Aðalfundur Leikminjasafns Íslands 2008
haldinn í Iðnó 4. júní og hófst kl. 16.30

Á fundinum voru stjórn safnsins; þau Sveinn Einarsson formaður, Ágústa Skúladóttir, Björn G. Björnsson, Ingibjörg Björnsdóttir, Jón Þórisson, Ólafur Engilbertsson og Þórhallur Sigurðsson auk forstöðumannsins Jóns Viðars Jónssonar. Einnig þau Margrét Sigurðardóttir, Margrét R. Einarsdóttir, Pétur Eggerts og Vilborg Á. Valgarðsdóttir.

Formaður Sveinn Einarsson setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna. Svo virtist sem réttilega hafi verið til fundarins boðað og fyrst á dagskrá var að lesa fundargerð síðasta aðalfundar. Það var gert og var hún samþykkt. Í framhaldi af því minntist formaðurinn á að stærsta baráttumál safnsins hafi ætíð verið húsnæðismálin, mál sem engan enda viðist ætla að taka þrátt fyrir að safnið væri löngu búið að sanna tilverurétt sinn. Ennfremur útskýrði hann að málþingið sem minnst var á í fundargerðinni hefði ekki enn verið haldið.

Síðan las forstöðumaður, Jón Viðar Jónsson, skýrslu stjórnarinnar. Helstu atriði sem þar komu fram voru þau að tvær viðamiklar sýningar voru settar upp, önnur um feril Helga Tómassonar sem var í anddyri Borgarleikshússins en tilefnið var heimsókn San Francisco ballettsins sem er og hefur verið lengi undir stjórn Helga. Hin sýningin, leikbrúðusýning, var haldin í Heilsuverndarstöðinni. Meginuppistaðan í henni voru leikbrúður Jóns E. Guðmundssonar auk þess sem að flestir þeir sem með leikbrúður hafa sýslað tóku einnig þátt í sýningunni. Leikbrúðuhátíð fór fram í sal á neðri hæð og fékk góða aðsókn. Þessi sýning var opnuð á Menningarnótt Reykjavíkurborgar hinn 19. ágúst. Um tíma leit svo út að safnið gæti e.t.v. fengið þetta húsnæði til áframhaldandi notkunnar en þrátt fyrir að sú von brygðist var sýningin opin nokkrar helgar í nóvember og desember.

Merkisdagaspjald í minningu Þóru Borg var sett upp í Iðnó og fór afhjúpun þess fram um leið og úthlutað var úr Minningarsjóði Stefáníu Guðmundsdóttur. Þó svo að aldarafmæli Stefáns Íslandi óperusöngvara hafi verið hinn 6. október var merkisdagaspjald um hann ekki sett upp fyrr en eftir áramótin. Varðandi fjármál safnsins sjást þau skýrar í ársreikningi sem lesinn var upp á eftir skýrslunni en taka má fram að formaður gekk á fund fjárveitingarnefndar sl. haust með þeim árangri að framlag til safnsins á fjárlögum hækkaði úr 5 milljónum í 9 milljónir sem er verulegt fagnaðarefni.

Samþykkt var að bíða með að bera skýrsluna undir atkvæði þangað til reikningarnir hefðu verið bornir fram. Var það samþykkt.

Reikningar leikminjasafnsins voru síðan lagðir fram og lesnir upp af gjaldkera. Viðsnúningar hefur orðið þannig að frá tapi sl. árs er nú 222.000 króna hagnaður. Leikminjasafn hefur einnig í vörslu sinni Minningarsjóð um Gunnar R. Bjarnason og voru reikningar þess sjóðs einnig lesnir upp. Bæði skýrsla stjórnar og reikningar voru samhljóða samþykkt.

Rætt var um fjármál. Erfitt er að vera ekki með föst fjárframlög. Nú eru ný safnalög í undirbúningi og með þeim geta orðið töluverðar breytingar þannig að safn sem er ábyrgðarsafn fái fasta fjárveitingu. Leikminjasafnið er slíkt safn. Í framhaldi af því voru húsnæðismálin enn til umfjöllunar. Minnst var á hugmyndir Björns G. Björnssonar um að leikminjasafnið fengi inni í gömlu húsunum við Laugaveg,  þau sem sem mestur styr stóð um, nr. 4 og 6. Safnið fékk Pál V. Bjarnason arkitekt til að gera frumdrög að uppsetningu safns og nýtingu lóðar. Myndir af þeim birtust á forsíðu Morgunblaðsins. Viðbrög við þessari hugmynd hafa verið mjög jákvæð þar á meðal sýndi Menntamálaráðherra þeim áhuga, en þrátt fyrir það hafa ítrekaðar tilraunir forráðamanna safnsins til að fá fund með borgarstjóra um þetta mál ekki tekist.

Stjórnarkjör: Öll stjórnin gaf kost á sér til áframhaldandi setu og var það einróma samþykkt. Skoðunarmaðurinn, Sigmundur Örn, var ekki á fundinum, en samþykkt var að óska eftir að hann gengdi því hlutverki áfram.

Síðan ræddi formaður og forstöðumaður um það sem efst er á baugi núna. Þegar hafði verið minnst á  merkisdagaspjald Stefáns Íslandi, en við afhjúpun þess, sem fór fram í anddyri Óperunnar, söng Karlakórinn Heimir. Sýning var í Amtsbókasafninu á Akureyri. Tilefnið voru merkisafmæli bæði leikfélagsins og leikhússins. Þessi sýning fékk mikla athygli, m.a. flutti bæjarstjórinn ávarp við opnunina. Hún (bæjarstjórinn) minntist á Laxdalshúsið við leikminjasafnsfulltrúa og hreinlega bauð þeim það til afnota, en, sem hún tók skýrt fram, án allra fjárframlaga frá bænum. Þetta er elsta hús Akureyrar og verulega spennandi kostur. Fyrirhugað er að opna þar sýningu 28. júní nk. Þórarinn Blöndal hefur verið fenginn til að setja upp sýningu í húsinu og þá hefur reyndur aðili á Akureyri lýst áhuga á því að taka að sér veitingarekstur þar. Fjárframlag fékkst úr Menningarsjóði Eyjaþings. Áherslan verður á leikhússtarfsemi á Norðurlandi. Einnig er aðstaða til að halda sérstakar sýningar við sérstök tækifæri. Tillaga kom fram um að viðeigandi væri að hafa einhverjar leikhústengdar uppákomur við opnunina. Tekið var vel undir það og margar uppástungur komu fram.    

Fyrirspurn kom fram um hvers konar safn Leikminjasafnið væri. Því var svarað þannig að Leikminjasafnið hefði varðveisluskyldu á ákveðnum þætti í íslensku menningarlífi. Hin alþjóðlega skilgreining verkefna safna, söfnun, varðveisla, skráning og miðlun gilti fyrir þetta safn sem önnur formleg söfn. Formaður ræddi um geymslu á efni útvarps og sjónvarps. Reynt er að bjarga því sem hægt er en aldrei er til nægilegt fé til að sinna þessu nógu vel. Rætt um nýtingu þessa efnis, einhverjir samningar munu vera í gangi. Formaður lagði til að fundurinn samþykkt tillögu um að rita bréf til áréttingar varðveislu þessara gagna. Fundurinn samþykkti að fela forstöðumanni að forma og senda slíkt bréf.

Fleira gerðist ekki, fundi slitið kl. 18.15.

IB ritaði fundargerð.