögum var óskað eftir fundi með nýjum mennta- og menningarmálaráðherra Kristjáni Þór Júlíussyni, en sumarið leið án þess að af slíkum fundi gæti orðið. Loks var boðað til fundar 20. september 2017 en fimm dögum áður en af þeim fundi varð féll ríkisstjórnin og boðað var til kosninga. Þá brá stjórn Leikminjasafns á það ráð að fara með erindið, sem ætlað hafði verið ráðherranum, á fund skrifstofustjóra menningarmála Karitasar Gunnarsdóttur. Sá fundur var haldinn 5. október og auk skrifstofustjórans sátu hann Ragnhildur Helga Þórarinsdóttir og Arnfríður Sólrún Valdimarsdóttir. Voru þær upplýstar um stöðu safnkosts og framtíðarsýn stjórnar safnsins, með það að markmiði að fá stuðning stjórnvalda við að framkvæma þá sýn. Forsendurnar fyrir því að ljúka því mikilvæga verkefni að koma safnkostinum fyrir í höfuðsöfnunum tveimur voru að mati stjórnar, framlag frá ríkinu til þriggja ára að upphæð 36 milljónir eða 12 milljónir á ári í þrjú ár. Erindinu var vel tekið á fundinum og var stjórn ráðlagt að sækja um í styrkjapott ráðuneytisins, en það eru starfsmenn ráðuneytisins sjálfir sem fjalla um umsóknirnar í hann og gera tillögu um úthlutun. Það var því nokkuð vongóð stjórn sem sendi inn slíka umsókn 31. október 2017. Vonbrigðin voru því talsverð þegar svar við umsókninni barst síðasta dag janúarmánaðar 2018 þar sem tilkynnt var ákvörðun ráðuneytisins, en hún var sú að Leikminjasafnið fengi 3,7 milljónir króna í „styrk vegna frágangs og skráningar leikmuna“ (!)

Viðbrögð stjórnar voru að óska strax eftir fundi með nýjum ráðherra Lilju Alfreðsdóttur. Ekkert svar  barst við þeirri bón og var hún ítrekuð að mánuði liðnum. Enn hafði ekkert svar borist þegar stórbruni varð í geymsluhúsnæði í Garðabæ í byrjun apríl þar sem mikil verðmæti urðu eldi að bráð. Þá var ráðherra send önnur ítrekun svohljóðandi:

Kæra Lilja Alfreðsdóttir,

Í þriðja sinn sendi ég þennan póst fyrir hönd Leikminjasafns Íslands og mér er nokkuð þungt í brjósti, því bruninn í Geymslum í Garðabæ hefði allt eins getað verið í Geymslum á Granda, þar sem leikminjaarfur þjóðarinnar er geymdur við óviðunandi aðstæður. Til að koma þessum arfi fyrir í höfuðsöfnum þjóðarinnar, Þjóðminjasafni og í Landsbókasafni, þarf fjármuni sem nema 36 milljónum á þremur árum, 12 milljónir á ári í þrjú ár. Þar með væri tryggt að leikminjar þjóðarinnar, nú í vörslu Leikminjasafns Íslands, verði komandi kynslóðum lista- og fræðimanna að einhverju gagni, og að hægt verði að rannsaka þær og miðla til almennings um ókomna framtíð. 

Umsókn safnsins til menningarskrifstofu mennta- og menningarmálaráðuneytis byggir á afgreiðslunni sem Tónlistarsafn Íslands fékk fyrir skemmstu og Leikminjasafni var gefin von um að biði okkar í framhaldinu. En umsókn okkar um slíkt fékk þá afgreiðslu hjá menningarskrifstofu ráðuneytisins, sem getið er um í bréfinu með bón okkar um fund með þér, henni var í raun hafnað. Við þá niðurstöðu er ekki hægt að una, en henni verður ekki breytt nema fyrir atbeina frá þér. Það er því nauðsynlegt fyrir stjórn safnsins að ná tali af þér til að skýra stöðuna og bruninn í Garðabæ sýnir að við höfum ekki val um að bíða mikið lengur.

