Skýrsla stjórnar Leikminjasafns Íslands

starfsárið 2016 fram að aðalfundi 2017

 

Stjórn Leikminjasafns Íslands var þannig skipuð starfsárið 2016 – 2017: Magnús Þór Þorbergsson formaður,  Lárus Vilhjálmsson gjaldkeri, Ásdís Þórhallsdóttir ritari, Árni Kristjánsson, Helga Maureen Gylfadóttir, Benóný Ægisson og Steinunn Knútsdóttir meðstjórnendur. Varamenn voru Sesselja G. Magnúsdóttir og Katrín ingvadóttir, en skv. samþykkt stjórnar eru varamenn boðaðir á alla stjórnarfundi og fá öll gögn vegna stjórnarfunda. Stjórnin kom saman sex sinnum á starfsárinu, þ.e. frá aðalfundi 2016 til aðalfundar 2017. Fundirnir voru  21. júní 2016, 7. sept. 2016, 12. des. 2016, 17. janúar 2017, 29. mars 2017 og 15. maí 2017. Fundir stjórnar eru færðir til  bókar og eru fundargerðir stjórnarfunda aðgengilegar fulltrúum á aðalafundi.

Gagnabanki Leikminjasafns Íslands

Eins og sagt var frá á síðasta aðalfundi Leikminjasafns Íslands var leitað til sviðslistastofnana (Þjóðleikhússins, Borgarleikhússins, Leikfélags Akureyrar, Íslenska dansflokksins, Íslensku óperunnar og Sjálfstæðu leikhúsanna) um að skipa skrásetjara til að skrá færa upplýsingar um sýningar þeirra inn í gagnagrunn Leikminjasafnsins. Þetta starf hefur gengið misvel og misjafnt hvernig tökum stofnanirnar tóku á þessu verkefni. Langbest tókst til hjá Íslenska dansflokknum, en þar tóku þær Helga Kristín Guðlaugsdóttur og Sigríður Sigurjónsdóttir að sér það verkefni að skrá inn sýningar dansflokksins frá upphafi sem hluta af lokaverkefni sínu í Bókasafns- og upplýsingafræði við Háskóla Íslands. Sýningar Íslenska dansflokksins höfðu fram að því ekki verið skráðar sérstaklega í gagnagrunninn, fyrir utan fyrstu sýningarnar, sem öllu jöfnu höfðu verið skráðar sem sýningar Þjóðleikhússins. Það kallaði því að umtalsverða rannsóknarvinnu að færa inn upplýsingar um sýningar dansflokksins og koma þeim í rétt form og skiluðu þær Helga Kristín og Sigríður þessu starfi með glæsibrag. Fyrir utan að færa inn upplýsingar um sýningar Íslenska dansflokksins í gagnagrunninn gerðu Helga Kristín og Sigríður grein fyrir starfi sínu í lokaritgerð sinni, þar sem góðar og gagnlegar athugasemdir um grunninn og skrásetningu í hann komu fram. Ritgerðin er aðgengileg í Skemmunni, safni náms- og lokaritgerða íslenskra háskóla (www.skemman.is).

Aðrir skrásetjarar hafa gripið í þetta verkefni eftir því sem önnur störf þeirra hafa leyft, einna mest hefur verið skráð inn af sýningum Þjóðleikhússins, en minna hjá öðrum, jafnvel þannig að skrásetning hefur ekki verið nein. Ljóst er að taka verður ákveðnar á þessu verkefni ef vel á að fara, sérstaklega ef takast á að vinna upp þær eyður sem skapast hafa í grunninum eftir að hann var fyrst settur á stofn. Það fyrirkomulag sem valið var hjá Íslenska dansflokknum, að gera skráningu upplýsinga að hluta lokaverkefnis háskólanema, heppnaðist einstaklega vel og mætti fara svipaðar leiðir um skrásetningu annarra stofnana og leikhópa.

Það hefur einnig reynst dragbítur á frekari skráningu og uppbyggingu gagnagrunnsins að erfitt hefur verið að ráðast í tæknilegar lagfæringar á þeim atriðum sem skrásetjarar hafa bent á að bæta þyrfti. Eyjólfur Kristjánsson hefur haft umsjón með tæknilegum hluta grunnsins, en sú vinna hefur tafist fram úr hófi vegna annarra verkefna. Á síðustu vikum hefur þó náð að koma henni í gang á ný og hafa flest þau atriði sem lagt var upp með að lagfæra fyrir ári verið löguð á síðustu dögum.

