Skýrsla stjórnar Leikminjasafns Íslands
starfsárið 2011 fram að aðalfundi 2012

Starf Leikminjasafnsins árið 2011 var umsvifaminna en nokkru sinni frá upphafi.  Skýringar er að sjálfsögðu að leita  í þeim stórfellda niðurskurði sem orðið hefur á fjárframlögum til safnsins frá árinu 2009.  Er sá niðurskurður langt umfram það sem nær öll hliðstæð söfn hafa mátt þola á sama tíma, eins og gerð var grein fyrir í ársskýrslu safnsins 2010.  Þar var einnig skýrt frá viðræðum forystumanna safnsins, forstöðumanns og stjórnarformanns, við mennta- og menningarmálaráðherra og fjárlaganefnd sem leiddu til þess að stjórnvöld féllu frá upphaflegum áformum og hækkuðu fjárveitingu úr þeim 5,300.000, sem áætlaðar voru í fjárlagafrumvarpi, í 6.000.000, eins og þær voru árið 2010.  Allt um það dugði þessi leiðrétting vitaskuld hvergi nærri til að bæta hag safnsins svo nokkru næmi.  Forstöðumaður, eini starfsmaður safnsins, varð því án launa síðustu fjóra mánuði ársins.

 

Á aðalfundi safnsins, sem var haldinn í byrjun júní, urðu talsverðar mannabreytingar í stjórn.  Úr stjórn gengu þeir Ólafur J. Engilbertsson og Jón Þórisson, sem báðir hafa setið í henni frá upphafi, ásamt Þórhalli Sigurðssyni. Nýir fulltrúar í stjórn voru kjörnir Steinunn Knútsdóttir, Magnús Þór Þorbergsson og Hlín Gunnarsdóttir.  Var þeim stjórnarmönnum, sem gengu úr stjórn safnsins, þakkað frábært og óeigingjarnt starf í þágu þess og þess óskað séstaklega að þeir myndu halda áfram að taka þátt í störfum þess og uppbyggingu.  Þórhallur Sigurðsson var í lok fundarins kjörinn endurskoðunarmaður reikninga. 

 

Samkvæmt stofnskrá á stjórnin að skipta með sér verkum og var það gert á fyrsta fundi hennar í júlíbyrjun.  Þar var ákveðið að Kolbrún Halldórsdóttir gegndi sem fyrr stjórnarformennsku, en Hlín Gunnarsdóttir tók að sér gjaldkerastarf og Viðar Eggertsson starf ritara.  Lét stjórnarformaður í ljósi sérstaka ánægju með að tveir nýrra stjórnarmanna kæmu frá Listaháskóla Íslands þar sem miklu varðaði að náin og góð tengsl væru milli þessara tveggja stofnana, en þau hafa verið nánast engin á undanförnum árum.  Lýstu báðir fulltrúar skólans fyrir sitt leyti fullum vilja til að efla þau með öllum ráðum. 

 

Framundan eru ýmsar breytingar á starfsumhverfi safna í landinu.  Mikilvægt er því að þau söfn sem vinna með listrænan menningararf okkar, ekki síst á sviði leiksviðslista í víðasta skilningi orðsins, fylgist vel með því hvernig þær þróast og hvernig hag þeirra sjálfra verði best komið í breyttu landslagi safnastarfsins.  Af þeim sökum óskuðu stjórnarformaður og forstöðumaður eftir sameiginlegum fundi með forráðamönnum Tónlistarsafns Íslands og Kvikmyndasafns Íslands til þess að ræða við stöðu mála og hvernig söfnin gætu brugðist við henni, helst í sameiningu.  Fór sá fundur fram í húsnæði Tónlistarsafnsins í nóvember og var gagnlegur þó að engar ákvarðanir væru teknar. 

 

Úr Safnasjóði fengust að þessu sinni 800.000 kr til forvörsluverkefnis og sýningahalds.  Fór sá styrkur að stærstum hluta til að ljúka forvörsluverkefni því, sem hafið var á síðasta ári, og miðaði að því að veita leikbrúðum Jóns E. Guðmundssonar viðunandi umbúnað og ganga frá ítarlegri skrá  með myndum af hverri brúðu og upplýsingum um efni hennar og samsetningu.  Þá héldu forverðirnir, Þórdís Anna Baldursdóttir og Karen Sigurðardóttir, áfram að fara yfir safn hans og koma sem bestu lagi á það að öðru leyti, einkum smíðatól, leiktjöld og sviðsbúnað.  Bjuggu þær um það í geymslu og lögðu um leið drög að heildarskráningu þess í Sarp sem er næsta stig verkefnisins.  Þegar því verður lokið er ætlunin að snúa sér að frekari forvörslu og skráningarverkefnum, en þar liggur fyrst fyrir að koma stærstu einkasöfnum í viðeigandi umbúðir og skrá þær endanlega.  Er það mikið verk og verður ekki unnið nema til þess fáist verulegir styrkir umfram það sem safninu hefur verið skammtað síðustu ár, bæði með beinum framlögum úr ríkissjóði og frá safnaráði. 

