Skýrsla stjórnar Leikminjasafns Íslands

starfsárið 2015 fram að aðalfundi 2016

 

Stjórn Leikminjasafns Íslands var þannig skipuð starfsárið 2015 – 2016: Kolbrún Halldórsdóttir formaður,  Hlín Gunnarsdóttir gjaldkeri, Ásdís Þórhallsdóttir ritari, Magnús Þór Þorbergsson, Lilja Árnadóttir, Benóný Ægisson og Steinunn Knútsdóttir meðstjórnendur. Varamenn voru Lárus Vilhjálmsson og Ragnheiður Skúladóttir, en skv. samþykkt stjórnar eru varamenn boðaðir á alla stjórnarfundi og fá öll gögn vegna stjórnarfunda. Stjórnin kom saman fjórum sinnum á starfsárinu, þ.e. frá aðalfundi 2015 til aðalfundar 2016. Fundirnir voru  9. sept. 2015, 10. nóv. 2015, 16. des. 2015 og 21. mars 2016. Fundir stjórnar eru færðir til  bókar og eru fundargerðir stjórnarfunda aðgengilegar fulltrúum á aðalafundi.

 

Gagnabanki Leikminjasafns Íslands

Á síðasta aðalfundi Leikminjasafns Íslands var formlega opnaður nýr og að nokkru leyti uppfærður gagnabanki um leiksýningar á Íslandi frá 1887, ásamt nýrri heimasíðu safnsins. Veg og vanda af vinnu við gagnabankann hafði Eyjólfur Kristjánsson tölvunarfræðingur og hönnuður gagnabankans í upphafi, en fyrir hönd stjórnar hafa þeir Magnús Þór Þorbergsson og Benóný Ægisson sinnt starfi við bankann og heimasíðu safnsins. Markmiðið með gagnabankanum var og er að gera leikhúsunum sjálfum og forráðamönnum leik- og danssýninga kleift að setja upplýsingar um þær inn í grunninn jafnóðum og þær fara á fjalirnar. Á árinu var leitað til þessara aðila, sem allir skipuðu „skrásetjara“ til að færa upplýsingar inn í grunninn. Útnefnd til þeirra starfa eru:

Melkorka T. Ólafsdóttir, Tinna Lind Gunnarsdóttir, Friðdóra Magnúsdóttir og Júlía Aradóttir frá Þjóðleikhúsinu,

Hafliði Arngrímsson og Hlynur Páll Pálsson frá Borgarleikhúsinu

Friðrik Friðriksson frá Sjálfstæðu leikhúsunum

Jón Páll Eyjólfsson frá Leikfélagi Akureyrar

Virpi Jokinen frá Íslensku Óperunni

Íris María Stefánsdóttir frá Íslenska dansflokknum

Boðað var til fundar með „skrásetjurunum“ 13. janúar 2016 þar sem þeim var kynnt uppbygging grunnsins og hvernig sýningar eru skráðar þar inn. Þeim var úthlutað lykilorði til að þau gætu hafið skráningu á leiksýningum í nafni sinna stofnana. Áformin eru, sem fyrr segir, að það komi í hlut „skrásetjaranna“ að skrá í grunninn upplýsingar um leiksýningar sinna stofnana eftir því sem þær eru frumsýndar, þannig að bankinn hafi að geyma sem nákvæmastar upplýsingar um leiksýningar atvinnufólks á Íslandi á hverjum tíma. Einnig kemur það í hlut „skrásetjaranna“ að skoða, bæta við og lagfæra upplýsingar um eldri sýningar, svo bankinn geymi eins nákvæmar upplýsingar um sýningar hverrar stofnunar og framast er unnt.