Gagnagrunnur Leikminjasafnsins er án nokkurs vafa dýrmætasta eign safnsins og það verður verkefni nýrrar stjórnar að vinna að því í samstarfi við sviðslistastofnanir að finna þessari skráningu sem bestan farveg.

 

Skráning safneignar hjá Landsbókasafni Íslands

Í samræmi við samkomulag milli Leikminjasafns Íslands og Landsbókasafns Íslands sem kynnt var á aðalfundi 2016 var sá hluti safneignarinnar sem flokkast undir bókakost, leikhandrit, leikskrár og skjöl fluttur til Landsbókasafnsins til skráningar og varðveislu. Leikminjasafnið greiddi tímabundið laun starfsmanns, Eddu Bryndísar Ármannsdóttur, sem ráðinn var sérstaklega til að sinna skráningu þessa hluta safneignarinnar. Eddu Bryndísi tókst að ljúka að mestu leyti að skrá bókakost safnsins og hafa starfsmenn Landsbókasafns haldið þeirri vinnu áfram eftir að ráðningartíma Eddu Bryndísar lauk. Skráningarferlið hefur verið þannig að allar bækur eru skráðar sem hluti safns Leikminjasafnsins, en einnig getið um uppruna (úr safni Haraldar Björnssonar, Róberts Arnfinssonar osfrv.), að því loknu er þeim komið fyrir í safni Landsbókasafnsins og eftir atvikum í bókasafni Listaháskóla Íslands. Bókakosturinn hefur einungis verið grisjaður ef um er að ræða ómerktar bækur sem til eru í fjölda eintaka bæði hjá Landsbókasafni og bókasafni Listaháskólans og þá aðeins að undangengnu samtali við stjórn Leikminjasafnsins. Þó svo að einstaka bækur verði grisjaðar er þeirra engu að síður getið í skráningu sem hluti af safni Leikminjasafnsins.

Næsta skref í þessu verkefni er að ráðast í skráningu handrita og skjala, s.s. leikhandrita, úrklippusafna, bréfa osfrv. Gert er ráð fyrir að starfsmaður verði ráðinn í það verkefni með haustinu og mun Leikminjasafnið greiða laun þess starfsmanns með svipuðum hætti og gert var við skráningu bókakosts. Nokkuð erfitt er að átta sig á umfangi verkefnisins, en starfsmenn Landsbókasafns munu fara gróflega yfir efnið á næstunni og reyna að áætla hversu umfangsmikið það er. Samkomulagið gerir ráð fyrir að berist Landsbókasafni ný aðföng frá leikhúsfólki verði ákveðið í samráði við stjórn Leikminjasafnsins hvort þau eigi heima í safni Leikminjasafnsins eða ekki.

Samtal hefur átt sér stað milli stjórnar Leikminjasafnsins og Þjóðminjasafns Íslands um gerð svipaðs samkomulags um skráningu og varðveislu á öðrum safnkosti Leikminjasafnsins, s.s. ljósmyndum, þrívíðum munum og öðru sem ekki fellur undir handrit eða prentefni. Í því samtali hafa vaknað spurningar um eignarhald á safneigninni og framhald söfnunar leikminja sem þarf að skýra áður en lengra er haldið. Ljóst er að ef Þjóðminjasafnið eignast safneign Leikminjasafnsins, sem yrði skráð sem undirsafn eða sérsafn innan Þjóðminjasafnsins, hefði það í för með sér grundvallarbreytingar á hlutverki og markmiðum Leikminjasafnsins til framtíðar, sem nauðsynlegt er að fulltrúaráð taki afstöðu til. Gert er ráð fyrir sérstökum lið í dagskrá aðalfundar til að ræða þetta efni.

