Aðalfundur Leikminjasafn Íslands 2010


Aðalfundur fulltrúaráðs safnsins árið 2010 var haldinn hinn 10. júní og hófst kl. 16.30. Fundurinn var haldinn í Gúttó í Hafnarfirði þar sem nýlega var opnuð sýning Leikminjasafnsins um leiklistarstarfsemi í Hafnarfirði.

Viðstödd voru: Sveinn Einarsson formaður, Ólafur J. Engilbertsson, Björn G. Björnsson, Ágústa Skúladóttir, Jón Þórisson, Þórhallur Sigurðursson, Ingibjörg Björnsdóttir, Jón Viðar Jónsson, Messíana Tómasdóttir, Viðar Eggertsson, Margrét R. Einarsdóttir og Kolbrún Halldórsdóttir.

1. Formaðurinn, Sveinn Einarsson, setti fundinn og  gerði það að tillögu sinni að Þórhallur Sigurðsson yrði fundarstjóri, sem var samþykkt. Fundarstjóri kannaði lögmæti fundar og síðan var gengið til dagsskrár.

2. Skýrsla stjórnar:
Forstöðumaður, Jón Viðar Jónsson, flutti skýrslu stjórnar þar sem helstu viðburðir ársins 2009 komu fram.  Það helsta var þátttaka safnsins í Vetrarhátíð í Reykjavík með sýningu á leikbrúðum Jóns E. Guðmundssonar í Tjarnarsal Ráðhússins og yfirlitssýningu um upphaf leiklistar í Reykjavík, Kvosin – vagga leiklistar, í Fógetastofunum í Aðalstræti 10. Brúðurnar voru svo fluttar úr Tjarnarsal og settar upp í Fógetastofunum. Ennfremur voru skiltin frá sýningunni um Sigurð málara sett upp í Höfuðborgarstofu. Í júlí var opnuð sýning um einleiki á Íslandi í Haukadal við Dýrafjörð í samráði við Elfar Loga Hannesson. Málþing um íslenskar leiklistarrannsóknir og leiklistarfræði var haldið í nóvember í samvinnu við Leiklistardeild Listaháskóla Íslands og Hugvísindasvið Háskóla Íslands. Af öðrum málum má minnast á aukna geymsluaðstöðu safnsins.

Sveinn Einarsson og Jón Viðar bættu síðan við frekari upplýsingum og skýringum og reifuðu það sem helst hefur borið til tíðinda eftir sl. áramót svo sem samstarf við önnur söfn og Björn G. Björnsson bætti við upplýsingum um Gúttó. Engar fyrirspurnir bárust og var skýrslan samþykkt.  

3. Reikningar
Gjaldkerinn, Björn G. Björnsson, útskýrði reikninga félagsins. Reksturinn hefur ekki verið umfangsmikill á árinu og tekjur og gjöld svipuð og á árinu áður. Þó hefur kostnaður vegna leigu á geymslum aukist eins og eðlilegt er vegna aukins geymslurýmis. Rekstrarafgangur árins var 1,5 m. kr. Nokkrar fyrirspurnir bárust t.d. um Minningarsjóð Gunnars Bjarnasonar. Reikningarnir voru síðan samþykktir.

4. Starfsáætlun næsta árs
Jón Viðar sagði nánar frá því að áhugi væri fyrir hendi hjá safninu að fá Gúttó til frekari afnota. Húsið er nú á vegum Byggðasafns Hafnarfjarðar en fyrir utan sögulegt gildi þess býður það upp á margs konar sýningarmöguleika. Auk  þess að halda sjó í Hafnarfirði væru tvö önnur mál á dagskrá á næstunni, þ.e. að fá fund með menntamálaráðherra og freista þess að fá leiðréttingu á styrkjum til safnsins auk þess að ræða við hann um önnur aðkallandi mál safnsins. Síðan væri fyrirhugað að halda aftur málþing í haust sem að þessu sinni myndi fjalla um leiklist í útvarpi og sjónvarpi. Greinilegt er að þau mál brenna á mörgum. Einnig væri svokölluð 100 ára vakt í gangi. Nú er það Einar Kristjánsson óperusöngvari sem hefði orðið 100 ára í haust og safnið vill minnast og rætt var um mögulegt samstarf við Tónlistarsafnið vegna þess. Sótt hafði verið um til Safnasjóðs til að ráða tvo forverði til þess að fara yfir safnakostinn og gera tillögur til úrbóta um varðveislu og geymslu. Fengust 500.000 krónur til verksins. Þarna er einkum um brúður Jóns E. Guðmundssonar að ræða. Forverðirnir hafa þegar hafið störf.

Nokkrar umræður urðu um þessar brúður svo og þær sem sjá má í Borgarnesi og Latabæjarbrúðurnar í Keflavík. Rætt um samstarf.

