Safnafaðir Reykvíkinga

Frumherji í fræðunum

Lárus Sigurbjörnsson

Lárus Sigurbjörnsson 2003

Fræðimaður, sem heldur inn á áður ókannað rannsóknasvið, er eins og landkönnuður á leið inn í ókunnugt land. Hvað á slíkur könnuður að taka til bragðs? Ætli hann byrji ekki á því að reyna að fá eins góða yfirsýn yfir svæðið og frekast er unnt, búa til gróft yfirlitskort, setja niður þá staði sem helst séu skoðunar virði, átta sig á vænlegustu leiðunum að þeim og taka svo til við að ryðja vegarslóða. Það verk getur verið örðugt og tafsamt og launin, sem uppskorin eru að kveldi, ekki alltaf virst mikil samanborið við fyrirhöfnina. Engu að síður hlýtur það að veita alveg sérstaka fullnægju að daglokum að hafa rutt nýjar brautir, brautir sem maðurinn veit að eiga eftir að verða eftirkomendunum til gagns og gleði - eins þótt honum sé fullljóst að kortlagningin geti ekki verið fullkomin og margt í vegagerðinni standi til bóta þegar kröfur breytast og verða strangari.

Þegar Lárus Sigurbjörnsson hóf að rannsaka íslenska leiklistarsögu snemma á fjórða áratug síðustu aldar eða jafnvel eitthvað fyrr, var sannarlega ekki á miklu að byggja. Ef undan eru skildir tveir þýskir fræðimenn, Carl Küchler og J.C.Poestion, sem birtu lítil rit um íslenskar leikbókmenntir og leiklistarsögu í kringum aldamótin 1900, hafði enginn fjallað um efnið svo orð væri á gerandi. Indriði Einarsson hafði að vísu alltaf mikinn sögulegan áhuga og gerði sér fulla grein fyrir nauðsyn þess að halda saman helstu staðreyndum um leikstarfið; t.d. hélt hann skrá yfir sýningar Leikfélags Reykjavíkur frá upphafi, verkefni, leikkvöld og fjölda sýninga jafnframt því sem hann ritaði margt um þessi mál í greinum og endurminningum. Má sem dæmi nefna að aðeins fáeinum árum eftir stofnun Leikfélagsins skrifaði hann í blaðið Reykjavík tvær greinar þar sem hann bar nýja sýningu félagsins á dönskum gamanleik saman við eldri sýningu sama leiks og lá ekkert á því að hann teldi þá nýju bera vitni um mikla framför. Þá hélt Indriði saman ýmsum gögnum s.s. leikskrám L.R., sem hann batt í gott band og merkti á "Theater-saga" og eru þau eintök í safni hans sem hefur verið í vörslu Þjóðleikhússins alla tíð. Þar eru einnig handrit að þeim leikritum sem Leikfélagið sýndi á þessum árum, bæði handrit verkanna í heilu lagi og svokölluð rulluhefti, þar sem er færður inn texti einstakra hlutverka ásamt markorðum mótleikara, en fyrir tíma nútíma fjölföldunartækja var að sjálfsögðu enginn vegur að afrita heilu leikritin fyrir hvern einasta leikara. Eru þessi gögn öll í virðulegum bókaskáp sem kominn mun úr eigu Indriða og Þjóðleikhúsið hefur jafnan farið með eins og sjáaldur auga síns.

Ekki var Indriði þó svo nátengdur starfi Leikfélagsins að hann gæti tekið að sér það hlutverk skjalavarðar sem félagið vantaði sárlega. Gögn þess, s.s. fundargerðir, reikningshald, handrit, bréfaskipti og ljósmyndir, hlutu eins og málum var háttað að lenda á ýmsum höndum þeirra sem um þau fjölluðu; t.d. mun elsta fundargerðabók félagsins, sem er einstæð heimild í leiklistarsögunni, hafa komið óvænt upp í hendur manna um það leyti sem félagið hélt upp á fimmtugsafmæli sitt árið 1947. Engu að síður sýna ofantaldar staðreyndir að Indriði gerði sitt til að búa efnið í hendur síðari tíma manna, leggja fyrstu undirstöðuna sem síðar væri hægt að reisa á hærri byggingar. Sjálfur tók hann öðru hvoru virkan þátt í starfi L.R., stýrði sýningum þess á leikritum sínum, Skipið sekkur, Nýársnóttinni og Stúlkan frá Tungu, og barðist fyrir málstað leikhússins í ræðu og riti. Þjóðin mátti aldrei gleyma því að stofnun og starf Leikfélagsins var aðeins áfangi á leið til Þjóðleikhússins, hins stóra draums og mikla markmiðs sem allt starf kynslóðarinnar stefndi að. Indriði var því á sinn hátt í góðri aðstöðu til að leggja allra fyrstu drögin að söguritun Leikfélagsins, þó að auðvitað væri hann of viðriðinn málið til að geta fjallað um það af einhverju sem mætti kenna við fræðilega hlutlægni.

