Aðalfundur Leikminjasafns Íslands
miðvikudaginn 30. maí 2012 í Iðnó

Mættir:
Kolbrún Halldórsdóttir  stjórnarformaður, Jón Viðar Jónsson forstöðumaður Leikminjasafns Íslands, Ágústa Skúladóttir (SL), Viðar Eggertsson (FLÍ), Benóný Ægisson (FLH), Steinunn Knútsdóttir(LHÍ), Magnús Þór Þorbergsson (LHÍ), Lilja Árnadóttir (Þjm. Í.), Hlín Gunnarsdóttir (FLB), Stefán Baldursson (ÍÓ), Þórhallur Sigurðsson (Þjl.h.), Margrét Rósa Einarsdóttir (Iðnó), Jón Þórisson, Hallmar Sigurðsson og Ásdís Þórhallsdóttir.

Kolbrún setti fund kl. 16:05 og gekk til dagskrár.


1)    Skýrsla stjórnar
Jón Viðar las skýrsluna (skýrslan er fylgiskjal með fundargerð).
Formaður lagði til að umræða um skýrsluna og afgreiðsla hennar yrði samhliða umræðu og afgreiðslu reikninga. Samþykkt.

2)    Reikningar
Jón Viðar las reikninga og kynnti þá.
Engin umræða varð um reikninga. Þeir samþykktir sem og skýrsla stjórnar

3)    Starfsáætlun næsta árs

a) Sýning um leikstarf á Vestfjörðum.
Jón Viðar gerði grein fyrir framvindu og stöðu verkefnisins, en hann og Ólafur Engilbertsson sýningarstjóri hafa unnið að því að undanförnu í samvinnu við Vestfirðinga. Lagði forstöðumaður fram fjárhagsáætlun fyrir verkefnið. Áætlað er að sýningin Leiklist á Vestfjörðum opni í Safnahúsinu (Gamla spítalanum 2. hæð) á Ísafirði í upphafi árs 2013 og standi fram yfir páskahelgina sama ár.

b) Húsnæðismál Leikminjasafnsins
Kolbrún kynnti stöðu mála. Þjóðminjavörður hefur skrifað mennta- og menningarmálaráðherra þar sem hann lýsir yfir vilja til að Leikminjasafnið fái inni í gömlu loftskeytastöðinni að Brynjólfsgötu 5. Formaður stjórnar væntir frekari frétta af málinu á næstu vikum.  
Formaður sagði frá  vinningstillögu í arkitektasamkeppni að fyrirhuguðu húsi fyrir stofnun Vigdísar Finnbogadóttur sem gert er ráð fyrir að muni rísa við hlið hins fyrirhugaða Leikminjasafns. Samkvæmt tillögunni mun Vigdísarstofa sem hugsuð er til að minnast arfleifðar Vigdísar muni snúa í átt að Leikminjasafninu. Vigdís er einmitt verndari Leikminjasafns Íslands, fyrir utan að vera einnig t.a.m. Sendiherra leiklistarinnar í heiminum að beiðni Alþjóða leiklistarstofnunarinnar (ITI).

c) Hollvinasamtök
Jón Viðar vonar að takist að stofna öflug Hollvinasamtök Leikminjasafns Íslands, þegar það hefur fengið eigið húsnæði og væntir þess að þau samtök muni verða safninu mikil lyftistöng.

4)    Stjórnarkjör
Fundarmenn voru á einu máli að lagagrein um stjórnarkjör væri óljós, en mætti þó lesa það úr henni  að einn stjórnarmæður ætti að ganga úr stjórn sökum langrar setu, Ágústa Skúladóttir varaformaður.  Var henni þakkað mikið og gott starf í þágu safnsins.

Formaður stakk upp á Ásdísi Þórhallsdóttur í stjórn. Samþykkt.

Stjórn falið að koma með lagabreytingu um stjórnarkjör, sem tæki af allan vafa

Félagslegur endurskoðandi, Þórhallur Sigurðsson, gaf áfram kost á sér. Samþykkt.

5)    Önnur mál
Leikminjasafnið hlaut framlag á fjárlögum þetta árið 5,9 milljónir, sem dugar ekki fyrir lágmarksstarfsemi safnsins. Rekstrarstaða þess er afar viðkvæm og eigið fé neikvætt. Forstöðumaður hefur ekki þegið laun frá því í ágúst á síðasta ári. Forstöðumaður hefur tilkynnt stjórn að hann hyggist láta af störfum nú þegar útlit er fyrir að Leikminjasafnið komist í varanlegt og betra húsnæði, enda hljóti það að hafa í för með sér töluverða uppstokkun á starfsmannahaldi og rekstri.

Samþykkt:  Formaður ræði við forstöðumann um launamál hans og starfslok, með það að markmiði að tryggja sanngjarnar launagreiðslur fyrir verkefni sem innt hafa verið af hendi og þau sem framundan eru. Slíkt samkomulag verði síðan lagt fyrir stjórn til samþykktar.

Samþykkt: Formaður stjórnar upplýsi ráðherra um hina alvarlegu fjárhagsstöðu safnsins og væntanleg starfslok forstöðumanns.

Fleira gerðist ekki, fundi slitið kl. 18:10

Viðar Eggertsson, fundarritari