Starfið hefur farið rólega af stað en vonast er til að skráningar muni aukast nú í lok leikárs. Stjórn tilnefndi Magnús Þór Þorbergsson umsjónarmann/ritstjóra grunnsins og mun hann hafa umsjón með vinnunni og verður í því hlutverki að ýta á eftir skráningum, veita ráðleggingar og greiða úr vafamálum sem upp kunna að koma. Ýmsar gagnlegar athugasemdir um grunninn hafa komið fram eftir að fleiri fengu aðgang að skráningum. Sumum hefur verið hægt að bregðast við strax, en aðrar krefjast meiri tæknivinnslu sem nauðsynlegt er að ráðast í hið fyrsta, þ.á.m. möguleikinn á að skrá fleiri en einn leikhóp fyrir sömu sýningu, sem er nauðsynlegt þegar um samstarfsverkefni er að ræða. 

Ljóst er að umtalsverð vinna er fyrir höndum við lagfæringar og leiðréttingar á grunninum og hafa Magnús Þór og Benóný gripið í þau verkefni eins og tækifæri hafa gefist til. Eins er margt óunnið þegar kemur að því að nýta þau tækifæri sem grunnurinn býður upp á, t.d. að bæta inn upplýsingum, myndefni og tenglum um einstaka sýningar og listamenn, jafnvel hljóðupptökum og myndskeiðum. Nemendur sviðslistadeildar LHÍ fengu það verkefni á námskeiði í íslenskri leiklistarsögu nú á vormisseri að skrifa æviágrip um 20 leikara og verða þau sett inn í grunninn á næstunni.

Stjórn gerir ráð fyrir að á komandi starfsári verði hægt að setja niður tímasetta áætlun um framvinduna og áætla hvenær uppfærslu hans til „dags dato“ verður lokið. Í framtíðinni er þyrfti stjórn að kanna möguleika þess að í gagnabankann verði skráðar upplýsingar um sýningar áhugaleikfélaganna og sviðslistaverk af öðru tagi en eiginlegar leik- og danssýngar t.d. gjörningalist og rannsóknarverkefni í sviðslistum. Í framhaldinu þarf svo að huga að fyrirkomulagi ritstjórnar og eftirliti með gagnabankanum og heimasíðunni til frambúðar.

 

Skráning safneignar

Á aðalfundi Leikminjasafns Íslands 2015 voru samþykktar hugmyndir stjórnar um að hefja vinnu við skráningu þess hluta safneignarinnar sem flokkast undir bókakost, leikhandrit, leikskrár og skjöl. Á árinu var gert samkomulag við Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn um skráningu, miðlun og  varðveislu þessa hluta safneignarinnar. Samkomulagið felur það í sér að Leikminjasafnið tekur að sér að greiða sem svarar 6 mánaða launum starfsmanns sem annast mun skráningu efnisins á árinu 2016. Landsbókasafnið leggur til starfsaðstöðu og sérfræðiþekkingu, tekur að sér að útvega skrásetjara til verksins og tryggir að vel sé um efnið búið, það varðveitt á viðunandi hátt og gert aðgengilegt í skrám safnsins. Samkomulagið kveður á um það að Leikminjasafnsins sé getið sem eiganda hins skráða og einnig að uppruna sé getið telji aðilar hann hafa menningarlegt vægi og sagnfræðilegt gildi. Þá er tekið fram í samkomulaginu að aðilar þurfi að koma sér saman um hvað gera skuli við þær bækur, leikhandrit og annað sem þegar er til skráð og varðveitt í Landsbóka-safninu, einnig að aðilar taki sameiginlega ákvörðun um skráningu og varðveislu bréfasafna, dagbóka, ljósmynda og ýmissa persónulegra muna sem leynast kunna í safneign þeirri sem kemur úr geymslum Leikminjasafnsins í vörslu Landsbókasafns. Leiðarljósið við vinnu þessa er skýrslan „Grundvallaratriði í safnastarfi og raunveruleiki Leikminjasafns Íslands“ sem unnin var af Lilju Árnadóttur og Kolbrúnu Halldórsdóttur og kynnt á aðalfundi 2014.