Með vinsemd og virðingu,

Kolbrún Halldórsdóttir

formaður stjórnar Leikminjasafns Íslands.

 

Það leið ekki á löngu áður en svar barst frá ráðherra og stjórn safnsins fékk úthlutað fundartíma 30. apríl nk.  Á þeim fundi verður ráðherra kynnt staða mála með áherslu á samkomulagið sem gert var við Tónlistarsafn Íslands í júní 2017 og þær vonir sem Leikminjasafnið hefur bundið við það að þess bíði svipuð lausn.

Gagnagrunnur

Leikminjasafnið fór ekki varhlut af kerfishruni fyrirtækisins 1984 ehf, sem hýsir bæði heimasíðu og gagnagrunn safnsins. Sá atburður varð á miðjum vetri, í nóvember 2017, að allt kerfi fyrirtækisins hrundi og lengi var óljóst hvort tækist að bjarga öllum gögnum. Þá fór í hönd mikið óvissutímabil en að endingu tókst að koma öllum heimasíðum aftur í gagnið, þó það tæki margar vikur að koma myndríkustu síðunum aftur saman, þ.m.t. heimasíðu Leikminjasafnsins. Þegar það var frá kom enn lengra óvissutímabil varðandi gagnagrunninn, en að endingu var ljóst að innihald grunnsins hafði ekki glatast, en öll uppsetning hans var hrunin eða löskuð og þurfti því hönnuðurinn okkar, Eyjólfur Kristjánsson að leggja á sig mikla vinnu við að setja hann upp á ný. Það tókst loks og grunnurinn var aftur orðinn aðgengilegur á heimasíðu safnsins í janúar sl.

Þar með er ekki öll sagan sögð því það hlýtur að teljast óviðunandi að búa við það óöryggi að svona lagað geti átt sér stað, svo nú bindur stjórn vonir við að framtíðarlausnin felist í því að fá grunninn hýstan af Landsbókasafni með svipuðum hætti og ÍSMÚS vefur og gagnagrunnur Tónlistarsafns Íslands. Sjá meira um það í næsta kafla um verkefnin framundan.

Þá verður að segjast eins og er að áform stjórnar og fulltrúaráðs Leikminjasafns um að stofnanir í sviðslistageiranum myndu taka að sér að færa inn í grunninn upplýsingar um þær sýningar sem enn eru óskráðar, hafa ekki gengið eftir. Helstu skýringarnar eru þær að sviðslistastofnanir okkar eru bæði undirmannaðar og undirfjármagnaðar, svo þær hafa ekki verið aflögufærar um mannafla. Svo setti kerfishrun 1984 ehf strik í reikninginn og sló öll slík áform út af borðinu um sinn. En það er von stjórnar að mennta- og menningarmálaráðherra átti sig á því að gagnagrunnurinn er einhver mikilvægasta eign Leikminjasafnsins og þjóðarinnar, því hvergi annars staðar er að finna jafn yfirgripspikla upplýsingar um leiklistarstarf þjóðarinnar frá því það hófst að einhverju marki.

Verkefnin framundan

Stærsta  verkefni stjórnar á næstu mánuðum er að tryggja framtíð safnsins með því að koma safnkostinum fyrir í höfuðsöfnunum tveimur, sjá til þess að þar verði hann varðveittur við bestu skilyrði til langrar  framtíðar, gerður aðgengilegur fyrir fræðimenn og aðra sérfræðinga til rannsókna og miðlunar. Einnig að tryggja framtíðarsöfnun þess arfs og þeirra minja sem tengjast leiklist og öðrum sviðslistum. Markmið stjórnar í þessum efnum er að fá svipaða úrlausn og Tónlistarsafn Íslands fékk 2017 þegar gert var samkomulag milli Kópavogsbæjar og ríkisins um vistun þess í Þjóðarbókhlöðu og aðsetur starfsmanna. Í dag hafa tveir starfsmenn Tónlistarsafns Íslands aðsetur þar og á 200 ára afmæli Landsbókasafns nýverið var þess sérstaklega getið í veglegri sýningarskrá að Tónlistarsafnið væri yngsta eining  safnsins, liðsauki við tón- og mynddeild, sem nú hefur verið gefið nýtt nafn Tón- og myndsafn.

