Svart og sykurlaust

Götuleikhús á Íslandi

Götuleikhópurinn Svart og sykurlaust starfaði á árunum 1983-1986. Hópurinn var brautryðjandi hérlendis í götuleikhúsi í anda spænska leikhópsins Els Comediants sem hingað kom á Listahátíð árið 1980 og bandaríska leikhópsins Bread and Puppet sem hingað kom 1982. Svart og sykurlaust ferðaðist víða um land og kom fram á hátíðum og tónleikum eins og “Við krefjumst framtíðar” haustið 1983. Hópurinn fór einnig í leikferð um Ítalíu og í tengslum við kvikmynd sem þýski kvikmyndaleikstjórinn Lutz Konermann fékk hópinn til að taka þátt í . Fjöldi listamanna tók þátt í starfi hópsins en lengst af voru í hópnum Kolbrún Halldórsdóttir, Guðjón Pedersen, Ingibjörg Elsa Guðmundsdóttir, Guðjón Ketilsson og Brynhildur Þorgeirsdóttir. Leikminjasafn Íslands stendur að sýningunni "Við krefjumst fortíðar!" í samstarfi við aðstandendur leikhópsins.

Sýningartextinn er að mestu tilvitnanir í leikhópinn:

Þegar við fórum af stað með Svart og sykurlaust má segja að við höfum verið að kanna þanþol leiklistarinnar. Það er ein bitastæðasta reynsla sem ég hef komist í. Við Guðjón Pedersen riðum á vaðið með góðum myndlistarmönnum, Guðjóni Ketilssyni og Brynhildi Þorgeirsdóttur. Þetta var meira leikhús myndlistarinnar en leikhús orðsins. Gíó, Guðjón Pedersen, hafði smíðað sér stultur eftir útlendri fyrirmynd og við smíðuðum nokkur pör í viðbót og smöluðum múg og margmenni úr Herranótt menntaskólans og fleiri skólum.

Kolbrún Halldórsdóttir í viðtali í Vikunni, 7 tbl. árið 1984

Kolla og Gíó fengu aðstöðu í Jötunshúsinu vestur í bæ, við hliðina á JL, þann 1. mars 1983 og stefndu að götuleiksýningu 25. mars. Tilefnið var að til stóð að rífa Hafnarbíó, samastað Alþýðuleikhússins, Revíuleikhússins og Gránufjelagsins. Kolla hafði verið í Alþýðuleikhúsinu og Gíó í Gránufjelaginu. Bæði voru ósátt við að missa Hafnarbíó og vildu vekja athygli á málinu. Þau leituðu til framhaldsskólanna og leikklúbba og með þessu fólki, um 130 manns, settu þau upp götuleiksýningu sem ætlað var að vekja athygli á húsnæðislausum leikhópum á höfuðborgarsvæðinu. En sýningin sú færði þeim ekki nýtt húsnæði, heldur festi í sessi kraftmikinn götuleikhóp.

Það var bandvitlaust veður allan marsmánuð 1983 en þennan dag, þann 25., kom sólin og það var fallegt veður allan daginn, frost en stillt. Leikhópurinn, sem hafði enn ekki fengið nafn, skapaði sannkallaða karnivalstemmningu á Lækjartorgi og safnaðist þangað mikill mannfjöldi. Hópurinn var í skrautlegum búningum, gulum, rauðum, svörtum og hvítum. Þau veifuðu fánum, blésu í flautur og sprengdu reypsprengjur. Nokkrir veltu risastórri gulri kúlu um göturnar, aðrir sameiginlegan hlekkjabúning og enn aðrir gengu á stultum. Fjörug dixielandhljómsveit spilaði undir og stundum barst leikurinn upp á nálæg hús. Undir lokin kom mikill dreki inn á torgið og var teflt fram djörfu og lífsglöðu liði gegn honum og hann lagður að velli.