Grisjunarstefna

Eitt af verkefnum stjórnar Leikminjasafnsins á síðasta ári var að útfæra grisjunaráætlun fyrir safnið sem hluta af safnastefnu eins og rætt var á síðasta aðalfundi. Gerð grisjunarstefnu er hluti af faglegum vinnubrögð í nútíma safnastarfi og nauðsynlegur þáttur í þeirri vinnu sem framundan er við skráningu og varðveislu safneignarinnar. Helga Maureen Gylfadóttir hefur haft veg og vanda af gerð grisjunaráætlunar, en drög að henni voru send fulltrúráði fyrir aðalfund til afgreiðslu.

Sýningarhald

Starf stjórnar á þessu starfsári og umtalsverður hluti fjármuna safnsins hafur farið í að fylgja eftir samkomulagi Leikminjasafnsins við Landsbókasafn Íslands um skráningu og varðveislu bóka- og handritakosts, samtals við Þjóðminjasafn auk áframhaldandi vinnu við gagnabanka safnsins. Af þeim sökum hefur ekki verið ráðist í gerð nýrra sýninga á vegum safnsins. Tillaga barst frá Elfari Loga Hannessyni um að sýna nokkrar brúður úr safni Jóns E. Guðmundssonar í tengslum við sýningu á Dýrunum í Hálsaskógi á Þingeyri. Stjórn tók vel í þessa hugmynd, en þegar á reyndi var ekki unnt að verða við beiðninni. Meginástæða þess var að örðugt er að nálgast marga hluti úr safneigninni í geymslum safnsins án þess að færa stóran hluta safneignarinnar út á bílaplan. Í marsmánuði, þegar til stóð að finna viðeigandi brúður, viðraði sjaldan til slíkra aðgerða og því reyndist ekki unnt að koma þessu verkefni í framkvæmd. Fyrirspurn Elfars Loga vakti reyndar spurningar um hvernig bregðast skuli við slíkum beiðnum almennt. Skynsamlegt væri að stjórn setti sér einhverjar verklagsreglur þegar kemur að því að lána muni úr safneigninni til að tryggja viðeigandi meðferð sýningargripa.

Eins og undanfarin ár tók Leikminjasafnið þátt í Safnanótt sem haldin var 3. febrúar síðastliðinn.  Leikminjasafnið stóð fyrir uppákomu í Iðnó og var í ár ákveðið að horfa sérstaklega til sögu listdans á Íslandi og hafði Árni Kristjánsson umsjón með þætti Leikminjasafnsins. Á annarri hæð voru sett upp spjöld sem gerð höfðu verið vegna sýningar til heiðurs Helga Tómassyni, sem Leikminjasafnið stóð fyrir árið 2007. Þar voru líka skipulagðar tvær “minningastundir”, þar sem dansarar mættu og áttu samtal um sinn feril í dansinum og þróun listdans á Íslandi. Þeir sem tóku þátt í þessum umræðum voru annars vegar Tinna Grétarsdóttir, Guðmundur Helgason og Steinunn Ketilsdóttir og hins vegar Auður Bjarnadóttir, Katrín Ingvadóttir og Ragnheiður Sigurðardóttir Bjarnason. Umræðum stjórnuðu Magnús Þór Þorbergsson og Sesselja G. Magnúsdóttir og var samtölunum streymt á fésbókarsíðu Leikminjasafnsins. Á neðri hæðinni voru sýnd myndbrot tengd listdansi á Íslandi, sem fengin voru að láni úr safni RÚV en einnig stóðu þær Katrín Gunnarsdóttir og Ingibjörg Björnsdóttir þar fyrir sögustund þar sem tengt var á milli sögu listdans á Íslandi og sköpunarferlis danshöfundar. Dagskráin var vel heppnuð og fjölbreytt en því miður má segja að það hafi verið fámennt en góðmennt. Eflaust hefur það haft sín áhrif að ekki var getið í kynningarbæklingi Safnanætur hvar Leikminjasafnið væri til húsa í tilefni hátíðarinna. Á korti sem fylgdi bæklingnum mátti helst álykta að það væri í Fríkirkjunni og eitthvað var um að fólk spyrðist fyrir í Listasafni Íslands í leit sinni að Leikminjasafninu. Ábendingum um þetta var komið til skila til skipuleggjenda Safnanætur, en að öðru leyti heppnaðist dagskráin vel og væri vert að endurtaka atriði þeirra Katrínar og Ingibjargar við gott tækifæri.

