Skýrsla um starfsemi Leikminjasafns Íslands
starfsárið 2012 og fram að aðalfundi 2013

Húsnæðismál
Starfsemi Leikminjasafns síðasta árið hefur einkennst af baráttunni við að koma safninu í varanlegt húsnæði.  Á vordögum 2012 fregnaðist að Loftskeytastöðin að Brynjólfsgötu 5, sem hýst hefur sýningu um starfsemi Landssíma Íslands og Náttúruminjasafn Íslands undanfarin ár, myndi losna á árinu þar sem sýningin yrði flutt að Samgönguminjasafninu að Skógum og Náttúruminjasafni yrði fundinn nýr samastaður til frambúðar á hentugri stað. Loftskeytastöðin sjálf er í eigu Þjóðminjasafns Íslands, sem er í sárri þörf fyrir geymslurými en þar sem Loftskeytastöðin er ekki heppileg geymsla hefur þjóðminjavörður óskað eftir því við mennta- og menningarmálaráðherra að sá vandi Þjóðminjasafns verði leystur með öðrum hætti. Þá yrði Loftskeytastöðin laus til annarra heppilegri nota, t.d. sem framtíðarhúsnæði fyrir Leikminjasafn Íslands.  Talsverð fundahöld hafa verið vegna þessa máls á árinu, t.d. hefur verið fundað með stjórn Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, en á árinu var kynnt niðurstaða arkitektasamkeppni um byggingu fyrir Stofnunina. Sú bygging mun rísa á næstu lóð norðan við Loftskeytastöðina og mun Loftskeytastöðin blasa við úr glugga Vigdísarstofu, sem ýtir stoðum undir tengsl Leikminjasafns og Vigdísarstofununar, enda er Vigdís verndari Leikminjasafns Íslands. Þá hefur verið fundað með fulltrúum Háskóla Íslands og nokkrir fundir hafa verið haldnir um málið með mennta- og menningarmálaráðherra. Í apríl sl. boðaði svo mennta- og menningarmálaráðherra fulltrúa Leikminjasafns, Þjóðminjasafns og Háskóla Íslands til fundar. Niðurstaða þess fundar var fremur dapurleg, þar sem ljóst er að Háskóli Íslands er tregur til að leggja þeirri hugmynd lið að Leikminjasafn fái Loftskeytastöðina til afnota. Í dag er málið þar statt að mennta- og menningarmálaráðherra er að leita leiða til að leysa geymsluvanda Þjóðminjasafns gegn því að Leikminjasafn fái  aðsetur í Loftskeytastöðinni. Einnig er í skoðun með hvaða hætti verði hægt að gera við rakaskemmdir á aðalhæð Loftskeytastöðvarinnar. Ljóst er að enn verður einhver bið á endanlegri niðurstöðu í húsnæðismálum safnsins.

 

Fjárhagsstaða
Leikminjasafn Íslands hefur verið rekið með tapi síðastliðin tvö ár og var eigið fé neikvætt um rúml 500.000.- krónur í árslok 2011. Gripið var til aðgerða strax á árinu 2011, með því að forstöðumaður fékk ekki greidd föst mánaðarlaun síðustu fjóra mánuði ársins og hefur ekki orðið breyting þar á. Einu launagreiðslurnar sem safnið hefur innt af hendi árið 2012 hafa verið í formi verktakagreiðslna fyrir afmörkuð verkefni; t.d. við hönnun og uppsetningu sýninga. Með lækkaðri húsaleigu hjá Reykjavíkurakademíunni og lækkuðum rekstrarkostnaði á flestum sviðum hefur tekist að snúa rekstrinum við, þannig sýnir niðurstaða ársreikninga 2012 rekstrarafgang sem nemur rúml. 1.300 þús. krónum. Þar með er eigið fé í árslok 2012 kr. 885.781.-
Skipt var um endurskoðanda á árinu og er nú skipt við Endurskoðun Flókagötu 65 ehf. Þórhallur Sigurðsson, félagslegur skoðunarmaður reikninga hefur yfirfarið ársreikninginn og gerir engar athugasemdir. Stjórn safnsins hefur samþykkt reikninginn og undirritað fyrir sitt leyti.
Framlag Leikminjasafns á fjárlögum ársins 2012 var kr. 5.900.000 þús. og sama upphæð kemur í hlut safnsins á yfirstandandi fjárlagaári 2013.  Á árinu fékk safnið kr. 1.250 þús úthlutað úr Safnasjóði til uppsetningar á sýningu um Vestfirska leiklist. Fjárhagsstaða safnsins er veik þótt sæmilega hafi tekist að halda í horfinu, nauðsynlegt er að auka skilning stjórnvalda á mikilvægi safnsins ef takast á að auka rekstrarframlag ríkisins og færa reksturinn til fyrra horfs.