Ef þessi áform stjórnar safnsins ganga eftir þá verða tveir sérfræðingar af vettvangi sviðslistanna starfsmenn Leikminjasafns í Þjóðarbókhlöðu, þaðan sem þeir geta stýrt vinnunni við áframhaldandi uppfærslu gagnagrunns um leiksýningar á Íslandi, sem að endingu yrði þá vistaður af Landsbókasafni og gerður aðgengilegur á heimasíðu þess með sama hætti og aðrir mikilvægir gagnagrunnar, t.d. tónlistarvefur Tónlistarsafnsins ÍSMÚS. Auk þess myndu sérfræðingar Leikminjasafns geta sinnt sýningarhaldi á sviðslistatengdum arfi, í samstarfi við aðila innan sviðslistageirans eða önnur söfn, ekki síst Þjóðminjasafn og Landsbókasafn.

Af öðrum verkefnum sem stjórn hefur sinnt á undangengnu starfsári má nefna arfleifð Lothars Grund, en hann starfaði sem leikmyndateiknari og hönnuður hér á landi á árabilinu 1952 - 1959. Lothar var giftur íslenskri konu, Önnu Halldórsdóttur leikkonu frá Súðavík, sem lést fyrir fáum árum, en sjálfur lést Lothar í Þýskalandi 1995. Nú hafa synir Lothars og erfingjar haft samband við Leikminjasafnið og lýst vilja til að sá hluti arfleifðar Lothars sem lítur að störfum Lothars fyrir íslenskt leikhús, verði varðveittur hér á landi. Þar er um að ræða 250 myndir af hönnun sviðsmynda og búninga ásamt fígúrum og módelum. Nú stendur yfir endurgerð Hótel Sögu, en Lothar hannaði stóran hluta uppurnalegra innréttinga hótelsins og verður margt af hönnun Lothars Grund sýnilegt á nýjan leik þegar hótelið verður opnað í endurnýjuðum búningi á vordögum 2018. Það var von stjórnar Leikminjasafni Íslands að okkur tækist að sýna við það tækifæri nokkrar af leikmyndum Lothars og sótti stjórn um styrk til mennta- og menningarmálaráðuneytis til að standa straum af kostnaði við sýningu og sýningarskrá, en þeirri umsókn var því miður hafnað.

Lokaorð

Mikilvægasta verkefnið sem stjórn og fulltrúaráð Leikminjasafns standa frammi fyrir er móta þá hugmyndafræði sem safnið mun starfa eftir í framtíðinni, sú vinna er grundvöllurinn að styrk og skilningi stjórnvalda á þeirri starfsemi sem safnið heldur utan um og menningarlegt gildi þess. Leikminjasafnið þarf og á að vera brautryðjandi sem nýstárlegt safn á vettvangi sviðslista með yfirgripsmikla  þekkingu og kunnáttu til að varðveita, rannsaka og miðla sögu sviðslista á Íslandi. Til hliðsjónar má kynna sér nýja stefnu Vísinda og tækniráðs sem og þingsályktunartillögu frá 2014 um stafræna miðlun og varðveislu menningararfs. Þetta er fyrst og fremst vinna við pólitíska stefnumótun sem nauðsynlegt er að verði vel ígrunduð og unnin af framsýni í samstarfi við stjórnvöld og okkar öflugustu stofnanir á þessu sviði.

F.h. stjórnar Leikminjasafns Íslands Kolbrún Halldórsdóttir, formaður

 

 

V i ð a u k i  

 

Fundargerð fulltrúaráðsfundar Leikminjasafns Íslands - 30. nóvember 2017 í Iðnó

 

Mætt:  Ólafur Engilbertsson Landsbókasafn, Helga Maureen Gylfadóttir Þjóðminjasafn Íslands, Þórhallur Sigurðsson Þjóðleikhús, Katrín Gunnarsdóttir Danshöfundafélag Íslands, Nathalía Druzin Halldórsdóttir Íslenska Óperan, Erling Jóhannesson Félag Íslenskra leikara, Ásgerður Guðrún Gunnarsdóttir Listaháskóla Íslands, Þorgerður E. Sigurðardóttir Ríkisútvarpið, og Kolbrún Halldórsdóttir formaður stjórnar sem ritaði fundinn.

