Skýrsla stjórnar Leikminjasafns Íslands
starfsárið 2013 fram að aðalfundi 2014

Stjórn og stjórnarfundir
Stjórn Leikminjasafns Íslands skipti með sér verkum að loknum aðalfundi 14. maí 2013. Kolbrún Halldórsdóttir var kjörin formaður,  Hlín Gunnarsdóttir og gjaldkeri, Ásdís Þórhallsdóttir, ritari. Meðstjórnendur eru Magnús Þór Þorbergsson, Lilja Árnadóttir, Benóný Ægisson og Steinunn Knútsdóttir. Kjörnir varamenn eru Messíana Tómasdóttir og Lárus Vilhjálmsson.

Stefnumótun
Í samræmi við starfsáætlun ársins, sem samþykkt var á aðalfundi safnsins 2013, hefur stjórn lagt áherslu á vinnuna við framtíðarstefnumótun fyrir safnið.  Lilja Árnadóttir hefur haft veg og vanda af þeirri vinnu og var meðal annars leitað liðsinnis starfsmanna Landsbókasafns Íslands, sem fundaði með fulltrúum stjórnar. Meðal þess sem starfsmenn Landsbókasafns lögðu til vinnunnar var samantekt yfir það efni um leiklist sem varðveitt er í handritasafni Landsbókasafnsins, en þar er að finna efni sem skráð hefur verið í aðfangabók safnsins, efni í einkaskjalasöfnum og efni úr handritaskrám. Það er talsverður fengur af þessari samantekt fyrir Leikminjasafnið þar sem svara þarf áleitnum spurningum um það hvar skynsamlegast sé að varðveita þau handrit og þann bókakost sem er að finna í safnkosti Leikminjasafns Íslands. Landsbókavörður, Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir hefur boðið fram þá aðstoð sem Landsbókasafn gæti mögulega látið í té við stefnumótun Leikminjasafns. Í framhaldinu fór stjórn Leikminjasafns þess á leit við landsbókavörð að Landsbókasafn veitti Leikminjasafni liðsinni með því að „hýsa“ gagnabanka um leiksýningar á Íslandi þegar endurnýjun hans og uppfærslu yrði lokið. Því erindi var vel tekið og er undirbúningur hýsingarinnar nú á lokastigi. Gerð er nánari grein fyrir megindráttum vinnunnar við framtíðarstefnumótunina undir sérstökum dagskrárlið aðalfundar 2014 og fylgir greinargerð stjórnar um stefnumótunarvinnuna þessari skýrslu.

Húsnæðismál
Á árinu hefur safnið leigt húsnæði undir safnkost sinn í geymsluhúsnæði á Granda; geymslur.com og er leigan þar stærsti einstaki kostnaðarliður í ársreikningum safnsins. Í september sl. var skrifstofuhúsnæði það sem safnið hefur haft á leigu í Reykjavíkurakademíunni við Hringbraut tæmt og því sem það hafði að geyma komið fyrir í geymslunum á Granda. Ekki varð af því að safnið fengi inni í Loftskeytastöðinni við Brynjólfsgötu svo sem vonast hafði verið eftir, en það stendur safninu til boða að koma þangað tímabundið ef að því kemur að farið verði gegnum safnkostinn úr geymslunum, með það að markmiði að ganga sómasamlega frá honum til vistunar við ákjósanlegar aðstæður.

Sýningahald
Safnið fékk styrk frá Safnasjóði 2013 til tveggja verkefna; 10 ára afmælissýningar safnsins og   til endurnýjunar og uppfærslu gagnabanka um leiksýningar á Íslandi. Þá var safnið aðili að umsókn Norska hússins í Stykkishólmi – Byggðasafns Snæfellinga og Hnappdæla um sýningu í tilefni af 80 ára afmæli Steinþórs Sigurðssonar leikmyndahöfundar, en Steinþór fæddist í Norska húsinu 1933.  Sýningin var opnuð 1. júní 2013 og lánaði Leikminjasafnið stóran hluta þeirra mynda og líkana sem notuð voru í sýningu Leikminjasafns um Steinþór í Iðnó 2012. Yfirskrift sýningarinnar var Sviðsmyndir og sjónhverfingar. Sýningarhönnuður, ásamt Steinþóri, var Jón Þórisson og stjórnarformaður Leikminjasafnsins flutti ávarp við opnunina. Sýningin stóð uppi allt sumarið eða til 31. ágúst og var hún vel sótt.
Afmælissýning Leikminjasafnsins var svo haldin í samstarfi við Minjasafn Reykjavíkur í Árbæjarsafni í desember 2013. Sýningin var opnuð 8. desember og bar yfirskriftina Jól í leikhúsinu. Hún fjallaði að uppistöðu til um jólasyningar Leikfélags Reykjavíkur í Iðnó frá 1920 – 1951.  Sýningin var sett upp á fyrstu hæð Líknar, húss sem áður stóð við Kirkjustræti en er nú við „torgið“ í Árbæjarsafni. Meðal sýningargripa var líkan af Iðnó í jólabúningi, sem Guðrún Sverrisdóttir bjó til ásamt tugum lítilla jónasveina sem allir báru nöfn og einkenni leikaranna í Iðnó. Sýningarhönnuðir voru þeir Björn G. Björnsson og Jón Þórisson, Ólafur Engilbertsson sá um uppsetningu spjalda með texta og ljósmyndum og Jón Viðar Jónsson annaðist textagerðina. Þess ber að geta hér að þó afmælissýningin hafi verið opnuð í desember þá var afmælisdagurinn 9. mars 2013 á fæðingardegi Sigurðar málara.

