Aðalfundur Leikminjasafns Íslands
Iðnó 1. maí 2015 kl 15:00

1. Fundargerð síðasta aðalfundar.
Stjórnarformaður Kolbrún Halldórsdóttir las fundargerð og var hún samþykkt án athugasemda.

2. Skýrsla stjórnar.
Skýrsla stjórnar lá frammi sem hluti fundargagna og fór Kolbrún Halldórsdóttir yfir efni hennar, opnað var fyrir almennar umræður að loknum lestri skýrslunnar. Lögð var sérstök áhersla á kaflana um annars vegar vinnu við gagnabanka Leikminjasafnsins og hins vegar samkomulag við Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn um skráningu, miðlun og varðveislu þess hluta safneignarinnar sem flokkast undir bókakost, handrit, leikskrár, skjöl og annað pappírsefni. Mestur kraftur stjórnarmanna hefur
farið í þessa tvo þætti og minna hefur því farið í sýningarhald á starfsárinu. Fundargestir gerðu engar athugasemdir við skýrslu stjórnar.

3. Afgreiðsla reikninga

Kolbrún Halldórsdóttir fór yfir rekstrar- og efnahagsreikning ársins 2015. Fundarstjóri bar upp reikninga til samþykkis. Samþykktir með öllum greiddum atkvæðum.

4. Stofnskrá endurskoðuð
Eins og kynnt var í fundarboði hafa ný safnalög kallað á nokkrar breytingar á stofnskrá Leikminjasafnsins. Breytingartillögur voru sendar með fundarboði í sérstöku viðhengi. Að mestu leyti er um orðalagsbreytingar að ræða en einnig voru stöku greinar skýrðar, s.s. ákvæði um endurnýjun í stjórn, og eins var ákvæði um hlutverk varaformanns
tekið út, enda hefur því ekki verið fylgt eftir. Einnig var bætt inn ákvæði um möguleika stjórnar til að heimila stofnunum og félögum á starfssviði safnsins aðild að fulltrúaráði safnsins með samþykki aðalfundar. Í kjölfarið var samþykkt að Landsbókasafninu, Iðnó og Danshöfundafélaginu yrði boðið aðild að fulltrúaráðinu. Samþykkt var til að orðið ‘listdans’ kæmi í stað orðsins ‘ballett’ í annarri grein
stofnskrárinnar. Að því loknu voru breytingar á stofnskrá bornar upp til
samþykkis og voru þær samþykktar með öllum greiddum atkvæðum.

5. Starfsáætlun næsta árs.
Formaður kynnti starfsáætlun næsta árs. Höfuðáhersla er lögð á að halda áfram samstarfi við Landsbókasafn um skráningu og varðveisla bóka, handrita og annars pappírsefnis auk þess að leita leiða til að varðveita og skrá aðra hluta safneignarinnar. Samtal hefur átt sér stað við Þjóðminjasafn Íslands um samstarf hvað þennan þátt varðar. Nokkur umræða
skapaðist um stöðu safnsins og tengsl þess við önnur söfn og stofnanir sem sinna varðveislu og skráningu heimilda sem með einum eða öðrum hætti tengjast sviðslistum. Þar var t.d. nefnt safn RÚV, verkefni um miðlun á efni tengdu Sigurði málara ofl. Rifjað var upp að formleg og óformleg umræða hefur átt sér stað á undanförnum árum um aukið samstarf milli smærri safna án mikils árangurs. Fundarmenn voru sammála um að staða safna
á borð við Leikminjasafn væri ákaflega bagaleg og nauðsynlegt væri að bæta
þar úr. Stungið var upp á halda málþing um stöðu safna og lagt til samstarf við Reykjavíkur Akademíuna og námsbraut við HÍ í safnafræði.

6. Stjórnarkjör.
Farið var yfir kjörtímabil stjórnarmanna. Samkvæmt reglum um hámarkssetu í
stjórn hafa Kolbrún Halldórsdóttir, Lilja Árnadóttir og  Hlín Gunnarsdóttir setið í tvö þriggja ára tímabil og ganga því úr stjórn. Benóný Ægisson hefur setið í eitt þriggja ára tímabil og gefur kost á sér
til áframhaldandi setu. Lárus Vilhjálmsson og Ragnheiður Skúladóttir hafa setið í eitt þriggja ára tímabil sem varamenn. Lárus gefur kost á sér til
áframhaldandi setu, en ekki Ragnheiður. Óskað var eftir fleiri framboðum,
en kjósa þurfti fjóra aðalmenn og tvo Benóný og Lárus buðu sig báðir fram sem aðalmenn og auk þeirra þau Helga Maureen Gylfadóttir og Árni Kristjánsson. Sesselja G. Magnúsdóttir og Katrín Ingvadóttir buðu sig fram
sem varamenn. Öll voru þau kosin einróma til stjórnarsetu næstu þrjú árin.
Fráfarandi stjórnarmönnum var þakkað vel unnin störf, sér í lagi formanni,
Kolbrúnu Halldórsdóttur.

7. Önnur mál
Engin önnur mál.

Fundi slitið kl. 16:30