Til að sinna verkefninu var ráðinn bókasafns- og upplýsingafræðingurinn Edda Bryndís Ármannsdóttir og var gengið frá ráðningu hennar í janúar sl. Verkinu miðar hægt en örugglega þó ekki sé hægt að segja til um hvenær því muni ljúka.

 

Grisjunaráætlun – hluti gæðastarfs

Næsta skref í safnastefnu Leikminjasafns Íslands verður útfærsla grisjunaráætlunar, en stjórn lítur svo á að slík áætlun sé í samræmi við þau faglegu vinnubrögð sem krafist er í nútíma safnastarfi. Slík stefna þarf að vera til staðar áður en ákveðið verður hvað gert verður við það sem kemur upp úr kössunum í Landsbókasafni og er þegar til í eigu Landsbókasafns og mögulega skráð í Gegni í mörgum eintökum þar sem fram kemur hvar eintök eru aðgengileg. Nauðsynlegt er að mæla fyrir um slíkar ráðstafanir í grisjunaráætlun og eðlilegt að hún sé rædd í fulltrúaráði safnsins og verði samþykkt af því. Það er markmið stjórnar að grisjunaráætlun verði unnin á komandi starfsári og hefur útfærsla slíkrar áætlunar verið sett á starfsáætlun stjórnar 2016-2017.

Með þeirri skráningu sem nú stendur yfir í Landsbókasafni – Háskólabókasafni telur stjórn að hafin sé sú vegferð sem varðar mikilvægasta hlutverk safnsins, þ.e. að tryggja sómasamlega varðveislu þeirra leikminja sem safninu hafa borist með það að markmiði að opna aðgengi sérfræðinga og almennings að þeim. Það bíður svo nýrrar stjórnar að marka stefnu um það sem eftir er í geymslum safnsins þegar bókakostur, leikhandrit, leikskrár og skjöl hafa verið skráð.

 

Sýningar starfsársins

Mestur kraftur stjórnarmanna þetta starfsár fór í að undirbúa skráningu í gagnabanka safnsins og losa stóran hluta safnkosts Leikminjasafnsins úr geymslunum á Granda og koma honum fyrir í húsnæði Landsbókasafns – Háskólabókasafns. Það var því ekki mikið um sýningarhald þetta árið, þó tók Leikminjasafnið þátt í Safnanótt 5. febrúar 2016, en það er í tólfta sinn sem Safnanótt er haldin í Reykjavík og sjöunda sinn með þátttöku allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Leikminjasafnið var þar á meðal tæplega fjörutíu safna sem luku upp dyrum sínum og buðu almenning velkominn í hús. Húsið okkar var Iðnó, þar sem staðarhaldarinn Margrét Rósa Einarsdóttir gerði okkur kleift að taka á móti gestum. Leikminjasafnið fór í samstarf við Leikhúslistakonur 50+, sem hafa heimilisfesti í Iðnó og færðu þær sögu leiklistarstafsemi í Iðnó í lifandi búning á leiksviðinu, undir stjórn Þórunnar Magneu Magnúsdóttur. Þátttakendur voru Guðrún Ásmundsdóttir, Edda Björgvinsdóttir, Alexandra Chernyshova og Ásgeir Ágústsson.

Á annarri hæðinni buðu þeir Magnús Þór Þorbergsson og Benóný Ægisson fólki upp á leiðsögn um nýju heimasíðuna og gagnabankann um leiksýningar á Íslandi. Nutu þeir fulltingis Ólafs Engilbertssonar sem setti upp kynningarspjöld með fróðleik úr leiklistarsögunni. Yfirskrift þessarar þátttöku Leikminjasafnsins í Safnanótt 2016 var Svipir á ferð um Iðnó.