Iðnó

Leikminjasafnið hefur í gegnum tíðina átt einstaklega gott aðgengi að Iðnó og Margrét Rósa Einarsdóttir hefur reynst safninu ómetanlegur bakhjarl. Iðnó hefur staðið safninu opið til sýningahalds, til stjórnar- og aðalfunda, auk uppákoma á Safnanótt, sem hefur gert safninu kleift að taka þátt í slíkum hátíðum þrátt fyrir viðverandi húsnæðisleysi. Fyrir nokkru var rekstur Iðnó boðinn út og niðurstaðan varð að láta reksturinn í hendur annarra aðila, sem óneitanlega vekur áhyggjur af því að nýir rekstraraðilar hafi ekki sama skilning á tengslum safnsins og hússins og sögulegu mikilvægi Iðnó. Stjórn Leikminjasafnsins leggur þunga áherslu á að menningarsögulegt hlutverk Iðnó verði áfram haft í heiðri, eins og verið hefur þann tíma sem Margrét Rósa hefur haft rekstur þess með höndum, og að Leikminjasafnið eigi áfram skjól í húsinu, enda er húsið lyilþáttur í leiklistarsögu landsins. Formaður stjórnar hefur átt fundi bæði með Signýju Pálsdóttur, skrifstofustjóra menningarmála hjá Reykjavíkurborg, og Þóri Bergssyni, nýjum rekstraraðila Iðnó, og lagt á þetta mikla áherslu. Bæði voru þau meðvituð um sögulegt hlutverk Iðnó, stöðu Leikminjasafnsins og tengsl þess við húsið og lýstu áhuga á að samstarfi Leikminjasafnsins og Iðnó yrði haldið áfram eins og áður.

Margrét Rósa hefur stutt við uppákomur Leikminjasafnsins í húsinu með ráð og dáð og reynst safninu mikilvægur styrktaraðili og það aðgengi sem hún hefur veitt safninu að Iðnó hefur verið lykilþáttur í að vekja athygli á tilvist safnsins. Stjórn Leikminjasafnsins vill koma á framfæri innilegu þakklæti til Margrétar Rósu fyrir samstarfið í gegnum tíðina og ómetanlegan stuðning.

Erlent samstarf

Ráðstefna og aðalfundur NCTD (Nordisk Center for Teater Dokumentation) fór fram í Stokkhólmi dagana 9.-10. maí síðastliðinn og var fundarstaðurinn í Sviðslistasafninu (Scenkonstmuseet) sem er í gömlu virki við hliðina á Dramaten, sænska þjóðleikhúsinu. NCTD eru samtök safna og sviðslistastofnana sem sérhæfa sig í varðveislu á leikminjum og skráningu á sögu sviðslista. Ráðstefnugestir voru 24 talsins frá fjórum Norðurlöndum og 12 stofnunum. Fulltrúar voru frá Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og Íslandi, enginn fulltrúi kom frá Danmörku í þetta sinn en Finnar sendu fjóra fulltrúa en þeir hafa ekki tekið þátt í starfi samtakanna um nokkurt skeið. Fulltrúi Íslands var Benóný Ægisson.

Það má segja að Ibsen hafi leikið stórt hlutverk á ráðstefnunni sem fór fram fyrri daginn en tveir fyrirlestrar voru um verk hans. Dag Kronlund fjallaði um uppfærslur á Dramaten á verkinu John Gabriel Borkman í gegnum tíðina, hvernig leikmynd með stórum þungum húsgögnum hefur vikið fyrir einfaldari og tæknilegri sviðslausnum þar sem lýsing er meira notuð til að skapa umhverfi en áþreifanleg leikmynd. Horfin er þrjátíu manna hljómsveitin sem flutti leikhústónlist eftir Grieg og öll er uppfærslan mannfærri en þegar verkið var frumsýnt um aldamótin 1900. Bent Kvalvik frá Landsbókasafninu í Osló bar saman kvikmyndaðar senur úr verkum Ibsen, annarsvegar frá 1937 en hinsvegar frá lokum 20. aldar og var gaman að sjá hvernig leikstíll hafði breyst en leikur í gömlu upptökunum bar skiljanlega mikinn svip af sviðsleik eins og hann var á fyrri hluta 20. aldar. Magnus Blomkvist flutti síðasta fyrirlesturinn en hann var um sögu dansins, hvernig mætti varðveita hann og skrásetja og hvernig mætti endurskapa gamla dansa eftir lýsingum og gömlum myndum.

