Skýrsla stjórnar Leikminjasafns Íslands
starfsárið 2014 fram að aðalfundi 2015

  Stjórn Leikminjasafns Íslands var þannig skipuð starfsárið 2014 – 2015: Kolbrún Halldórsdóttir formaður,  Hlín Gunnarsdóttir gjaldkeri, Ásdís Þórhallsdóttir ritari, Magnús Þór Þorbergsson, Lilja Árnadóttir, Benóný Ægisson og Steinunn Knútsdóttir meðstjórnendur. Varamenn voru Lárus Vilhjálmsson og Ragnheiður Skúladóttir, en skv. samþykkt stjórnar eru varamenn boðaðir á alla stjórnarfundi og fá öll gögn vegna stjórnarfunda. Stjórnin kom saman fjórum sinnum á árinu; 03.06.2014, 01.10.2014, 18.12.2014 og 09.04.2015. Fundir stjórnar eru færðir til  bókar og eru fundargerðir stjórnarfunda aðgengilegar fulltrúum á aðalafund. Þar að auki hittust þeir stjórnarmenn, sem báru hita og þunga af vinnu við gagnagrunn og heimasíðu á vinnufundum milli stjórnarfunda.

Gagnabanki Leikminjasafns Íslands
Stærsta verkefni Leikminjasafns Íslands á síðasta starfsári hefur verið fólgið í því að ýta áfram vinnunni við gagnabanka um leiksýningar á Íslandi frá 1887. Eyjólfur Kristjánsson tölvunarfræðingur og hönnuður gagnabankans tók að sér að ljúka vinnunni við hann á grundvelli háskólaverkefnisins sem unnið var 2013-14 og fól í sér tiltekna þætti forritunar gagnabankans svo sem lýst er í fundargerð aðalfundar Leikminjasafns 2014. Af ýmsum ástæðum hefur vinnan við gagnabankann dregist, bæði hefur verkið reynst tafsamara en gert hafði verið ráð fyrir og svo hafa önnur tímafrek verkefni tafið fyrir. Þeir Magnús Þór Þorbergsson og Benóný Ægisson hafa starfað náið með Eyjólfi við framgang verksins. Benóný hefur uppfært heimasíðu safnsins og gert hana þannig úr garði að gagnabankinn fái veglegan sess á síðunni. Þá hefur hann safnað saman skönnuðu myndefni frá sýningarhönnuðum safnsins gegnum tíðina, tryggt vaðveislu þess og aðgengi og uppfært myndefni á síðunni með það að markmiði að gera hana nútímalegri, einnig þannig að hægt sé að skoða hana í snjallsímum og spjaldtölvum. Þá hefur  Magnús Þór Þorbergsson unnið við að hreinsa upp villur í gagnabankanum, samsláttarrugling nafna og einstaklinga með sama nafn og hefur kunnátta á sögunni verið nauðsynleg til að gera slíkar lagfæringar. Gagnabankinn og nýja heimasíðan voru prufukeyrð fyrir nokkrum dögum og verða formlega opnuð á aðalfundi Leikminjasafnsins á aðalfundi 2015. Markmiðið er svo að gera leikhúsunum sjálfum og forráðamönnum leik- og danssýninga kleift að setja upplýsingar um þær inn í grunninn jafnóðum og þær fara á fjalirnar.

Gagnabankinn er einhver mikilvægasta eign Leikminjasafns Íslands og mikilvægt að á næstu  vikum verði aðferðin við að skrá upplýsingar inn í grunninn kynnt þeim aðilum sem veitt verður heimild til að slíks.  Einnig mun stjórn skoða möguleika þess að í gagnabankann verði skráðar upplýsingar um sýningar áhugaleikfélaganna og sviðslistaverk af öðru tagi en eiginlegar leik- og danssýngar t.d. gjörningalist og rannsóknarverkefni í sviðslistum. Í framhaldinu þarf svo að huga að fyrirkomulagi ritstjórnar og eftirliti með gagnabankanum og heimasíðunni til frambúðar.

Skráning safneignar
Á síðasta aðalfundi Leikminjasafns Íslands var kynnt skýrslan „Grundvallaratriði í safnastarfi og raunveruleiki Leikminjasafns Íslands“ unnin af Lilju Árnadóttur og Kolbrúnu Halldórsdóttur. Það var markmið stjórnar að leggja áherslu á áframhaldandi stefnumótun á starfsárinu, leita leiða til að tryggja sómasamlega varðveislu þeirra leikminja sem nú eru vistaðar í geymslum safnsins með það að markmiði að opna aðgengi sérfræðinga og almennings að þeim. Stjórn hefur unnið í anda þeirra leiða sem reifaðar eru í skýrslunni og líklegar eru til að skila safninu árangri til frambúðar.
Það helsta sem gerst hefur í þessum málum á árinu er sú ákvörðun stjórnar að ráða bókasafns- eða upplýsingafræðing í tímabundið starf sem væri fólgið í því að fara gegnum allan bókakost safnsins, handrit, leikskrár og annað pappírsefni með það að markmiði að skrá það í sameiginlegan gagnagrunn Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns þar sem það yrði aðgengilegt sérfræðingum og almenningi bæði í rafrænum skrám safnsins sem og til skoðunar í safninu. Til aðgreiningar yrði allt þetta efni merkt sem eign Leikminjasafns Íslands í vörslu Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns. Hefur Leikminjasafnið notið leiðsagnar landsbókavarðar Ingibjargar Steinunnar Sverrisdóttur við þessa vinnu og mun auglýsing um starf bókasafnsfræðings birtast í fjölmiðlum í vikunni.