Nú er rétt að taka strax fram að Lárus Sigurbjörnsson var það að vissu leyti líka. Fljótlega eftir að hann kom heim frá námi undir lok þriðja áratugarins var hann kominn á kaf í leikhúsmálin. Hann var ásamt Haraldi Björnssyni forystumaður Leikfélags stúdenta, sem starfaði á árunum 1927-29 og eftir að Haraldur tók við stjórnarformennsku í hinu svonefnda ábyrgðarmannafélagi, sem var stofnað um rekstur L.R. 1930 til að bjarga því frá gjaldþroti, settist hann í stjórn þess og var framkvæmdastjóri þess í upphafi. Þegar ábyrgðarmannafélaginu var slitið þremur árum síðar var Lárus kosinn formaður hins endurreista Leikfélags og gegndi því embætti í tvö ár. Eftir það dró heldur úr afskiptum hans af félagsstarfinu, enda hafði maðurinn ærin verkefni á aðalstarfsvettvangi sínum hjá Reykjavíkurborg, svo sem lesa má annars staðar í þessu riti. Upp úr 1950, þegar ákveðið hafði verið að halda starfi L.R. áfram við nýjar og gerbreyttar aðstæður, var hann hins vegar mættur til leiks að nýju og var aftur kjörinn formaður í tvö ár. Þá var ný kynslóð að vísu að ryðja sér til rúms í félaginu, kröftug kynslóð og mikil fyrir sér og sást því miður ekki alltaf fyrir í skiptum sínum við hina eldri sem sumir vildu vera nokkuð fastir í sessi. Lárus mun þó, að því er ég best veit, hafa átt snurðulítil samskipti við yngra fólkið sem væntanlega hefur, sumt a.m.k., kunnað að meta starf hans í þágu listgreinarinnar.

Hitt er svo annað mál að fáir hafa kannski á þeim tíma áttað sig á því hvað Lárus var í rauninni búinn að áorka miklu. Þó að hann hefði ekki akademíska skólun sem fræðimaður í leiklistarsögu - greinin var raunar að stíga sín fyrstu spor sem akademísk fræðigrein úti í Evrópu á hans dögum - breytir það ekki því að hann skildi mæta vel hvaða tökum þyrfti að taka það verkefni sem hann stóð frammi fyrir, að miklu leyti einn og óstuddur. Í grófum dráttum má skipta æviverki hans í þágu íslenskra leiklistarfræða í tvennt. Í fyrsta lagi hóf hann að skrásetja kerfisbundið og af faglegri þekkingu ýmsar þeirra grunnupplýsinga sem fræðimenn þurfa á að halda til að geta stundað sögulega og fræðilega greiningu af einhverri alvöru. Í öðru lagi birti hann fjölda greina og ritgerða um leiklistarsöguleg efni í blöðum og tímaritum upplýstum almenningi til upplýsingar, ánægju og fróðleiks. Það gerði hann að sjálfsögðu í því skyni að reyna að vekja almennan áhuga á efninu, opna augu manna fyrir því hversu merkur þáttur íslenskrar menningar hér væri á ferð. Lárus gerði sér m.ö.o. ljóst að til að ryðja nýrri fræðigrein braut þyrfti ekki aðeins að leggja vísindalegan grunn að iðkun hennar, heldur einnig vinna henni fylgi meðal allrar alþýðu og innan þess sem er nú á tímum kallað fræða- eða háskólasamfélag.