 

Húsnæðis- og geymsluaðstaða safnsins versnaði til muna á árinu.  Safnið hefur allt frá upphafi haft aðstöðu í húsnæði ReykjavíkurAkademíunnar, Hringbraut 121.  Hefur forstöðumaður haft þar rúmgóða skrifstofu í austurenda 4. hæðar undanfarin ár og við hlið hennar geymslu þar sem hægt hefur verið að geyma talsvert magn af gögnum og safngripum.  Hefur verið mikið hagræði að því.  Þangað hefur verið hægt að fara með viðkvæm gögn um leið og þau hafa borist í hendur safnsins, auk þess sem þar hafa jafnan verið geymd þau gögn sem unnið er með hverju sinni. Í fundarherbergi ReykjavíkurAkademíunnar handan gangsins var hægt að bjóða gestum aðstöðu til að vinna með gögnin, þó að fullkomin geti hún ekki hafa talist.

 

Snemma á árinu varð ljóst að ReykjavíkurAkademían treysti sér ekki til þess að halda úti leigusamningi á þessum hluta húsnæðisins.  Var honum því sagt upp og rann út 1. maí.  Var það afstaða forstöðumanns og stjórnar að láta reyna á hvort unnt væri að ná beinum samningum við húseiganda og var Leikminjsafnið þarna því áfram til ágústloka.  Um miðjan júní lá þó ljóst fyrir að húseigandi myndi ekki framlengja samninginn.  Var þá leitað eftir þvi við ReykjavíkurAkademíuna að safnið fengi skrifstofuhúsnæði í þeim hluta hæðarinnar, sem hún hefur á leigu, og reyndist það auðsótt mál.  Skrifstofan var því flutt þangað um miðjan ágúst, að vísu í mun minna rými en það sem hún hafði haft áður. 

 

Missir geymslunnar var í rauninni miklu þyngra högg fyrir safnið.  Lá ekki annað fyrir en flytja öll þau gögn, sem þar voru, í geymslur þær, sem safnið leigir í húsi Geymslur.com við Fiskislóð.  Af því leiðir að það sem hægt er að hafa innan seilingar í skrifstofunni er miklu minna að vöxtum en fyrr, og því nauðsynlegt að gera sér sérstaka ferð út á Fiskislóð í hvert sinn sem þarf að vitja einhvers sem er ekki á skrifstofunni.  Hefur þetta í för með sér mikið óhagræði jafnt fyrir forstöðumann sem aðra, sem leita til safnsins og þurfa að hafa not af gögnum þess.  Hefur slík eftirspurn aukist jafnt og þétt eftir því sem árin hafa liðið og starf safnsin orðið þekktara.  Líður nú vart svo vika að ekki berist einhverjar fyrirspurnir um upplýsingar, aðstoð og fyrirgreiðslu, ýmist símleiðis eða í tölvupóstum.  Þá hafa einstaklingar haldið áfram að bjóða safninu gögn til varðveislu, en nú er, sem ljóst ætti að vera af framansögðu, svo komið að það á mjög erfitt með að veita slíku efni viðtöku.  Hefur því verið mörkuð sú stefna að taka einungis við því sem kynni að vera í bráðri hættu, en biðja eigendur eða vörslumenn muna, sem ekki stendur þannig á með, að halda því hjá sér, uns úr rætist.  En þetta er að sjálfsögðu ekki ákjósanleg staða. 

 

Þó að fjárráð væru mjög takmörkuð, var stjórn eindregið þeirrar skoðunar að safnið skyldi ráðast í að minnsta kosti eitt sýningarverkefni á árinu.  Var ákveðið að það yrði sýning á leikmyndateikningum og líkönum Steinþórs Sigurðssonar.  Hefur þessi hugmynd verið lengi til umræðu, einnig við Steinþór, sem hefur jafnan lýst mikilli velvild til safnsins og áhuga á að taka þátt í slíkri sýningu.  Var því ákveðið að láta til skarar skríða nú á haustmánuðum og var sýningin sett upp í Iðnó þar sem hún var opnuð undir lok nóvembermánuðar.  Það var Jón Þórisson sem hafði veg og vanda af uppsetningu hennar, í náinni samvinnu við Steinþór sjálfan og son hans, Stíg Steinþórsson.  Margrét Rósa Einarsdóttir, veitingamaður í Iðnó, lagði húsnæðið til endurgjaldslaust.  Var myndum af leikmyndum og búningateikningum komið fyrir á öllu lauslegu veggplássi í húsinu: í veitingasal á annarri hæð, kaffistofu á fyrstu hæð, í forsal hússins og á göngum.  Í aðalsalnum voru hengdir upp stórir borðar með búningateikningum.  Var mál manna að sýningin hefði heppnast frábærlega og verið öllum sem að henni stóðu til sóma.  Hún vakti talsverða athygli og voru meðal annars gerð ágæt skil í listaþætti Sjónvarps, Djöflaeyjunni.  Í tengslum við sýninguna voru áform um ýmsa viðburði sem komust þó ekki í verk fyrr en eftir áramót 2011/12. 