 

Forföll boðuðu: Jón Páll Eyjólfsson Leikfélag Akureyrar, Björn Brynjúlfur Björnsson Framleiðendafélagið SÍK, Vilborg Valgarðsdóttir Bandalag íslenskra leikfélaga, Íris María Stefánsdóttir Íslenski dansflokkurinn, Hrafnhildur Hagalín Leikfélag Reykjavíkur, Hlín Pétursdóttir Behrens Félag íslenskra tónlistarmanna, Ragnheiður Tryggvadóttir Rithöfundasamband Íslands, Benóný Ægisson Félag leikskálda og handritshöfunda og Hlín Gunnarsdóttir Félag leikmynda- og búningahöfunda.

 

Dagskrá:

 • Samkomulag við Þjóðminjasafn um varðveislu og skráningu gripa
 • Samkomulag við Þjóðleikhús um varðveislu húsgagna
 • Bláa bókin – upplýsingar um sögu sviðslista á norðurlöndunum
 • Önnur mál

 

Samkomulag við Þjóðminjasafn um varðveislu og skráningu gripa Samkomulagið, sem undirritað var 14. nóv., af þjóðminjaverði f.h. Þjóðminjasafns og stjórnarform. f.h. Leikminjasafns, lá fyrir fundinum til samþykktar eða synjunar og var það í samræmi við samþykkt aðalfundar Leikminjasafns 2017. Fulltrúar höfðu fengið samkomulagið sent fyrir fundinn og bárust tölvupóstar frá 9 fulltrúum þar sem lýst var afstöðu til samkomulagsins. Eftir nokkrar umræður varð niðurstaðan sú að fulltrúar samþykktu samkomulagið með öllum greiddum atkvæðum, þar af bárust 9 atkvæði með tölvupósti. Áður hafði stjórn safnsins samþykkt samkomulagið.

 

Samkomulag við Þjóðleikhús um varðveislu húsgagna

Samkomulagið, sem undirritað var 9. nóv. af þjóðleikhússtjóra og formanni stjórnar Leikminjasafnsins og fjallar um varðveislu þjóðleikhússins á húsgögnum úr eigu Poul Reumert og málverkum af hjónunum Önnu Borg og Poul Reumert, var rætt og þó það hafi ekki verið gert ráð fyrir því að fulltrúaráðið greiddi atkvæði um það þá var lýst almennri ánægju með það á fundinum.

 

Bláa bókin – upplýsingar um sögu sviðslista á norðurlöndunum

NCTD - Nordisk center for teaterdokumentation gaf á árum áður út skrá yfir leikminjasöfn og önnur söfn og stofnanir á Norðurlöndum sem varðveittu efni leiksögulegs eðlis, minjasöfn, bókasöfn og skjalasöfn. Nú stendur til að uppfæra þessar upplýsingar og koma þeim á netið. Stjórn safnsins hafði óskað eftir aðstoð fulltrúaráðsins við að safna upplýsingum um þau félög og stofnanir sem varðveita og rannsaka leiksögu Íslands; geyma handrit, ljósmyndir, hljóðrit, kvikmyndir, myndbönd, teikningar, líkön, búninga, leikmuni og fleiri hluti sem tengjast sviðslistum, einnig skólar og fræðastofnanir sem fjalla um söguna. Erindi þetta var ítrekað við fulltrúa á fundinum og þess óskað að fulltrúar settu sig í samband við Benóný Ægisson, sem hefur tekið að sér að annast hlut Íslands í bókinni.

 

Engin önnur mál voru lögð fyrir fundinn og var honum slitið kl. 16:15