5. Lagabreytingar
Fyrir fundinum lá tillaga um breytingar á lögum safnsins; 4. grein um aðalfund, fulltrúaráð og stjórn. Björn G. Björnsson kynnti málið og sagði greinina hafa verið æði óskýra frá upphafi og þessi breyting væri til þess að kveða skýrar á um hvernig þessum málum skuli háttað. Nokkuð var rætt um breytingartillöguna og var hún síðan samþykkt með örlítilli breytingu. Tillagan var samþykkt  þannig:

Í stað fyrstu málsgreinar 4. greinar komi:

Fulltrúaráð kemur saman til aðalfundar og kýs í stjórn Leikminjasafns Íslands sjö stjórnarmenn og tvo til vara, alls níu.
Hver stjórnarmaður situr í þrjú ár og mest í sex ár samfleytt.
Til að tryggja endurnýjun í stjórn skal hafa þennan háttinn á: Við gildistöku þessarar málsgreinar skal kjósa um þrjá stjórnarmenn sem þá koma nýir inn í stjórn. Næsta ár skal kjósa um aðra þrjá og ári síðar enn um þrjá.
Þá hafa stjórnarmenn setið í þrjú ár, verið endurnýjaðir og hringurinn byrjar upp á nýtt.
Minnst fimm stjórnarmenn skuli vera úr hópi fulltrúa.

Síðan er 4. grein óbreytt til enda, en við hana bættist þetta:

Varaformaður gegnir jafnframt hlutverki formanns fulltrúaráðs.
Hann sér um samskipti við fulltrúa og gætir þess að stofnaðilar skipi ævinlega fulltrúa og varamann í fulltrúaráð.
Hann kallar saman fulltrúaráðsfund tímanlega fyrir aðalfund. Fulltrúaráð gerir tillögur um endurnýjun stjórnarmanna skv. 4. gr. hér að ofan.

6. Stjórnarkjör
Fundarstjóri skýrði frá því að þrír aðilar hafi óskað eftir að ganga úr stjórn safnsins. Ólafur, varaformaður stjórnar, tók síðan við og sagði þessa fulltrúa vera þau Sveinn Einarsson, Björn G. Björnsson og Ingibjörg Björnsdóttur. Rætt hafði verið um að efla þyrfti safnaþáttinn í starfseminni og tillaga væri um að fá Lilju Árnadóttur inn í aðalstjórn en hún hafi verið í varastjórn. Einnig hafi tillaga komið fram um Viðar Eggertsson og ennfremur um Kolbrúnu Halldórsdóttur. Öll gáfu þau kost á sér til stjórnarsetu. Var einróma samþykkt að þessi þrjú, Kolbrún, Viðar og Lilja taki sæti í stjórn Leikminjasafns Íslands.

Einnig þurfti að kjósa í varastjórn og voru þær Hlín Gunnardóttir og Messíana Tómasdóttir kjörnar með fyrirvara um samþykki Hlínar sem ekki var á fundinum. Skoðunarmaður var endurkjörinn en það er  Sigurður Kaiser.

7. Önnur mál
Viðar Eggertsson tók til máls og ræddi um framtíðarverkefni s.s. samvinnu við Tónlistarsafnið. Nokkrar umræður urðu um málið.

Næst bað Sveinn Einarsson um orðið. Hann fjallaði um fyrstu umræður um söfnun leikminja og sagði frá skrifum Haraldar Björnssonar í ritinu Leikhúsmálum. Margir aðrir hefðu einnig vakið athygli á þörfinni fyrir samastað fyrir leikminjar en það hafi verið Ólafur Engilbertsson sem hélt af stað með hugmyndina sem leiddi til þess að Leikminjasafn Íslands var stofnað. Draumurinn væri auðvitað sá að safnið eignaðist eigið hús en þrátt fyrir húsnæðisskort er það komið til að vera og vonandi að það rofi til í fjármálum safnsins. Sveinn hefur ánafnað safninu stórt safn bók, annarra rita og veggspjalda auk margvíslegra muna sem hann hefur eignast á löngum leiklistarferli sínum. Margt er þegar komið í vörslu safnsins þó meira sé enn á heimili Sveins og bíði flutnings. Sveinn þakkaði síðan samstafsmönnum og óskaði nýrri stjórn farsældar.

Fundarstjóri þakkaði Sveini fyrir störfin í þágu safnsins og höfðinglega gjöf. Síðan tók Jón Viðar við og bar fram þakkir sínar til fráfarandi stjórnarmanna. Sérstaklega ræddi hann um hið ómælda starf sem Björn G. Björnsson hefur lagt fram í þágu safnsins. Hann talaði um að safnið hefði ekki fengið opinbera viðurkenningu og að samfélagið fylgdist ekki með því sem þegar hefur verið gert. Næst talaði Björn G. Björnsson og þakkaði Sveini og öðrum fyrir árin í stjórn, sama gerði Ingibjörg. Kolbrún Halldórsdóttir tók svo til máls og þakkaði fyrir kosningu í stjórnina og vonaði að reynsla hennar kæmi safninu til góða. Hún talaði einnig um nægjusemi og fagmennsku sem komið hefði fram í störfum safnins og þakkaði Sveini fyrir stórfenglega gjöf. Ágústa ræddi m.a. um virkjun fulltrúaráðsins. Viðar Eggertsson vakti athygli fundamanna á framtaki Ólafs Engilbertssonar að setja á vefinn betrireykjavik.is hugmyndir Björns G. Björnssonar um að Leikminjasafnið fái til sinna nota húsin við Laugaveg 4-6. Fleiri tóku til máls og ræddu um verkefni nýrrar stjórnar, um unga sviðslistamenn og áhugaleysi þeirra á fortíðnni og fleira þess háttar. Ennfremur um hugmynd Sveins um sameiginlega skemmtun til að vekja athygli á safninu..

Fleira gerðist ekki.  Fundi slitið kl. 18.25

IB ritaði fundargerð.