Við skulum líta eilítið nánar á þessa tvo aðalþætti. Árið 1945 birtist í Árbók Landsbókasafns Íslands skrá hans yfir íslensk leikrit, frumsamin og þýdd, frá 1645-1946, með stuttum en greinargóðum inngangi. Viðbótarskrá með leiðréttingum, viðaukum og heildarheitaskrá leikritanna fylgdi í sömu árbók árið 1949. Þessi skrá tekur ekki aðeins til prentaðra rita og óprentaðra, heldur allra verka sem Lárus hafði heimildir fyrir að hefðu einhvern tímann verið til, þó nú væru glötuð. En ekki nóg með það, þarna er einnig getið þeirra sýninga verkanna sem vitað var um, svo að skráin er ekki einungis bókfræðilegs eðlis heldur einnig leiklistarsögulegs. Lét Lárus nú skammt stórra högga milli og árið 1947 birtist í 50 ára afmælisriti Leikfélags Reykjavíkur skrá yfir "leikrit og leikendur L.R.", eins og það er kallað, frá stofnun þess og fyrsta sýningarkvöldi 1897 (skráin var endurprentuð í bók Sveins Einarssonar, Leikhúsið við Tjörnina, sem kom út 1972, aukin til útgáfudags bókarinnar). Þarna eru þó mun fjölþættari upplýsingar en heitið bendir til, því að ekki er aðeins greint frá heitum verkefna, höfunda, þýðenda og leikenda, heldur einnig frumsýningardegi og fjölda sýninga. Nákvæmar tölur um aðsókn eru þarna hins vegar ekki. Leikendaskráin er þannig upp byggð að getið er hlutverka allra helstu leikenda á hverju leikári og hafa menn síðan getað saumað saman hlutverkaskrá þeirra eftir henni. Með þessari skrá smíðaði Lárus verkfæri sem þeir, sem hafa fjallað um sögu L.R., hefðu ekki getað verið án. En tilurð þess var ekki sjálfsagt mál; við megum ekki gleyma því að L.R. var leikhús án skrifstofu og skjalasafns og hafði því enga burði til að láta gera það sjálft. En skortinn á skjalasafni bætti Lárus félaginu upp með því að flytja gögn þess inn í Borgarskjalasafnið þar sem hann réð lögum og lofum og verður sú hugsun ekki hugsuð til enda hvar þetta ómetanlega heimildasafn kynni að hafa lent, ef maður eins og Lárus hefði ekki verið viðbúinn og í aðstöðu til að koma því í skjól.

Tvær fyrrnefndar skrár myndu einar sér nægja til að halda nafni Lárusar á lofti sem brautryðjanda í skrásetningu íslenskrar leiklistarsögu og eru hans helstu verk af því tagi sem komu fyrir almennings sjónir. Á þessum árum höfðu birst ýmis mannfræðileg uppflettirit, bæði almenns eðlis, s.s. Hver er maðurinn? og um tilteknar starfsstéttir. Hér rann Lárusi einnig blóðið til skyldunnar og áratugum saman vann hann að því að safna efni í leikaratal sem virðist hafa átt að taka til allra sem vitað var til að nokkurn tímann hefðu stigið á svið á Íslandi. Þar má að vísu segja að metnaður safnarans hafi orðið forsjálninni yfirsterkari og Lárus reist sér hurðarás um öxl; hann hefði betur afmarkað sig við t.d. feril helstu leikenda og þá getað skilað af sér góðu leikaratali sem full þörf var og er enn á. Engu að síður er skráin, eins og hún liggur nú fyrir, óprentuð og ófrágengin í safni Lárusar í Landsbókasafninu, gríðarleg fróðleiksnáma sem bæði höfundur þessa greinarkorns og aðrir, sem vitað hafa af henni, hafa haft mikil not af. Er hún raunar eitt þeirra frumgagna sem nauðsynlegt er að fara betur með, þó ekki væri nema að afrita og eiga í Leikminjasafni Íslands, nú þegar það hefur loks verið stofnað.

Nátengd skrásetningar- og söfnunarþættinum í ævistarfi Lárusar eru tvö söfn sem skylt er að nefna: hið mikla úrklippusafn, sem hann hélt reglubundið frá 1930, og bókasafn hans, sem spannar bækur jafnt sem tímarit, prentuð rit sem fjölrit og handrit. Þá safnaði Lárus öllum leikskrám, sem hann komst yfir, og batt inn mikinn hluta þeirra, einkum þær sem tengdust reykvísku leikstarfi. Hann vissi vitaskuld að fleiri voru verkamenn í víngarðinum en L.R. og Þjóðleikhúsið, þó að þeirra þáttur væri drýgstur. Eitt af því sem enn vantar mjög tilfinnanlega er skrá yfir reykvíska leikstarfsemi utan vébanda þessara tveggja stofnana, hvort sem menn vilja kalla það frjálsa hópa eða sjálfstæð leikhús; t.d. er ekkert yfirlit til um revíusýningar Reykjavíkurannáls og Fjalakattarins sem voru þó öflug leikfyrirtæki á sínum tíma. Lárus bjó hins vegar í hendurnar á þeim sem fyrr eða síðar hlýtur að bæta úr þessu með því að safna leikskrám frá öllum slíkum aðilum, binda þær inn og skrá efni hvers bindis fremst í það. Hef ég ekki orðið þess var að miklar gloppur séu í þeim samantektum þegar ég hef þurft að leita til þeirra.