 

Verkefni ársins
Leikminjasafn Íslands vann að þremur verkefnum á árinu, eitt sér og í samstarfi við aðra. 10. mars 2012 var haldið málþing um Steinþór Sigurðsson og list hans. Málþingið var í tengslum við sýningu safnsins á verkum Steinþórs, sem opnuð var í nóvember 2011. Á málþinginu ræddi Ilmur Stefánsdóttir leikmyndahöfundur við Steinþór um starfsferilinn og leikmyndagerð almennt, auk þess sem haldin voru erindi um Steinþór og list hans.  Þá vann safnið að sýningu um leiklist á Vestfjörðum, sem opnuð var í Gamla Sjúkrahúsinu/Safnahúsinu á Ísafirði 2. febrúar 2013. Sú sýning var sett upp í samvinnu við Safnahúsið, Listasafn Ísafjarðar og Kómedíuleikhúsið með styrk úr Safnasjóði. Þrjú veggspjöld þeirrar sýningar voru afhjúpuð í tengslum við leiklistarhátíðina Act Alone, sem haldin var á Súðavík í ágúst 2012. Loks tók safnið þátt í samstarfsverkefni með Landsbókasafni Íslands og Þjóðleikhúsinu, en í desember 2012 opuðu þessir aðilar sýningu í anddyri Þjóðarbókhlöðunnar um Thorbjørn Egner í tilefni af 100 ára fæðingarafmælis skáldsins.
Önnur verkefni ársins voru tengd undirbúningi að stofnun hollvinasamtaka safnsins. Til þess verkefnis var ráðinn Árni Kristjánsson og gerði hann rannsókn á fýsileika þess að stofna hollvinasamtök. Kannaði Árni samtök sem hafa það hlutverk að vera bakhjallar safna og menningarstofnana, greindi framkvæmd slíkrar stofnunar og mögulegt umfang. Árni skilaði stjórn skýrslu um störf sín sem liggur frammi á aðalfundi.
Þá hefur upp á síðkastið verið unnið við uppfærslu heimasíðu safnsins, það verk hefur verið í höndum Benónýs Ægissonar. Síðan hefur nú að geyma upplýsingar um allar sýningar sem haldnar hafa verið á vegum safnsins ásamt gagnagrunni um íslenska leiklist, sem bíður frekari fjárframlaga svo hægt verði að uppfæra hann þannig að hann þjóni tilgangi sínum betur.

 

Afmælisár
Leikminjasafn Íslands er orðið 10 ára en það var stofnað 9. mars 2003 á 170 ára afmæli Sigurðar Guðmundssonar málara og brautryðjanda í íslensku leikhúsi. Það var auðvitað von stjórnar safnsins að hægt yrði að fagna áfanga í húsnæðismálunum á afmælisdeginum, en af því varð ekki. Öllum hátíðarhöldum vegna afmælisins hefur því verið slegið á frest um sinn. Þrátt fyrir barlóm vegna erfiðrar fjárhagsstöðu hefur stjórn uppi áform um stefnumótunarvinnu, en mikilvægt er að safn á borð við Leikminjasafn hafi skýrt hlutverk og vel mótaða stefnu til að uppfylla markmið sitt. Það er vilji stjórnar að slík vinna fari af stað á árinu og að henni verði ýtt úr vör með formelgum hætti um leið og safninu verður búinn varanlegur samastaður, vonandi í Loftskeytastöðinni á Melunum.