Dagskránni fyrri daginn lauk með því að David Berner kynnti starfsemi Sviðslistasafnsins og sagði frá tildrögum þess að það var stofnað en síðan var farið í skoðunarferð um safnið. Scenkonstmuseet er helgað sögu sviðslista, leiklistar, tónlistar og dans. Þetta er nútímalegt safn með mikilli gagnvirkni og afskaplega barnvænt. Fyrir utan ýmsa muni, skjöl myndir, brúður og annað sem var á sýningu, gafst fólki kostur á að setja sig í spor leikara og dansara, skoða ýmsa dansstíla eftir dansskónum sem notaðir voru og klæða sig í leikbúninga svo nokkuð sé nefnt.

Seinni daginn var svo aðalfundur NCTD. Þá sögðu þátttakendur frá því sem helst er að gerast í leikminjavörslu í hverju landi og hjá sínum stofnunum. Flestar stofnanir vinna nú að því að koma sínum gögnum á tölvutækt form og gera gagnagrunna um leiklistarsögu sína. Rætt var um að koma Bláu bókinni svokölluðu á vef samtakanna en Bláa bókin var listi yfir leikminjasöfn á Norðurlöndum og aðrar stofnanir sem skrásetja sviðslistasögu. Stofnuð var nefnd með einum fulltrúa frá hverju landi til að safna þeim upplýsingum saman. Rætt var um að efna til farandsýningar með leikminjum frá öllum löndunum sem gæti farið um Norðurlönd og væri þá hægt að bæta innlendum sýningargripum við hana á hverjum stað. Rikhard Larsson tók að sér að vera talsmaður NCTD og Hege Rød Segerblad heldur utan um fjármál samtakanna fram að næsta aðalfundi sem verður á Íslandi 2019.

Magnús Þór Þorbergsson fór til Búdapest í janúar síðastliðnum í boði ungverska leikminjasafnsins og tók þar þátt í málþingi um leikhús fyrir og með ungu fólki. Þátttakendur voru frá Ungverjalandi, Rúmeníu, Noregi og Íslandi og var málþingið styrkt af svokölluðum EEA sjóði, sem styrkir tengsl EFTA ríkjanna Noregs, Íslands og Lichtenstein við ríki í Evrópusambandinu. Auk málþingsins var boðið upp á leiksýningar ætlaðar ungu fólki og heimsókn í sýningaraðstöðu safnsins, sem staðsett er í stóru einbýlishúsi sem áður tilheyrði Gizi Bajor, einni þekktustu leikkonu Ungverja á tuttugustu öld. Þar má bæði njóta fastrar sýningar safnsins sem hefur að geyma marga merka gripi úr sögu leiklistar í Ungverjalandi auk þess sem boðið er upp á tímabundnar sérsýningar, eins og þá sem sjá mátti í janúar tileinkaða óperusöngvaranum József Simándy. Auk sýningastarfs rekur ungverska leikminjasafnið rannsóknarstofnun, þar sem starfa hátt í tuttugu manns við söfnun, varðveislu, rannsóknir og miðlun á leiklistararfi Ungverja. Auk sýninga hefur safnið staðið fyrir umtalsverðri bókaútgáfu og opinberum málþingum og sýnir hversu vel er hægt að sinna fjölbreyttu hlutverki leikminjasafns ef fjármunir og aðstaða eru fyrir hendi.

Fjárhagsstaða

Eins og fram kom á aðafundi síðasta árs skilaði rekstrarreikningur ársins 2015 hagnaði upp á 1.5 milljónir króna. Sá hagnaður kom til vegna þess að lagðir voru til hliðar fjármunir til að sinna því skráningarverkefni sem unnið var að í samstarfi við Landsbókasafn Íslands. Leikminjasafnið greiddi á árinu 2016 3.6 milljónir króna til Landsbókasafnsins til að standa straum af launakostnaði starfsmanns við þetta verkefni. Þegar tillit hefur verið tekið til annarra þátta í rekstri safnsins sýndi rekstrarreikningur 2016 tap upp á kr. 419.575. Þrátt fyrir það hefur safnið enn fé til ráðstöfunar til að halda áfram því verkefni að skrá handrit og önnur gögn samkvæmt samkomulagi við Landsbókasafnið.

