Aðalfundur Leikminjasafns Íslands
haldinn í Þjóðmenningarhúsinu 25. júní 2009

Viðstödd voru: Sveinn Einarsson, Björn G. Björnsson, Ólafur J.Engilbertsson, Jón Þórisson, Ágústa Skúladóttir, Þórhallur Sigurðsson, Ingibjörg Björnsdóttir, Lilja Árnadóttir, Messíana Tómasdóttir, Kristín M. Jakobsdóttir, Sigurður Kaiser og Magnús Þór Þorbergsson.

Formaður, Sveinn Einarsson, setti fundinn og bauð gesti velkomna. Ákveðið var að formaður gegndi hlutverki fundarstjóra. Kannað var hvort fundurinn væri löglegur, þ.e. rétt til hans boðað, og reyndist svo vera.

Síðan hófust venjulega aðalfundarstörf.
Fundargerð síðasta aðalfundar var lesin upp og samþykkt.

Skýrsla stjórnar
Forstöðumaður, Jón Viðar Jónsson, las skýrslu stjórnar þar sem m.a. komu fram upplýsingar um starfsemi safnsins á Akureyri. Sýning í Laxdalshúsi, sem sagt hafði verið frá á síðasta aðalfundi, var opnuð í júnílok og húsið var opið fram í september. Þórarinn Blöndal sá um sýningu með myndum um starf Leikfélags Akureyrar í einu herbergi. Annað herbergi var nýtt fyrir myndlist Þráins Karlssonar og leikferil hans hjá L.A. en síðan tók við sýning með myndlist Sigurðar Hallmarssonar frá Húsavík. Á loftinu voru sýndar nokkrar brúður Jóns E. Guðmundssonar. Ákveðið var sl. haust að hafa einungis opið um helgar og þá stundum með sérstakri dagskrá. Grýlusýning á jólaföstu var vinsæl.

Af öðru er það að segja að ýmsar gjafir hafa haldið áfram að berast safninu. Minnst var aldarafmælis Alfreðs Andréssonar sl. nóvember með merkisdagaspjaldi og dagskrá í Iðnó. Þetta var gert í samvinnu við Minningarsjóð Stefaníu Guðmundsdóttur og viðurkenningar úr þeim sjóði afhentar við sama tækifæri. Í húsnæðismálum safnsins hefur fátt gerst á þessu ári.

Eftir að skýrslan hafði verið lesin bætti Jón Viðar því við að sýning hefði verið í Fógetastofu – Aðalstræti 10. Þar voru sýndar nokkrar brúður Jóns E. Guðmundssonar en einnig sýningin Kvosin vagga leiklistar. Mikil aðsókn hafði verið. Ennfremur komu nokkrar frekari skýringar frá Birni G. Björnssyni um húsin á Laugavegi 4-6, m.a. þær að þarna hafði Stefanía Guðmundsdóttir fæðst. Ólafur Engilbertsson bætti því við að nokkrar brúður Jóns E. Guðmundssonar séu nú sýndar á Patreksfirði sem er fæðingarbær Jóns og þar verða þær í sumar.

Ársreikningur
Næst las gjaldkerinn, Björn G. Björnsson, upp reikninga safnsins fyrir árið 2008. Þar mátti sjá að framlag frá Alþingi hafði hækkað en aðrir styrkir höfðu aftur á móti dregist saman. Geymslur sem safnið hefur á leigu úti á Granda reyndust vera góðar og leigan sanngjörn en engin vinnuaðstaða er þar. Sjá mátti að fast hefði verið haldið um fjármálatauma hjá safninu og fjárhagurinn því þokkalegur. Hagnaður ársins var 218.142 krónur. Spurt var um áhrif íslenska hrunsins á safnið og í svari gjaldkera kom fram að styrkveitendur væri horfnir en ríkið hefði að þessu sinni bætt það upp. En vissulega er búist við niðurskurði.

Fundarmenn samþykktu skýrslu stjórnar og ársreikning samhljóða.

Starfsáætlun ársins
Varðandi starfsáætlun ársins þá sagði formaður frá því að á þessu ári yrði unnið að því að styrkja innviði safnsins með því að skrá meira og huga að safnkostinum. Móta ætti skýrt hlutverk og starfsemi safnsins. Hann sagði frá hugmynd um ráðstefnu í haust í samvinnu við stofnanir sem ynnu að svipuðum verkefnum. Varðandi framhald á sýningahaldi í Laxdalshúsi á Akureyri þá hefði Akureyrarbær ekkert lagt fram annað en húsnæðið og engir styrkir kæmu frá Eyþingi í ár en safnið hefur húsið til umráða þar til í september. Þó að sjálfsagt væri að Leikminjasafnið kostaði hluta sýningarhalds væri of stór biti að bera allan kostnaðinn. Þórarinn Blöndal hefur rekið þarna ýmsa starfsemi, listasmiðu og sýnt ýmislegt úr sögu Akureyrar.

Fleiri bættu við upplýsingum um aðra leiklistartengda sýningarstarfsemi m.a. um smásýningu um Stefán Íslandi í Miðgarði, sýningu um einleiki á Ísafirði og sýningu um þá bræður Jón Múla og Jónas Árnasyni á Vopnafirði. Rætt var um samvinnu við Þjóðleikhúsið varðandi 60 ára afmælið á næsta vori. Ennfremur var rætt um aðgengi að leiklistartengdu kennsluefni úr safni sjónvarpsins.

Stjórnarkjör
Allir stjórnarmenn gáfu kost á sér áfram og var stjórnin endurkjörin samróma. Sigmundur Örn Arngrímsson, sem verið hafði skoðunarmaður reikninga, gaf ekki kost á sér aftur og var Sigurður Kaiser kjörinn í það embætti.

Önnur mál
Sigurður Kaiser tók til máls og sagði frá undirbúningi þess að koma á stofn Sviðslistamiðstöð Íslands og lagði fram minnisblað varðandi efnið. Haldnir hafa verið fundir með borgarstjóra og mennta- og menningarmálaráðherra. Í væntanlegri miðstöð yrði aðstaða fyrir Leikminjasafn Íslands. Fundarmenn tóku vel í þessar hugmyndir og Jón Þórisson var kjörinn til að taka þátt í vinnuhópi sem ynni að frekari undirbúningi Sviðslistamiðstöðvar Íslands.

Fleira gerðist ekki. Formaður þakkaði fyrir góða fundarsetu og sleit fundi kl. 18.05.