Við Gíó kynntumst mörgu nýju með því að vinna með þessu fólki í fyrstu sýningunni okkar í lok mars 1983. Og einhvern veginn fór það þannig að málefnið sem við byrjuðum með, niðurrif Hafnarbíós, týndist. Með þessari vinnu fundum við einhverja spennandi leið, eitthvað sem gerði okkur frjórri, við ákváðum að halda húsnæðinu, og stuttu síðar komu fram hugmyndir um að við tækjum að okkur skemmtiatriðin á 17. júní. Flestir aðstandendur hópsins voru þó í vinnu annars staðar og komu í Jötunshúsið að loknum vinnudegi.

Kolbrún Halldórsdóttir. Morgunblaðið 16. sept. 1983

Laugardaginn 16. apríl 1983 kom hópurinn fram á kosningafundi G-listans undir heitinu “Óskabörn þjóðarinnar” og sýndi á myndrænan hátt þrjá þætti álmálsins: tapið á álverinu og viðbrögð við því, - hækkun í hafi og útsöluprísinn á raforku til álversins. Þarna kom fram fyrsti “stórhöfðinn” sem hópurinn bjó til, talaður texti var nær enginn, en myndir og leikur alls ráðandi í skrautlegri sýningu.

Við vorum krafin um nafnnúmer og þá varð að gefa þessu eitthvert nafn. Þetta kostaði auðvitað æðisleg heilabrot, við vorum búin að velta vöngum yfir þessu lengi vel, og búin að finna mörg ágætisnöfn sem erfitt var að gera upp á milli. Einn morguninn þegar ég kom í aðstöðuna okkar í Jötunshúsinu sagði Gíó mér að við hefðum fengið nafnnúmerið út á nafnið Svart og sykurlaust. Og við erum búin að vera mjög ánægð með það.

Kolbrún Halldórsdóttir. Morgunblaðið 16. sept. 1983

17. júní 1983 kom Svart og sykurlaust fyrst fram undir nafni. Það var hræðilegt veður alla nóttina og við að vinna vesturfrá í Jötunshúsi að undirbúningi götuleikhúss daginn eftir. Á meðan sýningin okkar fór fram var veðrið gott en byrjaði að rigna um leið og henni lauk. Við undirbúninginn unnu yfir 200 manns og yfir 120 komu fram í miðbænum í sambatakti, þar af 9 á stultum. Allir búningar og tæki, þ.m.t. stulturnar voru unnar af meðlimum hópsins.

Við stefndum að því að ferðirnar stæðu undir sér þannig að bensín og uppihald væri borgað, en auðvitað ekkert kaup. Það var ekki fyrr en í sambandi við friðarhátíðina í september, “Við krefjumst framtíðar”, að við steyptum okkur í skuldir. Það var mánaðarvinna að undirbúa það allt, sex uppákomur með hápunkti í Laugardalshöll. Crass sögðu að svona “show” þekktist ekki nema hjá þeim stærstu í Bretlandi, Bowie og Stones. Þeim fannst þetta “GRAND”.

Kolbrún Halldórsdóttir í viðtali í Vikunni, 7 tbl. árið 1984

Svart og sykurlaust hóf starfsemina sem einskonar unglingaathvarf og þá á ég ekki við í neikvæðu merkingunni sem það orð er að fá á sig. Þarna gat hver sem vildi og hver sem var gengið inn, unnið með hópnum og fengið verkefni. Þetta var leikhús sem bauð upp á að nýta leiklistina á marga vegu. Setja upp skrautsýningar undir berum himni og búa til hreyfanleg myndverk, eins og við gerðum á hátíð í Laugardalshöllinni sem hét “Við krefjumst framtíðar”.