Framlag til Leikminjasafnsins á fjárlögum var 6 milljónir króna, sem er hækkun um kr. 200.000 frá fjárlögum ársins á undan. Tilraunir til að fá hækkun á framlaginu til jafns við það sem það var 2008 og 2009, þegar safnið fékk 9 milljónir á fjárlögum, hafa engan árangur borið. Ljóst er því, eins og áður, að safnið getur ekki sinnt þeim verkefnum sem því eru sett í stofnskrá með sómasamlegum hætti. Til að svo mætti verða yrði að koma til stórfelld hækkun á framlagi hins opinbera til safnsins. Það er áframhaldandi verkefni stjórnar safnsins að berjast fyrir hækkun á framlagi hins opinbera til samræmis við framreiknað framlag áranna 2008 og 2009 en jafnframt að skoða vandlega hvernig því fé sem þó er varið til safnsins verði best nýtt til að sinna verkefnum sem skilgreind eru í stofnskrá.

Starfsáætlun 2017-2018

Fyrir aðalfundi 2017 liggur að að ræða stefnumótun hvað varðar varðveislu safneignar og áframhaldandi viðræður við Þjóðminjasafnið um það verkefni. Verði tekin sú ákvörðun að halda áfram viðræðum við Þjóðminjasafnið bíður stjórn það mikilvæga verkefni að móta hvernig Leikminjsafnið geti með bestum hætti tryggt að unnt verði að sinna með sómasamlegum hætti þeim verkefnum sem skilgreind eru í stofnskrá um söfnun, skráningu, varðveislu, rannsóknir og miðlun á leiklistarsögulegum arfi þjóðarinnar. Verði niðurstaðan sú að afhenda Þjóðminjasafni safneign Leikminjasafnsins verður að tryggja að fjármunir verði settir í þessi verkefni og starfsmaður ráðinn til að sinna þeim. Þetta hefði einnig í för með sér að endurskoða þyrfti hlutverk safnsins með tilliti til tengsla þess við höfuðsöfn á borð við Landsbókasafn og Þjóðminjasafn. Þessi skref þarf að vanda og nauðsynlegt er að fullt samráð sé haft við fulltrúaráð og aðra hagsmunaaðila þegar þau eru tekin.

Verði farið í þetta verkefni er líklegt að lítið verði um eiginlegt sýningarhald á vegum safnsins á næsta ári. Þó er mikilvægt að safnið haldi áfram þátttöku sinni á Safnanótt, enda getur hún verið góður vettvangur til að miðla leiklistarsögu, auk þess að kynna safnið, hlutverk þess og stöðu. Margrét Rósa Einarsdóttir lagði nýlega fram hugmynd til stjórnar safnsins um að halda sýningu til heiðurs Gunnþórunni Halldórsdóttur, einni helstu leikkonu þjóðarinnar á fyrri hluta síðustu aldar. Hugmyndin er halda þá sýningu í Iðnó á haustmánuðum og verður það verkefni nýrrar stjórnar að finna leiðir til að hún verði að veruleika.

Áfram er mikilvægt að sinna skráningu í gagnagrunn Leikminjasafnsins og leita leiða til að koma henni í öruggan farveg. Vinna við gagnagrunninn er langhlaup þegar kemur að því að færa inn nýjar sýningar. Þeirri vinnu lýkur í raun aldrei heldur verður að halda jafnt og þétt áfram. Einnig er mikilvægt að leita leiða til að fylla í þær eyður sem eru í grunninum, en það verkefni mætti leysa með sambærilegum hætti og gert var með sýningar Íslenska dansflokksins, eins og áður er getið.