Sýningar starfsársins
Sýningin Jól í leikhúsinu var opnuð á ný í tengslum við jólahald Árbæjarsafns 2014. Hún flutti um set úr húsinu Líkn og var komið fyrir í Smiðshúsi. Það voru Jón Þórisson og Björn G. Björnsson sem höfðu veg og vanda af sýningunni. Eins og 2013 þá prýddi jólahús Guðrúnar Sverrisdóttur „Iðnó í jólabúningi“ sýninguna. Í húsinu Líkn stendur enn upp sýningin Leiklist í Kvosinni sem opnuð var sumarið 2014, hún verður þar áfram og er liður í skipulögðu samstarfi Borgarsögusafns Reykjavíkur, sem bíður þess að þróast frekar á næstunni.
Þá var unnið söguspjald fyrir Tjarnarbíó sem afhjúpað var í anddyri Tjarnarbíós rétt fyrir jólin 2014. Spjaldið hefur að geyma ágrip af leiklistarstarfi í Tjarnarbíói frá upphafi og var unnið af þeim Jóni Þórissyni, Jóni Viðari Jónssyni og Birni G. Björnssyni. Söguspjaldið var unnið að frumkvæði Sjálfstæðu leikhúsanna en þau hafa í hyggju að vinna viðameiri sýningu um sögu leiklistar í Tjarnarbíói á grunni þeirrar vinnu sem nú þegar hefur verið lögð í rannsókn á sögunni og stendur hugur stjórnar Leikminjasafnsins og SL til þess að sú sýning nýtti sér margmiðlunartækni í bland við hefðbundnari aðferðir.

Sýningin Leiklist í Kjós, sem opnuð var 19. apríl 2014 og unnin í samstarfi Sögumiðlunar, Sigþrúðar Jóhannesdóttur, Kjósarhrepps, Kjósarstofu, Kvikmyndasafns Íslands og Leikminjasafns Íslands, stóð fram á haust 2014. Þá hangir enn upp í anddyri Hafnarfjarðarleikhússins sýningin Leiklist í Hafnarfirði, sem unnin var á vegum safnsins 2010.

Leikminjasafni Íslands hafa borist ný aðföng á árinu. Tekið hefur verið á móti skjalaskáp úr þrotabúi Zedrus – Leikmyndagerðar (gamla búið Sviðsmynda ehf). Geymir skápurinn fjölbreytilegt safn teikninga af leikmyndum sem unnar voru af fyrirtækjunum tveimur á þeim árum sem þau störfuðu. Þá hefur safnið einnig tekið á móti brúðunni Flumbru sem er jafnframt leikmynd fyrir sýninguna Ástarsaga úr fjöllunum eftir Hallveigu Thorlacius. Flumbru fylgja teikningar og leiðbeiningar um samsetningu hennar.

Norrænt samstarf
Kolbrún Halldórsdóttir sat ársfund NCTD – Nordisk Center for Teaterdocumentation 18. – 21. júní 2014 í Kaupmannahöfn. Fundurinn var haldinn í tengslum við Norræna sviðslistadaga og var haldið málþing í tengslum við ársfundinn um „Listina að skrásetja“ auk þess sem haldin var kynning á „Scenekunstarkivet“ sem haldið er utanum af Konunglega danska bókasafninu. Þá var haldin sérstök kynning á miðasölukerfi fyrir danskar sviðslistasýningar, en það er kerfi sem dönsk stjórnvöld tóku þátt í að fjármagna þar sem skráðar eru inn upplýsingar um sýningar leikársins framundan, þær eru svo gefnar út í bæklingi sem dreift er inn á hvert heimili í landinu svo almenningur geti kynnt sér verkefni leikársins og notið afsláttarkjara á vefnum http://www.teaterrabat.dk/ .  Af þessum vef fara svo allar upplýsingar sjálfkrafa inn í gagnagrunninn http://www.scenekunstarkiv.dk/  Gagnabanki Leikminjasafns Íslands hefur sérstöðu umfram þann danska, þar sem hann hefur að geyma tölvutækar upplýsingar um sýningar mun lengra aftur í tímann.
Á ársfundi NCTD var rætt almennt um gildi rafrænnar skráningar gagna og spurt hvort slík skráning sé virkilega nauðsynleg og hvort fjármunum sem varið er til hennar sé í raun vel varið?  Það sem fólk hefur áhyggjur af er sú staðreynd að söfnin sjálf breytast lítið sem ekki neitt þó stafræna byltingin sé innleidd í orði kveðnu, því engu er hent af pappír, skjölum eða bókakosti. Þá er því haldið fram að forgengileiki stafrænna geymsluaðferða sé mikill, tæki úreldist fljótt sem og kóðar og forrit auk þess sem geymsludiskar eyðast og afmást. Allt er þetta athyglisvert í sambandi við starfsemi Leikminjasafns Íslands sem og annarra safna á Íslandi.
Staða norrænu leikminjasafnanna er sú að þau hafa öll sameinast öðrum söfnum, ss. bókasöfnum og skjalasöfnum. Norrænu leikminjasöfnin safna almennt ekki munum en norrænu hönnunarsöfnin hafa einhver tengsl við leikmynda- og búningahöfunda.