Af annarri starfsemi safnsins á árinu má nefna að í húsinu Líkn í Árbæjarsafni stóð sýning safnsins  Leiklist í Kvosinni uppi annað sumarið í röð í samstarfi Borgarsögusafns Reykjavíkur. Borgar-sögusafn Reykjavíkur er tilbúið í frekara samstarf við Leikminjasafnið og mikilvægt að þróa það góða samstarf sem komið hefur verið á milli þessara aðila. Af öðrum sýningum safnsins er það að frétta að söguspjaldið sem unnið var fyrir Sjálfstæðu leikhúsin í  Tjarnarbíói skipar enn veglegan sess í anddyri bíósins en spjaldið hefur að geyma ágrip af leiklistarstarfi í Tjarnarbíói frá upphafi og eru uppi hugmyndir um að prjóna við þá hugmynd þegar tækifæri gefst. Þá hangir enn upp í anddyri Gaflaraleikhússins sýningin Leiklist í Hafnarfirði, sem unnin var á vegum safnsins 2010 og vekur enn lukku þeirra leikhúsgesta sem koma að sjá sýningar þar.

 

Ný aðföng Bókagjöf Sveins Einarssonar o.fl.

Í apríl sl. tók Leikminjasafn Íslands við stórum hluta veglegrar bókagjafar Sveins Einarssonar, en Sveinn kynnti þá ákvörðun sína á stofndegi Leikminjasafns Íslands, að hann myndi gefa safninu bækur og muni úr sinni eigu sem tengjast áratugalöngu starfi hans að leiklist. Þegar hafa verið afhentir um 20 kassar með bókum um leiklist, leikskrár, tímarit og handrit. Þær bækur voru flestar afhentar bókasafni Listaháskóla Íslands, skv. sérstöku samkomulagi og hefur verið gerð skrá um það sem þar er.  Það sem nú hefur verið afhent er íslenskt leikritasafn frá fyrstu tíð og fram eftir 20. öldinni, mikið safn handrita þ.á.m. flest leikstjórnarhandrit Sveins, mikið safn aðdrátta um leiklistarsögu Íslands í möppum og kompum, fjöldi greina í innlend og erlend tímarit um leikhús, óperu og dans, handrit að útvarps- og sjónvarpsþáttum, „ýmsar tilraunir skáldskaparkyns“ og u.þ.b. 20 þýðingar erlendra leikverka, fjöldi DVD-diska, gögn um leikferðir Bandamanna, ásamt bréfum og persónulegum gögnum.

Þessar gersemar úr gjöf Sveins hafa verið fluttar í húsnæði Landsbókasafns – Háskólabókasafns og verða skráðar þar, varðveittar við bestu skilyrði og gerðar aðgengilegar fræðimönnum og öllum almenningi.

Erfingjar Indriða Waage (1902 – 1963) færðu safninu að gjöf ýmis handrit úr eigu Indrið, þar er m.a. mappa með ljósmyndum, hugmyndir að revýu og tímarit um leiklist. Þá fylgdu einnig bækur og myndir úr eigu Steingerðar Guðmundsdóttur leikkonu og skálds.

Úr dánarbúi Önnu Guðmundsdóttur (1902 – 1985) leikkonu komu þrír kassar með leikritum, blaðaúrklippum og leikskrám.

 

Lothar Grund

Í mars sl. kom hingað til lands Alfred Grund elsti sonur Lothars Grund, en Lothar starfaði hér á landi sem leikmynda- og búningahöfundur á árabilinu 1951 og 1958. Það var vilji Lothars, sem lést 1995, að það af efni hans sem tengdist Íslandi færi hingað eftir sinn dag en hann vildi einnig að Anna Grund kona hans hefði það hjá sér á meðan hún lifði.  Nú er Anna látin fyrir rúmlega einu og hálfu ári og sonum þeirra hjóna er umhugað um að það sem Lothar lét eftir sig hér á landi verði varðveitt með sómasamlegum hætti og því miðlað til að heiðra minningu föður þeirra. Safnið, sem um ræðir, hefur að geyma mörg hundruð sviðsteikningar, búningateikningar og módel.  Formaður stjórnar Leikminjasafnsins fór, ásamt Ólafi Engilbertssyni, til fundar við Alfred og konu hans til að ræða möguleikana á því að Leikminjasafn Íslands taki að sér að varðveita safn Lothars og gera því skil með því að efna til sýningar á því. Þau voru upplýst um stöðu Leikminjasafnsins og ótryggan rekstrargrundvöll þess, en jafnframt um það að ef safnið yrði falið okkur í hendur myndum við gera samning um að það yrði varðveitt við bestu fáanlegar aðstæður og því miðlað áfram í þágu fræðanna og framtíðarkynslóða. Alfred Grund fór með þær upplýsingar með sér til Þýskalands og væntir stjórn þess að heyra frá honum innan tíðar varðandi niðurstöðu fjölskyldunnar.