Lokaorð

Leikminjasafn Íslands stendur á tímamótum. Ljóst er að ekki verður lengur búið við þann aðbúnað sem safnið hefur þurft að sætta sig við á undanförnum árum. Geymslur safnsins eru ófullnægjandi og óásættanlegar og mikil hætta er á að safneignin skemmist verði henni ekki fundin viðeigandi varðveisla. Engin aðstaða er til að skoða það sem í safneigninni er, rannsaka það og skrá. Í raun er gott veðurfar lykilforsenda þess að hægt sé að nálgast margt af því sem geymsla safnsins varðveitir, því erfitt er að komast að mörgum hlutum safnsins, nema með því að færa aðra hluta safneignarinnar út á bílaplan framan við geymsluhúsnæðið. Eigi safnið að geta sinnt þeim markmiðum og verkefnum sem tilgreind eru í stofnskrá safnsins verða róttækar breytingar að eiga sér stað hvað þetta varðar. Það verður að koma safneigninni í viðunandi geymslur þar sem aðgangur að henni til rannsókna og miðlunar er góður. Stjórn sér aðeins tvær leiðir mögulegar að þessu markmiði. Annars vegar að safnið fái eigið húsnæði og stóraukið framlag til starfseminnar þannig unnt verði að ráða fagfólk til starfa og reka safnið með viðunandi hætti. Hins vegar að leita samstarfs við Þjóðminjasafn Íslands, það höfuðsafn sem hefur yfir bestum geymslum, aðstöðu og mannskap að ráða, þar sem safneignin yrði varðveitt.

Ítrekaðar tilraunir stjórnar Leikminjasafnsins á undanförnum árum til að fá hækkun á framlagi hins opinbera til rekstrar safnsins hafa ekki borið árangur. Lágmarkskrafa stjórnar hefur verið að framlag til safnsins yrði hækkað til samræmis við framreiknað framlag áranna 2008 og 2009, þegar framlagið var 9 milljónir króna. Það er hins vegar ljóst að slík upphæð (í dag hátt í 15 milljónir) myndi ekki duga til að reka Leikminjasafnið sem sjálfstætt safn ef gert er ráð fyrir rekstrarkostnaði viðunandi húsnæðis, launakostnaði og kostnaði við reglulegt sýningarhald. Svör Mennta- og menningarmálaráðuneytis við kröfu safnsins um að fá hækkun til samræmis við framreiknað framlag áranna 2008 og 2009 hafa verið afdráttarlaus: slík hækkun er ekki til umræðu. Forsendur þess að fara fyrri leiðina: að safnið fái viðunandi geymslur undir safneignina, aðstöðu til rannsókna og starfsfólk til að sinna henni, eru því ekki í sjónmáli. Engar líkur eru á því að nægilegt fjármagn fáist frá hinu opinbera til slíks rekstrar í fyrirsjáanlegri framtíð.

Það er því erfitt að sjá aðra kosti en að ganga til samstarfs við Þjóðminjasafnið um varðveislu safneignarinnar. Skiljanlega vekja slíkar hugmyndir áhyggjur af því að þar verði safneigninni ekki sinnt nægilega vel og að hugsjónir þeirra sem lögðu grunninn að stofnun Leikminjasafnsins verði að engu. Verði af slíku samkomulagi er lykilatriði að Leikminjasafnið fái enn fjármuni til að sinna verkefnum sínum, þannig að hægt verði m.a. að ráða starfsmann til frambúðar til rannsókna, skráningar og miðlunar á leiklistarsögulegum arfi. Markmið safnsins er að varðveita leikminjar og heimildir um sögu leiklistar í landinu, gera þær aðgengilegar til rannsókna og miðla þeim með sýningum til almennings. Eins og staðan er núna er safninu ekki mögulegt að sinna þessu hlutverki nema að mjög takmörkuðu leyti. Verkefni safnsins til framtíðar hlýtur því að vera að sjá til þess að þeir fjármunir sem safnið hefur til umráða nýtist sem best til að sinna þessu verkefni.

Undirritaður tók við stöðu formanns stjórnar Leikminjasafnsins á síðasta ári, en nú er svo komið að vegna reglna safnsins um lengd samfelldrar stjórnarsetu þarf hann að víkja úr stjórn. Ég vil því nota tækifærið og þakka stjórnarmeðlimum fyrir þeirra starf og gott samstarf. Nýrri stjórn óska ég velfarnaðar í því starfi að búa sem best í haginn fyrir varðveislu, rannsóknir og miðlun á þeim mikilvæga menningararfi sem snertir leiklistarsögu og sviðslistir almennt.

 

Fyrir hönd stjórnar Leikminjasafns Íslands

Magnús Þór Þorbergsson, formaður