Framundan er ársfundur NCTD 2015, en hann verður haldinn í Osló 19. – 20. maí nk. Benóný Ægisson verður fulltrúi Leikminjasafns Íslands á fundinum.

Fjárhagsstaða
Fjárhagur Leikminjasafnsins er jákvæður að því leyti að safnið getur staðið í skilum með skuldbindingar sínar, en ljóst er að safnið getur ekki staðið undir áformum í stofnskrá sinni ef ekki fást aukin framlög til starfseminniar. Framtíðin er því í sömu óvissu og áður í ljósi þess að fjárframlag á fjárlögum er það sama í krónum talið á yfirstandandi fjárlagaári og verið hefur, þ.e. 5,8 milljónir króna. Það er ekki mikið aflögu þegar tveggja milljóna króna leigureikningur geymslur.com hefur verið greiddur. Stjórn hefur verið í sambandi við þingmenn vegna þessarar stöðu og gerði tilraun til að fá að koma fyrir fjárlaganefnd Alþingis á haustdögum 2014, en fékk þau svör að fjárlaganefnd væri hætt að taka á móti gestum í aðdraganda afgreiðslu fjárlaga og safnið yrði að snúa sér til mennta- og menningarmálaráðuneytis með sín mál. Hefur stjórn átt samtöl við starfsfólk menningarskrifstofu ráðuneytisins og framundan eru frekari viðræður um stöðuna. Útlitið varðandi frekari stuðning menningaryfirvalda við safnið er þó ekki bjart, vísað er til þess að hið opinbera hafi þegar of mörg söfn á sinni könnu og líklegt að sjálfseignastofnanir á borð við Leikminjasafn Íslands lendi neðarlega á forgangslista stjórnvalda.

Ný safnalög og safnastefna
Í framhaldi af umfjöllun  Ágústu Kristófersdóttir framkvæmdastjóri Safnaráðs um ný safnalög á síðasta aðalfundi Leikminjasafnsins stendur stjórn frammi fyrir þeim veruleika sem nýju lögin skapa okkur, þ.e. safnið uppfyllir ekki þau skilyrði sem þarf til að hljóta formlega viðurkenningu Safnaráðs.  Þau skilyrði eru eftirfarandi: Tryggur fjárhagsgrunnur, sjálfstæður fjárhagur, stofnskrá, húsnæði með góðu aðgengi, siðareglur og  starfsmaður með viðurkennda menntun á sviði safnamála. 

Lögin beina safnastarfi í farveg sem kallar á að stofnuð verði svokölluð ábyrgðarsöfn í afmörkuðum greinum. Í því sambandi hefur stjórn Leikminjasafns hug á að skoða á ný samstarf við Tónlistarsafn Íslands, Kvikmyndasafn Íslands og Hönnunarsafn Íslands. Ekki hefur verið aðhafst neitt í þeim málum á starfsárinu, en líklegt að slíkir möguleikar verði kannaðir frekar í náinni framtíð. Hvernig sem þau mál þróast þá er það vilji stjórnar að safninu verði áfram kleift að standa að sýningarhaldi á þeim arfi sem leiklistin hefur skapað, eitt sér eða í samstarfi við önnur söfn.

Starfsáætlun 2015-2016
Í ljósi þess sem fram hefur komið hér að framan tekur áætlun stjórnar um áframhaldandi starf Leikminjasafns Íslands mið af litlum fjármunum, en þó er stefnt að því að ljúka formlegri safnastefnu fyrir Leikminjasafn Íslands, stefnt verður að frekara samstarfi um sýningar við Borgarsögusafn Reykjavíkur, teknar verða upp viðræður við önnur söfn í listageiranum um einhvers konar samstarf eða samstöðu um framtíðarstefnu, gagnabankinn verður gerður þannig úr garði að hann lifi og dafni í höndum þeirra sem framleiða leik- og danssýningar auk þess sem heimasíðan verður þróuð áfram. Þá verður haldið áfram á sömu braut varðandi norrænt samstarf sviðslistasafna og unnið að rafrænni skráningu handrita, leikskráa, bóka og annars pappírsefnis með það að markmiði að gera það aðgengilegt sérfræðingum og almenningi.

Fyrir hönd stjórnar Leikminjasafns Íslands

Kolbrún Halldórsdóttir formaður