 

Gestir frá Eistlandi

Stjórn Leikminjasafnsins tók á móti sex manna hópi frá Leikminja- og tónlistarsafninu í Tallinn í Eistlandi 9. september 2015, en hópurinn heimsótti Ísland og óskaði eftir fundi með stjórn Leikminjasafnsins. Á fundinum spunnust skemmtilegar umræður um gildi safna af þessu tagi og var með honum komið á sambandi sem gott og gagnlegt gæti verið að rækta frekar í náinni framtíð.

 

Norrænt samstarf

Árleg ráðstefna og aðalfundur NCTD  – Nordisk Center for Teaterdocumentation fór fram í Osló dagana 19. - 20. maí 2015 og var fundarstaðurinn í Norska Ríkisleikhúsinu. NCTD eru samtök safna og sviðslistasstofnana sem sérhæfa sig í varðveislu á leikminjum og skráningu á sögu sviðslista. Ráðstefnugestir voru 16 talsins frá fjórum Norðurlöndum, Noregi, Svíþjóð, Danmörku og Íslandi og var Benóný Ægisson fulltrúi Leikminjasafnsins. Á ráðstefnunni kynntu Hege Rød Segerblad og Rikhard Larsson nýjan vef NCTD sem er ætlaður til skoðanaskipta og miðlunar á upplýsingum milli norrænu safnanna og til almennings. Slóðin á nýja vefinn er www.nctd.eu

Benedikte Berntzen frá norska Landsbókasafninu hélt fyrirlestur þar sem hún kynnti hvernig leiklistartengdu efni er safnað með kerfisbundnum hætti í Noregi, en þar er um að ræða skylduskil á sex handritum, 4 leikskrám og 2 plakötum og dreifimiðum, fyrir hverja leiksýningu sem sett er upp af atvinnuleikhúsum og leikhópum þar í landi. Auk þess reynir safnið að halda saman hljóð- og myndefni, safna teikningum og ljósmyndum sem tengjast leiksýningum. Því til viðbótar skráir safnið  og varðveitir allt leikið efni frá norska Ríkisútvarpinu. Landsbókasafnið norska geymir nú efni frá yfir 220 leikhúsum, leikminjasöfnum og einstaklingum, -efni allt frá árinu 1780 til okkar daga.

Hinn fyrirlesarinn á ráðstefnunni, Jon Refsdal Moe leikhússtjóri Black Box Teater, lagði upp með heimspekilegar vangaveltur um möguleika á því að varðveita þessa list augnabliksins, sem sviðslistir eru og velti upp spurningunni um hvort það sé yfirleitt hægt og þá með hvaða aðferðum. Út frá ræðu Jóns spruttu fjörlegar umræður um efnið. Fyrri deginum lauk svo með heimsókn í Leikminjasafnið í Osló sem er til heimilis í Árbæjarsafni þeirra Óslóbúa, Oslo Bymueseum.
Seinni daginn var haldinn aðalfundur NCTD. Samþykkti fundurinn að stofna nefnd með einum fulltrúa frá hverju landi sem fær það verkefni að uppfæra upplýsingar um leikminjasöfn á Norðurlöndum og aðrar stofnanir sem skrásetja sviðslistasögu og er Benóný fulltrúi Leikminjasafnsins í nefndinni. Rikhard Larsson, frá sænska sviðslista- og tónlistarsafninu, tók að sér að vera talsmaður NCTD fram að næsta fundi sem verður í Stokkhólmi 2017.