Guðjón Pedersen í viðtali í Morgunblaðinu 12. apríl 1985

Þegar inn í sal Laugardalshallarinnar var komið mátti sjá palla mikla meðfram hliðunum. Þar hafði Svart og sykurlaust komið sér fyrir með margs konar sýningar. Á einum stað var fólk á sólarströnd, annarsstaðar var 6 eða 7 sjónvörpum hrúgað upp í haug, kveikt á þeim og látið loga, og fyrir ofan dansaði svört fígúra umvafin rauðum, sjálflýsandi böndum. Hirð Lúðvíks 14. var mætt á svæðið, og um gólf gengu fígúrurnar hræðilegu sem farið höfðu um bæinn dagana á undan hljómleikunum. Skipst var á að lýsa upp einstök svið, þannig að úr varð fjölbreytilegt, sjálfstætt sjó til hliðar við hljómleikana. Nýjung. Sama kröftuga sköpunargleðin var uppi á teningnum á tónleikasviðinu. Fyrst komu fram Svart og sykurlaust (það er líka hljómsveit) með drungalega músík, líklega framleidda með synthesizerum. Sú tónlist var eins og inngangur til að setja fólk í rétta stemmningu og tókst það.

Árni Daníel Júlíusson, DV. 17. sept. 1983

Við stóðum að þrettán sýningum fyrsta árið, 1983, og fengum ekki rigningu á okkur nema einu sinni um sumarið, í Þjórsárdal um verslunarmannahelgina. Við fórum í ferðalag norður á Strandir eftir 17. júní og komum fram á Hólmavík, Borðeyri og í Trékyllisvík fyrir 60 manns og fórum síðan á Búðir á Snæfellsnesi í júlí, á sæluviku á Sauðárkróki og fleiri staði. Svo færðum við upp dag í lífi sólkonungsins á túninu við geðdeild Landspítalans. Fólk á leið til vinnu sá allt í einu einn morguninn ríkulega skreytt langborð, þar sem 20 manns sátu að villtu sukki eins og hirð Lúðvíks 14. Sjúklingarnir á geðdeildinni voru ánægðir með sýninguna, en yfirlæknirinn varð vondur. En annars var þessi sýning hugsuð mest fyrir fólk í bílum.

Við pökkuðum leikhúsinu saman haustið 1983, aðallega vegna þess að við höfðum ekki efni á að leigja lengur á Hringbrautinni. Ef maður á að eltast við opinberar styrkveitingar og það allt situr maður heila daga hjá ráðherrum og nefndarmönnum og maður gerir ekki annað á meðan. Hins vegar mættum við ótrúlegum velvilja hjá fyrirtækjum og einstaklingum í garð leikhússins og við fórum með pálmann í höndunum út úr sumrinu.

Svart og sykurlaust var ekkert bundið af því að vera leikhús, það gat alveg eins verið eitthvað allt annað. Maður skilur alveg leikhópa eins og Els Comediants sem búa saman uppi í sveit, eiga alla peninga saman og eru ekki með börn og fjölskyldur. Þetta er lífsmáti. Kannski á leikhús að vera svona. Þetta er freistandi líf á margan hátt og við búum alltaf að þessari reynslu. Leikhús er ekki borgaralegt, frekar en önnur list. Myndlistarmaður málar ekki frá 9-5…

Kolbrún Halldórsdóttir í viðtali í Vikunni, 7 tbl. árið 1984

Svart og sykurlaust lék á einum 11 vinnustöðum vorið 1984 á vegum Listahátíðar. Það var gaman og okkur fannst fólkinu ekki leiðast neitt sérstaklega. Enda höldum við að það sé ágætt að fá leiksýningu með kaffinu. Við færðum okkur líka meira inn á atvinnumennskuna sumarið 1984. Þá voru fleiri útlærðir leikarar með en fyrsta árið og vinnubrögðin breyttust nokkuð, urðu markvissari. 1983 var meira spunnið á staðnum en 1984 gerðum við skissur og unnum sýningarnar meira fyrirfram. Annars héldum við líka uppi góðu samstarfi við myndlistar- og tónlistarmenn. “Láttu ekki kökuna bráðna, fíflið þitt”, var frumsamið verk með klassísku tema sem við vorum með um sumarið. Þetta var ástarsaga um ungt fólk í Reykjavík nútímans, byggð á klassískri goðsögn, en sagan var okkar. Við vorum í Atlavík um verslunarmannhelgina og á Ísafirði næstu helgi eftir það. Áður en við lögðum land undir fót vorum við með nokkrar sýningar í Reykjavík. Við þurftum að reyta eitthvað upp í skuldirnar og eiga fyrir bensíni austur.