Gagnabanki
Svo sem að framan greinir þá veitti Safnasjóður styrk til að gera Leikminjasafninu kleift að endurbæta og uppfæra gagnabanka safnsins um leiksýningar á Íslandi frá 1897 til dagsins í dag, en lítið sem ekkert hefur verið um viðbætur inn í grunninn frá því honum var komið á laggirnar 2003. Gerður var samningur við Davíð Kjartan Gestsson um að annast vinnuna við að koma upplýsingum um leiksýningar frá 2003 inn í grunninn og til að sinna tæknilegu hliðinni var leitað til Eyjólfs Kristjánssonar sem upphaflega hannaði grunninn. Eyjólfur stundar um þessar mundir nám til BS-prófs í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík og fékk hann tvo samnemendur til liðs við sig til að sinna verkefninu. Leikminjasafnið sótti svo um það til Háskólans í Reykjavík að þessir þrír háskólanemar fengju samþykki skólans fyrir því að endurnýjun og uppfærsla gagnabankans yrði tekin gild sem verkefni til BS-prófs í tölvunarfræði. Það samþykki var veitt og eru þeir félagar nú á lokametrunum við að ljúka verkefninu. Yfirumsjón með verkinu hefur verið í höndum Magnúsar Þórs Þorbergssonar, auk þess sem Benóný Ægisson vefhönnuður safnsins og Þór Snær Sigurðsson útlitshönnuður hafa komið að afmörkuðum þáttum þess. Þá hefur landsbókavörður Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir verið einstaklega hjálpleg þar sem hún bauð aðstandendum verkefnisins aðstöðu í húsi Þjóðarbókhlöðunnar ásamt ýmis konar tæknilegri aðstoð meðan á vinnunni stóð.

Hollvinasamtök
Eins og greint var frá í ársskýrslu safnsins 2012 þá vann Árni Kristjánsson skýrslu um mögulega stofnun hollvinasamtaka Leikminjasafns Íslands og lauk þeirri vinnu 2013. Það var mat stjórnar að skynsamlegt væri að tengja stofnun hollvinasamtaka og söfnun hollvina flutningi safnsins í varanlegt húsnæði og var af þeim sökum ákveðið að slá vinnu við undirbúning og útfærslu á frest um sinn, enda nýtist undirbúningsvinna Árna þó einhver dráttur verði á sjálfri stofnun samtakanna. Þar með er málinu haldið á lífi þó ekki hafi verið unnið að því með beinum hætti á árinu.

NCTD – Nordisk Center for Teater Dokumentation
Leikminjasafn var gestgjafi NCTD á ársfundi samtakanna, sem haldinn var í Reykjavík 14. - 16. júní 2013. Fundinn sóttu 10 manns frá nokkrum af leikminjasöfnum Norðurlandanna í Svíþjóð, Danmörku og Noregi. Á fundinum voru sameiginleg málefni leikminjasafna til umfjöllunar og lauk fundinum með því að ákveðið var að blása til sóknar í þessu samstarfi fremur en að leggja það niður. Þannig var ákveðið að næsti ársfundur yrði haldinn í tengslum við Norrænu Leiklistardagana í Kaupmannahöfn 18. – 24. júní 2014 og hefur Alette Scavenius borið hita og þunga undirbúningsins. Formaður stjórnar Leikminjasafns Íslands mun sækja fundinn.

