Aðalfundur Leikminjasafns Íslands
mánudaginn 6. júní 2011 kl 16 í Iðnó

Viðstödd voru: Lilja Árnadóttir, Benóný Ægisson, Vilborg Valgarðsdóttir, Pétur Örn Friðriksson, Margrét Rósa Einarsdóttir, Magnús Þór Þorbergsson, Þórhallur Sigurðsson, Ásgerður Gunnarsdóttir, Hlín Gunnarsdóttir, Randver Þorláksson, Ólafur J. Engilbertsson, Kolbrún Halldórsdóttir og Jón Viðar Jónsson.

 

Skýrsla stjórnar
Formaður stjórnar (KH) var kjörin fundarstjóri. Forstöðumaður (JVJ) las upp skýrslu stjórnar. KH lagði til að farið yrði beint í lið 2 og greidd atkvæði um liðina saman.Var það samþykkt.
 
Afgreiðsla reikninga
JVJ fór yfir rekstrarreikning í fjarveru gjaldkera. Sérstaklega var farið yfir stærstu liðina. Laun og launatengd gjöld voru mun lægri 2010 en 2009 og skýrist það af því að forstöðumaður var án launa síðustu 3 mánuði ársins vegna slæmrar fjárhagsstöðu safnsins. Liðurinn Aðkeypt þjónusta var mun hærri 2010 en 2009 og skýrist það einkum af því að sýningin Leiklistin og hafið var stærsta verkefni safnsins frá upphafi. Auk þess voru sýningin Leiklist í Hafnarfirði og forsvarsla leikbrúða stórir liðir. ÓJE gat þess að greiðslur til fyrirtækis hans vegna hönnunar sýninga og bæklinga innihéldu einnig útlagðan kostnað vegna prentunar. KH lagði til að framvegis yrði bókhaldið gagnsærra og sundurliðað þannig að sæist betur hvað hvert verkefni kostaði. JVJ afsalaði sér tilkalli til launa síðustu 3 mánuði ársins 2010 og ÓJE afsalaði sér kr. 150.000, meginhluta þess sem ógreitt er af kostnaði vegna verkefna ársins 2010. Rætt var um Minningarsjóð Gunnars H. Bjarnasonar. MÞÞ spurði hvort mörkuð hefði verið stefna fyrir sjóðinn. HG lagði til að úthlutað yrði úr sjóðnum til verkefna á sviði líkanagerðar í samræmi við sérkunnáttu Gunnars. Ársskýrslan og ársreikningurinn samþykktir samhljóða.
 
Starfsáætlun næsta árs
JVJ fór yfir stöðuna sem hann sagði óvissa sökum fjárskorts. Hinsvegar hefðu nokkur verkefni verið í farvatninu, þar á meðal sýning um Leiklist á Vestfjörðum og leiklist í Iðnó með áherslu á verk Steinþórs Sigurðssonar leikmyndahöfundar. Steinþór og Jón Þórisson hefðu verið komnir af stað með Iðnóverkefnið  s.l. haust, en því var þá frestað. Rætt um að merkja Iðnó sem hús leiklistar. KH gerði grein fyrir því að hugmyndir borgaryfirvalda um Iðnó sem bókmenntahús hefðu sem betur fer ekki gengið eftir og önnur verðugri bókmenntahús væru nú í sigtinu. JVJ sagði að kr. 600.000 væru nú til skiptanna til að setja upp sýningar svo ekki væri hægt að gera stóra hluti. ÓJE gat þess að fyrr á þessu ári hefði verið fundað með Gunnari Gunnsteinssyni sem hefði óskað eftir liðsinni safnsins við að koma upp sýningu um leiklistarsögu Tjarnarbíós í nýju kaffihúsi þar. Enn hefði það þó ekki náð fram að ganga vegna þess að framlög hefðu ekki fengist. Ákveðið að fulltrúaráði verði tilkynnt um framvindu sýningamála.
 
Kosning stjórnar og skoðunarmanna reikninga
KH greindi frá því að samkvæmt reglum safnins vikju þeir Ólafur J. Engilbertsson (fulltrúi RÚV), Jón Þórisson (fulltrúi LR) og Þórhallur Sigurðsson (fulltrúi Þjóðleikhúss) nú úr stjórn. Fulltrúaráð hefði tilnefnt þau Magnús Þór Þorbergsson (fulltrúa LHÍ), Hlín Gunnarsdóttur (fulltrúa FLB) og Steinunni Knútsdóttur (utan fulltrúaráðs) ný í stjórn og Benóný Ægisson (fulltrúa Leikskáldafélagsins) sem varamann í stað Hlínar. Þórhallur Sigurðsson var síðan tilnefndur skoðunarmaður reikninga. Var þetta samþykkt og þeim sem gengu úr stjórn þökkuð störf í þágu safnins.
 
Önnur mál
JVJ fór yfir stöðu norrænna samtaka leikminjasafna, NCTD, sem safnið á aðild að og hann sagði að sér hefði naumlega tekist að forða frá því að vera lögð niður á fundi um daginn. JVJ vill athuga með að koma á samnorrænu verkefni eins og ráðstefnu til að freista þess að blása lífi í samtökin.

Fundi slitið kl 17.10.

Fundargerð ritaði Ólafur J. Engilbertsson.