Kvikmyndaævintýri Svarts og sykurlauss byrjaði í ágúst 1984 með því að þýski leikstjórinn Lutz Konermann kom til landsins á leið sinni austur um haf frá New York til að heilsa upp á íslenskan kunningja, Þorgeir Gunnarsson, sem hann kynntist er Þorgeir var við nám í Þýskalandi. Þorgeir vildi náttúrlega kynna fyrir honum land og þjóð og af því að við vorum að fara til Ísafjarðar og áttum aukamiða buðum við Lutz með. Strax fyrsta kvöldið fór hann að tala um Ítalíu, hvernig væri nú að fara til Ítalíu og gera bíómynd. Hann sagðist hafa legið með svona hugmynd lengi, um “roadmovie” á Ítalíu, og þarna hjá okkur væri komin uppistaðan í þvílíka kvikmynd. Við eyddum þessu fyrst, en hann hélt áfram – og áður en við vissum af voru hjólin farin að snúast og við fórum til Ítalíu sumarið 1985 og vorum í tvo mánuði við kvikmyndatökur (sem hófust undir Snæfellsjökli og enduðu) á Sikiley.

Sagan segir frá íslenskum leikhóp sem langar að fara til Ítalíu og lætur þann draum rætast. Við heitum okkar nöfnum í myndinni. Við erum náttúrlega að leika okkur sjálf þó með ýmsum formerkjum. Það er sem sé einn voðalegur pælari í hópnum, einn voðalega flöktandi, einn heimakær, einn dáldið vitlaus, einn með mikið vit á peningum. Og einum finnst svo æðislegt að fara til Ítalíu að það skiptir engu máli, hann pælir ekki einu sinni í því. Það eru skýrir litir í hverjum karakter.

Ekki má gleyma þætti bíleigandans, hennar Dagbjartar Snæbjörnsdóttur, sem á bílinn sem við vorum á. Hún var hjarta þessa leikhóps. Við værum ekkert hefðum við ekki haft þennan bíl. Eftir að Iðnó hætti að nota hann fengum við hann lánaðan hvað eftir annað og bara fyrir að reyna að sjá um viðhaldið. Þetta var þrjátíu ára gamall bíll og alveg ótrúlegt hvað hann gekk. En það mátti heldur ekki fara illa að honum, heldur bara fara mjúkt og gætilega og tala við hann, umfram allt tala við hann. Og svo fékk hann að fara með okkur til Sikileyjar.

Eitt sem mig langaði að gera með Svörtu og sykurlausu var að setja upp sýningu inni í húsi, kannski gera Svart og sykurlaust að hljómsveit. Ég vissi í raun lítið um hvernig sýning yrði áður en byrjað var að vinna hana. Í Svörtu og sykurlausu kom þetta af sjálfu sér með vinnunni. Þar má segja að verkefnin hafi mörg hver verið hugsuð í myndum og leikin út frá því. En það er alls staðar hægt að gera góða hluti, ekki bara í leikhópum eins og Svörtu og sykurlausu.

Guðjón Pedersen í viðtali í Morgunblaðinu 12. apríl 1985

Um sýninguna

Svart og sykurlaust - Við krefjumst fortíðar

Leiksýningar

Svart og sykurlaust - Leiksýningar

Sögusýning

Við krefjumst fortíðar! Sýningarspjöld