Ef við lítum aðeins á skrif Lárusar um íslenska leiklistarsögu, þá eru þau einnig talsverð að vöxtum og hygg ég þó að honum sjálfum hafi undir lokin þótt þau hvorki eins umfangsmikil né þungvæg og hann hefði sjálfur kosið. Hann skrifaði eitthvað um flest tímabil leiksögunnar, en sem fræðimaður einbeitti hann sér langmest að nítjándu öldinni. Saga Leikfélags Reykjavíkur var honum í rauninni of nákomin til að hann gæti horft á hana úr ákjósanlegri fjarlægð; honum voru í barnsminni leikafrek frumherjanna á fjölunum í Iðnó og síðar hafði hann sjálfur gengið fast fram í baráttunni fyrir tilveru þess, harðri og tvísýnni. Væri því í meira lagi ósanngjarnt að lá honum þó að hann hneigðist til að fegra hlut þeirra sem þarna áttu í hlut, draga fjöður yfir ýmsa ófullkomleika og bresti, listræna og stjórnunarlega, sem gat verið óheppilegt að halda á lofti eins og staðan var á þeim tíma. Raunar þykir mér allt benda til að Lárus hafi fundið þetta sjálfur; a.m.k. er staðreynd að sem fræðimaður lagði hann mest kapp á að rannsaka nítjándu öldina, einkum þó starf og tíma Sigurðar málara Guðmundssonar sem var honum öllum öðrum hugstæðari. Birtist fyrsta sögulega ritgerð hans, sem um munar, í ritinu Þættir úr sögu Reykjavíkur sem kom út í tilefni 150 ára afmælis Reykjavíkur árið 1936, og fjallar um upphafsárin í kringum aldamótin 1800, þegar skólapiltar efna fyrst til sjónleika í Reykjavík, og fyrstu áratugi nítjándu aldar. En mestur fengur er þó að ritgerðum hans þremur um Sigurð málara sem birtust fyrst í Skírni á árunum 1946-49 og hann gaf síðar út í bókinni Þáttur Sigurðar málara. Bera þessar rannsóknir þess ljós merki hversu innlifaður hann er viðfangsefninu, hversu vel hann skilur þá aðstöðu sem maður eins og Sigurður mátti búa við - kannski af því að hann gat, að breyttu breytanda, séð sjálfan sig í honum og hlutskipti hans.

Leikminjasafn Íslands er stofnað formlega á sama ári og haldið er upp á aldarafmæli Lárusar. Ég efa ekki að honum hefði þótt það harla góð afmælisgjöf, jafnvel ekki getað kosið sér aðra betri, úr því ekki var ráðist í þetta fyrirtæki fyrr. Fyrir þá sem eiga að halda merki hans á lofti verður lífsstarf hans ævarandi brýning. En stofnanir þær, sem fengið hafa til varðveislu söfn Lárusar, þurfa einnig að muna ábyrgð sína. Bóka- og handritasafn hans var ánafnað Landsbókasafninu af erfingjum hans á níutíu ára afmæli hans fyrir tíu árum með því fororði að það yrði vísir að leikmenntadeild innan safnsins. Hefur fátt gerst í því máli á þeim tíma sem síðan er liðinn, en gott að vita til þess að nú stendur til að skrá safnið eins og annan safnkost. Er af hálfu Leikminjasafnsins að sjálfsögðu fullur vilji til að eiga gott og náið samstarf jafnt við Landsbókasafnið sem önnur söfn landsins sem varðveita gögn tengd íslenskri leiklistarsögu, og vart hægt að finna betra tækifæri en þennan heiðursdag Lárusar Sigurbjörnssonar til að árétta það.

Jón Viðar Jónsson, forstöðumaður Leikminjasafns Íslands

Um sýninguna

Lárus Sigurbjörnsson - Safnafaðir Reykvíkinga

Sýningarskrá

Safnafaðir Reykvíkinga - Sýningarskrá (pdf-skjal - opnast í nýjum glugga)

Sögusýning

Safnafaðir Reykvíkinga - Sýningarspjöld