Ný aðföng
Í nóvember tók Leikminjasafn Íslands formlega við rausnarlegri gjöf erfingja Róberts Arnfinnssonar leikara, en Róbert skráði og kortlagði leikferil sinn með einstökum hætti og lét eftir sig úrklippusafn, dagbækur, handrit, ljósmyndir og ýmsa muni sem tengjast farsælum ferli.  Má þar nefna bæði silfurlampa og verðlaunagripi Grímunnar, Íslensku sviðslistaverðlaunana, myndir eftir Halldór Pétursson af leikaranum í ýmsum hlutverkum og myndverk eftir leikmyndahöfundinn Baltasar. Umfang gjafarinnar verður vart metið fyrr en aðstaða safnsins batnar til muna, þangað til verður hún varðveitt í kössum sem skipta tugum og fylla tvö vörubretti. Kolbrún Halldórsdóttir og Jón Viðar Jónsson veittu þessari höfðinglegu gjöf viðtöku fyrir hönd safnsins og sáu um að koma henni fyrir í geymslum Leikminjasafnsins á Granda.
Þá tók safnið einnig tekið við á árinu 7 kössum með ýmsum erlendum tímaritum um leiklist úr fórum Sveins Einarssonar. Stjórn hefur átt í viðræðum við forstöðumann bókasafns Listaháskóla Íslands varðandi mögulegt samstarf um skráningu þessara tímarita, en vegna plássleysis og endurskipulagningar bókasafns skólans fær það að bíða eitthvað fram eftir næsta vetri. Kössunum hefur því verið komið fyrir í geymslum safnsins á Granda.

Annað starf
Um mitt sumar 2013 auglýsti Landsbanki Íslands eftir styrkumsóknum vegna Menningarnætur í Reykjavík. Landsbókasafn Íslands óskaði eftir samstarfi við Leikminjasafnið um verkefni á Menningarnótt þar sem hugmyndin var að bjóða upp á leiklestur úr leikritinu Systur í syndinni eftir Iðunni og Kristínu Steinsdætur, en það fjallar öðrum þræði um vatnsberana í Reykjavík um og fyrir aldamótin 1900. Viðburðurinn hefði tengst sumarsýningu Landsbókasafns Íslands – Þjóðarbókhlöðu Utangarðs?  Því miður fór það svo að enginn styrkur fékkst svo ekkert varð af verkefninu að sinni.
Leikminjasafnið tók boði Kjósarstofu um samstarf við uppsetningu sýningar um leiklist í Kjós á vordögum 2014. Það var sýningarhönnuðurinn Ólafur Engilbertsson, sem átti frumkvæði að því að fá Leikminjasafnið til liðs og flutti formaður stjórnar Leikminjasafns ávarp við opnun sýningarinnar 19. apríl 2014.

Fjármál
Á síðustu tveimur árum hefur orðið jákvæður viðsnúningur í rekstrarstöðu safnsins og sýna ársreikningar 2013 rekstrarafgang að upphæð kr. 250 þúsund og er eigið fé safnsins við áramót kr. 1.261 þúsund. Handbært fé í árslok var kr. 2.440 þúsund.
Á árinu veitti Safnasjóður safninu stuðning til tveggja verkefna, samtals að upphæð kr. ein milljón og kr. 100.000 að auki í samstarfsverkefnið með Norska húsinu í Stykkishólmi.
Stuðningur ríkisins á yfirstandandi ári er skv. fjárlögum 2014 kr. 5,8 milljónir (lækkaði um kr. 100.000 milli ára), en í ár tók stjórn þá ákvörðun að sækja ekki um stuðning til Safnasjóðs. Ástæðurnar eru tvær, annars vegar taldi stjórn skynsamlegt að einbeita sér að vinnunni við stefnumótunina og uppfærslu gagnabanka og heimasíðu á árinu, þar sem líklegt væri að sýningarhald myndi bæði dreifa kröftunum og kosta safnið of mikla fjármuni. Hin ástæðan er sú að nú er búið að breyta safnalögum, sem gera kröfu um að söfn sæki formlega um viðurkenningu til Safnaráðs, m.a. til að tryggja fagmennsku í safnastarfi sem leiðir það af sér að þau söfn sem hljóta slíka viðurkenningu eiga tilkall til fjármuna úr Safnasjóði umfram þau söfn sem ekki teljast viðurkennd. Stjórn Leikminjasafns Íslands hefur ekki gert formlega skoðun á því hvort eða með hvaða hætti safnið uppfyllir kröfur laganna, en slíkt starf bíður næsta starfsárs.

Samstarf við Minjasafn Reykjavíkur
Í framhaldi af samstarfi Leikminjasafnsins við Minjasafn Reykjavíkur um sýninguna „Jól í leikhúsinu“, ákvað stjórn að taka boði forsvarsmanna Minjasafnsins um að taka þátt í sumarsýningu Árbæjarsafns 2014. Það leiddi til þess að á stofndegi Leikminjasafnsins 9. mars sl. var opnuð ný sýning í húsi Líknar í Árbæjarsafni sem fjallar um leiklist í Kvosinni. Er sýningin endurvinnsla sýningar sem haldin var í gamla fógetahúsinu við Aðalstræti 2010 og ber hún yfirskriftina „Kvosin – Vagga leiklistar“.

16. maí 2014

Kolbrún Halldórsdóttir
formaður stjórnar Leikminjasafns Íslands