Aðalfundur Leikminjasafns Íslands
haldinn 30. maí 2006 í Iðnó

Á fundinn voru mættir; úr stjórninni: Sveinn Einarsson, Björn G. Björnsson, Guðrún Helgadóttir, Ólafur J. Engilbertsson, Ingibjörg Björnsdóttir og forstöðumaður Jón Viðar Jónsson. Frá fulltrúaráði: Sigmundur Örn Arngrímsson og Eggert Kaaber.

Formaður Sveinn Einarsson setti fundinn og lýsti undrun sinni og vonbrigðum yfir því hve illa var mætt frá fulltrúaráðinu. Ákveðið var að formaður gegndi starfi fundarstjóra og ritari skrifaði fundargerð.

Skýrsla stjórnar
Forstöðumaður, Jón Viðar Jónsson, flutti skýrslu stjórnar um starfið á sl. ári sem var í megnindráttum í sömu skorðum og árið þar á undan (sjá nánar í ársskýrslu).
Skýrsla stjórnar var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

Ársreikningur 2006
Reikningar fyrir sl. ár lágu fyrir og fór gjaldkeri, Björn G. Björnsson, yfir þá með fundarmönnum. Stafsemi safnsins hefur verið umfangsmikil á sl. ári og kostnaður vaxið að sama skapi. Útgjöldin urðu því meiri en styrkir og aðrar tekjur svo 804.928 kr. tap varð á rekstrinum á sl. ári. Önnur meginbreyting var sú að forstöðumaður hefur nú verið ráðinn í fast starf sem þó mun líklega ekki verða til útgjaldaaukningar. Að öðru leyti sjá Ársreikning 2005.
Reikningar voru samþykktir samhljóða.

Starfsemi næsta árs
Formaður ræddi um að húsnæðismálin væru það málefni sem heitast brynni á leikminjasafninu og taka þyrftu á þeim föstum tökum á næsta ári.  Fundarmönnum varð tíðrætt um lélega fundarsókn fulltrúaráðsmanna og kom fram tillaga um að bréf færi frá forstöðumanni til þeirra aðila sem tilnefna í fulltrúaráðið um að athuga með skipanir fulltrúa sinna. Þó má ekki gleyma því að ýmsar stofnanir hafa staðið sig vel fram til þessa. Minnt á að fulltrúaráðsmenn eiga sjálfir að boða varamenn sína ef þeir komast ekki sjálfir.

Jón Viðar ræddi um starfsáætlun næsta árs. Fyrirhugað er að halda málþing næsta haust og í því sambandi var rætt um að halda það 30. september í Iðnó. Sveinn talaði um u.þ.b. 6-7 framsöguerindi og undirbúnar spurningar, umræður eða panel. Í framhaldi af fyrri umræðu um fulltrúaráðið kom fram sú hugmynd að kalla mætti til fulltrúa hinna ólíku greina innan samtakanna sem undirbyggju spurningar eða athugasemdir um framsöguerindin. Þetta myndi líklega skapa meiri tengsl við fulltrúaráðið, gera það virkara. Jón Viðar ræddi um landsbyggðartengslin, sýning þarf að vera á Ísafirði við opnun Edinborgarhússins og bent var á að 150 ár eru síðan fyrst var leikið á Ísafirði. Einnig þarf að halda merkisdagasýningu fyrir Þóru Borg.

Björn G. Björnsson sagði að semja þyrfti við eigendur höfunda- og flutningsréttar. Eitt af hlutverkum safnsins væri að kynna og minna á bestu  listamenn þjóðarinnar. Við núverandi aðstæður væri það ógerlegt. Spurt var hvort áhugi væri hjá listamönnunum sjálfum fyrir betri aðgengi að verkum þeirra. Aðrar þjóðir hafa leyst þetta höfunda- og flytjendaréttinda mál og benda má á söfn í Danmörku og á Englandi sem fyrirmyndir.


Guðrún Helgadóttir sagði margar hugmyndir væru á lofti um þemasýningar s.s. hvað hafi orðið um þau börn sem tóku þátt í leiksýningum á árum áður. Urðu þau atvinnumenn í faginu? Rætt m.a.um barnaefni sjónvarps sem engin hefur efni á að kaupa.

Stjórnarkjör
Stjórnin var endurkjörin og Sigmundur Örn Arngrímsson var kjörinn endurskoðandi.

Önnur mál
Undir þessum lið voru það húsnæðismálin sem hæst báru. Ljóst er að safnið þarf eigið húsnæði sem allra fyrst og geymsluþörfin er verulega aðkallandi. Talsverðar umræður urðu um staðsetningu, fjáröflun og e.t.v. samstarf við önnur söfn.

Fleira gerðist ekki, fundi slitið kl. 18.20.