 

Leikminjasafnið hefur frá upphafi lagt áherslu á náið samstarf við norrænu leiklistarsöfnin.  Þau hafa í meira en aldarfjórðung starfrækt með sér samtök sem nefnast Nordisk Center for teaterdokumentation, NCTD.  Gengu Samtök um leikminjasafn og síðar Leikminjasafnið eftir stofnun þess árið 2003 í samtökin og hefur forstöðumaður verið þar varaformaður síðustu tvö ár.  Á síðari árum hefur starf þessara samtaka þó verið að veikjast illu heilli og liggja til þess ýmsar ástæður: einkum þó niðurskurður á fé til þeirra og jafnvel niðurlagning sérsafna sem hafa þá gjarnan endað sem deildir innan stærri safnaeininga.  Félögum í samtökunum hefur fækkað og þátttaka á aðalfundum minnkað, svo að ekki má lengur við svo búið standa.  Var í maímánuði haldinn neyðarfundur í Kaupmannahöfn þar sem í alvöru var rætt að leggja samtökin niður.  Var þó ákveðið að fresta því og halda annan fund að ári í Helsinki til þess að kanna stöðuna betur.  Ákveðið var að stofna face-book síðu og settur hópur til að halda henni úti, en litlu hefur það skilað þegar þetta er ritað.

 

Í nóvembermánuði hélt forstöðumaður á ráðstefnu í Þrándheimi um stöðu norskra safna sem sérhæfa sig í efni um leiklist, tónlist og dans.  Þar var jafnframt haldinn fundur í stjórn samtaka norrænna leiklistarfræðinga sem forstöðumaður situr nú í.  Á ráðstefnunni var athyglinni einkum beint að efni frá tímanum 1780 til 1850, sem var að mörgu leyti gerjunarskeið í norskri listasögu, og  einkum kannað hvernig söfnin gætu eflt með sér samvinnu um að gera þetta efni sýnilegra og auðveldara að miðla því.  Var ákeðið að koma upp tengslaneti þeirra á milli í því skyni.  Þó að Leikminjasafn Íslands standi vitaskuld utan þessa tiltekna geira, var nærveru þess þarna fagnað.  Er það frá sjónarhóli okkar einkar mikilvægt í ljósi þess hversu veik og óviss almenn staða NCTD er um þessar mundir, því að samskipti við hliðstæðar norrænar stofnanir og einstaklinga, sem starfa á vegum þeirra eða vinna með efni á okkar sviði, eru því gríðarlega mikilvæg. 

 

Sem sjá má af framansögðu hefur forysta safnsins engan bilbug látið á sér finna þrátt fyrir þann takmarkaða skilning sem það hefur mætt í stjórnkerfinu.  Yfirvöld safnamála í landinu hafa með reglubundnum hætti verið upplýst um erfiða stöðu safnsins, gildir það jafnt um mennta- og menningarmálaráðherra og þjóðminjavörð. En við það er ekki að dyljast að staða safnsins er nú erfiðari en nokkru sinni fyrr, og að því er í reynd ófært að gegna því hlutverki sem það var í upphafi stofnað til að gegna: að varðveita, skrá og miðla íslenskum leiklistarfarfi og halda jafnframt utan um upplýsingar um leikhús samtíðarinnar.  Geymslur eru fullar að heita má og nánast engin aðstaða til þess að veita fræðimönnum og öðrum áhugamönnum aðgang að gögnum safnsins.  Þá hefur ekki fengist fé til að halda áfram að yfirfara og bæta við Gagnabanka íslenskra leikhúsa og leiklistarmanna á vefsíðu safnsins.  Hann er mikið notaður, en nær ekki enn til dagsins í dag.  Eru þá aðeins talin þau verkefni sem allra brýnast er að bæta úr, en mörgum öðrum mætti við bæta sem ekki verður gert að sinni.