 

Fjárhagsstaða              
Fjárhagur Leikminjasafnsins er jákvæður að því leyti að rekstrarreikningur 2015 sýnir hagnað að upph. kr. 1.505.023.- og eigið fé vex frá síðasta ári, er nú kr. tæpar þrjár milljónir króna. En þessi niðurstaða fæst einungis með því að dregið hefur verið úr starfsemi við sýningahald og ekki hefur verið starfandi forstöðumaður við safnið síðan á miðju ári 2012. Þeir fjármunir sem safnast hafa með þessu móti eru ætlaðir til að standa straum af kostnaði við skráningarverkefnið sem unnið er að í samstarfi við Landsbókasafn – Háskólabókasafn, þó enn hafi ekki komið til greiðslu kostnaðar vegna þess, þá kemur að því á yfirstandandi ári. Ljóst er að safnið getur ekki staðið undir áformum í stofnskrá sinni um verkefni ef ekki fást aukin framlög til starfseminnar. Það bíður því nýrrar stjórnar að berjast fyrir hækkun framlagsins til safnsins á fjárlögum 2017. Krafan er sú að framlagið haldi verðgildi sínum m.v. það sem var 2008 og 2009, en þá fékk safnið níu milljónir króna á fjárlögum. Það var skorið í sex milljónir eftir hrun, þ.e. á fjárlögum 2010, síðan hefur það lækkað enn meir, var 5,9 milljónir 2012 og 2013, skorið í 5,8 milljónir 2014 og 2015 en hækkar raunar í sex milljónir 2016. Undanfarin þrjú ár hefur fjárlaganefnd ekki orðið við óskum safnsins um áheyrn og hefur stjórn því einungis átt samtöl við starfsfólk menningarskrifstofu ráðuneytisins, sem hefur sýnt skilning á stöðunni þó ekki hafi það skilað sér í hækkuðum framlögum. Ef níu milljónirnar sem fengust til starfseminnar 2008 eru framreiknaðar til dagsins í dag (apríl 2016) þá eru þær orðnar tæpar fjórtán milljónir króna, sem myndi sannarlega gera safninu kleift að sinna fleiri verkefnum en það gerir í dag. Því hlýtur takmarkið að vera að fá framlagið hækkað um átta milljónir eða úr sex í fjórtán fyrir fjárlagaárið 2017.

 

Starfsáætlun 2016-2017

Í ljósi þess sem fram hefur komið hér að framan tekur áætlun stjórnar um áframhaldandi starf Leikminjasafns Íslands mið af þeim litlu fjármunum sem er úr að spila. Engu að síður heldur stefnumótun fyrir safnið áfram, nú með áherslu á grisjunarstefnu, sem er nauðsynlegur hluti gæðastefnu og faglegs safnastarfs. Stefna ber að því að grisjunarstefna fyrir safnið verði kynnt á ársfundi 2017 og hljóti þá formlegt samþykki fulltrúaráðsins. Þá verður haldið áfram samstarfsverkefninu við Landsbókasafn – Háskólabókasafn, þar sem hafin er skráning á bókum, handritum, leikskrám og skjölum safnsins í Gegni. Síðan þarf stjórn að móta stefnu um hvernig sá hluti safnkostsins, sem ekki eru bækur, handrit, leikskrár og skjöl og er enn í geymslum safnsins á Granda, verður best varðveittur og með hvaða hætti beri að skrá hann. Þar er um að ræða leikmynda- og búningateikningar, módel að leikmyndum, leikbrúður, „hinar konunglegu mublur“, fjölbreytt safn muna úr fórum einstakra leikhúslistamanna og leikhópa, auk hljómplatna, geisladiska, segulbanda og myndbanda með ýmsu leiklistartengdu efni.

