Aðalfundur Leikminjasafns Íslands
haldinn 1. júní 2004 í Iðnó

Á fundinn voru mættir: Eggert Kaaber, Pétur Eggerz, Ágústa Skúladóttir, Ólöf Ingólfsdóttir, Helena Margrét Jóhannsdóttir, Margrét Rósa Einarsdóttir, Benóný Ægisson, Erlendur Sveinsson, Sveinn Einarsson, Jón Þórisson, Björn G. Björnsson, Jón Viðar Jónsson, Guðrún Helgadóttir og Ingibjörg Björnsdóttir.
    
Jón Viðar Jónsson flutti skýrslu stjórnar.  Bent var á að í skýrsluna vantaði frásögn af heimsókn Margaret Benton, forstöðumanns Theatre Museum í London, í maí á síðasta ári sem hélt hér opinn fyrirlestur og átti gagnlegar viðræður við stjórn Leikminjasafnsins.

Björn G. Björnsson, gjaldkeri stjórnar, gerði grein fyrir reikningum síðasta árs og voru þeir samþykktir án athugasemda.

Þá gerði Jón Viðar Jónsson grein fyrir starfsáætlun næsta árs sem hann sagði enn ekki fullmótaða enda stæði húsnæðisleysið safninu fyrir þrifum.  Rekstrargrundvöllur væri enn tæpur, ekki síst vegna þess hversu Safnasjóður væri rýr, og það væru einungis sérstakir styrkir Alþingis, 3 milljónir á síðasta ári og 4 á þessu, sem gerðu safninu kleift að framfleyta sér.  Safnið þyrfti hins vegar að hafa opna sýningu í a.m.k. þrjá mánuði á hverju ári til að vera gjaldgengt gagnvart Safnasjóði, en ekki væri enn fullráðið hvar sú sýning yrði haldin.  Ýmsir kostir hefðu verið skoðaðir og litist mönnum einna best á tiltekið húsnæði í Hafnarhvoli í Reykjavík.  Þá hefðu menn litið nokkuð til gamla Góðtemplarahússins í Hafnarfirði, en þar væru enn ýmis ljón á veginum og ekki útlit fyrir að húsið fengist í bráð undir starfsemi Leikminjasafns.  Jón Viðar lagði áherslu á að það safn leiklistarsögulegra gagna, sem Leikminjasafnið væri komið með, væri bæði fjölbreytt og mikið að vöxtum svo að annað eins safn hefði aldrei orðið til hér á landi fyrr.  Á undanförnum vikum og mánuðum hefði verið unnið að frumskráningu á því, jafnframt því sem unnið væri að því að koma upp gagnagrunni um starfsemi íslenskra leikhúsa, þ.e. verkefnaskrám þeirra.  Stefnt væri að því að hann yrði sem víðtækastur í framtíðinni, en í upphafi hefði verið ákveðið að leggja mesta áherslu á sjálfstæðu leikhúsin/leikhópana þar sem mjög litlar og fátæklegar skrár væru til um starf þeirra.  Sveinn Einarsson minnti á að safnið og samtökin á undan því hefðu leitast við að halda upp á aldarafmæli ýmissa frumherja íslenskrar leiklistar með dagskrám og sérstökum spjöldum eða kynningum á heimasíðu safnsins.  Síðar á þessu ári er liðin öld frá fæðingu tveggja merkra leikhúsmanna, þeirra Gests Pálssonar og Þorsteins Ö. Stephensen, og áformar safnið að minnast þeirra.
 
Skýrt var frá því að stjórnin gæfi kost á sér til endurkjörs.  Í henni sitja Þorsteinn M. Jónsson formaður, sem gat ekki mætt á fundinn sakir anna og bað fyrir kveðjur til fundarmanna, Sveinn Einarsson varaformaður, Björn G. Björnsson, gjaldkeri, Ólafur J. Engilbertsson, ritari, Guðrún Helgadóttir, Jón Þórisson og Ingibjörg Björnsdóttir.  Stjórn endurkjörin.

Talsverðar umræður urðu um stöðu safnsins, verksvið ofl. í framhaldi af greinargerð forstöðumanns fyrir starfi næsta árs.  M.a. var spurt hvort athugað hefði verið að einhvers konar skilaskyldu yrði komið á til safnsins, t.d. á upptökum á leiksýningum, og kom fram í svörum stjórnarmanna og forstöðumanns að slíkar hugmyndir hefðu verið reifaðar við menntamálaráðuneytið og væri fullur vilji af þeirra hálfu að halda þeim viðræðum áfram, ekki síst varðandi gögn sjálfstæðu leikhúsanna sem væru í hvað mestri glötunarhættu.  Hin erfiða fjárhagsstaða var einnig talsvert rædd og viðraði Guðrún Helgadóttir hugmyndir um að tekið væri banka eða lífeyrissjóðslán til kaupa á húsnæðinu í Hafnarhvoli.  Fundarmönnum leist almennt vel á að leitað væri leiða til að festa þetta húsnæði handa safninu, en einnig hvöttu menn til að hugmyndum um að koma upp einhvers konar starfsemi í Góðtemplarahúsinu í Hafnarfirði yrði haldið vakandi.  Einnig var söfnunarstefna safnsins nokkuð rædd og m.a. spurt hvort safnið myndi veita viðtöku nýjum eða nýlegum leikmunum sem ástæða þætti til að geyma.  Jón Viðar svaraði því til að safnið gæti tekið við slíku og myndi að sjálfsögðu gera það, ef um væri að ræða hluti sem hætta væri á að skemmdust eða glötuðust, en takmarkað geymslurými setti því þó skorður.

Almennt lýstu fundarmenn ánægju með störf stjórnar safnsins á síðasta ári og hvöttu til að haldið yrði áfram á sömu braut.   Stjórnarmenn hvöttu fundarmenn að sínu leyti til að halda málum safnsins sem mest á lofti og stuðla þannig að jákvæðri kynningu á því.  
    
Fundi var síðan slitið eftir líflegar umræður um klukkan hálf sjö.