Aðalfundur 2014 - Haldinn í Iðnó föstudaginn 16. maí

Mætt voru:        Kolbrún Halldórsdóttir, Hlín Gunnarsdóttir, Lilja Árnadóttir, Benoný Ægisson, Steinunn Knútsdóttir, Magnús Þór Þorbergsson, Þórhallur Sigurðsson, Gunnar Guðbjörnsson, Pétur Eggerz, Ólafur Engilbertsson, Ragnheiður Skúladóttir, Sesselja G. Magnúsdóttir, Ólafur Jónasson, Virpi Jokinen, Margrét Rósa Einarsdóttir, Björn Brynjúlfur Björnsson og Lárus Vilhjálmsson, sem jafnframt ritaði fundinn. Sérstakir gestir fundarins voru Ágústa Kristófersdóttir, framkvæmdastjóri Safnaráðs og Eyjólfur Kristjánsson hönnuður gagnabanka Leikminjasafnsins. Fundarstjóri var Álfheiður Ingadóttir.

Formaður stjórnar, Kolbrún Halldórsdóttir, setti fundinn og afhenti stjórn hans Álfheiði Ingadóttur fundarstjóra.

  1.  Fundargerð síðasta aðafundar hafði verið send út fyrir fundinn og engar athugasemdir borist, hún var því formlega samþykkt.
  2. Gagnabanki Leikminjasafns um leiksýningar á Íslandi, er að ganga í endurnýjun lífdaga. Eyjólfur Kristjánsson tölvunarfræðingur og hönnuður gagnabankans kynnti stöðu vinnunnar við uppfærslu gagnabankans, sem hefur staðið yfir undanfarna þrjá mánuði. Hann hefur unnið verkið sem háskólaverkefni til BS-prófs ásamt tveimur samnemendum sínum í Háskólanum í Reykjavík. Gagnabankinn er einhver mikilvægasta eign Leikminjasafns Íslands og vinnan við endurnýjunina er öðru fremur fólgin í því að gera hann þannig úr garði að nýjar leiksýningar rati í grunninn um leið og þær eru frumsýndar. Gert er ráð fyrir því að hann virki þannig tæknilega að það geti fleiri aðilar komið að því að setja inn efni, t.d. þeir 4 aðilar sem kalla má megin þáttakendur í grunninum; Þjóðleikhúsið, Borgarleikhúsið, Leikfélag Akureyrar og Sjálfstæðu leikhúsin. Eyjólfur sýndi nýtt útlit gagnabankans og heimasíðunnar (sem er verið að uppfæra um leið og gagnabankann).  Í umræðum um þennan lið komu fram nokkur áhersluatriði í máli fundarmanna; ítrekað var mikilvægi þess að safnið gæti sinnt umsjón og nauðsynlegu utanumhaldi með grunninum, þá óskaði Ragnheiður Skúladóttir eftir því að skoðaðir yrðu möguleikar þess að gagnagrunnurinn hefði einnig að geyma upplýsingar um sýningar áhugaleikfélaganna og Lárus Vilhjálmsson vakti máls mikilvægi þess að verk, sem væru á mörkum leiklistar og annara listgreina, eins og gjörningalist og dans, væru einnig í grunninum. Stjórn fer með þessar ábendingar með sér í áframhaldandi vinnu við gagnabankann, en þó verkefni Eyjólfs og félaga ljúki nú á næstu dögum, þá er líklegt að safnið þurfi að njóta krafta Eyjólfs eitthvað áfram eða þar til búið verður að ganga þannig frá málum að gagnabankinn sé tilbúinn í hendur þeirra sem munu annast skráningu í hann í framtíðinni.
  3. Skýrsla stjórnar og ársreikningur. Kolbrún Halldórsdóttir las upp skýrslu stjórnar, sem er fylgiskjal með þessari fundargerð, og Hlín Gunnarsdóttir gerði grein fyrir ársreikningi.  Starfsemi safnsin hefur markast af naumum fjármunum, en þó hafa verið settar upp tvær sýningar í nafni safnsins frá því síðasti aðalfundur var haldinn auk þess sem safnið hefur tekið þátt í tveimur samstarfsverkefnum. Þá hefur mikil áhersla verið á vinnu við stefnumótun, auk þess sem gagnabankinn og heimasíðan hafa verið í forgrunni. Hvað fjárhagsstöðuna varðar, þá hefur orðið viðsnúningur í fjármálum safnsins á síðustu tveimur árum og er eigið fé nú orðið jákvætt og örlítill rekstrarafgangur. Ekki urðu miklar umræður um þessa liði og voru reikningarnir samþykktir samhljóða..
  4. Starfsáætlun næsta árs. Stjórn leggur til að áhersla verði á stefnumótunarstarfið á næsta starfsári, enda sé vart hægt að halda áfram að taka á móti merkileikum gjöfum, sem safninu berast, nema hægt sé að tryggja sómasamlega varðveislu þeirra og aðgengi sérfræðinga og almennings að þeim. Lilja Árnadóttir hefur leitt vinnuna við stefnumótunina fyrir hönd stjórnar og gerði hún grein fyrir stefnumótunarskýrslu sem hún og Kolbrún Halldórsdóttir lögðu fyrir stjórn LMSÍ í mars og ber yfirskriftina „Grundvallaratriði í safnastarfi og raunveruleiki Leikminjasafns Íslands“. Í henni er farið ítarlega í þau vandamál og áskoranir sem blasa við safninu og velt upp möguleikum til lausna. Stjórn leggur til að á komandi starfsári verði haldið áfram á þeirri braut sem skýrslan lýsir, með það að markmiði að tryggð verði varðveisla safnkostsins til frambúðar við viðunandi aðstæður ásamt því að aðgengi að safnkostinum verði aukið. Skýrslan er fylgiskjal með þessari fundargerð.
  5. Ný safnalög og safnastefna. Í framhaldi af umfjöllun Lilju kom gestur fundarins Ágústa Kristófersdóttir framkvæmdastjóri Safnaráðs og fjallaði um safnalög, Safnaráð og stöðu Leikminjasafnsins með tilliti til nýrra safnalaga. Hún sagði að safnið hefði fyrst fengið úthlutað úr Safnasjóði 2003 og hefði síðan fengið um 12,9  milljónum úthlutað. Breytingar á safnalögum kalla hins vegar á það að söfn, sem óska eftir styrkjum úr Safnasjóði, þurfi formlega viðurkenningu Safnaráðs.  Skilyrði þess að safn fái viðurkenningu eru eftirfarandi:

Tryggur fjárhagsgrunnur

Sjálfstæður fjárhagur

Stofnskrá

Húsnæði með góðu aðgengi

Siðareglur

Starfsmaður með viðurkennda menntun á sviði safnamála

Það væri ljóst af þessu að LMSÍ uppfyllti ekki skilyrði til viðurkenningar. Eins væri stjórnsýslan að breytast samhliða lagaumhverfinu og ekki öruggt að safnliða Mennta- og menningarmálaráðuneytis njóti við með sama hætti og verið hefur. Þannig er ekki öruggt að  söfn, sem hafa hlotið stuðning af safnliðum eða gegnum velvilja fjárlaganefndar Alþingis fái þá áfram. Nú sé mun frekar horft til þess að byggja upp svokölluð ábyrgðarsöfn og styðja við þau.  Ágústa tók undir áhyggjur stjórnar LMSÍ og sagði að það væri ábyrgðarhlutverk að taka á móti safngripum og nauðsynlegt að standa vel að varðveislu þeirra.
Það urðu fjörugar umræður undir þessum lið. Ólafur Engilbertsson sagði stuttlega frá tilurð safnsins og það kom fyrirspurn um hvernig staðan væri í nágrannalöndunum og kom fram að leikminjasöfn í nágrannalöndum okkar hafa í auknum mæli verið sameinuð öðrum söfnum á síðustu árum. Varðandi hugmyndir um breytt fyrirkomulag og söfnunarstefnu LMSÍ, sbr. hugmyndir í greinargerðinni „Grundvallaratriði í safnastarfi og raunveruleiki Leikminjasafns Íslands“, þá kom fram í máli fundarmanna að hvernig sem safneigninni yrði best fyrir komið þá væri mikilvægt að safninu yrði áfram gert kleift að standa að sýningarhaldi á þeim arfi sem leiklistin hefur skapað. Samþykkti fundurinn umboð til stjórnar um að unnin yrði framtíðarstefnumótun LMSÍ á grundvelli þeirra hugmynda, sem lágu fyrir fundinum. Tillaga stjórnar að starfsáætlun fyrir næsta ár var því samþykkt.

  1. Stjórnarkjör. Magnús Þór Þorbergsson og Steinunn Knútsdóttir hafa nú setið þrjú ár í stjórninni og átti því að kjósa um þeirra sæti. Þau gefa bæði kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu, engin mótframboð bárust og voru þau því sjálfkjörin til næstu þriggja ára. Aðalmenn í stjórn verða því þeir sömu og á síðasta starfsári. Eitt sæti losnaði í varastjórn, þar sem Messíana Tómasdóttir gaf ekki kost á sér til endurkjörs og gaf Ragnheiður Skúladóttir sig fram í það. Engin önnur framboð bárust þannig að hún var sjálfkjörin.

Að venju var Þórhallur Sigurðsson sjálfkjörin sem skoðunarmaður reikninga.

 

  1. Fundi lauk kl 18.30 og hafði  þá staðið frá kl 16.00. Á fundinum var borin fram dýrindis súkkulaðikaka með rjóma  frá eldhúsinu í Iðnó.

 

Fleira ekki gert, fundi slitið
Lárus Vilhjálmsson.