Kvosin - Vagga leiklistar

Sýningar opnaðar í Aðalstræti 10 og í Ráðhúsi
Reykjavíkur á Vetrarhátíð 2009

Gömlu leikhúsin

Íslensk leiklist á upphaf sitt í Kvosinni í Reykjavík. Þar fóru fyrstu leiksýningarnar fram, þar voru fyrstu íslensku leikritin sýnd, þar risu fyrstu leikhúsin, þar stigu fyrstu leikstjörnurnar fram í sviðsljósið og heilluðu áhorfendur. Langflest hinna gömlu leikhúsa eru nú löngu horfin af yfirborði jarðar, en minning þeirra lifir í sögu leiklistarinnar. Þó að þetta starf væri unnið af áhugamönnum, skapaði það í fyllingu tímans jarðveg fyrir innlenda atvinnuleiklist.

Aðalstræti 10 er frá tímum Innréttinga Skúla Magnússonar fógeta. Ekki er vitað með fullri vissu hvenær það var byggt, en fullvíst má telja að það hafi verið fyrir 1774. Á árunum 1807 til 1823 bjó í húsinu Geir Vídalín (1761-1823) fyrsti biskup Íslands sem sat í Reykjavík. Hjá Geir bjó náinn vinur hans, Sigurður Pétursson (1759-1827), sem var lögreglustjóri í Reykjavík og sýslumaður í Gullbringu- og Kjósarsýslu til 1803. Þeir Geir og Sigurður eru merkismenn í sögu íslenskrar leiklistar, því að þeir skrifuðu fyrstu leikritin sem með vissu voru leikin. Leikina sömdu þeir fyrir skólapilta í Hólavallaskóla sem stóð á lóðinni sem er nú Suðurgata 5. Leikrit Geirs, Brandur eða Bjarglaunin, gleymdist fljótt, en leikrit Sigurðar, gamanleikirnir, Hrólfur og Narfi, urðu mjög vinsælir og voru leiknir um land allt á 19. öld og fram á þá 20. Er Sigurður jafnan talinn fyrsti leikritahöfundur þjóðarinnar. Aðalstræti 10 hefur því skemmtileg tengsl við sögu íslenskrar leiklistar og vert að þeim sé haldið á lofti.

Á sýningunni Kvosin - vagga leiklistar var brugðið upp yfirliti yfir gömlu leikhúsin í Kvosinni. Fyrsta hús bæjarins, sem var byggt sérstaklega sem leikhús stóð við hliðina á því; það var hið svonefnda "Breiðfjörðs-leikhús" sem þekktara var undir nafninu Fjalakötturinn. Það var reist árið 1893 sem viðbygging við íbúðarhús Valgarðs Breiðfjörðs, Aðalstræti 8. En að sjálfsögðu hafði verið leikið í Reykjavík löngu fyrir þann tíma. Öll eru þessi hús nú horfin nema hús Menntaskólans í Reykjavík og Iðnó.

Um sýninguna

Kvosin vagga leiklistar

Kvosin vagga leiklistar

Leikhúsin í Kvosinni

Árbæjarsafn

Kvosin vagga leiklistar í Líkn

Sýningarspjöld

Vagga leiklistar - Sýningarspjöld (pdf-skjal - opnast í nýjum glugga)

Sýningarskrá

Vagga leiklistar - Sýningarskrá (pdf-skjal - opnast í nýjum glugga)