Stjórnar bíða einnig ákvarðanir um með hvaða hætti gagnabanki safnsins á vefnum verði þróaður, t.d. hvort skrá beri í hann upplýsingar um sýningar áhugaleikfélaganna og sviðslistaverk af öðru tagi en eiginlegar leik- og danssýngar t.d. gjörningalist og rannsóknarverkefni í sviðslistum. Þá þarf að huga að fyrirkomulagi ritstjórnar og eftirliti með gagnabankanum og heimasíðunni til frambúðar. Mögulega þarf að gera samninga um það verkefni og þá þarf að skoða fjármögnun þess til næstu ára.

Í ljósi þess að Leikminjasafnið hefur frá stofnun starfað eftir stofnskrá, sem raunar er til sérstakrar umfjöllunar á þessum fundi, hefur stjórn velt fyrir sér spurningunni um það hvort ekki sé rétt að setja safninu lög. Félagslög eru að líkindum sveigjanlegra stjórntæki en stofnskráin, enda viðurhlutameiri aðgerð að breyta stofnskrá en lögum, þar sem breytingar á stofnskrá eru tilkynningaskyldar til innanríkisráðuneytisins.

Stjórn hefur ákveðið að Leikminjasafnið taki þátt í Safnanótt í Reykjavík 2017 og einnig að samstarfið við Borgarsögusafn verði þróað áfram. Þá þarf stjórn að taka afstöðu til þess hvort stofna beri hollvinasamtök Leikminjasafns Íslands, en safnið á ágæta úttekt á þeim möguleika, sem Árni Kristjánsson vann fyrir safnið 2013 – 2014. Varðandi sýningarstarfsemi á vegum safnsins þá þarf hún að taka mið af samstarfi við söfn sem hlotið hafa viðurkenningu frá Safnaráði, en einungis slík söfn eiga möguleika á verkefnastyrkjum úr Safnasjóði. Loks ber að nefna utanumhald um daglegan rekstur, samtal við ráðuneyti menningarmála og baráttu fyrir því að safnið fái hækkað fjárframlag á næstu fjárlögum íslenska ríkisins.

 

Lokaorð

Þessi ársskýrsla er sú síðasta sem undirrituð hefur veg og vanda af, þar sem komið er að lokum stjórnarsetu minnar, sem staðið hefur tvö þriggja ára tímabil, eða frá 2010. Við þetta tækifæri vil ég þakka samstarfsfólki mínu í stjórn safnsins fyrir ánægjulegt samstarf, þeirra óeigingjarna framlag til að styrkja faglegan grunn Leikminjasafns Íslands og tryggja tilveru þess til framtíðar.  Þá vil ég einnig þakka þeim samstarfsmönnum sem mörkuðu brautina í upphafi, upp úr síðustu aldamótum, komu á fót Samtökum um leikminjasafn (2001) og stofnuðu á grunni þeirra Leikminjasafn Íslands (2003). Þeir hafa ævinlega verið til taks þó ekki hafi þeir gegnt formlegum störfum innan safnsins síðustu ár. Einn þessara frumkvöðla kvöddum við á nýliðnu starfsári, því á nýjársdag lést Jón Þórisson, sem var einn virkasti bakhjarl safnsins frá upphafi og átti veg og vanda af mörgum sýningum í þess nafni meðan hans naut við. Nýrri stjórn óska ég farsældar í störfum sínum og vona að hún hafi það baráttuþrek sem þarf til að opna augu ráðamanna fyrir því mikilvæga starfi sem hér er unnið við að bjarga þeim hluta menningararfsins sem tengist leiklistinni og sviðslistunum öllum. Megi Leikminjasafni Íslands vel farnast.

 

Fyrir hönd stjórnar Leikminjasafns Íslands

Kolbrún Halldórsdóttir formaður